Tag Archives: vímuefni

Vínbúð í Vatnsmýrina, röflið burt!

5. 3. 2017, 4:23

Miðnætti ársins er gengið í garð og bjalla þingforseta hefur hringt inn áfengisguðspjallið. “Því svo elskaði Guð heiminn,” er þrumað úr pontu, “að hann leyfði okkur að versla einmitt það sem okkur langaði í búðinni. Líka bjór.” Og heyr, þá er hrópað úr sal: “Landlæknir segir að þá verði börnin alkóhólistar, og hann elskar heiminn að minnsta kosti jafn mikið.” Þannig hefst aðventan og öll gömlu góðu lögin eru spiluð fram og aftur í þartil frumvarpið er sett í kassa og uppá háaloft fyrir næsta ár.

Þessi taktfasta og kunnuglega hátíð, með öllum gamalkunnu röksemdunum um náttúrulegt kaupfrelsi og samfélagslega ábyrgð, hefur nú gengið yfir okkur einsog flensan. Við erum öll örlítið hás, skjálfandi á beinunum og kannski haldin einhverri ógleði, en það sem drepur ekki köttinn gerir hann sterkari — þótt það sé súrnuð smjörklípa.

Þessi umræða hefði getað farið öðruvísi. Þingmenn hefðu getað gert uppreisn og krafist aukins dagskrárvalds fyrir almenning, svo forgangsraða mætti umræðu í þingsal. Í staðinn erum við dæmd til að horfa á leikrit um frelsið eina ferðina enn, njörvuð við sætin. Þaðan megum við öskra úr okkur barkana um hvað okkur finnst röksemdirnar vitlausar. Frjáls til að tjá okkur, vitandi að orðin okkar hafa ekkert vægi í niðurstöðunni.

Fyrir mitt leiti fer ég fram á að áfengisdrykkja á höfuðborgarsvæðinu verði bönnuð nema í heimahúsum og í nýjum skemmtigarði í Vatnsmýrinni. Þannig gætum við slátrað einni smjörklípunni með hinni. Samskonar skemmtigörðum mætti koma á fót á jaðri annarra þéttbýliskjarna. Nóg komið af fólki sem gubbar á og lemur hvert annað innanum siðmenntað samfélag. Í leiðinni verði neysla friðelskandi lyfja einsog sveppa og maríjúana lögleidd og gefið pláss í núverandi krám. Þær verði gerðar að trippvænlegum hvíldarstofum fyrir hugvíkkandi slökun. Kókaínneysla verði afmörkuð við ákveðna sali í Hörpunni.

Þannig losnar um fjármagnið sem nú fer til fíknó. Það gæti í staðinn borgað laun síðhærðra vímuráðgjafa sem myndu hjálpa fólki að lifa í sátt og samlyndi við sjálft sig, heiminn og hvert annað. Þessir ráðgjafar gætu verið einkennisklæddir — í litríkum peysum og með víðar buxur, helst gangandi um á tánum ef veður leyfir, annars sandölum. Finnist manneskja í rangri sort af vímu skal vímuráðgjafi og brosandi lögregluþjónn hjálpa til að ferja viðkomandi á betri stað, andlega og efnislega.

Þessi prinsipp mætti svo útvíkka til muna. Til dæmis var áður fyrr af praktískum ástæðum álitið að lög giltu ekki á hálendi og í dimmustu skógum. Með þetta til hliðsjónar gætum við gefið tilteknar lendur frjálsar til ákveðinna athafna. Hljómskálagarðinn mætti opna fyrir haftalausri tjáningu, Öskjuhlíðina fyrir ósæmilegri hegðun, Gróttu fyrir bardagaíþróttum.

Ég lofa líka að í hvert skipti sem bjórsöluumræða fer í gang aftur mun ég víkka þessar kröfur og byrja að láta sem þær hafi verið samþykktar. Við vorum ekki sett á þessa jörð til að mæla frelsi okkar með vöruúrvali í Bónus. Við mannfólkið lifum í þrúgandi merkingarleysi sem verður sífellt áþreifanlegra með hverjum þingfundi um bjórsölu. Málsbót tilvistar okkar er sköpun og manngæska, ástin á hvert öðru og löngunin, köllunin, til að geta gert og mega gera nýja hluti, okkar hluti.

Kaldhæðnin í frelsisumræðunni er sú kosmíska reglufesta sem virðist hafa dæmt bjórfrumvarpið til eilífrar endurtekningar, hvað sem okkur finnst um það. Hatrið á þessari umræðu er hatur manneskjunnar sem finnur eigið ófrelsi, hatur manneskjunnar sem finnur sig fjötraða meðan mas og ákvarðanir dynja á henni einsog veðrið. Okkur langaði til að stunda heyskap málefnanna í vor, en í staðinn rignir bjór — aftur.

Öll heimspeki veraldarinnar gubbar yfir áfengisdeiluna. Hið sanna frelsi felst í að hafa skapandi og vitsamlega stjórn á samfélaginu okkar og sjálfum okkur. Árviss umræða með og á móti Bónusbjór afsannar þetta frelsi, frekar en að skapa það.

Það er ýmist ofskynjað eða vanskynjað

23. 4. 2016, 19:44

Facebook-lögreglan í Reykjavík hefur undanfarið “verið að fá til [sín]” fólk undir áhrifum LSD sem hefur “enga sögu af óreglu” og stundar meira að segja “skóla og eða vinnu”. Þessa einstaklinga segir hún haldna “þeim misskilningi að efnið sé svo til hættulaust” — þetta venjulega en vímaða fólk sé heppið ef það nær að “lenda í fangaklefa yfir nótt”, enda sé það “illviðráðanlegt, haldið miklum ranghugmyndum um sig og eða umhverfi sitt, með gríðarlega hátt sársaukaþol og verulega hættulegt umhverfi sínu en þó fyrst og fremst sjálfu sér.”

Ég hef séð margt fólk á LSD og þekki hugarheim þess, enda hef ég reynt það og skyld efni sjálfur. Ég gerði það að vel athuguðu máli, í góðum aðstæðum, og prísa mig sælan að hafa ekki hitt lögregluna á meðan. Til að skilja hvers vegna ég hefði örugglega verið “illviðráðanlegur” ef það hefði gerst krefst skilnings á vímunni sem um ræðir; skilnings sem lögregluna virðist sárskorta. Fólk í ofskynjunarvímu er í mjög viðkvæmu hugarástandi, og ég myndi ekki óska mínum versta óvini að vera handtekinn og læstur inni þegar þannig stæði á honum.

Víma
Mér er fyllilega ljóst að skyldmenni mín, jafnvel fólk sem þekkir mig ekki neitt, er víst til að súpa hveljur við tilhugsunina að almennt óbrjálaður maður (einsog ég held að ég sé) gæti hugsað sér aðra eins vitleysu og að taka LSD. Ég veit. Einu sinni vissi ég ekkert um vímuefni heldur, nema það sem stóð á skefjalausum áróðursveggspjöldum í Menntaskólanum að Laugarvatni. Þau voru sirka á þá leið að ofskynjunarlyf grauti í manni heilann og séu brattur óklífanlegur hjalli niður í djúp geðrofs og vitfirru. Ég tók þessi skilaboð alvarlega í einhvern tíma, en það sannaðist vel nokkrum árum síðar hver megingallinn við svona framsetningu er: ef maður kynnist áhrifum efnanna sjálfur, og sér hve fjarri þau eru ímyndinni sem maður hefur, þá er hætt við að maður missi alla trú á áróðrinum. Líka þeim sannleikskornum sem gætu verið skynsamlegar viðvaranir.

Mér til lukku fann ég raunveruleikamiðað yfirlit yfir áhrif vímuefna áður en ég prófaði þau. Þótt vímustefna ríkisins gangi svo langt að nær allar rannsóknir á ofskynjunarlyfjum eru bannaðar, þá eru einhverjar til. Og þær gefa allt aðra mynd en áróður í skólum.

LSD er ekki vanabindandi — það er þvert á móti ávanalosandi. Ofskynjunarlyf eru líklegri til að draga úr þunglyndi og sjálfsmorðshugleiðingum en að ýta undir þau. Þau geta valdið geðtrufli síðar á lífsleiðinni, en samanborið við önnur vímuefni er skaði þeirra hverfandi.

Lögreglan segir nú við þá sem “hafa hugleitt” að taka LSD að það sé “stórhættulegt efni”. Þetta er satt, á sama hátt og er satt að áfengi getur valdið andstoppi, morðæði og dauða. Það væri villandi, gagnslaust fyrir þá sem vilja neyta áfengis skynsamlega og skilaboðin yrðu hundsuð af flestum sem hafa einhverja reynslu af efninu.

Þegar ekki er farið af samúð og skilningi í kynningu á vímuefnum, heldur af ofbeldisfullri refsigirnd eða óumbeðinni og miskunnarlausri hjálpsemi sem felst í að fangelsa mann meðan á vímunni stendur, þá er ekki annars að vænta en að þú skapir tvo hópa: englana sem aldrei snerta á vímuefnum (nema áfengi og tóbaki, sem eru undanskilin þessum áróðursherferðum) og djöflana sem hundsa ofbeldisfulla ráðgjöfina.

Svo er bara að prófa
Mér sýndist á minni yfirferð að mesta hættan við að taka LSD væri tvíþætt. Í fyrsta lagi væri vafasamt að prófa það hefði maður andlega kvilla. Allt í góðu þar. Í öðru lagi væri bráðmikilvægt að hafa öruggt, traustverðugt, vinveitt umhverfi.

Það er skiljanlegt að fólk prófi stundum ofskynjunarefni án þess að hafa gengið úr skugga um þessa tvo hluti, á sama hátt og er skiljanlegt hvernig unglingar byrja að drekka. Það er þeim mun mikilvægara (og miklu mikilvægara en í tilfelli áfengis) að nálgast ókunnugt fólk sem ofskynjar af vinsemd og skilningi.

Skynjun manns á LSD er mjög skýr og beinskeytt, ómenguð af hugtökum. Hún er að því og mörgu öðru leyti barnsleg. Ólíklegustu hlutir vekja áhuga manns, lögmál heimsins þversnúast og margbrotna í mynda- og hugsanaflóði, veröldin geislar af kæti eða fellur saman í tvívídd eða er öll núna. Smæstu hlutir geta orðið að nafla veraldar, minnsta áreiti að sögulegum viðburði, smæsta misfella í samræðum yfirþyrmandi. Maður verður mjög næmur fyrir stressi og það getur algerlega gert útaf við mann að eiga í krefjandi samskiptum. “Vond tripp” geta farið í gang útaf ógnvænlegum hugmyndum sem maður bítur í sig, eða útaf skuggalegum aðstæðum sem maður er settur í. Það er hægt að vinna sig úr spíralhugsun á vondu LSD-trippi heima í stofu, til dæmis með því að fara út í labbitúr eða hringja í vin, en þessir möguleikar eru ekki í boði í fangaklefa. Þar er maður dæmdur til að kveljast.

Sjálfsuppfyllandi viðvörun
Þegar lögreglan álítur fólk á ofskynjunarlyfjum vera hættulegt, þá leiðir nálgun þeirra sjálfkrafa af sér hættulegar aðstæður — fyrir geðheilbrigði vímaða fólksins. Í vímu viltu síst þurfa að útskýra fyrir tortryggnum og ókunnugum mönnum hvað þú ert að gera. Ef þeir eru í þokkabót einkennisklæddir, með leyfi til að beita valdi, og álíta þig glæpamann, þá er voðinn vís. Þegar hún segir að hún telji fólk í þessu ástandi “verulega hættulegt umhverfi sínu”, þá get ég ekki ímyndað mér hverslags samskipti hún leiðir það í, hvað þá hvílíka martröð þau skapa í huga þess sem er í vímu. Facebook-lögreglan bætir við að eftir slíkar hamfarir sé það að “lenda í fangaklefa yfir nótt”, fyrir tætta sálina sem eftir stendur, “langt í frá það versta sem gæti komið fyrir.” Kannski. En það er fjári nálægt.

Þegar lögreglan vill refsa saklausum

25. 6. 2014, 20:10

Nú er mikið rætt um leit lögreglunnar að vímuefnum á tónlistarhátíð. Lögreglan vill sem mest úr því gera hve mikið fannst af þeim, Snarrótin úr því hve illa fólk er upplýst um réttindi sín, og lögleiðingarsenan úr því hve heimskuleg leitin er til að byrja með.

Júlía Birgisdóttir lýsti aðkomunni á tónlistarhátíðinni.

Ég tók ekki eftir því að neinum væru kynnt sín réttindi. Lögreglumennirnir komu einfaldlega upp að fólki og þremur sekúndum seinna var fólkið búið að rétta út hendurnar og lögreglan farin að leita í vösum fólksins.

Augljósa svarið er: hvað hefði fólk átt að gera? Segja nei við lögguna? Yfirlögregluþjónn borgarinnar varði þessar aðgerðir með vísun í lög sem leyfa lögreglu að leita að “vopnum eða öðrum hættulegum munum” í þágu uppihalds laga og reglna. Ef maður verður ekki við þessu er maður að brjóta lög, enda er hverjum manni “skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur”. Continue reading

Draumar

24. 5. 2014, 17:22

Ég rakst nýverið á yfirlitsgrein fíkniefnalögreglunnar um LSD. Lýsingin á vímunni vakti mig til umhugsunar um miklu brýnna og hættulegra ástand sem fólk kemur sér reglulega í, fíkn sem er mikið rætnari og útbreiddari en LSD-víman.

Draumar.

Sú staðreynd að draumar séu mjög hættulegir er viðurkennd um allan heim. Beinn líkamlegur skaði af þeirra völdum er ekki svo ýkja mikill, en sálræn útreið er skelfileg.

Margar skýrslur sýna að undir áhrifum drauma hefur sofandi fólk gjörsamlega misst alla stjórn, það heldur sig jafnvel geta flogið, hefur hengt sig og hoppað út um glugga, og við það beðið bana eða stórslasast. Morð og sjálfsmorð hafa verið framin undir áhrifum. Continue reading