Tag Archives: stjórnmál

Að náttúran sé þannig að við getum selt hana

5. 3. 2017, 7:26

Það er kaldhæðnislegt að umhverfisráðherra Íslands sé úr flokki sem heitir Björt framtíð. Bjartasta framtíðin í náttúru Íslands þessa dagana virðist vera þeirra sem ætla að bora, brenna, bræða ál eða selja til útlanda heilu og hálfu fjöllin af sandi og möl. Umhverfisóminni landsmanna er undirstrikað af nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem lögð var fyrir umhverfisráðherrann Björtu Ólafsdóttur nýlega. Kjarninn framdi eitthvert glórulausasta viðtal síðari tíma á henni í kjölfarið. Hvergi sést betur sú úrbeinaða pólitík frjálshyggjunnar sem Björt framtíð aðhyllist en í því gapandi ráðaleysi og þeirri hrollvekjandi fyrirtækja- og peningadýrkun sem þar kemur fram.

Einsog sæmir umhverfisráðherra stendur Björtu ekki á sama um náttúruna, og henni finnst ljótt að sjá þá mynd sem er dregin upp í skýrslunni. “Þetta er verra en ég bjóst við,” segir hún. Kolefnisosun á Íslandi gæti tvöfaldast frá 1990 til 2030, samkvæmt spám skýrslunnar — og er þá ekki meðtalin losun erlendis vegna framleiðslu alls dótsins sem við kaupum. “Það er náttúrlega bara kinnhestur,” segir hún. Við höfum greinilega “verið andvaralaus, og tekið því sem gefnu að Ísland væri best í heimi og grænt og vænt.” Við smíðum kannski eitt álver á fætur öðru, kaupum fleiri bíla á mann en flestar þjóðir, fljúgum til útlanda tvisvar á ári og erum einhver neysluþyngsta þjóð heims. En að við værum að brenna kolefni með því! Það hafði víst ekki hvarflað að ráðherra umhverfis og auðlinda.

Björt útskýrir að hnattræn hlýnun snerti Íslendinga “algjörlega beint”. Við viljum nefnilega “að náttúran sé þannig að við getum selt hana.” Það er aldeilis gullslegin tegund af náttúruvernd. Vistkerfi jarðar ber að vernda, tegundum ber að bjarga frá útrýmingu, svo við getum kreist úr þeim meiri peninga. “Það er beinlínis verðmætasköpun fólgin í því að huga að umhverfismálum og hafa þau í fyrsta sæti,” bætir hún við. Með öðrum orðum, jafnvel þegar umhverfismál eru í fyrsta sæti, þá eru þau þar fyrir peningana. Kannski þetta sé meiningin með frasanum grænt er vænt? Einsog skáldið orti,

Hlíðin mín fríða
gefur seðla græna
og blágresið blíða
söluvöru væna,
á þér ástaraugu
ungur réð eg festa,
buddan mín besta!

og auðvitað

Allt fram streymir endalaust,
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust,
ekki meiri túristar í bili.

En Björt er að sjálfsögðu ráðherrann sem á að svara fyrir óráðsíu iðnaðar á Íslandi, halda uppi písknum og bjarga málunum. Blaðamaður Kjarnans spyr hver eigi að ýta við einstaklingum og fyrirtækjum svo bót verði í máli. En Björt vill helst ekki “ýta”.

“Þetta kemur ekki bara top-down. Við getum ekki sagt: geriði svona og hinsegin,” útskýrir hún. En skyndilega virðist renna upp fyrir Björtu að hún er ráðherra umhverfismála, og að það er einmitt hennar hlutverk að segja fyrirtækjum til syndanna. “Jú, við getum kannski gert það,” bætir hún við í snarhasti. “En það mun ekki virka neitt mjög vel.”

Svona orðalag er auðvelt að þýða á alþýðlega tungu. Þarna er umhverfisráðherrann okkar að segja: Mig langar ekki að setja reglur á fyrirtæki, og ég vil helst ekki ræða þann möguleika frekar. Til allrar lukku er blaðamaðurinn viðmótsþýður og leyfir henni að vaða elginn áfram á eigin forsendum.

“Það sem ég sé fyrir mér, við verðum að fá atvinnulífið með, útafþví ég trúi því að iðnaðurinn vilji alveg gera betur.”

Mér er ekki alveg ljóst hvernig Björt Ólafsdóttir rambaði á þessa trú, og hún grundvallar hana ekki frekar, né biður blaðamaður Kjarnans um frekari útskýringar. Staðreyndin er sú að fyrirtæki hafa ekki samvisku og hætta ekki gróðavænlegum spellvirkjum ótilneydd. Jafnvel gallharðir frjálshyggjumenn á borð við Milton Friedman töldu þetta augljóst og álitu sjálfsagt að ríkið sæji um að vernda okkur fyrir mengun fyrirtækja. En þegar kemur að frjálshyggju er Björt heilagari en páfinn, og virðist hrifnari af því að ráðherrar biðji fallega en að þeir geri eitthvað sem gæti mögulega virkað. Merkilegt nokk, þá vill hún frekar gefa fyrirtækjum meiri peninga en að leiðbeina þeim um mengun. Eftir að hafa útskýrt fyrir blaðamanni þá frjálshyggjulexíu að skattaívilnanir til stóriðju “skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja” og séu “bara vondar”, leggur hún til einmitt þannig ívilnanir fyrir þá sem leita að “grænum lausnum.”

Björt nefnir “græna skatta” flóttalega í einni upptalningu, og að ríkið gæti lagt til “milljarð” í skógrækt (og samt grætt á því), en viðleitni hennar gagnvart fyrirtækjunum sem valda skaðanum er almennt að þau þurfi “aðstoð” frekar en eftirlit. Þau þurfi “að leggja sinn metnað í að gera þetta sjálf.” Með öðrum orðum: umhverfisráðherra Íslands vill að þeim sem græða peninga á að menga plánetuna verði treyst fyrir að bjarga henni.

Eftir að hafa rakið mengunarstefnuna sína kallar Björt eftir samstöðu. “Ríkisstjórn þarf að vera alveg einhuga,” segir hún, þótt maður velti fyrir sér um hvað.

“Svo þarf bara að vera samhugur um þetta stóra mál á Alþingi. Og skotgrafir þurfa að víkja. Við þurfum að fara uppúr þeim. Og ég hef enga trú á því að þetta sé þannig mál. Það er alltof stórt, og alltof mikið undir, að einhver álíti svo að það nýtist í einhverju pólitísku markmiði. Ég hef enga trú á því.” Almenningur eigi auðvelt með að “ganga í takt” þegar með þurfi. Okkar er jú ábyrgðin! Vinstri, hægri, vinstri, hægri, og horfðu nú á veginn fyrir framan þig — ekki á álverin með strompana og grjótnámið í Ingólfsfjalli. Hægri snú!

Það er auðvelt að vera öll sammála um að hnattræn hlýnun sé ömurleg, og að við þurfum að gera eitthvað í henni. Það er erfiðara að viðurkenna að kannski þarf einfaldlega að setja reglur á fyrirtæki og sekta þau ríflega fyrir að menga svo þau hætti því. Við höfum setið of lengi með spenntar greipar gagnvart vistkerfaeyðingu. Það þarf eitthvað annað en frjálshyggju til að stemma stigu við henni.

Vínbúð í Vatnsmýrina, röflið burt!

5. 3. 2017, 4:23

Miðnætti ársins er gengið í garð og bjalla þingforseta hefur hringt inn áfengisguðspjallið. “Því svo elskaði Guð heiminn,” er þrumað úr pontu, “að hann leyfði okkur að versla einmitt það sem okkur langaði í búðinni. Líka bjór.” Og heyr, þá er hrópað úr sal: “Landlæknir segir að þá verði börnin alkóhólistar, og hann elskar heiminn að minnsta kosti jafn mikið.” Þannig hefst aðventan og öll gömlu góðu lögin eru spiluð fram og aftur í þartil frumvarpið er sett í kassa og uppá háaloft fyrir næsta ár.

Þessi taktfasta og kunnuglega hátíð, með öllum gamalkunnu röksemdunum um náttúrulegt kaupfrelsi og samfélagslega ábyrgð, hefur nú gengið yfir okkur einsog flensan. Við erum öll örlítið hás, skjálfandi á beinunum og kannski haldin einhverri ógleði, en það sem drepur ekki köttinn gerir hann sterkari — þótt það sé súrnuð smjörklípa.

Þessi umræða hefði getað farið öðruvísi. Þingmenn hefðu getað gert uppreisn og krafist aukins dagskrárvalds fyrir almenning, svo forgangsraða mætti umræðu í þingsal. Í staðinn erum við dæmd til að horfa á leikrit um frelsið eina ferðina enn, njörvuð við sætin. Þaðan megum við öskra úr okkur barkana um hvað okkur finnst röksemdirnar vitlausar. Frjáls til að tjá okkur, vitandi að orðin okkar hafa ekkert vægi í niðurstöðunni.

Fyrir mitt leiti fer ég fram á að áfengisdrykkja á höfuðborgarsvæðinu verði bönnuð nema í heimahúsum og í nýjum skemmtigarði í Vatnsmýrinni. Þannig gætum við slátrað einni smjörklípunni með hinni. Samskonar skemmtigörðum mætti koma á fót á jaðri annarra þéttbýliskjarna. Nóg komið af fólki sem gubbar á og lemur hvert annað innanum siðmenntað samfélag. Í leiðinni verði neysla friðelskandi lyfja einsog sveppa og maríjúana lögleidd og gefið pláss í núverandi krám. Þær verði gerðar að trippvænlegum hvíldarstofum fyrir hugvíkkandi slökun. Kókaínneysla verði afmörkuð við ákveðna sali í Hörpunni.

Þannig losnar um fjármagnið sem nú fer til fíknó. Það gæti í staðinn borgað laun síðhærðra vímuráðgjafa sem myndu hjálpa fólki að lifa í sátt og samlyndi við sjálft sig, heiminn og hvert annað. Þessir ráðgjafar gætu verið einkennisklæddir — í litríkum peysum og með víðar buxur, helst gangandi um á tánum ef veður leyfir, annars sandölum. Finnist manneskja í rangri sort af vímu skal vímuráðgjafi og brosandi lögregluþjónn hjálpa til að ferja viðkomandi á betri stað, andlega og efnislega.

Þessi prinsipp mætti svo útvíkka til muna. Til dæmis var áður fyrr af praktískum ástæðum álitið að lög giltu ekki á hálendi og í dimmustu skógum. Með þetta til hliðsjónar gætum við gefið tilteknar lendur frjálsar til ákveðinna athafna. Hljómskálagarðinn mætti opna fyrir haftalausri tjáningu, Öskjuhlíðina fyrir ósæmilegri hegðun, Gróttu fyrir bardagaíþróttum.

Ég lofa líka að í hvert skipti sem bjórsöluumræða fer í gang aftur mun ég víkka þessar kröfur og byrja að láta sem þær hafi verið samþykktar. Við vorum ekki sett á þessa jörð til að mæla frelsi okkar með vöruúrvali í Bónus. Við mannfólkið lifum í þrúgandi merkingarleysi sem verður sífellt áþreifanlegra með hverjum þingfundi um bjórsölu. Málsbót tilvistar okkar er sköpun og manngæska, ástin á hvert öðru og löngunin, köllunin, til að geta gert og mega gera nýja hluti, okkar hluti.

Kaldhæðnin í frelsisumræðunni er sú kosmíska reglufesta sem virðist hafa dæmt bjórfrumvarpið til eilífrar endurtekningar, hvað sem okkur finnst um það. Hatrið á þessari umræðu er hatur manneskjunnar sem finnur eigið ófrelsi, hatur manneskjunnar sem finnur sig fjötraða meðan mas og ákvarðanir dynja á henni einsog veðrið. Okkur langaði til að stunda heyskap málefnanna í vor, en í staðinn rignir bjór — aftur.

Öll heimspeki veraldarinnar gubbar yfir áfengisdeiluna. Hið sanna frelsi felst í að hafa skapandi og vitsamlega stjórn á samfélaginu okkar og sjálfum okkur. Árviss umræða með og á móti Bónusbjór afsannar þetta frelsi, frekar en að skapa það.

Tilfinningalausa skynsemi í stjórnsýslu!

30. 5. 2014, 14:49

Nýlega var mér bent á að stjórnmálaskoðun mín væri byggð á tilfinningum. Þetta þótti mér bráðfyndin athugasemd. Hvaða stjórnmálaskoðun er það ekki? Og á hverju öðru ætti að byggja slíkar skoðanir?

Algengasta svarið er eitthvað á borð við “rök” eða “skynsemi”. Þó hef ég aldrei heyrt neinn mæla með “tilfinningalausri skynsemi” í stjórnsýslu. Skynsemi er jú bara hæfnin til að ná markmiðum sínum án óþarfa tilkostnaðar, en hún sjálf skilgreinir ekki markmiðin. Einn maður getur náð því sem annar kallar vond markmið af mikilli skynsemi, einsog Bond-illmennin eða Adolf Hitler á sínum betri árum. Continue reading

Stefnuljósin á Hörpu

3. 1. 2014, 16:39

Dagana eftir að ljósahjúpur Hörpunnar var tendraður tók Capacent Gallup þjóðarpúlsinn á viðhorfi til Hörpunnar og hjúpsins. Áhugaverðasta niðurstaðan er vafalaust vensl stjórnmálaskoðana og skoðunar á ljóshjúpnum. Þrjú af hverjum fimm vinstri-grænum lýstu velþóknun sinni á honum, en aðeins einn af hverjum fimm framsóknarmönnum. Sjálfstæðismenn eru litlu hrifnari af ljósunum en framsóknarmenn og samfylkingarmenn litlu minna hrifnir en vinstri-græn.

Kannski hafði sjónarspilið á menningarnótt svo sláandi áhrif að fólk valdi sér nýja flokka eftir því hve gjarna það vildi sjá meiri ríkisstyrkta ljósadýrð. Það er þó ósennilegt. Öllu líklegra er að fylgismönnum Hörpusmíðinnar finnst þeir skuldbundnir til að líka niðurstaðan, og eins að andstæðingarnir geti ekki fengið sig til að játa að Harpan líti vel út.

Þó tengist fegurð ljóshjúpsins ekkert stjórnmálum. Við höfum bara látið stjórnmálaskoðanir okkar blæða yfir í fegurðarskynið og getum greinilega ekki metið algerlega ópólitíska list ef hún hefur pólitíska forsögu.

Í stað þess að harma þessa vanhæfni okkar legg ég til að við nýtum upplýsingarnar til að skilgreina neonkvarðann á stjórnmálastefnu: staða fólks á pólitíska litrófinu ræðst af mati þess á merkingarlausu skrauti á opinberum smíðaverkum. Samkvæmt honum er Framsóknarflokkurinn hægrisinnaðri en Sjálfstæðisflokkurinn, en óháðir hægrisinnaðri en sjálfstæðismenn.

Önnur túlkun er svo að framsóknar- og sjálfstæðismenn hafi ekki skynbragð á list. En við látum það liggja milli hluta.