Tag Archives: Samtök Atvinnulífsins

Leyfum kökunni að borða fólkið

11. 4. 2017, 13:20

Fyrsta atkvæðið sem ég greiddi í lífi mínu fór í vinstri-græn árið 2009. Eitthvað fór úrskeiðis á leið lýðræðisins frá kjörklefa til framkvæmdar. Þúsund góðar hugmyndir komu fram í vori hrunsins, og þúsund góðar hugmyndir drukknuðu í kviksyndi Alþingis. Vinstriflokkarnir guldu afhroð í kjölfarið. Innan skamms voru nokkrir karlar með peninga komnir með samfélagsstofnanirnar aftur, og yfirvöld sögðu mér að aldrei hefði verið betra umhorfs á Íslandi. Ég var að drukkna í háflóði húsaleigunnar, landið var að rústast undan ágangi ferðamanna, og vinir mínir og fjölskylda voru kúguð til að afgreiða þá á þrælakaupi. Ég fór til útlanda og sá að margir öryrkjar fóru út líka, svo þeir gætu lifað á brauðmolunum sem ríkið fleygði í þá.

Það rann svo upp fyrir mér að þetta sama hafði gerst víðar. Frjálslyndar Steingrímur og HOPE-menni allra sorta endurræstu sama gallaða kerfið eftir hrun og krosslögðu fingur svo ríka fólkið myndi gefa okkur bitlinga. Það væri niðurlægjandi ef það hefði virkað, en þegar það virkar ekki er það hreinlega glæpsamlegt. Forríkir fyrirtækjaeigendur eiga ekki að gefa okkur störf einsog það sé greiði. Þeir hafa sitt ríkidæmi á okkar náð og fara illa með það. Við höfum rétt á að taka það af þeim ef þeir rústa samfélagi, efnahag, lífum og náttúru með því.

Skiptimynt sem við getum trúað á

Gefum bönkunum milljarða og alþýðunni trúverðuga skiptimynt! Hope!

Þessi grundvallarsannindi týndust einhversstaðar og einhverntímann, og vinstrimenn innan landsteina og utan virðast ekki vita að þeir eigi að vera að leita að þeim. Í staðinn er álitið hlutverk Alþingis að hjálpa fyrirtækjum að baka samfélagskökuna, svo almenningur geti nartað í hana þegar vel árar. Jafnvel verkalýðsfélögin eru þessarar sömu trúar, að við þurfum bara öll að ræða saman og finna bestu leiðina til að baka góða köku. Þessi kaka verður samt alltaf bökuð af ríkum köllum, sem hafa forkaupsrétt á bestu sneiðunum (ef ekki þorra kökunnar) og mega borða hana hvar og hvenær sem þeim sýnist — jafnvel í pálmaparadísum Karíbahafs. En óháð því hvað verður um hagvöxt landsins eigum við að fórna öllu fyrir hann. Allt fyrir kökuna.

bjarni-kokugerdarmadur-776x450

Góðar hugmyndir einsog sameign á auðlindum urðu ekki að veruleika, þótt flestir hefðu grætt á þeim, því þeir sem máli skiptu — fólkið með peningana — hefðu tapað. Hinn fámenni hópur fjármagnseigenda vinnur vel saman, og fer með Alþingi einsog undirdeild Samtaka atvinnulífsins.

Við þessar aðstæður er auðvelt að skilja hversvegna Sjálfstæðisflokkurinn klofnar ekki — nema þegar auðvaldið klofnar. Samtakamáttur peninganna heldur þeim við efnið. Vinstriflokkar verða margir því það eru margar hugmyndir að umbótum, en það er ekki nóg að hafa nýja stefnuskrá, nýtt nafn, nýtt lógó eða nýjan flokk. Þeir hlutir eru skemmtilegir, og góðir í kaffispjall, en eru ekki það sem máli skiptir. Það þarf sameinaðan almenning — ekki sameinaðan við kosningar, heldur sameinaðan í lífi, starfi og hugsjón. Hagsmunafélögin okkar þurfa að vera okkar, og vinna fyrir okkur, ekki fyrir kökuna. Því við vitum öll hver fær megnið af henni.

Til þess þarf hreyfingu sem heldur á lofti þeim ágætu hugmyndum sem nú eru hunsaðar, hnefa sem kýlir gegnum glerglugga þingsins áætlunum sem ríkidæmið vill ekki sjá. Hreyfing sem miðlar hugmyndum okkar til framkvæmdar, hvort sem þingið vill eða ekki. Hreyfing sem snýst ekki um að smala í kosningar, heldur að valdefla fólk. Þá hreyfingu þarf að rækta.

Kristján ég-geri-fólk-atvinnulaust-til-að-græða-á-því Loftsson

Kristján ég-geri-fólk-atvinnulaust-til-að-græða-meira Loftsson

Við eigum samfélagið, og þurfum ekki að biðja fjármagnseigendur leyfis að breyta því. Það er góð hugmynd að fólk fái skilyrðislaust mat, íbúð, heilbrigðisþjónustu og menntun. Engin hringborðsumræða með ríkum mönnum og kökubökurum í Valhöll mun koma þessu í kring. Þetta eru kröfur almenns fólks með venjuleg eða vond kjör gagnvart fólki sem á meira en nóg af völdum og peningum. Ríkið getur smíðað hús. Verkalýðsfélög geta tekið iðnaðinn úr höndum atvinnurústandi glæpona og arðræningja. Stjórnvöld geta lagt niður gjaldtöku fyrir menntun og heilbrigði, og þau geta skattlagt peningana sem fyrirtæki græða á okkur, starfsfólkinu. En þau gera það ekki án þess að við snúum uppá hendur þeirra.

Á fundi í gær heyrði ég framkvæmdastjóra ASÍ segja að Samtök atvinnulífsins væru ekki bara andstæðingur, heldur líka bandamenn. Það er firra, þægileg en hættuleg firra. Auðvaldið er óvinur, við þurfum að taka af því völdin. Þeirri hótun er nauðsynlegt að halda uppi. Við viljum ekki bara sneiðar, heldur kökuna, keflið og bakaraofninn. Þetta er okkar samfélag. Tökum það.

This entry was posted in blogg and tagged , , , on by . */?>