Tag Archives: menningarnótt

Stefnuljósin á Hörpu

3. 1. 2014, 16:39

Dagana eftir að ljósahjúpur Hörpunnar var tendraður tók Capacent Gallup þjóðarpúlsinn á viðhorfi til Hörpunnar og hjúpsins. Áhugaverðasta niðurstaðan er vafalaust vensl stjórnmálaskoðana og skoðunar á ljóshjúpnum. Þrjú af hverjum fimm vinstri-grænum lýstu velþóknun sinni á honum, en aðeins einn af hverjum fimm framsóknarmönnum. Sjálfstæðismenn eru litlu hrifnari af ljósunum en framsóknarmenn og samfylkingarmenn litlu minna hrifnir en vinstri-græn.

Kannski hafði sjónarspilið á menningarnótt svo sláandi áhrif að fólk valdi sér nýja flokka eftir því hve gjarna það vildi sjá meiri ríkisstyrkta ljósadýrð. Það er þó ósennilegt. Öllu líklegra er að fylgismönnum Hörpusmíðinnar finnst þeir skuldbundnir til að líka niðurstaðan, og eins að andstæðingarnir geti ekki fengið sig til að játa að Harpan líti vel út.

Þó tengist fegurð ljóshjúpsins ekkert stjórnmálum. Við höfum bara látið stjórnmálaskoðanir okkar blæða yfir í fegurðarskynið og getum greinilega ekki metið algerlega ópólitíska list ef hún hefur pólitíska forsögu.

Í stað þess að harma þessa vanhæfni okkar legg ég til að við nýtum upplýsingarnar til að skilgreina neonkvarðann á stjórnmálastefnu: staða fólks á pólitíska litrófinu ræðst af mati þess á merkingarlausu skrauti á opinberum smíðaverkum. Samkvæmt honum er Framsóknarflokkurinn hægrisinnaðri en Sjálfstæðisflokkurinn, en óháðir hægrisinnaðri en sjálfstæðismenn.

Önnur túlkun er svo að framsóknar- og sjálfstæðismenn hafi ekki skynbragð á list. En við látum það liggja milli hluta.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , on by . */?>