Tag Archives: lögreglan

Saga lögreglunnar og andstæðinga hennar

14. 6. 2017, 12:50

Sumarið 2017, tveimur mánuðum eftir að sérsveit ríkislögreglustjóra fékk nýja búninga og bíla, var ákveðið að hún myndi spóka sig á þjóðhátíðardaginn með hlaðin vopn. Dagur kandífloss, blöðrugleði og innihaldslausra hátíðarávarpa fengi núna líka að vera áminning um hvað heimurinn er vondur staður að búa í. Friðsælasta land heims, tilkynntu yfirmenn lögreglunnar, væri miklu hættulegra en nokkurt okkar gerði sér grein fyrir. Huldar ógnir tengdar flóttafólki, innflytjendum og jafnvel túristum steðjuðu að okkur.

Það sem fylgdi ekki sögunni var hinn langi aðdragandi þessarar ráðagerðar og valdataflið sem bjó ríkislögregluna til. Lögreglan á Íslandi spratt upp sem öryggisgæsla stórfyrirtækis og hefur uppfrá því verið nátengd flokki verslunarmanna. Höfundar lögreglunnar og hugmyndafræðingar, varaliðar hennar og verndarar, hafa verið úr þeim flokki. Þeir hafa svo aftur starfað undir hennar verndarvæng gegnum súrt og sætt og reynt að tryggja með henni “að ríkisvaldið gæti haft í fullu tré við sérhvert árása- og ofbeldislið í landinu,” í orðum Ólafs Thors. Í víðum skilningi er hún því pólitískt afl, og hlutverk hennar í gegnum söguna hefur verið þrungið pólitískri merkingu. Þetta er sagan af því hvernig það hlutverk varð til og hversu mörg okkar hafa, í augum yfirvalda, tilheyrt árása- og ofbeldisliðinu sem lögreglan ver samfélagið fyrir.

Stórfyrirtæki í Reykjavík
Á átjándu öld var blússandi góðæri í Reykjavík. Skúli Magnússon og fjárfestar tengdir honum höfðu keypt stórar græjur, “Innréttingarnar”, til að vefa ull og vinna tau. Að sanníslenskum brag voru græjurnar passlega stórar fyrir tíu sinnum stærri þjóð og Innréttingarnar fóru fljótlega á hausinn. Í millitíðinni varð til dálítil siðmenning í Reykjavík, með þeirri drykkju, kynsjúkdómum og fátækt sem henni fylgja. Fólk sem stal sér til matar í harðæri var sent í þrælahald til Danmerkur, eða drepið af sýslumönnunum ef þeir tímdu ekki uppihaldi meðan beðið var eftir skipi.

Til að verjast flónsku, örbirgð og fíflaskap almennra borgara réðu forsvarsmenn Innréttinganna tvo öryggisverði. Þeir skyldu rölta um götur bæjarins á næturnar með gaddakylfur og yfirheyra alla sem þeir sáu, jafnvel sekta þá sem óvarlega fóru með ljóskerin sín. Þessi þungavopnaða öryggisgæsla stærsta fyrirtækis landsins var okkar fyrsta lögregla.

Vaktari með verkfærið sitt. Myndin var teiknuð 1848 af Albertus van Beest og er geymd í Þjóðminjasafninu.

Vaktari með verkfærið sitt. Myndin var teiknuð byltingarárið 1848.

Vöktun borgarinnar þessi ár var flestum til ama nema verslunarmönnum, sem héldu henni stundum úti á eigin kostnað eftir að Innréttingarnar fóru á hausinn. Eftir því sem á leið tókst þó hægt og bítandi að pranga henni uppá hið opinbera, sem tók að innheimta skatta af ótrúlega óviljugum almenningi til að standa undir henni.

Lögreglumenn í Reykjavík voru fyrstu öldina flestir drykkjumenn, slæpingjar og skálkar. Einn þeirra bjó í “hneykslanlegri sambúð” með maddömmu nokkurri Bagger, seldi áfengi í tráss við lög og hélt píuböll þar sem hann spilaði undir á flautu. Var hann að lokum rekinn. Annar átti það til að berja á föngunum sem hann hafði að atvinnu að gæta og endaði á að drepa einn þeirra með barsmíðum. Fangelsisstjórnin bað honum vægðar, enda þótti þetta ekki sérlega voðalegt, og hélt hann því starfinu.

Lækjartorg 1874. Borgin var og hefur alltaf verið alræmd fyrir lauslæti og sukk, en allir á myndinni virðast vera að haga sér, enda hátíðisdagur.

Lækjartorg 1874. Borgin var og hefur alltaf verið alræmd fyrir lauslæti og sukk. Allir á myndinni virðast þó vera að haga sér, enda hátíðisdagur.

Helstu störf lögreglunnar voru í þá tíð að vernda betri borgara og verslanir fyrir þjófum og eldi, passa að fólk væri ekki í Reykjavík án leyfis og að keyra ofdrukkna menn uppí svartholið í “drykkjumannakerrunni”. Þetta tók að breytast um aldamótin 1900 þegar íbúum bæjarins fjölgaði stórum. Sjávarútvegur tók kipp og stétt útgerðarmanna varð til. Hatrömm stéttabarátta var háð með tíðum verkföllum, þar sem lögreglan varði atvinnuveitendur gegn kröfum verkamanna. Kallaði hún oft til varalið, enda fámenn sjálf. Þegar lögreglumennirnir sjálfir kröfðust kjarabóta voru þeir iðulega reknir.

Brottvísun
Árið 1921 varð svo undarlegt uppbrot í þessari þróun. Ritstjóri Alþýðublaðsins hafði heimsótt Sovétríkin og komið heim með ættleiddan rússneskan strák. Þegar kom í ljós að strákurinn var með augnsjúkdóm sem gat smitast taldi yfirvaldið að honum væri best fyrir komið í öðru landi, og reyndi að fjarlægja hann frá Ólafi. Hann varðist með vinstrisinnuðum félögum sínum og hratt lögreglu á brott. Aftur var reynt með 65 manna varaliði sem tókst að brjótast í húsið og draga út strákinn, en í slagsmálum við varnarliðið náðist strákurinn inn í hús aftur.

Nú þótti lögreglustjóra nóg komið. Verslunarmönnum hafði þótt volæðislegt að horfa uppá veiklulega framgöngu lögreglunnar og hjálpuðu þeir að manna varalið sem tók undir sig Iðnó. Það taldi hálft þúsund manns. Lokað var á síma Ólafs. Liðið ruddist inn og handtók húsráðendur og strákinn. Honum var brottvísað og Ólafur settur í gæsluvarðhald.

Fjórir Gúttóslagir
Kreppan mikla tók sig svo upp á Íslandi um 1930. Atvinnulausum fjölgaði, en þeir fengu engar bætur og upphófust nokkrum sinnum slagir milli áhorfenda og lögreglu í fundarhúsi bæjarstjórnar um hvort bærinn ætti að bjóða atvinnulausum bótavinnu. Einn bæjarfulltrúanna sem stóð í vegi fyrir því var Jakob Möller.

Jakob Möller var ekki bara bæjarfulltrúi og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, heldur líka eins manns Fjármálaeftirlit síns tíma. Hann var rekinn úr því embætti fyrir að gera “verra en ekki neitt” árið 1934. Það var á allra vitund að “Jakob var óhæfur í starfið og embættið stofnað sem bitlingur fyrir hann”, enda hafði hann “ekki einu sinni reynt að hafa eftirlit með bönkunum” og “í stærstu stofnunina, sem hann átti að endurskoða, Landsbankann, [hafði] hann ekki komið í 3 ár, samkvæmt frásögn sjálfs bankaráðsins.” Fyrir þetta hafði hann þegið frá ríkinu sautján þúsund krónur á ári, sem var meira en ráðherrakaup.

Nokkrum árum seinna var Jakob orðinn fjármálaráðherra Hermanns Jónassonar.

Fimm árum seinna var Jakob orðinn fjármálaráðherra.

Meðan á fyrsta Gúttóslagnum stóð æpti Jakob yfir múginn að svona nokkuð myndi ekki hafa nein áhrif á afstöðu sína til bótamála. Slagirnir höfðu hins vegar mikil áhrif á lögreglustjórann, sem fór að draga sér varalið úr bænum til að vernda fundina, líkt og hann hafði gert í baráttunni gegn verkföllum. Fór söfnun varaliðsins þannig fram að yfirlögregluþjónn gekk um bæinn með félagatal Sjálfstæðisflokksins og bað Sjálfstæðismenn og Heimdellinga að berjast með sér gegn verkfallsliðum og atvinnuleysingjum. Hjálparsveinarnir fengu þá kylfur, armbönd og búninga, allt eftir því hvað var til í skápum löggunnar.

Slagirnir á bæjarstjórnarfundunum héldu áfram og náðist sumarið 1932 loks að knýja fram atvinnubótavinnu. Atvinnulausum fjölgaði þó stöðugt og í nóvember hugðist bæjarstjórnin lækka kaupið í vinnunni til að standa undir henni. Það þurfti auðvitað að vera hinn peningaplokkarinn Jakob Möller, af öllum mönnum, sem mæltist fyrir lækkun bótanna fyrir fullu húsi atvinnuleysingja og aktívista. Órói varð að slagsmálum og lögreglustjórinn, Hermann Jónasson, kallaði til alla lögregluþjóna bæjarins. Sjálfur stakk hann hins vegar af uppá skrifstofu að gegna öðrum störfum.

Nær allt lögreglulið bæjarins lá óvígt eftir slaginn. Ríkisstjórninni brá í brún. Hún borgaði sem snarast það sem borgina vantaði uppí atvinnubótavinnuna. Síðan var tekið til hendinni. Ólafur Thors sagði að nú ætti “að gera út um það” hvort ríkið ætti “að standa eða falla.” Byssur, hjálmar og táragas voru keypt fyrir lögregluna, öll vopn fjarlægð úr búðum bæjarins, forsprakkar mótmælanna dæmdir til sekta og fangelsis og fjárframlög til lögreglunnar aukin sem nam 13 manna kaupi. Bæjarstjórnarfundirnir voru eftir þetta haldnir á efstu hæð Eimskipafélagshússins, svo betur mætti verja þá. Andvirði nokkurhundruð milljóna nútímakróna var eytt í stórt varalögreglulið til tveggja ára. Loks var ríkislögregla sett á fót.

Hús Eimskipafélagsins.

Hús Eimskipafélagsins.

Sjálfstæðismenn sögðu fólk þurfa að skilja að það þýddi ekkert að mótmæla ríkisvaldinu. Þegar Hermann Jónasson varð forsætis- og dómsmálaráðherra nokkrum árum síðar réð hann nýjan lögreglustjóra sérstaklega til að aga íslenska lögreglumenn og hefja njósnir gegn óvinum ríkisins.

Ríkið ætlaði ekki að láta undan kröfum mótmælenda aftur.

Ísland í NATO
Þann 30. mars árið 1949 átti Alþingi að samþykkja inngöngu Íslands í NATO, hvað sem almenningur tautaði og raulaði. Stór hópur fólks hittist við Miðbæjarskólann og gekk á Austurvöll til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Bjarni Benediktsson, sem sat innandyra, var ekki á þeim buxunum. Hann hafði skipað nasistann Sigurjón Sigurðsson í embætti lögreglustjóra í Reykjavík tveimur árum fyrr, og Sigurjón stóð nú vaktina. Hann hafði hlerað síma aktívista og sósíalista um allan bæ og hafði safnað Sjálfstæðismönnum í varalið gegn kröfugöngunni.

Ekki stíga á grasið.

Þingið hafnaði beiðninni um þjóðaratkvæðagreiðslu og mótmælendur tóku að grýta þinghúsið. Lögreglumenn og varalið streymdu út með kylfur á lofti. Slagsmál upphófust, táragasi var skotið yfir Austurvöll og mótmælendur flæmdir burt frá þinghúsinu. Ísland gekk í NATO fimm dögum síðar.

Dagurinn þegar vitstola hvítliðaskríll réðst á tryllta kommúnista, þegar Ísland gekk í "varnarbandalag lýðræðisþjóða" með því að skjóta táragasi að fólki sem vildi greiða atkvæði um það.

Vitstola hvítliðaskríll ræðst á tryllta kommúnista. Forsíður flokksblaða daginn eftir.

Þrátt fyrir þessa velheppnuðu vörn gegn lýðræðinu óttuðust yfirvöld frekari uppreisnir og stofnuðu sérstaka öryggisdeild lögreglunnar til að njósna um óvini sína í röðum almennings. Safnaði Sigurjón miklum gögnum um þá, en brenndi megnið af þeim í götóttri olíutunnu vorið 1976 þegar hann taldi sig eiga betra embætti í vændum.

Ómerkilega fólkið
Þegar nær dregur okkar tímum virðast samskipti lögreglu og almennings breytast. Þar sem áður voru grimm og blóðug átök eru nú kyrrlátar mótmælagöngur. Þetta er álitið til marks um þroskaða (ef ekki ofþroskaða) lýðræðishefð Íslendinga. Hvergi kemur þetta skýrar fram en í verkföllum. Þau voru áður blóðug barátta, verkfallsverðir þurftu í alvörunni að beita valdi til að halda þeim við. Slík verkföll voru mýmörg í kreppunni miklu, og jafnvel árið 1955 lokaði sex vikna verkfall tólf stéttarfélaga á allar samgöngur til og frá landinu. Grjótgarðar voru hlaðnir á vegina sem liggja úr borginni. Verkfallsverðir voru miklu fleiri en lögreglumenn borgarinnar. Svona gerist ekki lengur. Í nýliðnu verkfalli framhaldsskólakennara var, til dæmis, einn verkfallsbrjótur. Hann gafst upp um leið og hann var beðinn að hætta. “Ég hlýddi því bara,” sagði hann.

Það er engu líkara en við séum öll orðin börn. Við eigum ekki bara að hlýða “leikreglum” lögreglunnar, heldur eigum við líka að fá hjá henni leyfi fyrir mótmælum og hætta þeim þegar hún segir. Þegar við gerum það ekki megum við búast við skömmum. Lögreglan er okkar einkennisklædda fóstra.

Þegar samband lögreglu og mótmælenda verður einsog milli leikskólabarna og kennara gerast skrítnir hlutir ef mótmælendur hætta að hlýða. Vorið 2008, þegar vörubílstjórar reyndu (líkt og 1955) að loka einni götu úr bænum, tók lögregluna bara nokkra klukkutíma að fá nóg. Gjörningurinn og viðbrögðin vöktu svo mikla undrun að bein sjónvarpsútsending var frá staðnum allan daginn.

Þegar umhverfisverndarsinnar reyndu að stöðva með berum höndum smíði Kárahnjúkavirkjunar brást lögreglan jafnvel stífar við. Mótmælendurnir voru eltir af lögreglu, óeirðalögreglu og sérsveit um allar trissur, handteknir gegndarlaust, lögreglan laug að þeim og um þá og öllum útlendingum í hópnum var hótað með brottvísun, þar af einni konunni fyrir að “ógna grundvallargildum samfélagsins”.

Hér má sjá myndband af verði laganna að refsa konu úr Saving Iceland fyrir að skvetta skyri með því að lemja höfði hennar ítrekað í götuna, á meðan félagi hans slær með kylfu alla sem reyna að hjálpa henni.

Þegar þörf krefur hafa yfirvöld ekki vílað fyrir sér að láta lögregluna banna mótmæli algerlega. Í eitt af þremur skiptum þar sem ríkið bauð hingað til lands kínverskum mannréttindabrjótum þurfti að passa að þeir þyrftu ekki að sjá mótmælendur. Vissulega voru gestirnir með fjöldamorð, nauðganir og pyntingar á samviskunni, en þeim myndi sárna gagnrýni. Því voru mótmælendur umkringdir og áreittir og stundum hreinlega handteknir af lögreglunni.

Lögreglan myndar mannlegan múr svo ekki sjáist í örfáa mótmælendur. Bíll og rúta voru líka höfð til taks sem skermir.

Lögreglan myndar Kínamúr svo ekki sjáist í örfáa mótmælendur.

Það er hægt – ekki gefast upp
Allar þær aðgerðir voru barnaleikur miðað við veturinn 2008-9, þar sem mótmælt var af slíkum móð að lögreglan var nærri því knésett. Yfirmenn lögreglunnar höfðu snemma tekið ákvörðun um “mjúka nálgun”, fyrst og fremst því þeir áttu ekki mannafla og tæki til annars. Óþreyja almennra lögreglumanna þennan vetur var þó greinileg. Einn lögreglumaður sagði um vörubílamótmælin að lögreglan hefði örugglega bara verið grýtt uppá “sportið” og fólk “hafi ekki fattað hvað var í gangi” þegar hún vildi rýma svæðið. Stuttu eftir búsáhaldabyltinguna sagði annar: “Ég sá þetta fyrir mér eins og uppeldi á óþekkum krakka. Honum var alltaf hleypt einu skrefi lengra eins og litlir prakkarar gera.”

Um “mjúku nálgunina” var þó nokkuð almenn sátt meðal ráðherra, ríkislögreglustjóra og lögregluforingjanna – en ekki alveg alls staðar. Stjórnandi sérsveitar vildi að mun harðar yrði gengið fram gegn mótmælendum. Sá stjórnandi var Jón F. Bjartmarz. Eftir búsó-mótmælin hóf hann máls á því á opinberum vettvangi að vopn yrðu sett í lögreglubíla. Haustið 2014 varði hann svo þá ákvörðun lögreglunnar að flytja inn í leyni, án opinberrar umræðu, hundruð vélbyssa frá Noregi. Það virtist ekki draga úr honum að sérsveit hans sætti þá sérlegri athugun fyrir að hafa nýverið drepið almennan borgara í fyrsta skipti.

h_02567301

Eftir ótrúlega klaufskt vafstur í fjölmiðlum, þar sem aldrei komst á hreint hver hafði gefið leyfi fyrir byssukaupunum og hvort (eða hvað) átti að borga fyrir þær, var ákveðið að skila þeim “við fyrsta hentugleika”. Hvort það hafi nokkurntímann gerst er ósvöruð spurning. Lokaorð Jóns F. Bjartmarz í þessari flausturslegu fjölmiðlarimmu voru: “Þörf lögreglunnar á vopnum er óbreytt og hefur í reynd aukist,” reynt yrði að afla þeirra með öðrum og, að því er virtist, löglegri leiðum.

Þau kunna sig
Íslendingar hafa nú vanist notkun piparúða og harkalegra aðgerða gegn mótmælendum. Þessar aðgerðir hafa verið aðlagaðar venjum og sjálfsmynd landsins. Fyrir líflegustu aktívista vetursins 2008-9 var líka framkvæmd sérleg ögunarlexía. Í áður leynilegri samantekt Geirs Jóns um lögregluaðgerðir vetrarins er því lýst hvernig fylgst var með anarkistum “maður á mann” og hvernig ákveðið var að “kippa þeim úr hópnum” í mótmælum. Þegar mótmæla átti NATO eftir veturinn og almenn þátttaka í útistöðum hafði minnkað komu, í orðum konu sem var á staðnum, “löggan og sérsveitin og [tóku] reiðina sem dvaldi í þeim eftir búsó út á þeim sem mættu.” Þetta mynstur átti eftir að endast langa hríð. Árið 2011 réðust lögreglumenn á frívakt á tvo nímenninga á Laugavegi. Þegar hótað var að hringja í lögregluna svöruðu árásarmennirnirmeð hinum ódauðlega frasa: Við erum lögreglan.

Annar hópur sem í mótmælaleysi síðustu ára hefur fengið að kenna á lögum og reglu er fólk sem hlustar á tónlist utandyra. Eftir hina kaldhæðnislega titluðu Extreme Chillfest 2015 mátti lesa eftirfarandi atvikalýsingar:

Erlendir ferðamenn voru beðnir um að yfirgefa strætóinn á meðan lögreglan hélt Íslendingunum eftir. Síðan fóru þeir að leita á öllum Íslendingunum. … [Stúlka segir að frænka hennar] hafi verið látin strippa fyrir framan lögregluna … „Það er verið að snúa fólk niður og setja það í handjárn á tjaldsvæðinu!“ … Síðan komu stelpur til okkar upp í miðasölu frá tjaldstæðinu en þær grétu og skulfu af hræðslu vegna þess hvernig lögreglan kom fram. … Farið var inní tjaldið mitt án heimildar og án þess að nokkur hafi verið þar … Við tókum á móti fjölda fólks í áfalli í anddyri hátíðarsvæðisins sem treysti sér ekki aftur á tjaldsvæðið sökum ágangs og valdníðslu lögreglumanna … ég er búin að vera hrædd og stressuð í 34 klukkutíma eða frá því að terrorisminn byrjaði…

Eftirköst hátíðarinnar; fundur með þolendum og átakanlegar frásagnir, minntu frekar á afleiðingar gíslatöku en lögregluaðgerðar. Venjulega tengir maður vegatálma, gerræðislegt áreiti, flokkun fólks eftir þjóðerni og stöðugt lögreglueftirlit við stríð eða alræði. Sumarið 2015 voru 200 manna slökunarhátíðir útí sveit tilefni líka. Þetta var ekki hlutlaus armur laganna, heldur göturéttlæti, skáldað á staðnum af lögreglunni.

Mótmæli gegn ofbeldi lögreglunnar á Ísafirði í fyrra. Margir þorðu ekki að mæta af ótta við að það bitnaði á málsmeðferð þeirra hjá embættinu.

Mótmæli gegn ofbeldi lögreglunnar á Ísafirði í fyrra. Margir þorðu ekki að mæta af ótta við að það bitnaði á málsmeðferð þeirra hjá embættinu.

Af einhverjum ástæðum eru afbrot ekki nefnd sínum réttu nöfnum þegar yfirvöld stunda þau. Fingur lögreglumanna eru af sömu sort og fingur annarra manneskja, en þegar þeim er troðið í leggöng konu sem segir “nei” er það ekki nauðgun heldur líkamsleit. Ekki er refsað fyrir þannig nauðganir, heldur borgar ríkið þolandanum úr skattsjóðum fyrir þau, einsog peningar bæti nokkurn skapaðan hlut – og það er þá sjaldan sem bætur fást yfirhöfuð, en fjöldinn allur af þolendum lögreglunnar þorir ekki að fá lögreglumenn kærða, eða getur það ekki.

Kannski ástæðan sé einmitt sú að sá sem býr til lögin getur ekki verið glæpamaður. Lögreglan sé yfir lögin hafin. Þannig vangaveltur eru ekki séríslenskt fyrirbæri. Þeim sem langar að lækna þetta vandamál með löggjöf væri hollt að líta til annarra landa. Víðast hvar fær lögreglan tiltölulega frjálsar hendur, svo lengi sem hún verndar ríkið í leiðinni. Og hvernig gæti það verið öðruvísi? Hver ætti að passa lögregluna, ef ekki hún sjálf? Háttsettur lögreglumaður hefur sagt mér berum orðum að enginn geti passað uppá lögreglumenn nema aðrir lögreglumenn. Þetta er svo auðséð og almennt vandamál að hugtakið sem lýsir því, “hver gætir gæslumannanna?“, má finna í 2400 ára gamalli heimspeki.

Almenningur á reynslulausn
Greiðasta leiðin til að stoppa valdníðslu lögreglumanna er að fulltrúar almennings hafi eftirlit með henni. Því miður virðast hagsmunir lögreglu og fulltrúa fara saman, því þessháttar umbætur hafa iðulega mætt andstöðu beggja aðila. Nú, þegar sérsveitin á að vera vopnuð á fjölskylduhátíðum, tilkynnir ráðherra lögreglumála að “ég hlýt að treysta þeirra mati á þessu” og forsætisráðherra að “hvernig þeir meta stöðuna hverju sinni eru hlutir sem er langbest að ríkislögreglustjóri eða lögreglan í landinu svari fyrir.” Þessir tveir ráðherrar eru, ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum, í Sjálfstæðisflokknum.

Þegar grenslast var fyrir um á hverju mat ríkislögreglustjóra um fjölgun sérsveitarútkalla byggðist gaf hann einfalt, ef ekki einfeldingslegt, svar: “Við erum með samfélag sem er samsett af miklum fjölda erlendra borgara, bæði þeirra sem starfa hér og dvelja hér, ferðamenn, hælisleitendur og svo framvegis.”

Undanfarin þrjú ár hefur sérsveitin drepið einn mann, enginn drepið lögreglumann, og einn útlendingur drepið sjálfan sig vegna þeirrar móttöku sem yfirvöld gáfu honum – yfirvöldin sem nú setja á sig byssur og kenna mönnum einsog honum um hvað er hættulegt að vera Íslendingur í dag.

Forsætisráðherra labbar á "öruggan stað" í Keflavík að tala um hryðjuverk og sérsveitina.

Forsætisráðherra labbar á “öruggan stað” í Keflavík svo hann geti talað um hryðjuverk og sérsveitina.

Lögreglan hefur frá upphafi verið verndarhönd samfélagsgerðarinnar okkar – samfélagsgerðar sem hentar sumum betur en öðrum. Hún er búin til og henni er viðhaldið af flokknum sem lengst hefur ráðið landinu, í þágu fólksins sem fjármagnar og mannar hann. Flokkurinn er breiðfylking sem rúmar bæði íhaldsmenn, verslunarfólk og þjóðernissinna. En langflestir af afgangi þjóðarinnar hafa einhverntímann verið í “árása- og ofbeldisliðinu” sem Ólafur Thors sagði lögregluna vernda ríkið gegn. Þá voru það svo til allir verkamenn. Hrunveturinn voru það skuldarar og umbótasinnar. Þar fyrir utan eru það útlendingar, fíklar, flóttamenn, útihátíðagestir, aktívistar, fátæklingar og mótmælendur.

Öll erum við fangar á reynslulausn – samfélagslegar misfellur sem greiða þarf úr svo land sjoppueigenda og fiskimanna geti siglt lygnan sjó. Ef við látum það samfélag í friði, þá megum við vera í friði líka. Annars er löggunni að mæta.

 

Um heimildir og lesefni

  • Afmælisbæklingur lögreglunnar um eigin sögu er stutt og einföld yfirferð um þróun löggæslu frá alræði sýslumanna til ofríkis stóriðjunnar og þar frameftir götunum.
  • Aðgengilegasta heimild um upphafsár lögreglu í Reykjavík, stofnun ríkislögreglunnar og viðhorf stjórnmálamanna til hennar er ritgerðin Tengsl lögreglu og ríkisvalds á Íslandi 1921-1935 og stofnun íslenskrar ríkislögreglu. Aðrar heimildir um erjur verkamanna og lögreglu í kreppunni eru bækurnar Kommúnistar á Íslandi eftir Hannes H. Gissurarson og bæklingur Hermanns Jónassonar með tillögum að eflingu lögreglunnar í kjölfar Gúttóslagsins. Alþingistíðindi þessara ára eru líka fróðleg og viðamikil lesning.
  • Skemmtileg lítil lofgjörð um upphaf lögreglunnar í Reykjavík, sem gefur forvitnilegar svipmyndir af fyrstu mönnunum sem unnu hér við löggæslu, er Lögreglan í Reykjavík eftir Guðbrand Jónsson, útgefin 1938.
  • Ítarleg heimild um hreinsun Íslands af gyðingum fyrir stríð undir stjórn Hermanns Jónassonar og agameistara lögreglunnar, Agnars Kofoed-Hansen, er MA-ritgerðin Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940 eftir Snorra G. Bergsson. Hér er stutt saga þess tíma í bloggfærslu.
  • Frekara lesefni um hina ótrúlegu meðferð sem Falun Gong liðar fengu við komuna til Íslands 2002 er að finna í fræðiritinu Arctic host, icy visit eftir Herman Salton. Samantekt hér, þingsályktunartillaga með ítarlegum upplýsingum hér.
  • Viðhorf lögreglumanna til mótmælenda í búsó má meðal annars finna í viðtalsritgerð aðstandanda lögreglumanns, Að baki skjaldborgarinnarSaving Iceland hélt uppi viðamikilli greiningu og fréttamennsku á heimasíðunni sinni, meðal annars um njósnir, eftirför og áreiti lögreglunnar.
This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Það er ýmist ofskynjað eða vanskynjað

23. 4. 2016, 19:44

Facebook-lögreglan í Reykjavík hefur undanfarið “verið að fá til [sín]” fólk undir áhrifum LSD sem hefur “enga sögu af óreglu” og stundar meira að segja “skóla og eða vinnu”. Þessa einstaklinga segir hún haldna “þeim misskilningi að efnið sé svo til hættulaust” — þetta venjulega en vímaða fólk sé heppið ef það nær að “lenda í fangaklefa yfir nótt”, enda sé það “illviðráðanlegt, haldið miklum ranghugmyndum um sig og eða umhverfi sitt, með gríðarlega hátt sársaukaþol og verulega hættulegt umhverfi sínu en þó fyrst og fremst sjálfu sér.”

Ég hef séð margt fólk á LSD og þekki hugarheim þess, enda hef ég reynt það og skyld efni sjálfur. Ég gerði það að vel athuguðu máli, í góðum aðstæðum, og prísa mig sælan að hafa ekki hitt lögregluna á meðan. Til að skilja hvers vegna ég hefði örugglega verið “illviðráðanlegur” ef það hefði gerst krefst skilnings á vímunni sem um ræðir; skilnings sem lögregluna virðist sárskorta. Fólk í ofskynjunarvímu er í mjög viðkvæmu hugarástandi, og ég myndi ekki óska mínum versta óvini að vera handtekinn og læstur inni þegar þannig stæði á honum.

Víma
Mér er fyllilega ljóst að skyldmenni mín, jafnvel fólk sem þekkir mig ekki neitt, er víst til að súpa hveljur við tilhugsunina að almennt óbrjálaður maður (einsog ég held að ég sé) gæti hugsað sér aðra eins vitleysu og að taka LSD. Ég veit. Einu sinni vissi ég ekkert um vímuefni heldur, nema það sem stóð á skefjalausum áróðursveggspjöldum í Menntaskólanum að Laugarvatni. Þau voru sirka á þá leið að ofskynjunarlyf grauti í manni heilann og séu brattur óklífanlegur hjalli niður í djúp geðrofs og vitfirru. Ég tók þessi skilaboð alvarlega í einhvern tíma, en það sannaðist vel nokkrum árum síðar hver megingallinn við svona framsetningu er: ef maður kynnist áhrifum efnanna sjálfur, og sér hve fjarri þau eru ímyndinni sem maður hefur, þá er hætt við að maður missi alla trú á áróðrinum. Líka þeim sannleikskornum sem gætu verið skynsamlegar viðvaranir.

Mér til lukku fann ég raunveruleikamiðað yfirlit yfir áhrif vímuefna áður en ég prófaði þau. Þótt vímustefna ríkisins gangi svo langt að nær allar rannsóknir á ofskynjunarlyfjum eru bannaðar, þá eru einhverjar til. Og þær gefa allt aðra mynd en áróður í skólum.

LSD er ekki vanabindandi — það er þvert á móti ávanalosandi. Ofskynjunarlyf eru líklegri til að draga úr þunglyndi og sjálfsmorðshugleiðingum en að ýta undir þau. Þau geta valdið geðtrufli síðar á lífsleiðinni, en samanborið við önnur vímuefni er skaði þeirra hverfandi.

Lögreglan segir nú við þá sem “hafa hugleitt” að taka LSD að það sé “stórhættulegt efni”. Þetta er satt, á sama hátt og er satt að áfengi getur valdið andstoppi, morðæði og dauða. Það væri villandi, gagnslaust fyrir þá sem vilja neyta áfengis skynsamlega og skilaboðin yrðu hundsuð af flestum sem hafa einhverja reynslu af efninu.

Þegar ekki er farið af samúð og skilningi í kynningu á vímuefnum, heldur af ofbeldisfullri refsigirnd eða óumbeðinni og miskunnarlausri hjálpsemi sem felst í að fangelsa mann meðan á vímunni stendur, þá er ekki annars að vænta en að þú skapir tvo hópa: englana sem aldrei snerta á vímuefnum (nema áfengi og tóbaki, sem eru undanskilin þessum áróðursherferðum) og djöflana sem hundsa ofbeldisfulla ráðgjöfina.

Svo er bara að prófa
Mér sýndist á minni yfirferð að mesta hættan við að taka LSD væri tvíþætt. Í fyrsta lagi væri vafasamt að prófa það hefði maður andlega kvilla. Allt í góðu þar. Í öðru lagi væri bráðmikilvægt að hafa öruggt, traustverðugt, vinveitt umhverfi.

Það er skiljanlegt að fólk prófi stundum ofskynjunarefni án þess að hafa gengið úr skugga um þessa tvo hluti, á sama hátt og er skiljanlegt hvernig unglingar byrja að drekka. Það er þeim mun mikilvægara (og miklu mikilvægara en í tilfelli áfengis) að nálgast ókunnugt fólk sem ofskynjar af vinsemd og skilningi.

Skynjun manns á LSD er mjög skýr og beinskeytt, ómenguð af hugtökum. Hún er að því og mörgu öðru leyti barnsleg. Ólíklegustu hlutir vekja áhuga manns, lögmál heimsins þversnúast og margbrotna í mynda- og hugsanaflóði, veröldin geislar af kæti eða fellur saman í tvívídd eða er öll núna. Smæstu hlutir geta orðið að nafla veraldar, minnsta áreiti að sögulegum viðburði, smæsta misfella í samræðum yfirþyrmandi. Maður verður mjög næmur fyrir stressi og það getur algerlega gert útaf við mann að eiga í krefjandi samskiptum. “Vond tripp” geta farið í gang útaf ógnvænlegum hugmyndum sem maður bítur í sig, eða útaf skuggalegum aðstæðum sem maður er settur í. Það er hægt að vinna sig úr spíralhugsun á vondu LSD-trippi heima í stofu, til dæmis með því að fara út í labbitúr eða hringja í vin, en þessir möguleikar eru ekki í boði í fangaklefa. Þar er maður dæmdur til að kveljast.

Sjálfsuppfyllandi viðvörun
Þegar lögreglan álítur fólk á ofskynjunarlyfjum vera hættulegt, þá leiðir nálgun þeirra sjálfkrafa af sér hættulegar aðstæður — fyrir geðheilbrigði vímaða fólksins. Í vímu viltu síst þurfa að útskýra fyrir tortryggnum og ókunnugum mönnum hvað þú ert að gera. Ef þeir eru í þokkabót einkennisklæddir, með leyfi til að beita valdi, og álíta þig glæpamann, þá er voðinn vís. Þegar hún segir að hún telji fólk í þessu ástandi “verulega hættulegt umhverfi sínu”, þá get ég ekki ímyndað mér hverslags samskipti hún leiðir það í, hvað þá hvílíka martröð þau skapa í huga þess sem er í vímu. Facebook-lögreglan bætir við að eftir slíkar hamfarir sé það að “lenda í fangaklefa yfir nótt”, fyrir tætta sálina sem eftir stendur, “langt í frá það versta sem gæti komið fyrir.” Kannski. En það er fjári nálægt.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , on by . */?>

Hnattvæðing er lygi

23. 9. 2015, 18:16

Síðustu áratugi hefur okkur verið sagt að þjóðir heimsins séu að gangast undir hnattvæðingu, sem tengi okkur öll saman og geri okkur frjálsari og ríkari. Hundruð þúsunda aðgerðasinna um allan heim hafa gagnrýnt þennan málflutning og sagt hann byggðan á lygi. Þeir hafa verið afskrifaðir í fjölmiðlum sem „andstæðingar hnattvæðingar“, frumstæðir bjánar sem ekkert vita um hagfræði og heiminn. Þessi útúrsnúningur er djarfur, því í raun eru mótmælendurnir mun alþjóðasinnaðri en stofnanirnar sem þeir gagnrýna.

Þetta er sagan af gagnrýnendum „hnattvæðingar“, og hugmyndafræðinni sem þeir aðhyllast. Hreyfing þeirra náði fyrst heimsathygli í Seattle árið 1999, og árangur hennar var umtalsverður. Þótt hreyfingin hafi grotnað niður og hlotið náðarhöggið í Kaupmannahöfn árið 2009 á boðskapur hennar betur við í dag en nokkru sinni. Hann er nefnilega boðskapur frjáls heims, þar sem almenningur ræður sér sjálfur og þar sem enginn bannar fólki að ferðast þangað sem það vill. Continue reading

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Hælisleitendur fá 10.800 krónur á mánuði

7. 9. 2015, 14:40

Uppfærsla: Nýlega virðist dreifingu bónuskorta hafa verið hætt hjá sumum, sem fá nú Bónus-peninginn og reiðuféð bæði saman á opið debetkort, samtals 10.700 á viku. Það gera því samtals 42.800 krónur í reiðufé á mánuði.


Reglulega skjóta upp kollinum gamlar fréttir þar sem er fullyrt að hælisleitendur fái mörghundruðþúsund krónur í uppihald á mánuði. Ekkert þeirra sem skrifar þessar lygar getur hafa verið í reglulegum samskiptum við flóttamennina sem um ræðir, enda er fullkomlega augljóst þegar komið er í tómleg herbergi þeirra að þeir hafa nær ekkert fé.

Hið sanna er að flóttamenn fá 2.700 krónur á viku, alls 10.800 á mánuði. Því til viðbótar fá þeir vikulega bónuskort uppá átta þúsund krónur. Það er allt og sumt.

Ríkið borgar auðvitað miklu meira fyrir málsmeðferð þeirra en þetta. Það bannar þeim að vinna, þvingar þá til að þiggja félagsíbúðir, neyðir þá til að reka langt mál gegn Útlendingastofnun, innanríkisráðuneytinu og dómstólum til að sanna rétt sinn á að vera hér. Það borgar líka fyrir lögregluaðgerðir, sem eiga til dæmis að tryggja að flóttamennirnir séu ekki að fela peninga frá ríkinu. Í september 2008 braust lögreglan í mörg heimili flóttamanna og tók þaðan skilríki, peninga og ýmis skjöl sem átti að „gera Útlendingastofnun kleift að hraða úrlausn“ mála þeirra.

Augljóslega kostar þetta allt peninga. En það er ekki flóttamanninum að kenna að vera dreginn í gegnum þetta ferli. Ef honum væri leyft að vera og vinna myndi hann gera Íslendinga ríkari, ekki fátækari. Við myndum spara málskostnaðinn, félagsíbúðirnar og allan rekstrarkostnað Útlendingastofnunar. Flóttamenn myndu fá öryggi og vernd og við myndum spara hundruð milljóna króna á ári.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , on by . */?>

Hjörð af svörtum sauðum

13. 8. 2015, 15:34

Venjulega tengir maður vegatálma, gerræðislegt áreiti, flokkun fólks eftir þjóðerni og stöðugt lögreglueftirlit við stríð eða alræði. Þessa dagana virðast 200 manna slökunarhátíðir útí sveit vera tilefni líka. Ágangur lögreglunnar á Extreme Chillfest 2015 var þvílíkur að fólk er enn skjálfandi á beinunum. Eftirköst hátíðarinnar; fundur með þolendum og átakanlegar frásagnir, minna frekar á afleiðingar gíslatöku en lögregluaðgerðar.

Því hefur verið haldið fram að engin ofbeldisbrot hafi komið upp á hátíðinni. Hér eru nokkrar lýsingar viðstaddra:

Erlendir ferðamenn voru beðnir um að yfirgefa strætóinn á meðan lögreglan hélt Íslendingunum eftir. Síðan fóru þeir að leita á öllum Íslendingunum. … [Stúlka segir að frænka hennar] hafi verið látin strippa fyrir framan lögregluna … „Það er verið að snúa fólk niður og setja það í handjárn á tjaldsvæðinu!“ … Síðan komu stelpur til okkar upp í miðasölu frá tjaldstæðinu en þær grétu og skulfu af hræðslu vegna þess hvernig lögreglan kom fram. … Farið var inní tjaldið mitt án heimildar og án þess að nokkur hafi verið þar … Við tókum á móti fjölda fólks í áfalli í anddyri hátíðarsvæðisins sem treysti sér ekki aftur á tjaldsvæðið sökum ágangs og valdníðslu lögreglumanna … ég er búin að vera hrædd og stressuð í 34 klukkutíma eða frá því að terrorisminn byrjaði…

Þetta var ekki ofbeldislaus hátíð. Þetta eru óumdeilanlega lýsingar á kynferðisbrotum, líkamsárásum og andlegu ofbeldi – af hálfu lögreglumanna. Continue reading

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , on by . */?>

Bjartmarz, byssurnar og byltingin

21. 10. 2014, 15:55

Stuttu fyrir fall bankanna 2008, í september, fékk lögreglan símtal úr stjórnarráðinu. Var henni þar tilkynnt fyrirfram um hrunið og hún beðin að hafa varann á. “Lögreglan tók þessar upplýsingar mjög alvarlega, öðrum verkefnum var alfarið ýtt til hliðar og hófst þegar undirbúningur að viðbrögðum.” Lesa má um þetta sérkennilega forskot valdstjórnarinnar í MPA ritgerð Huldu Maríu Mikaelsdóttur Tölgyes frá 2010. Strax var tekin ákvörðun um “mjúka nálgun” gagnvart fyrirsjáanlegum mótmælum, fólk ætti um sárt að binda og ætti lögreglan að sýna því skilning. Þetta var ekki bara heilbrigð skynsemi, heldur var lögreglan einfaldlega ekki burðug til harkalegra aðgerða.

Um þessa nálgun var nokkuð almenn sátt, bæði meðal ráðherra, Ríkislögreglustjóra og lögregluforingjanna – en ekki alls staðar. “Gagnrýni kom fram innan lögreglunnar, einkum frá stjórnanda sérsveitar, að ganga hefði átt mun harðar fram gagnvart ólögmætum aðgerðum mótmælenda.” Sá stjórnandi var Jón F. Bjartmarz.

Í fjölmiðlum er nú fjallað um hríðskotabyssueign lögreglunnar. Þrátt fyrir fingrabendingar og vafstur um smáatriði er greinilegt að vopnvæðing lögreglunnar er staðreynd. Málsvari þessarar stefnu er Bjartmarz sjálfur, en hann hefur að minnsta kosti síðan 2012 mælt með að setja vopn í lögreglubíla.

Hulda María bendir á að að mati Stefáns Eiríkssonar “hefði verið stórhættulegt” að “beita harðari aðferðum”. Þetta má vel vera rétt. Við fáum þó aldrei að vita hvernig búsáhaldabyltingin hefði farið ef lögreglan hefði varist henni með hríðskotabyssur á lofti. En þökk sé hinni nýju byltingu, vopnabyltingu Hraunbæjar-Bjartmarz, fáum við kannski slíkt sjónarspil næst þegar kreppir að, næst þegar fólk dirfist að taka til eigin ráða.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , on by . */?>

Feðraveldið hreinsar Evrópu

12. 10. 2014, 20:12

Á morgun hefst stór tiltektaraðgerð í Evrópu. Í tvær vikur munu mörgþúsund lögreglumenn um alla álfuna ráfa um og leita að óevrópsku fólki, spyrja það um “þjóðerni, kyn, aldur” og “hvar og hvernig þau komust í Evrópu” og skrá “aðrar gagnlegar upplýsingar” um hvernig þau sluppu inn. “Ekkert mat er til um kostnað aðgerðarinnar, þar sem hvert land fyrir sig … ber kostnað af eigin þátttöku”, segir skipuleggjandinn – forseti ráðs Evrópusambandsins.

Aðgerðin ber fornrómverska heitið Mos Maiorum, það er Venjur Forveranna eða hreinlega Feðraveldið. Þessi drungalega nafngift er ekki útskýrð sérstaklega, enda er hvergi talað um aðgerðina opinberlega. Hún þykir kannski ekki merkileg, enda er þetta ekki fyrsta samevrópska aðgerðin gegn “ólöglegu fólki”. Raunar eru þær hálfsárslegur viðburður og hafa áður hlotið nöfn á borð við Hermes, Afródíta og Perkunas, sem allt eru vísanir í forna evrópska guði. Fólkið sem er handtekið í þessum guðlegu aðgerðum kemur flest frá stríðshrjáðum, spilltum og fátækum löndum – í Afródítu voru til dæmis flestir fanganna frá Afganistan og Sýrlandi. Continue reading

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Fæðing og uppeldi íslensku lögreglunnar

3. 7. 2014, 16:49

Eftir hrunið 2008 hóf lögreglan á Íslandi skrítna baráttu. Hún hafði þá mánuðum saman varið eitt óvinsælasta þinghald sögunnar gegn mótmælendum og álitið það lýðræðislega skyldu sína. Nú vildi hún aftur verða vinur almennings. Hann þyrfti bara að skilja að lögreglan væri hér til að hjálpa, að hún væri bara að vinna óvinsælt en nauðsynlegt starf. Til þess hófst netherferð þar sem lögregluþjónar eru birtir sem vinir almúgans sem leika við leikskólabörn, klappa gæludýrum og sprella í vinnunni. En sé litið á störf lögreglunnar birtist allt önnur mynd, mynd af sterkasta baráttuaflinu gegn lýðræði á Íslandi.

Þetta er sagan af fæðingu og þroska íslensku lögreglunnar og mannanna sem ólu hana upp. Allir sögðu þeir sig vinna í þágu almennings og lýðræðis, en oft voru þeir sjálfir besta afsönnun þess. Sagan hefst á fyrsta íslenska góðærinu, á þrælahaldi og valdníðslu, og henni lýkur með niðurlægðri þjóð sem hefur verið kennt að haga sér. Continue reading

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Þegar lögreglan vill refsa saklausum

25. 6. 2014, 20:10

Nú er mikið rætt um leit lögreglunnar að vímuefnum á tónlistarhátíð. Lögreglan vill sem mest úr því gera hve mikið fannst af þeim, Snarrótin úr því hve illa fólk er upplýst um réttindi sín, og lögleiðingarsenan úr því hve heimskuleg leitin er til að byrja með.

Júlía Birgisdóttir lýsti aðkomunni á tónlistarhátíðinni.

Ég tók ekki eftir því að neinum væru kynnt sín réttindi. Lögreglumennirnir komu einfaldlega upp að fólki og þremur sekúndum seinna var fólkið búið að rétta út hendurnar og lögreglan farin að leita í vösum fólksins.

Augljósa svarið er: hvað hefði fólk átt að gera? Segja nei við lögguna? Yfirlögregluþjónn borgarinnar varði þessar aðgerðir með vísun í lög sem leyfa lögreglu að leita að “vopnum eða öðrum hættulegum munum” í þágu uppihalds laga og reglna. Ef maður verður ekki við þessu er maður að brjóta lög, enda er hverjum manni “skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur”. Continue reading

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , on by . */?>

Draumar

24. 5. 2014, 17:22

Ég rakst nýverið á yfirlitsgrein fíkniefnalögreglunnar um LSD. Lýsingin á vímunni vakti mig til umhugsunar um miklu brýnna og hættulegra ástand sem fólk kemur sér reglulega í, fíkn sem er mikið rætnari og útbreiddari en LSD-víman.

Draumar.

Sú staðreynd að draumar séu mjög hættulegir er viðurkennd um allan heim. Beinn líkamlegur skaði af þeirra völdum er ekki svo ýkja mikill, en sálræn útreið er skelfileg.

Margar skýrslur sýna að undir áhrifum drauma hefur sofandi fólk gjörsamlega misst alla stjórn, það heldur sig jafnvel geta flogið, hefur hengt sig og hoppað út um glugga, og við það beðið bana eða stórslasast. Morð og sjálfsmorð hafa verið framin undir áhrifum. Continue reading

This entry was posted in blogg and tagged , , , , on by . */?>