Tag Archives: hryðjuverk

Hryðjuverk sjónvarpsmanna

21. 4. 2017, 20:35

Umfjöllun um hryðjuverk undanfarin ár hefur verið óábyrgasta og versta sjónvarpsefni í heimi. Það hefur leitt til samfélagslegra ranghugmynda og til “varnaraðgerða” sem gera illt verra, auk þess að vera eina ástæðan fyrir því að hryðjuverkin eiga sér stað yfirleitt. Umfjöllunin hefur dregið athygli frá öðrum og mikilvægari málefnum og viðbrögðin við henni hafa rýrt lífsgæði ríkustu samfélaga heims, auk þess að kalla dauða yfir saklaust fólk. Þessi umfjöllun drepur á fullkomlega fyrirsjáanlegan hátt, og hún ætti að hætta.

Hvað gerðist?
Í gær keyrði maður útá Champs-Élysées breiðstrætið í París og skaut lögreglumann. Með þessu tókst honum að gera sjálfan sig, hugmyndafræðina sína, þjóðerni og samfélagsstöðu tafarlaust að heimsfrétt sem enn er ofarlega á baugi nú, sólarhring síðar. Í frönskum miðlum má sjá hasarumfjöllun um vopnin sem hann bar, hvernig nákvæmlega hann steig úr bílnum og hvað hann gerði sekúndubrot fyrir sekúndubrot á leið sinni til fyrirsjáanlegrar frægðar. Andlitsmynd af honum prýðir skjáinn og útlistun á karakter hans og uppruna er rakin ítarlega.

Þennan sama dag dóu um tíu manns í Frakklandi úr bílaumferð. Tugþúsundir dóu úr hungri í heiminum, flestir börn. Tuttugu milljón tonn af koltvíildi brunnu útí lofthjúpinn. Þetta eru merkilegar tölur, og margt mætti gera í vandamálunum sem þær lýsa, en í frönsku sjónvarpi í dag er ekki rætt um það. Í staðinn er verið að breiða út boðskap terrorista að hans eigin beiðni.

Viðbrögðin
Þegar eitthvað verður fyrsta frétt, þá þurfa stjórnmálamenn að bregðast við. Kunningi minn sagði, í kjölfar annarrar árásar nýlega, að yfirvöld þyrftu að “gera eitthvað” einsog til dæmis að “sprengja eitthvað í stórum stíl og hætta þessu PC kjaftæði”. Þetta eru sálfræðilega skiljanleg, en algerlega heilalaus viðbrögð. Enginn verður friðsælli eða vinveittari þegar hann er sprengdur, og fjöldamargir verða reiðari og hatrammari. Í fyrra svaraði forseti Frakklands hryðjuverkamanni í París með því að sprengja til dauða 130 manns í Sýrlandi. Jafnvel ef þeir voru allir hryðjuverkamenn, líka börnin, þá má vænta þess að allir sem þeir þekktu hafi nú fengið ágæta ástæðu til að hata Frakka. Forsetinn hefði sennilega líka sett neyðarlög, ef hann hefði ekki þegar verið búinn að því. Þau hafa verið í samfelldri notkun síðan 2015 og hafa opnað öll heimili Frakklands fyrir heimildarlausum leitum.

Engum að óvörum hafa þær heimildir verið notaðar á múslima fyrst og fremst. Hryðjuverkafár yfirvalda útskúfar þá verklega, bæði á götum úti, í húsleitum og á flugvöllum. Þessháttar stigmatísering minnihlutahóps, hvort sem það eru svartir Bandaríkjamenn vegna glæpa eða múslimar vegna hryðjuverka, er ömurleg fyrir alla innan hópsins og skaðleg samfélaginu. Hún rýrir samúð og tvístrar samfélagshópum á grundvelli fárra atvika af völdum sárafárra fávita.

Ranghugmyndirnar
Þegar vörubíl var keyrt á verslun í Stokkhólmi nýlega sagði einn ættingi minn: “Maður þorir varla að fara þangað núna.” Jæja já? hugsaði ég. Það hefur aldrei verið öruggara að lifa, þrátt fyrir alla hryðjuna. Í Svíþjóð deyja fimm manns í hverri viku í umferðinni, sem telst fáránlega lágt fyrir það stóra þjóð. Enginn hættir við að fara þangað útaf þannig tölum. Það er margfalt líklegra að þú deyjir úr matareitrun í Tælandi en í hryðjuverkum hvar sem þér dettur í hug að ferðast. En úr því að einhver súrrandi ruglaður bjáni rændi trukk í Svíþjóð og athygli allrar veraldarinnar, með óbilandi aðstoð fjölmiðla, fá milljónir jarðarbúa bakþanka um að heimsækja þetta yfirmáta friðsæla land.

Hryðjuverk ná árangri því þau stinga í veikustu bletti mannlegrar sálfræði — og spila á fyrirsjáanleika fjölmiðla. Það er ekki hægt að leiða hjá sér terror-fréttir, því þannig virkar ekki mannssálin. En það má sleppa því að maka hryðjunni yfir skjáinn okkar dag eftir dag, til þess eins að selja fleiri auglýsingar og auglýsa óbeint eftir fleiri hryðjuverkamönnum. Fávitaskapur hefur nefnilega ákveðið lag á að margfalda sig þegar hann sleppur á annað borð laus.

Who wants to be a terrorist?
Íþróttarásir hættu nýverið að sýna myndir af fólkinu sem hleypur í leyfisleysi á völlinn. Ef ekkert sæjist til þeirra, var pælingin, þá hefðu þau ekki lengur ástæðu til vallarhlaupsins. Sama gildir um terror. Hryðjuverk missir marks ef hryllingurinn er ekki breiddur út. En fjölmiðlar leyfa sér að taka þátt, og þessvegna virkar það. Það er einföld leið til að slökkva á hryðjuverkum, sem eru jú sálfræðilega voðaleg en tölfræðilega ómerkileg. Sú leið er að greina frá þeim á sterílan og óspennandi máta.

Fjölmiðlar taka þátt í hryðjuverkum með því að flytja hasarfréttir af þeim. Við getum lítið gert af viti til að svara þeim, og bregðumst því óvitrænt við. Önnur vandamál, sem við getum sannarlega brugðist við, verðskulda athygli okkar. Þau ættu að fá pláss hryðjuverkanna í fréttaflutningi.

This entry was posted in blogg and tagged , on by . */?>