Tag Archives: flóttamenn

Drepinn af íslenskum stofnunum

20. 7. 2017, 17:20

Í gær hitti ég mann í strætó. Hann vinnur á verkstæði og er hraustlega vaxinn og vel til fara, var glaður að sjá mig. Við hittumst síðast árið 2015 og það tók mig svolítinn tíma að koma honum fyrir mig. Það var svosem ekki skrítið. Síðast þegar ég sá hann var hann á geðdeild. Sagan hans, saga margra í hans sporum, er saga mjög sérkennilegrar geðsýki. Þessi sýki er búin til af íslenskum stofnunum, og hún getur drepið.

Sjúkdómsvaldar
Sumarið 2015 dró vinur minn mig í litla blokk nærri Laugardalnum. Við gengum inn í sirka tíu manna stofnanavætt fjölbýli með vínylgólf og plöstuð blöð á veggjunum. Í herbergi á efri hæðinni sat fúlskeggjaður, þrútinn og niðurlútur maður sem rétt muldraði þegar við komum inn. Hann var með brunasár á handarbakinu, ör á framhandleggjunum eftir hnífskurð og sárabindi um aðra höndina. Hann lét sér fátt um finnast þegar vinur minn kippti fram höndinni hans til að sýna mér.

“Hann er brjálaður,” sagði vinur minn og benti á gluggann, sem hafði verið lokað með spónaplötu. “Braut gluggann, ég held hann hafi ætlað að hoppa út.”

Maðurinn á rúminu var íranskur hælisleitandi sem átti að brottvísa til Ítalíu. Vandamálið var hvað hann lét illa. Það gekk erfiðlega að afgreiða málið hans meðan hann hagaði sér svona. Ég sagði við vinn minn að ég vissi ekki hvað ég gæti gert. Hælisleitandinn var í sambandi við heimsóknaþjónustu Rauða krossins, lögfræðing og félagsþjónustuna og kunningja sína í Reykjavík. Það var bara eitt að: Útlendingastofnun ætlaði að brottvísa honum. Því gat hvorugur okkar breytt. Við fórum heim, heldur lúpulegir.

Nokkrum dögum síðar sendi vinur minn mér skilaboð: “Gæjinn sem við hittum á laugardag er kominn á spítala.” Í tvær vikur fréttum við ekkert. Svo þetta.

frétt

Ég fór til hans á geðdeild að komast að því hvað hefði gerst.

“Ég labbaði bara að húsinu, ýtti á dyrabjölluna, gekk til baka og hellti yfir mig bensíni. Mig langaði að tala við lögfræðing.” Hann var skýrmæltur en talaði lágt og látlaust. Hann var ekki ruglaður, bara niðurbrotinn. “Mig langar að drepa mig sérhverja sekúndu, sérhvern dag, sérhverja mínútu, dag, viku, ár.” Móttökurnar á Íslandi hefðu verið vondar. “Ég man eftir viðtalinu við Útlendingastofnun. Þau sögðu að þeim væri sama um mig, þau bæru ekki ábyrgð á mínu máli.”

Nú er auðvitað líklegt að þetta hafi verið stílfærð minning hans um viðtalið. Starfsmenn íslenskra stofnana segja venjulega ekki að þeim sé sama um þig í opið geðið á þér. En það sem skiptir mestu máli eru ekki orð, heldur gjörðir. Og einsog Þorsteinn Guðmundsson, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar, tilkynnti daginn sem fréttir bárust af sjálfsmorðstilrauninni: “Framganga sem þessi og önnur sjálfskaðandi hegðun hefur ekki áhrif á framgang eða úrlausn mála.”

Meðferðin
Bæði í máli þessa manns, sem og í öðrum málum, er mér oft sagt að sumt af þessu flóttafólki sé bara veikt á geði. Ekki sé við Útlendingastofnun að sakast. En er það rétt? Vinur minn, sem kynnti mig fyrir hælisleitandanum sem kveikti í sér, var sjálfur hælisleitandi á Íslandi forðum daga. Eftir langa málsmeðferð hafði Útlendingastofnun ætlað að brottvísa honum líka — og hann reyndi að fremja sjálfsmorð. Hann fékk síðar hæli, og náði eftir það skyndilegum og annars óútskýranlegum bata.

Andleg heilsa hælisleitenda er vissulega oft veikburða, ekki síst því margir þeirra eru á flótta undan hörmungum. Það er sérstök ástæða til að fara varlega með hana, og þessvegna var sjokkerandi að lesa þessi ummæli læknis á Facebook í júní í fyrra:

Ég hef sinnt mörgum flóttamönnum og hælisleitendum á Bráðamóttökunni. Þeir hafa verið með eins mörg mismunandi vandamál og Íslendingar, sumir verið veikir á líkama, aðrir á sál, sumir komið útaf litlu og aðrir mikið veikir, eins og Íslendingar sem leita til okkar. Öfugt við frjálst fólk hér í landi hefur þetta fólk þó þurft að ganga í gegnum strangt aðgangsferli til að komast til mín, einum man ég eftir sem kvartaði undan lífshættulegum einkennum í tvo daga áður en hann var aðstoðaður við að komast á Bráðadeildina. Honum var ekki trúað, honum var ekki hjálpað við að komast til okkar og ekki hafði hann fjárráð til að ferðast eða þekkingu á ferðamátum milli sveitarfélaga hér. Að minnsta kosti helmingur þeirra í þessum hópi sem ég hef sinnt hefur sagt þetta, þeim var ekki trúað og þeim gert erfitt að leita sér hjálpar. Þegar ég hringdi einu sinni fyrir skjólstæðing í símanúmer sem þeim var gefið upp til að hringja í vegna vandamála mætti mér íslensk rödd sem sagði þetta fólk alltaf vera að kvarta og gera sér upp veikindi.

Læknirinn skrifaði þessa færslu í tilefni af ákvörðun innanríkisráðuneytisins að loka á heimsóknir til heimkynna hælisleitenda. “Þessar heimsóknarreglur munu ýta undir mannréttindabrot hér og það mun verða mannslát á okkar allra ábyrgð,” skrifaði læknirinn.

Daginn eftir bárust fréttir af undarlegu sinnuleysi. Hælisleitandi í húsnæði Útlendingastofnunar á Grensásvegi hefði fengið hausverk. Öryggisvörður hússins hringdi í Útlendingastofnun en enginn svaraði, svo hælisleitandinn fékk verkjalyf og fór að sofa. Þegar hann vaknaði morguninn eftir var blóð á koddanum sem vætlaði úr eyrunum hans. Aftur var hringt í Útlendingastofnun, sem sagðist mundu bóka tíma hjá lækni. Þegar komið var á sjúkrahúsið var enginn tími á skrá og maðurinn sendur heim. Þar tóku vinir hans málin í sínar hendur, hringdu á sjúkrabíl og fengu honum loksins læknishjálp.

Einsog svo margt sem viðkemur Útlendingastofnun var hér einhver óútskýranleg gloppa á gráa svæðinu milli misskilnings, vanhæfni og skeytingarleysis. Ef til vill skall hurð nærri hælum, sem svo oft áður.

Afleiðingar
Í desember rættist svo spá læknisins. Hælisleitandi sem bjó á Víðinesi, einni af hinum fjarlægu skítugu flóttamannageymslum Útlendingastofnunar, var þunglyndur og vinir hans höfðu áhyggjur af honum. Þeir báðu öryggisvörð hússins og Útlendingastofnun að gera eitthvað í málunum. Ekkert gerðist. Maðurinn hellti bensíni yfir sig í anddyri hússins, kveikti í sér og hljóp út. Hann var fluttur á sjúkrahús en dó viku síðar af sárum sínum.

Hælisleitandinn var frá Makedóníu og hafði fengið höfnun hælisumsóknar sinnar, en flóttamenn þaðan eru sakaðir — meðal annars af forstjóra Útlendingastofnunar — um að skemma íslenska hæliskerfið með ósanngjörnum hælisumsóknum.

Það gefur ágæta mynd af stemmingunni á Víðinesi að í frétt Rúv af atburðinum var í framhjáhlaupi minnst á að “í hádeginu hótaði annar hælisleitandi að skaða sjálfan sig”. Hann hafi verið “fluttur á lögreglustöð”. Þannig eru nefnilega viðbrögð íslenskra stofnana ef útlendingar á flótta undan ofsóknum, stríði og fátækt þakka fyrir móttökurnar sem við gefum þeim með þunglyndi og sjálfsskaða: Við læsum þá inni og spyrjum þá hvern djöfulinn þeim gangi til með þessum dónaskap. (Stutt google-leit gefur til kynna að fólk sem sækir um hæli hefur ítrekað reynt að kveikja í sér á Íslandi, bæði í geymsluhúsnæði Útlendingastofnunar, fyrir utan stofnunina sjálfa og við húsnæði Rauða krossins.)

Eftirmálar
Það síðasta sem íranski hælisleitandinn sagði við mig á geðdeildinni var: “Óskir, von, framtíð, líf, þýðir ekkert fyrir mér. Það er brandari í mínum eyrum. Framtíð… ég get ekki almennilega séð það fyrir mér.”

Á meðan hann var á geðdeild braust Útlendingastofnun inn til hans og flutti dótið hans annað. Þeim þótti réttara að hann byggi í öðru húsi í Hafnarfirði. “Þeir fóru heim til mín, mega þeir það?” spurði hann blaðamann í kjölfarið. “Af hverju gerðu þeir það? Má ég ekki eiga mér neitt rými út af fyrir mig?” bætti hann við. “Það er ótrúlegt virðingarleysi að farið sé inn á heimili mitt og rótað í eigum mínum. Þarna er er komið fram við mig eins og ég sé ekki manneskja heldur dýr… eða eins og ég sé bara dauður. Hvernig geta þeir gert þetta? Má þetta í alvörunni á Íslandi?”

Honum var synjað um hæli síðar um haustið, fékk áfall og var aftur lagður inn á spítala. Hvernig honum tókst loks að fá landvistarleyfi veit ég ekki. Það eina sem ég veit er að eftir að hann mátti vera hér hætti straumurinn af þunglyndispóstum á Facebook. Það birti yfir, hann var brosandi á myndum, snyrtilegur og hamingjusamur. Einsog vinur minn, sem fékk hæli eftir að hafa verið á barmi sjálfsmorðs fyrir hálfum áratug, og varð að heilbrigðum og fyndnum Íslendingi. Einsog annar vinur minn, sem hætti að borða og drekka þegar öllum vinum hans var brottvísað og var tvisvar lagður hálfmeðvitundarlaus á sjúkrahús. Hann er glaður og reifur í dag. Þeir læknuðust allir eftir að Útlendingastofnun hætti við að brottvísa þeim. Það þarf sérstaka sort af þvermóðsku til að sjá ekki orsök batans.

Útlendingastofnun, með löggjafann að baki sér, eignar sér flóttamenn sem sækja um hæli á Íslandi. Meðan þeir eru hér hefur hún líf þeirra og geðheilsu í höndum sér. Í stað þess að sýna alúð og nærgætni sviptir hún þá vilja og virðingu, frelsi og reisn. Hún eyðileggur líf þeirra af sláandi skeytingarleysi. Hún hótar þeim af járnharðri reglufestu að þeim verði brottvísað — örlög sem margir flóttamenn setja dauðanum að jöfnu. En það kemur starfsfólki Útlendingastofnunar ekki við. Hælisleitendur skulu passa í hennar eyðublöð, lagadálka og vinnuferla. Ef þeir kreistast, kremjast og drepast í leiðinni er það ekki tilefni til neinnar naflaskoðunar. Bara þjappa hópinn, segja í fréttatilkynningu að ekkert muni breytast, og halda áfram þar sem frá var horfið.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , on by . */?>

Föstudagsviðtal um illsku

25. 6. 2017, 22:40

Í fyrra tók Fréttablaðið Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, í “föstudagsviðtal“. Þessi viðtöl eru pallborð efri millistéttarinnar til að tjá áhyggjur sínar, almennum lesendum fríblaðsins til góða, og Kristín olli ekki vonbrigðum. Hjarta landvarðarins var á borðið lagt. “Rætin umfjöllun hefur djúp áhrif á okkur,” sagði hún fyrir hönd starfsfólks Útlendingastofnunar. Þau væru manneskjur, ekki vélar. En mótlæti gerði hópinn bara sterkari. “Við erum samrýnd og þetta þéttir okkur.”

Hún reifaði í löngu máli hið þakkarlausa starf sem kerfisbundin brottvísun flóttamanna er — og jú, það er örugglega mjög vont að vera svona illa liðin. Ég man ekki hvort einhver hælisleitandi hafi verið tekinn í sambærilegt “föstudagsviðtal”, en eflaust gætu flóttamennirnir og fólkið sem brottvísar þeim veitt hvert öðru huggun og skilning gegn þeirri tortryggni og útskúfun sem mætir þeim í samfélaginu.

Þar sem þessi viðtöl voru eðli málsins samkvæmt öll birt rétt áður en fólk byrjaði helgina var reynt að halda þeim á hressu nótunum, svo Kristínu var leyft að fleygja fram gagnrýnilaust staðhæfingum einsog “stefna útlendingalaga er ekkert hörð,” og forvitnilegum frösum einsog “það er ekki vilji okkar eða einbeitt stefna að vera vond.” Í staðinn fyrir að spyrja nánar hvaða merking lægi í þessum orðum, þá var hún spurð hvort það væri ekki “erfitt að neita fólki um að skapa sér betra líf?” Ojú, svaraði hún, “það er alltaf erfitt.”

Kannski það sé sjálfhverfa af þessu tagi sem beindi athygli hennar frá því að nær allir skjólstæðingar hennar þola ekki Útlendingastofnun. Í vetur reyndi stofnunin að meta stöðu flóttamanna í sinni umsjá, en bara 15% svöruðu könnuninni. Fólk þorði einfaldlega ekki að segja frá högum sínum “af ótta við að svör þeirra færu lengra eða væru notuð gegn þeim.”

Íslendingum líkar stofnunin ekki heldur — hún nýtur minnst trausts allra réttarfarsstofnana ríkisins.

Fyrir þá sem hafa prófað að eiga í langvarandi samskiptum við stofnun Kristínar er þetta ekki skrítið. Orð, rök, skynsemi og samúð hafa ekkert með málin að gera í Skógarhlíð 6. Í besta falli er tekið mark á pappírum úr opinberum stofnunum. Þetta gerir fólk vitfirrt af armæðu og örvæntingu, því nær allt lífið þeirra — sérstaklega fólks sem kemur utanfrá Evrópu — er ekki skráð opinberlega. Þær umsóknir og pappírsmartraðir sem við þekkjum öll eru paradís hjá umsóknum um hæli og dvalarleyfi hjá UTL.

Skjólstæðingum stofnunarinnar er haldið frá heilbrigðisþjónustu og lögreglan hefur brotist inn til þeirra að gá hvort þau séu að fela peninga eða skilríki. Þegar kaldranalegt viðmót og lélegt menningarlæsi starfsmanna bætist við, svo ekki sé minnst á ákvarðanir sem markast af vanhæfni eða skeytingarleysi, þá er ekki að furða að þessi stofnun njóti varla trausts nokkurs manns. Og þegar viðhorfið innangarðs er einsog í umsetnu virki, þar sem hópurinn stendur saman gegn bæði Íslendingum og útlendingum, er ekki skrítið að þessi stofnun sé í íslensku samfélagi líkt og eitraður fleinn.

Þetta væri svosem bara útí bláinn og innantómar vangaveltur ef ekki væri fyrir yfirstandandi mál Eugene og Regínu, foreldri barna sem fæddust hér á landi. Að forminu til er þetta svipað málum Tony Omos (lekamálið) og Paul Ramses (flugvallarmálið). Einsog fyrir áratug síðan er verið að splitta upp svörtum fjölskyldum og fleygja saklausu fólki í buskann (ekki af einbeittri vonsku, samkvæmt föstudagsviðtalinu, og samkvæmt stefnu sem er “ekki hörð”). Einsog í hin skiptin er byrjað að reifa, stundum í fjölmiðlum, hvort karlinn hljóti ekki að hafa verið glæpamaður, enda virðast sumir eiga erfitt með að ímynda sér svartan mann sem er ekki krimmi.

Kannski er þetta, einsog Kristín segir, ekki allt illska. Kannski skrifast mikið af þessu á slöpp vinnubrögð. Sögur af vanhæfni Útlendingastofnunar hafa borist mér frá fyrrum starfsmönnum, íslenskum lögfræðingum og úr sænsku útlendingastofnuninni — og auðvitað hef ég getað séð getuleysið í beinni útsendingu með því að horfa á eina skrifræðiskatastrófuna á fætur annarri breiða úr sér fyrir framan nefið á mér undanfarin ár. (Nú síðast var manni brottvísað til Ítalíu, því yfirvöld þar “báru ábyrgð á málinu hans.” Á flugvellinum úti sagði ítalska lögreglan að það væri rangt, og sendi hann til Íslands aftur.) Útlendingastofnun hefur kallað yfir sig allt það vantraust sem henni er sýnt sjálf, með eigin starfsháttum, með því að vera viljugur og stundum ákafur framkvæmdaaðili ömurlegrar löggjafar. Þegar hingað er komið við sögu er mér eiginlega sama hvort þetta sé vanhæfni — svona vanhæft fólk er illt ef það lætur ekki af störfum.

Þessi langi útúrdúr frá föstudagsviðtalinu er til að setja upphafleg komment forstjórans í samhengi — forstjórans sem er með 1,34 milljónir á mánuði í laun, forstjórans sem er með íslenskt vegabréf og þarf ekki að óttast brottvísun eða fyrirvaralausa handtöku um miðja nótt eða húsleit eftir földum peningaseðlum. Manneskja í þessari stöðu hefur ekki efni á að kalla sig fórnarlamb.

Þegar fólk spyr sig: Hvernig geta embættismenn verið svona grimmir? þá er svarið kannski bara að þeir vita ekki hvað þeir eru að gera, og eru of uppteknir af pappírum og sjálfum sér til að komast að því. Kærunefnd útlendingamála fékk nýverið leyfi til að dæma um mál útlendinga án þess að tala við þá fyrst, og dómstólar hafa lengi réttað yfir flóttamönnum sem hefur þegar verið brottvísað. Þetta er systematísk hunsun sem lög og embættismenn viðhalda af miklum móð. Það er einfaldara að vera ógeðslegur við fólk ef þú þarft ekki að tala við það — og lögreglan, sem þarf að tala við fólkið, vísar til úrskurða embættismannanna. Þetta snilldarlega fyrirkomulag læsir hringekju ábyrgðarfirringarinnar í sessi. Allir eru stikkfrí. Skeytingarleysið er kerfisbundið.

En þetta leiðir sumsé allt að því sem ég hef verið að hugsa síðustu daga, og ætlaði í rauninni að segja: Mér var kennt fyrir löngu að kalla ekki aðrar manneskjur vondar. Ég er ekki viss að það hafi verið rétt. Mér finnst bara hreint ekki það langt milli skeytingarleysis og illsku.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , on by . */?>

Úttekt á heimskulegasta velferðarskema Íslands

15. 4. 2017, 18:08

Í síðustu viku gaf glansritið Frjáls verslun út páskatölublaðið sitt. Í anda krossfestingarinnar var forsíðuviðfangsefnið “tilhæfulausar hælisumsóknir” fólks frá Makedóníu og Albaníu. Drumbslegur Íslendingur í stofuklæðnaði með strandhatt á hausnum var ljósmyndaður á forsíðuna í hlutverki hælisleitanda. Hvers vegna var ekki einhver sunnan Alpafjalla fenginn í hlutverkið? Svarið varð ljóst þegar flett var gegnum greinina: Ekki var haft samband við nokkurn af hinum margrómuðu Makedónum eða Albönum við vinnslu fréttarinnar.

fvo02017.1463236

Viðmælendur Svövu Jónsdóttur, diplómuhafa í fjölmiðlun og alþjóðastjórnmálum, stjórnarmeðlims Sameinuðuþjóðafélagsins á Íslandi og áhugamanneskju um ferðalög, voru þess í stað sóttvarnarlæknir, yfirmaður göngudeildar sóttvarna, fjármálastjóri heilsugæslunnar, landlæknir, forstjóri Útlendingastofnunar, og sérfræðingur hjá velferðarráðuneytinu. Til vitnisburðar um ágætt ástand í Makedóníu var fenginn ræðismaður Makedóníu. Með öðrum orðum átti ekki bara að krossfesta hælisleitendurna, heldur sanna í leiðinni að þeir væru smitberar, sníkjudýr, boðflennur og glæpamenn.

Svava lýsir í grein sinni heimskulegasta velferðarskema veraldar. Það virkar nokkurnveginn svona: Fólk kemur til Íslands í leit að tækifærum, ævintýrum, heilbrigðisþjónustu, eða bara því þeim finnst, einsog Svövu sjálfri, gaman að ferðast. Á Íslandi er þeim svo tilkynnt að hér á landi fær enginn að vera nema að uppfylltum endalausum skilyrðum. Á meðan Útlendingastofnun vegur og metur ágæti pappíra fólksins eru það svipt réttindum sínum og atvinnufrelsi og gert að ómögum ríkisins. Við svo búið fer í gang hamfarakennt og örvæntingarfullt brjálæði innan Útlendingastofnunar til að finna þeim matarpening og húsnæði. Afleiðingar þessarar fáránlegu vanhæfni íslenskrar stjórnsýslu er nauðungarkyrrseta hælisleitenda, sem er notuð til að útmála þá sem letibykkjur og sníkjudýr.

Allt virðist þetta til þess eins fallið að breyta lífum nokkurhundruð útlendinga í ömurðarpoll sem bjúrókratar og gistiheimiliseigendur sjúga sér lífsviðurværið úr. En valdafólk lætur þennan kúgaða og jaðarsetta hóp ekki fara til spillis, heldur nýtir sér hann sem blóraböggul. Dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, fullyrðir í Frjálsri verslun að “við getum ekki þjónustað mörg hundruð hælisleitendur á framfæri íslenska ríkisins ár eftir ár. Við höfum ekki efni á því.” Nú er auðvitað enginn að biðja hana um það, heldur bara að leyfa þeim að vinna, en fyrir ríkisstjórn sem segir efnahag landsins í besta standi er þetta nú samt vandræðaleg staðhæfing. Það ætti að vera öryrkjum, fátækum, leigjendum og námsmönnum varúðarmerki að ráðherrar telji hag ríkisins standa og falla með uppihaldi nokkurhundruð útlendinga. Nema hér sé einfaldlega verið að nýta sér þetta tilbúna vandamál sem blóraböggul fyrir allar ríkisins syndir.

sigga-anders

Ástæðan fyrir fjölgun fólks úr Balkanlöndum í hælisferlinu íslenska ku vera einföld. Fyrir nokkrum árum fékk langveikur strákur þaðan ríkisborgararétt frá Alþingi. Þetta þótti hófsmönnum á réttlæti mikil skömm, og spáðu þeir fyrir um þá svörtu framtíð sem nú hefur raungerst. “Samfélagið rambar yfir hyldýpinu!” veina þeir. “Sexhundruð manns af Balkanskaga hafa komist á íslenska ríkisframfærslu!” Sú borðleggjandi lausn að leggja niður hæliskerfið í núverandi mynd og veita fólki einfaldlega aðgang að velferðarkerfinu ef það vinnur hér vill ekki hvarfla að þeim.

Forstjóri Útlendingastofnunar, Kristín Völundardóttir, kveinkar sér í greininni undan hversu vondir fjölmiðlar voru við hana þegar hún ætlaði að brottvísa langveika barninu. Þrátt fyrir að hún hefði útskýrt að lög væru lög hefði áfram birst um stofnunina hennar “ómálefnaleg umfjöllun”. Hvernig dirfðist fólk að láta einsog mannúð kæmi málinu við? Skoðanir og undirskriftalistar mættu ekki breyta afstöðu stofnunarinnar. Allir yrðu að fá jafn vonda meðferð.

Grein Svövu nær hátindi sínum þegar ræðismaður Makedóníu er kallaður til að bera vitni um ágæti lands síns. Hann upplýsir okkur um að þar séu “mannréttindi í hávegum höfð” og “engin meiriháttar vandamál” að finna. Síðast þegar ég var í Makedóníu með nokkrum vinum mínum þurftum við að fela matargjafir til flóttamanna þegar lögreglan stoppaði bílinn okkar, svo hann yrði ekki gerður upptækur. Þannig sögur kallar ræðismaðurinn “slæma markaðssetningu fyrir landið” og vill ekki að hlustað sé á þær.

andonov

En grein um útlendinga í glansblaði væri ekki fullkomnuð á þessum síðustu og verstu tímum ef tveir sóttvarnarlæknar fengju ekki að fjölyrða um sjúkdómshættuna sem stafar af þessum lúsugu kvikindum. Og fyrst maður er að þessu, hversvegna ekki landlæknir og fjármálastjóri heilsugæslunnar í leiðinni? Og þótt annar sóttvarnarlæknirinn segi Svövu að hælisleitendur séu “ekki ógn við lýðheilsu á Íslandi” og að sjúkdómar þeirra séu “ekki stórt vandamál”, þá eru fyrirsagnir viðtalanna hafðar

MEGUM EKKI SOFA Á VERÐINUM

og

ÁKVEÐIÐ ÁLAG Á HEILBRIGÐISKERFIÐ

og

BERKLAR, HIV, LIFRARBÓLGA OG SÁRASÓTT GREINAST AF OG TIL.

Niðurstaðan sem fæst af lestri greinarinnar er vandlega mótuð af fordómum höfundarins og viðmælendavali. Enginn af viðfangsefnum greinarinnar fær pláss til að tjá sig. Flóttamennirnir sjálfir eiga að vera ómálga smitberandi skepnur sem á að halda í iðjulausri sóttkví frá samfélaginu. Svava Jónsdóttir, diplómuhafi í blaðamennsku og áhugamanneskja um ferðalög, minnist ekki einu orði á Makedónann sem fékk þessa útreið frá okkur í fyrra og brenndi sig til dauða í kjölfarið. Hér er því tillaga að annarri forsíðu á páskatölublað Frjálsrar verslunar, sem hefur altént þann kost til að bera að vera af raunverulegum Makedóníumanni.

img_20161207_202624Það dytti engum í hug að prenta GEKK ÉG YFIR SJÓ OG LAND á þessa mynd. Sannleikurinn væri of sár. En það er einmitt málið. Svava Jónsdóttir reyndi ekki að segja sannleikann. Hún útskýrði komu Makedóna og Albana með sóttvarnarlæknum, forsvarsmanni landsins sem þeir flýja, og konunni sem brottvísar þeim. Þetta er ekki blaðamennska, heldur ómennska.

Vilji einhver lesa þessa hroðalegu og ömurlegu grein má finna Frjálsa verslun í bókasafni eða fá afrit af greininni hjá mér. Ég bið ykkur, ekki kaupa hana.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , on by . */?>

Hnattvæðing er lygi

23. 9. 2015, 18:16

Síðustu áratugi hefur okkur verið sagt að þjóðir heimsins séu að gangast undir hnattvæðingu, sem tengi okkur öll saman og geri okkur frjálsari og ríkari. Hundruð þúsunda aðgerðasinna um allan heim hafa gagnrýnt þennan málflutning og sagt hann byggðan á lygi. Þeir hafa verið afskrifaðir í fjölmiðlum sem „andstæðingar hnattvæðingar“, frumstæðir bjánar sem ekkert vita um hagfræði og heiminn. Þessi útúrsnúningur er djarfur, því í raun eru mótmælendurnir mun alþjóðasinnaðri en stofnanirnar sem þeir gagnrýna.

Þetta er sagan af gagnrýnendum „hnattvæðingar“, og hugmyndafræðinni sem þeir aðhyllast. Hreyfing þeirra náði fyrst heimsathygli í Seattle árið 1999, og árangur hennar var umtalsverður. Þótt hreyfingin hafi grotnað niður og hlotið náðarhöggið í Kaupmannahöfn árið 2009 á boðskapur hennar betur við í dag en nokkru sinni. Hann er nefnilega boðskapur frjáls heims, þar sem almenningur ræður sér sjálfur og þar sem enginn bannar fólki að ferðast þangað sem það vill. Continue reading

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Hælisleitendur fá 10.800 krónur á mánuði

7. 9. 2015, 14:40

Uppfærsla: Nýlega virðist dreifingu bónuskorta hafa verið hætt hjá sumum, sem fá nú Bónus-peninginn og reiðuféð bæði saman á opið debetkort, samtals 10.700 á viku. Það gera því samtals 42.800 krónur í reiðufé á mánuði.


Reglulega skjóta upp kollinum gamlar fréttir þar sem er fullyrt að hælisleitendur fái mörghundruðþúsund krónur í uppihald á mánuði. Ekkert þeirra sem skrifar þessar lygar getur hafa verið í reglulegum samskiptum við flóttamennina sem um ræðir, enda er fullkomlega augljóst þegar komið er í tómleg herbergi þeirra að þeir hafa nær ekkert fé.

Hið sanna er að flóttamenn fá 2.700 krónur á viku, alls 10.800 á mánuði. Því til viðbótar fá þeir vikulega bónuskort uppá átta þúsund krónur. Það er allt og sumt.

Ríkið borgar auðvitað miklu meira fyrir málsmeðferð þeirra en þetta. Það bannar þeim að vinna, þvingar þá til að þiggja félagsíbúðir, neyðir þá til að reka langt mál gegn Útlendingastofnun, innanríkisráðuneytinu og dómstólum til að sanna rétt sinn á að vera hér. Það borgar líka fyrir lögregluaðgerðir, sem eiga til dæmis að tryggja að flóttamennirnir séu ekki að fela peninga frá ríkinu. Í september 2008 braust lögreglan í mörg heimili flóttamanna og tók þaðan skilríki, peninga og ýmis skjöl sem átti að „gera Útlendingastofnun kleift að hraða úrlausn“ mála þeirra.

Augljóslega kostar þetta allt peninga. En það er ekki flóttamanninum að kenna að vera dreginn í gegnum þetta ferli. Ef honum væri leyft að vera og vinna myndi hann gera Íslendinga ríkari, ekki fátækari. Við myndum spara málskostnaðinn, félagsíbúðirnar og allan rekstrarkostnað Útlendingastofnunar. Flóttamenn myndu fá öryggi og vernd og við myndum spara hundruð milljóna króna á ári.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , on by . */?>

Hvernig yfirvöld gætu kælt velvild almennings

31. 8. 2015, 23:25

Síðustu daga hafa Íslendingar gefið vísbendingu um hvílíka samhjálp mætti reka hér ef stjórnvöld myndu leyfa. Mörg þúsund manns hafa lofað öllu frá sjálfboðavinnu til heilla húsa svo taka megi á móti fleiri en 50 flóttamönnum næstu tvö árin. Þegar velferðarráðherra bað fólk að hafa samband og bjóða aðstoð, þá bjóst hún varla við þessum fjölda og svona góðum boðum.

Klípan sem ráðherrann er í núna er þessi: hún vill áfram taka flóttamenn inn eftir dýru, hæggengu og flóknu ferli sem takmarkar fjöldann sem ríkið getur sótt hingað. Það ferli tryggir að flóttamaður hafi allt til alls þegar hann kemur til Íslands. Þá þarf hann líka ekki lengur alla þá aðstoð sem fólk býður. En þetta ferli er rándýrt, sem þýðir að ríkið getur ekki tekið við nema handfylli flóttamanna í einu.

Ríkisstjórnin hefur bundið eigin hendur með þessum fáránlegu skilyrðum fyrir komu flóttamanna. Skilyrðin eru óþörf, því Íslendingar hafa fullt að gefa og mikinn vilja til samhjálpar.

Það eru til tvær lausnir við þessari sjálfsköpuðu tregðu stjórnvalda. Ein er að þau hætti að brottvísa flóttamönnum sem koma hingað til lands, en það hefur verið reglan í áraraðir. Yfirvöld þurfa ekki að bjóða flóttamönnum neinar bætur, bara að leyfa þeim að vera og vinna hér. Samhjálp getur brúað það sem uppá vantar.

Hin lausnin er róttækari. Hún er að leyfa nokkur þúsund flóttamönnum að koma hingað til lands – jafnvel sækja þá – og opna svo íþróttahús, gamla spítala og tóma skóla fyrir þeim. Hér væri krafan um samhjálp mikið ríkari. En við gætum tvímælalaust staðið undir henni.

Það sem er líklegra er þó að ekkert af þessu gerist. Nýskipuð ráðherranefnd mun velta vöngum í nokkra daga eða vikur, og leggja svo til að taka aðra handfylli flóttamanna til viðbótar við þessa fimmtíu sem þegar eru á leiðinni. Þetta væri auðvitað pólitískt sjálfsmorð útaf fyrir sig. En svo kæmi snilldin: stór peningasending verður tilkynnt til flóttamannabúða erlendis til að „skapa þessu fólki bærilegan aðbúnað þar“, eins og Björn Bjarnason lagði til um helgina.

Þetta væri í takt við evrópska mannúð, sem gengur útá að fátækt og stríðshrjáð fólk megi vera til, megi þjást, megi „þrauka“ og „sýna þrautseiglu“ – svo lengi sem þau gera það annarsstaðar.

Við megum ekki láta kaupa okkur frá góðu tækifæri til að sýna alvöru samúð. Hún felst ekki í að kasta matarpökkum útum gluggann, heldur að opna dyrnar. Bjóðum flóttafólk velkomið til Íslands!

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , on by . */?>

Fimmti í Aþenu: neðanjarðarkerfið

27. 7. 2015, 22:51

Aþena er full af fornminjum. Þegar Aþeningar grófu fyrir neðanjarðarlest lentu þeir aftur og aftur í því að borinn tættist utaní mörgþúsund ára gömlum húsarústum, kerjum og smápeningum. Munirnir voru grafnir upp settir í glerkassa, til sýnis á lestarstöðvunum.

Grikkir eiga svo mikið af fornminjum að þeir troða þeim allstaðar sem þeir geta.

Grikkir eiga svo mikið af fornminjum að þeir troða þeim allstaðar sem þeir geta.

Meðal smápeninganna voru drökmur, en þær eru einhver elsta silfurmynt heims. Áður en jörðin var troðin fótum Jesú og Sókratesar var mislaglegum myntsláttum falin framleiðsla þeirra, en drakman var notuð í ýmsum myndum allt til síðustu aldamóta, þegar henni var skipt út fyrir evru. Um svipað leyti komu þessar gömlu myntir, draugar fortíðarinnar, uppúr borunum fyrir hina nýju neðanjarðarlest. Continue reading

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Þriðji í Aþenu: berfættur á borgarholti

27. 7. 2015, 1:49

Stuttu eftir að ég kláraði síðustu færslu kom karl á svalirnar, hlammaði sér á stól og kveikti sér í sígarettu. Klukkan var fjögur um nótt. “Grískar stelpur eru þær bestu í Evrópu,” sagði hann og horfði dreyminn útí bláinn. Ég var ekki viss hvar ég gæti tekið upp þennan þráð eða hvort ég vildi það, svo ég spurði hver hann væri og hvar hann hefði verið að ferðast. Það kom í ljós að hann var mexíkóskur gjaldeyrisbraskari sem hafði ferðast til “Madríd, Pamplóna, Madríd, Íbísa, Madríd, Parísar, svo hingað” og ætlaði til Rómar daginn eftir.

Á Monastiraki-torgi.

Á Monastiraki-torgi.

Ég spurði hann hvort þetta væri bara klúbbaferð. Neinei, hann væri alveg að horfa á fornminjar líka. Læra menninguna og sjá söguna. Túristarnir í Aþenu virðast ekki meðtaka sérstaklega, eða hafa áhuga á, efnahagslegu ástandi Grikkja. Konan sem sefur fyrir ofan mig í koju vissi hreinlega ekki af efnahagslegum vandamálum hérna. Engu að síður er fjórði hver Grikki atvinnulaus, helmingur ungra Grikkja. Þjóðin er nýbúin að afþakka í atkvæðagreiðslu samninga um niðurskurð sem voru undirritaðir þrátt fyrir það. Kreppa þeirra er alvarlegri en Kreppan mikla 1929. “Já, þeir eru í vondum málum,” sagði Mexíkóbúinn og tók púff af sígarettunni. Ekki hans vandamál. Continue reading

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , on by . */?>

Fyrsti í Aþenu

24. 7. 2015, 1:24

Um klukkustund eftir flugtak í Frankfurt, tíu kílómetrum yfir austurrísku ölpunum, í hálftómri smáþotu á leið til Grikklands, fór öll vélin að hristast. Óðmæltur flugstjóri sagði okkur að sitja kyrr með beltin spennt þar til við lentum í Aþenu. Eldingar blossuðu í steðjaskýjum vestanvið flugvélina. Flugfreyja gekk um og gaf matarpakka. Viðeigandi byrjun á ferðalagi til Grikklands.

Mesogeion-gata í Chalandri-hverfinu.

Mesogeion-gata í Chalandri-hverfinu.

Veðurspárnar lofa 34-38°C þá viku sem ég verð í Aþenu. Alþingi Íslendinga slítur störfum einmitt þegar veður til mótmæla verður bærilegt, en vandamálið hér er væntanlega öfugt. Yfir hádegið er varla líft hér fyrir hita. Einn heimamanna, sem ég talaði við áður en ég kom, sagðist hafa flúið borgina vegna kófsins. Continue reading

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , on by . */?>

Feðraveldið hreinsar Evrópu

12. 10. 2014, 20:12

Á morgun hefst stór tiltektaraðgerð í Evrópu. Í tvær vikur munu mörgþúsund lögreglumenn um alla álfuna ráfa um og leita að óevrópsku fólki, spyrja það um “þjóðerni, kyn, aldur” og “hvar og hvernig þau komust í Evrópu” og skrá “aðrar gagnlegar upplýsingar” um hvernig þau sluppu inn. “Ekkert mat er til um kostnað aðgerðarinnar, þar sem hvert land fyrir sig … ber kostnað af eigin þátttöku”, segir skipuleggjandinn – forseti ráðs Evrópusambandsins.

Aðgerðin ber fornrómverska heitið Mos Maiorum, það er Venjur Forveranna eða hreinlega Feðraveldið. Þessi drungalega nafngift er ekki útskýrð sérstaklega, enda er hvergi talað um aðgerðina opinberlega. Hún þykir kannski ekki merkileg, enda er þetta ekki fyrsta samevrópska aðgerðin gegn “ólöglegu fólki”. Raunar eru þær hálfsárslegur viðburður og hafa áður hlotið nöfn á borð við Hermes, Afródíta og Perkunas, sem allt eru vísanir í forna evrópska guði. Fólkið sem er handtekið í þessum guðlegu aðgerðum kemur flest frá stríðshrjáðum, spilltum og fátækum löndum – í Afródítu voru til dæmis flestir fanganna frá Afganistan og Sýrlandi. Continue reading

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>