Tag Archives: bylting

Ríkið veðrast í burtu

19. 7. 2015, 12:38

Árið 1877 lýsti Friedrich Engels, besti vinur og hugmyndabrunnur Karl Marx, hvernig endilok ríkisins myndu bera að garði. Hann áleit ríkið verkfæri kúgandi stéttar hvers tíma, fyrst þrælahölda, svo lénsherra, nú kapítalista. Í byltingunni myndu hins vegar valdstólpar samfélagsins, framleiðslutækin, vera færð í hendur ríkisins, og engin valdastétt vera eftir:

…þannig deyr ríkið af sjálfsdáðum; stjórnun manna verður skipt út fyrir skipulagningu hluta. Ríkið er ekki afnumið – það veðrast burt.

Glæstar vonir

Engels.

Vindar allra átta
Þessa dagana má sjá aðra en skylda veðrun eiga sér stað – veðrun pólitískra áhrifa gagnvart markaðslögmálum. Þau litlu áhrif sem atkvæði hafa á gang mála í ríkjum verða fyrir þrálátu aðkasti markaðarins, þeirrar geðvondu skepnu. Pólitíkusar mæla áhrif orða sinna á hagtölur, engu síður en skoðanakannanir, og stjórnun mannanna víkur fyrir aðhlynningu markaðarins. Continue reading

Stöðnun eða volæði

25. 6. 2015, 15:14

Í París mótmæla leigubílastjórar netþjónustunni Uber, félagsmiðli sem leyfir manni að kaupa skutl. Þessi miðill mun augljóslega útrýma leigubílum, enda ódýrari og hagkvæmari. Þessu andmæla leigubílastjórar víða um heim, enda vilja þeir ekki verða atvinnulausir.

Þetta stríð vinnustétta gegn nútímavæðingu er ekki nýtt, og bendir á visst vandamál í kapítalisma sem reynir að vera mannúðlegur. Af sögunni má sjá að valið í kapítalisma stendur milli mannúðar og framþróunar: Annað hvort gerirðu óþarfar stéttir atvinnulausar eða bíður með nútímavæðinguna. En sagan sýnir líka að aðrar leiðir gera þetta val óþarft. Continue reading

Konur snúa á kapítalismann

19. 6. 2015, 15:13

„Mér finnst kon­ur hafa verið að bakka svo­lítið síðustu ár. Maður er far­inn að heyra oft­ar af því að kon­ur kjósi að vera í hluta­starfi eða jafn­vel að sleppa vinnu til að geta sinnt börn­um og heim­ili. Mér finnst marg­ar ung­ar kon­ur í dag ekki vera jafnstíf­ar á jafn­rétt­isprinsipp­um eins og mín kyn­slóð var á þeirra aldri. En auðvitað er ekk­ert víst að okk­ar aðferð hafi verið eitt­hvað rétt­ari en þeirra,“ seg­ir Ingi­björg Eggerts­dótt­ir, verk­efn­is­stjóri hjá Rauða kross­in­um.

Byltingin byrjar í hlutastarfi. Hér lítur út fyrir að kvenfrelsið hafi tekið fram úr sjálfu sér og slegið tvö veldi í einu höggi, veldi feðra og peninga. Meðan félagslegir verkfræðingar reikna út hvort við gætum nú öll unnið aðeins minna svo einhver tími gefist til lífs og fjölskyldu hafa umræddar konur greinilega tekið af skarið og gert þetta að yfirvaldinu forspurðu. Þar með hefur kvenfrelsið farið í hring, og snýst nú ekki lengur bara um frelsi til launavinnu, heldur einnig um frelsi frá henni.

Þeim sem þykir þessi þróun í átt til minni vinnu varhugaverð geta litið hýru auga aftur til iðnbyltingar. Þar var fólk svo heppið að fá að vinna í tólf til sextán tíma allt niður í barnsaldur, en það var á þeim tíma álitið algert lágmark, rétt einsog nú þykir varasamt að stytta hann úr átta tímum. Slíkt er þó bara eðlileg þróun. Sú röksemd hefur enda oft og lengi verið sett fram, að með aukinni framleiðni ættum við ekki bara að framleiða endalaust meira, heldur líka að vinna minna. Bertrand Russell hafði þegar árið 1932 haft orð á einmitt þessu.

Með þessari þróun, í átt til minni vinnu kvenna, losnum við sumsé við hinn leiðinlega misskilning að femínismi þurfi að snúast um að konur öðlist það frelsi sem karlar hafa, en þá skoðun hafa ráðstjórnir samfélagsins ýtt undir af ofsa. Frelsi karlanna er nefnilega frelsi til þess að geta skapað þægð fyrir stjórnvöld og peninga fyrir yfirmenn. Konur græða ekkert meira á því frelsi en karlar hafa gert, sumsé að geta betlað á nokkurra ára fresti til yfirmannanna um ögn hærri laun. Það má segja að raunverulegt frelsi fáist með því að karlar fari í kjóla, frekar en konur í buxur: að þeir eyði meiri tíma með börnunum, í eldhúsinu og náttúrunni, frekar en að konur eyði meiri tíma í vinnunni.

Bjartmarz, byssurnar og byltingin

21. 10. 2014, 15:55

Stuttu fyrir fall bankanna 2008, í september, fékk lögreglan símtal úr stjórnarráðinu. Var henni þar tilkynnt fyrirfram um hrunið og hún beðin að hafa varann á. “Lögreglan tók þessar upplýsingar mjög alvarlega, öðrum verkefnum var alfarið ýtt til hliðar og hófst þegar undirbúningur að viðbrögðum.” Lesa má um þetta sérkennilega forskot valdstjórnarinnar í MPA ritgerð Huldu Maríu Mikaelsdóttur Tölgyes frá 2010. Strax var tekin ákvörðun um “mjúka nálgun” gagnvart fyrirsjáanlegum mótmælum, fólk ætti um sárt að binda og ætti lögreglan að sýna því skilning. Þetta var ekki bara heilbrigð skynsemi, heldur var lögreglan einfaldlega ekki burðug til harkalegra aðgerða.

Um þessa nálgun var nokkuð almenn sátt, bæði meðal ráðherra, Ríkislögreglustjóra og lögregluforingjanna – en ekki alls staðar. “Gagnrýni kom fram innan lögreglunnar, einkum frá stjórnanda sérsveitar, að ganga hefði átt mun harðar fram gagnvart ólögmætum aðgerðum mótmælenda.” Sá stjórnandi var Jón F. Bjartmarz.

Í fjölmiðlum er nú fjallað um hríðskotabyssueign lögreglunnar. Þrátt fyrir fingrabendingar og vafstur um smáatriði er greinilegt að vopnvæðing lögreglunnar er staðreynd. Málsvari þessarar stefnu er Bjartmarz sjálfur, en hann hefur að minnsta kosti síðan 2012 mælt með að setja vopn í lögreglubíla.

Hulda María bendir á að að mati Stefáns Eiríkssonar “hefði verið stórhættulegt” að “beita harðari aðferðum”. Þetta má vel vera rétt. Við fáum þó aldrei að vita hvernig búsáhaldabyltingin hefði farið ef lögreglan hefði varist henni með hríðskotabyssur á lofti. En þökk sé hinni nýju byltingu, vopnabyltingu Hraunbæjar-Bjartmarz, fáum við kannski slíkt sjónarspil næst þegar kreppir að, næst þegar fólk dirfist að taka til eigin ráða.