Tag Archives: anarkismi

Hnattvæðing er lygi

23. 9. 2015, 18:16

Síðustu áratugi hefur okkur verið sagt að þjóðir heimsins séu að gangast undir hnattvæðingu, sem tengi okkur öll saman og geri okkur frjálsari og ríkari. Hundruð þúsunda aðgerðasinna um allan heim hafa gagnrýnt þennan málflutning og sagt hann byggðan á lygi. Þeir hafa verið afskrifaðir í fjölmiðlum sem „andstæðingar hnattvæðingar“, frumstæðir bjánar sem ekkert vita um hagfræði og heiminn. Þessi útúrsnúningur er djarfur, því í raun eru mótmælendurnir mun alþjóðasinnaðri en stofnanirnar sem þeir gagnrýna.

Þetta er sagan af gagnrýnendum „hnattvæðingar“, og hugmyndafræðinni sem þeir aðhyllast. Hreyfing þeirra náði fyrst heimsathygli í Seattle árið 1999, og árangur hennar var umtalsverður. Þótt hreyfingin hafi grotnað niður og hlotið náðarhöggið í Kaupmannahöfn árið 2009 á boðskapur hennar betur við í dag en nokkru sinni. Hann er nefnilega boðskapur frjáls heims, þar sem almenningur ræður sér sjálfur og þar sem enginn bannar fólki að ferðast þangað sem það vill. Continue reading

Stöðnun eða volæði

25. 6. 2015, 15:14

Í París mótmæla leigubílastjórar netþjónustunni Uber, félagsmiðli sem leyfir manni að kaupa skutl. Þessi miðill mun augljóslega útrýma leigubílum, enda ódýrari og hagkvæmari. Þessu andmæla leigubílastjórar víða um heim, enda vilja þeir ekki verða atvinnulausir.

Þetta stríð vinnustétta gegn nútímavæðingu er ekki nýtt, og bendir á visst vandamál í kapítalisma sem reynir að vera mannúðlegur. Af sögunni má sjá að valið í kapítalisma stendur milli mannúðar og framþróunar: Annað hvort gerirðu óþarfar stéttir atvinnulausar eða bíður með nútímavæðinguna. En sagan sýnir líka að aðrar leiðir gera þetta val óþarft. Continue reading

Við viljum ekki peninga, við viljum völd

4. 5. 2015, 22:42

Sjaldan hefur verið jafn gott tækifæri til að krefjast launahækkana og nú. Yfirmenn ríkis og fyrirtækja kveinka sér í viðtali en stökkva svo á skrifstofuna að forða milljörðum frá gráðugum almúganum með skattaafsláttum og arðgreiðslum. Þetta er öllum kunnugt og móðursjúk viðbrögð jakkafataklæddra manna við vesældarlegum kröfum láglaunafólks verða þeim mun fyndnari og gegnsærri fyrir vikið.

Eitt jakkamennið vakti þó furðu í morgunútvarpi Bylgjunnar í vikunni. Þessi forkólfur Samtaka Atvinnulífsins kyrjaði baráttusöngva verkalýðsins þegar hann sagði að „yfirburðastaða verkalýðshreyfingarinnar gagnvart atvinnurekendum í dag er alger‟ og að „verkalýðshreyfingin getur knúið hvaða vitleysu í gegn í krafti verkfalla sem hún kýs að gera‟ sem hann hefði engin svör við. Þótt atvinnurekendur mættu lýsa yfir verkbanni gætu þeir ekki gert það, því „fyrirtækið veit að það setur sjálft sig á hausinn með því að beita slíku vopni til lengdar.‟

Þessi nýji erkikommúnisti er mikill fengur fyrir verkalýðinn. Hann rekur á eftir stéttarfélögunum, sem eru að hugsa allt of smátt. Það er ekkert vit í launahækkunarbiðlun ár eftir ár. Hvers vegna ættu verkamenn að leggjast svo lágt að semja við þessa fíflalegu stétt? Hvers vegna ekki að fremja fjandsamlega yfirtöku á rekstri fyrirtækja og krefjast þess að verkamenn setji eigin taxta hér eftir?

Sú linkind sem almenningur hefur sýnt yfirvöldum og forstjórum síðustu ár, eftir gegndarlausar móðganir efri stéttarinnar gagnvart sér, er algerlega úr takti við valdið sem almenningur hefur þegar hann tekur sig saman. Verkalýðsfélögin, mjóróma og rykfallin þó þau kunni stundum að vera, geta verið hnefinn að baki þeirri kröfu að nóg sé komið.

Launahækkanir eru plástur á svöðusár sjálfsvirðingar almennings. Þau tryggja bærileg þægindi í tólf mánuði. Við þurfum ekki plástra, heldur lækningu. Við ættum ekki að láta kaupa okkur smástund í senn í endalausri undirlægni. Við ættum að krefjast þess að vera leiðtogar eigin lífs og vinnustaða. Ekki semja bara um krónutölur – heldur um völd!