Örugglega ekki þitt vandamál

29. 3. 2016, 17:03

Í dag talaði ég við sex ára stelpu í evrópsku fangelsi. Það er hryllilegt. En hafðu engar áhyggjur. Það er ekki þitt vandamál.

Hún er þar því Evrópusambandið ákvað fyrir nokkrum dögum að brottvísa öllum flóttamönnum sem koma til Evrópu. Þeir geta þá allir farið til Tyrklands, sem fær pólitíska greiða og marga milljarða fyrir. Þannig á að leysa flóttamannavandann. Þegar flóttamennirnir eru í Tyrklandi, þá eru þeir ekki okkar vandamál.

Stelpan heitir Zahra og hún er stödd í fangelsinu Vial á grísku eyjunni Kíos. Einsog krakkar eiga til, þá leikur hún sér. Nokkrir sjálfboðaliðar sem gefa fangelsinu starf sitt segja það til marks um að henni líði vel þar. Þeim finnst mikilvægt að sjá stundum bros í augum fanganna. Sjálfboðaliðarnir koma með blöðrur og súpu og þegar lögreglan leyfir þeim fara þeir inn í fangelsið að leika. Annars gefa þeir flóttafólkinu mat gegnum rimlana. Sjálfboðaliðarnir rabba um það á kvöldin, þegar þeir drekka bjór á veröndinni, hvað gæti orðið um flóttamennina. En það er ekki þeirra vandamál. Þeir eru þarna til að búa til bros.

Fangelsuðum flóttamönnum í Vial, Chios, gefinn matur gegnum girðinguna.

Fangelsuðum flóttamönnum í Vial, Chios, gefinn matur gegnum girðingu. Myndband hér.

Fólkið sem ekki vinnur í fangelsinu, fólkið sem neitar að gefa því vinnu sína og styðja rekstur þess, er rekið burt af lögreglumönnum ef það talar við fangana.

Zahra hló þegar ég reyndi að læra nafnið hennar og tveggja vinkvenna hennar meðan ég hafði auga með því hvort lögreglan væri að koma. Þarna stóð ég, fáránlegi hvíti maðurinn sem talaði ekki arabísku, frjáls fyrir utan rimlana, að reyna að brjóta múrinn sem átti að byggja milli pappírslausa fólksins sem má ekki vera hér og Evrópubúa. Ég hló með og afsakaði mig vandræðalega og labbaði svo burt. Þær veifuðu bless og tóku svo til við að sarga gegnum rimlana með plasthníf.

Flóttamenn verða að vera góðir. Þá rennir í grun að Evrópa sé hrædd við þá, að þeir þurfi að hegða sér sérstaklega vel. Þeir eru alltaf á reynslulausn. En stundum verða fangarnir sem ég tala við reiðir. “Ég hef rétt á því!” sagði einn, og missti næstum stjórn á skapinu sínu. Börnin hans eru í Þýskalandi, en hann er fastur í fangelsi á grískri eyju. “Ég hef rétt á að fara þangað!”

“Veistu hvað þeir segja hérna?” spurði einn fangi mig í morgun. “Þeir segja að Evrópa, almennt séð, vilji ekki hafa okkur. Er það satt?”

Það er erfitt að reikna út hver er að brjóta svona á flóttamönnunum. Hver er það sem fangelsaði þennan mann, sem fangelsaði pabbann, sem fangelsaði Zöhru, alla þá fimmtánhundruð flóttamenn sem eru núna innan þessara rimla? Og hver er það sem brottvísar þeim? Lögreglumennirnir? Angela Merkel? Er brottvísun líkamleg eða frumspekileg? Felst valdbeiting í að gefa skipanir? Felst hún í að draga öskrandi flóttamann í brottvísunarferju, eða í að skapa kerfið sem leiðir brottvísunina af sér? Kemur skipunin frá stjórnmálamönnum eða almenningi? Og hver viðheldur kerfinu? Hverjum er þetta að kenna? Öllum? Engum?

Þetta er sennilega ekki þér að kenna. Þú gætir sennilega ekki gert neitt í þessu. En þegar allt er talið, þegar ábyrgð okkar allra er metin, þegar athæfi okkar og samfélag er metið – og stjórnmálin með – er ég hræddur um að við séum orsökin fyrir þessu. En að sama skapi erum við líka fær um að breyta því, og því fylgir ábyrgð. Þetta er vandamálið okkar, og það er okkar að leysa það.

Ekki nógu dauðvona

29. 12. 2015, 18:11

Mér finnst gaman að ferðast. Í haust fór ég til dæmis til Tælands í nokkrar vikur og þaðan til Grikklands fyrir minna en hundrað þúsund krónur. Á leiðinni fékk ég heitan mat, snertiskjá með bíómyndum og tölvuleikjum og fallegt útsýni yfir asísku fjallagarðana. Ég gisti í fyrrverandi reykingaskýli á Sheremetyevo-flugvelli í Moskvu og labbaði beint gegnum öll breiðu og greiðu EEA Passengers hliðin.

Þar sem eitt sinn var reykingaskýli er nú tjaldstæði.

Þar sem eitt sinn var reykingaskýli er nú tjaldstæði.

Í haust bjó kúrdísk fjölskylda á vindsæng í þessu skýli og lifði á ölmusu í einn og hálfan mánuð. Þau höfðu verið í Sýrlandi og Írak áður en þau flúðu stríðið þar. Í staðinn fyrir að hætta á bátsferðina frá Tyrklandi til grísku eyjanna reyndu þau að fá hæli í Rússlandi. Bátsferðin kostar nefnilega meira en ég borgaði fyrir öll flugin mín – og hún er lífshættuleg. Continue reading

Engar undanþágur, takk

20. 10. 2015, 16:34

Það er frekar niðurdrepandi að hjálpa flóttamönnum að fá hæli á Íslandi. Eina úrræðið sem maður hefur er fjölmiðlaathygli, og sú aðferð hefur einn veikleika. Með því að fara í herferð til að hjálpa einum manni eða einni fjölskyldu að fá hæli, þá hefur innanríkisráðherra iðulega getað skáldað upp afsökun til að gefa “undanþágu” í málinu. Þannig friðþægingar gefa þá hugmynd að afgangur málanna, sem ekki fer í fjölmiðla, fái réttláta málsmeðferð. Það er ekki tilfellið.

Ef farið yrði í fjölmiðla fyrir alla flóttamenn sem eru að fá rangláta meðferð, fyrir alla sem ættu að mega vera hér en er brottvísað, fyrir alla sem geta ekki sofið, reyna að svipta sig lífi, verða holir að innan vegna framkomu íslenskra stjórnvalda gagnvart þeim, þá myndu fréttatímarnir ekki hafa tíma fyrir annað – og sjálfboðaliðarnir myndu brenna út undir eins. Þess vegna þarf að velja og hafna. Maður reynir að hitta á réttan mann á réttum tíma: Einhvern sem er einmitt á dýpsta stað, í áfalli, nýbúinn að fá lokadóminn frá stjórnvöldum. Einhvern sem byrjar að svelta sig því valið stendur hvort eð er milli dauða og hælis. Maður reynir að velja viðkunnalegasta manninn á versta tímapunktinum til að tjá sig við fjölmiðla. Einhvern sem ekki þarf að óttast árásir á fjölskylduna heimafyrir ef hann tjáir sig opinberlega.

Þetta er ógeðsleg og niðurlægjandi starfsaðferð. Hún er bein afleiðing af því að láta réttindi fólks og málsmeðferð ráðast af vinsældum. Svona vinna fyllir alla þá, sem standa í henni, bræði og sjálfsefa. Hún er óréttlát og vond. En hún er það eina sem hefur virkað, því almenningur gerir ekkert í málunum milli fréttatíma.

Ár eftir ár hafa verið haldnir fyrirlestrar, skrifaðar greinar og fluttar ræður á fámennum samstöðufundum um hvernig vandamálið risti dýpra en í stök gölluð mál, hvernig það felist í gervallri afstöðu yfirvalda gagnvart öllum útlendingum. En þetta eru ræður sem eru lesnar af litlum klúbbi fólks, flóttamannanördum, fólki sem ekki þarf að sannfæra um neitt í þessum efnum hvort eð er.

Almenningur sér þessi mál hinsvegar bera hjá einsog stöku rotinn drumb í læk. Og þegar svona mál kemur upp segir innanríkisráðherra: Æ, hér urðu mistök, þetta verður lagað. Og allir hinir, sem ekki komust í fjölmiðla, sitja eftir.

Man einhver eftir afganska stráknum sem svelti sig? Þessum sem fékk sérstaka meðferð eftir tvö ár af höfnunum yfirvalda og skyndilega fjölmiðlaumfjöllun? Hann hætti að borða og drekka því öllum vinum hans hafði verið brottvísað. Ef þeir hefðu skilið íslenska kerfið, þá hefðu þeir rakað sig og greitt á sér hárið, klætt sig í lopapeysu og fundið fréttamann til að taka viðtal af því þegar þeir brotnuðu niður meðan þeir lýstu sögunni sinni. En flóttamenn eru oft hræddir, feimnir, illa tengdir. Og fyrst og fremst, þá halda þeir að Ísland virði mannréttindi. Sú trú endist, í minni reynslu, í sirka þrjá mánuði.

Fólk sem ekki hefur unnið sérlega mikið með flóttamönnum segir að það hljóti að vera gott fólk útum allt: í Útlendingastofnun, í innanríkisráðuneytinu, í lögreglunni, í öllum stofnunum sem sameinast um að gera líf hælisleitenda á Íslandi að lifandi helvíti. Það má vel vera. En það breytir engu um grimmdina sem þetta fólk framleiðir. Og ég verð að segja að mér er hjartanlega sama um þennan góða vilja þeirra sem eyðileggja líf annarra. Eyðileggingin er alveg jafn sár fyrir því, ef ekki sárari.

Þess vegna þykir mér ekkert áfall að forstjóri Útlendingastofnunar segi að mál sýrlensku og albönsku fjölskyldanna verði ekki endurskoðuð, þótt mörgþúsund manns krefjist þess. Svona virkar kerfið, gott fólk, og í þetta skipti fáum við að sjá það. Fínt.

Auðvitað vil ég ekki að fjölskyldurnar fari. Ég vil ekki að neinn fari, því ég tel okkur ekki hafa réttinn til að fleygja fólki úr landi. Sú trú hefur bara styrkst eftir því sem ég hef oftar séð áhrifin sem þannig meðferð hefur á fólk. En ég vil ekki taka þátt í þeim skrípaleik sem nú mun fara í gang, þegar pólitíkusar láta einsog mál þessara fjölskyldna séu svo voðalega sérstök að þau verðskuldi undanþágu. Það á ekki að brjóta reglurnar fyrir þessar fjölskyldur. Það verður að breyta reglunum.

Ný útlendingalög eiga ekki eftir að laga þetta. Grundvallarkrafa, algert lágmark ef tryggja ætti líf og geðheilsu flóttamanna, væri að hætta brottvísunum þar til afstaða yfirvalda í málum þeirra hefur verið yfirfarin. Það yrði að hætta að nota Dyflinnarreglugerðina. Þetta, segja ráðamenn, mun ekki gerast. Hana nú.

Þetta er þulan sem hefur verið kveðin hér á landi, að mestu án áheyrenda, í að minnsta kosti sjö ár. Fólk er ennþá að uppgötva grunnstaðreyndir málanna viku eftir viku. Ég er að reyna að sjá merki þess að núna séu þáttaskil, þótt ég sé ekki vongóður, því það væri hryllilegur dómur yfir landinu ef þetta heldur áfram í mörg ár í viðbót.

Myndina tók Kristinn Magnússon.

Hnattvæðing er lygi

23. 9. 2015, 18:16

Síðustu áratugi hefur okkur verið sagt að þjóðir heimsins séu að gangast undir hnattvæðingu, sem tengi okkur öll saman og geri okkur frjálsari og ríkari. Hundruð þúsunda aðgerðasinna um allan heim hafa gagnrýnt þennan málflutning og sagt hann byggðan á lygi. Þeir hafa verið afskrifaðir í fjölmiðlum sem „andstæðingar hnattvæðingar“, frumstæðir bjánar sem ekkert vita um hagfræði og heiminn. Þessi útúrsnúningur er djarfur, því í raun eru mótmælendurnir mun alþjóðasinnaðri en stofnanirnar sem þeir gagnrýna.

Þetta er sagan af gagnrýnendum „hnattvæðingar“, og hugmyndafræðinni sem þeir aðhyllast. Hreyfing þeirra náði fyrst heimsathygli í Seattle árið 1999, og árangur hennar var umtalsverður. Þótt hreyfingin hafi grotnað niður og hlotið náðarhöggið í Kaupmannahöfn árið 2009 á boðskapur hennar betur við í dag en nokkru sinni. Hann er nefnilega boðskapur frjáls heims, þar sem almenningur ræður sér sjálfur og þar sem enginn bannar fólki að ferðast þangað sem það vill. Continue reading

Rasistavandinn

22. 9. 2015, 15:07

Í bókinni 1984 benti George Orwell á þá tilhneigingu ríkja að kalla augljósa hluti andstæðu sína. Utaná Sannleiksráðuneyti bókarinnar stóð með tröllvöxnu letri:

STRÍÐ ER FRIÐUR.
FRELSI ER ÁNAUÐ.
FÁFRÆÐI ER STYRKUR.

Líkt og í öllum dystópískum skáldsögum var ekki bara verið að lýsa mögulegri og hryllilegri framtíð, heldur ýktri útgáfu af því sem fólk bjó við þá þegar. Stuttu áður en bókin var skrifuð hafði nafni stríðsmálaráðuneytis Bandaríkjanna til dæmis verið breytt í „varnarmálaráðuneytið“. Einsog Orwell lýsti í ritgerðinni Stjórnmál og bókmenntir: „Varnarlaus þorp eru sprengd úr lofti, íbúarnir hraktir í sveitirnar, búféð skotið með vélbyssum, kofar brenndir með íkveikjuskotum: þetta er kallað friðun,“ á ensku pacification. Þetta var skrifað fyrir Víetnamsstríðið, sem einkenndist af svona árásum, sem sýnir annaðhvort fram á spádómsgáfu Orwell eða það hve almenn þessi meðferð saklauss fólks í stríðum er. Continue reading

Hælisleitendur fá 10.800 krónur á mánuði

7. 9. 2015, 14:40

Uppfærsla: Nýlega virðist dreifingu bónuskorta hafa verið hætt hjá sumum, sem fá nú Bónus-peninginn og reiðuféð bæði saman á opið debetkort, samtals 10.700 á viku. Það gera því samtals 42.800 krónur í reiðufé á mánuði.


Reglulega skjóta upp kollinum gamlar fréttir þar sem er fullyrt að hælisleitendur fái mörghundruðþúsund krónur í uppihald á mánuði. Ekkert þeirra sem skrifar þessar lygar getur hafa verið í reglulegum samskiptum við flóttamennina sem um ræðir, enda er fullkomlega augljóst þegar komið er í tómleg herbergi þeirra að þeir hafa nær ekkert fé.

Hið sanna er að flóttamenn fá 2.700 krónur á viku, alls 10.800 á mánuði. Því til viðbótar fá þeir vikulega bónuskort uppá átta þúsund krónur. Það er allt og sumt.

Ríkið borgar auðvitað miklu meira fyrir málsmeðferð þeirra en þetta. Það bannar þeim að vinna, þvingar þá til að þiggja félagsíbúðir, neyðir þá til að reka langt mál gegn Útlendingastofnun, innanríkisráðuneytinu og dómstólum til að sanna rétt sinn á að vera hér. Það borgar líka fyrir lögregluaðgerðir, sem eiga til dæmis að tryggja að flóttamennirnir séu ekki að fela peninga frá ríkinu. Í september 2008 braust lögreglan í mörg heimili flóttamanna og tók þaðan skilríki, peninga og ýmis skjöl sem átti að „gera Útlendingastofnun kleift að hraða úrlausn“ mála þeirra.

Augljóslega kostar þetta allt peninga. En það er ekki flóttamanninum að kenna að vera dreginn í gegnum þetta ferli. Ef honum væri leyft að vera og vinna myndi hann gera Íslendinga ríkari, ekki fátækari. Við myndum spara málskostnaðinn, félagsíbúðirnar og allan rekstrarkostnað Útlendingastofnunar. Flóttamenn myndu fá öryggi og vernd og við myndum spara hundruð milljóna króna á ári.

Hvernig yfirvöld gætu kælt velvild almennings

31. 8. 2015, 23:25

Síðustu daga hafa Íslendingar gefið vísbendingu um hvílíka samhjálp mætti reka hér ef stjórnvöld myndu leyfa. Mörg þúsund manns hafa lofað öllu frá sjálfboðavinnu til heilla húsa svo taka megi á móti fleiri en 50 flóttamönnum næstu tvö árin. Þegar velferðarráðherra bað fólk að hafa samband og bjóða aðstoð, þá bjóst hún varla við þessum fjölda og svona góðum boðum.

Klípan sem ráðherrann er í núna er þessi: hún vill áfram taka flóttamenn inn eftir dýru, hæggengu og flóknu ferli sem takmarkar fjöldann sem ríkið getur sótt hingað. Það ferli tryggir að flóttamaður hafi allt til alls þegar hann kemur til Íslands. Þá þarf hann líka ekki lengur alla þá aðstoð sem fólk býður. En þetta ferli er rándýrt, sem þýðir að ríkið getur ekki tekið við nema handfylli flóttamanna í einu.

Ríkisstjórnin hefur bundið eigin hendur með þessum fáránlegu skilyrðum fyrir komu flóttamanna. Skilyrðin eru óþörf, því Íslendingar hafa fullt að gefa og mikinn vilja til samhjálpar.

Það eru til tvær lausnir við þessari sjálfsköpuðu tregðu stjórnvalda. Ein er að þau hætti að brottvísa flóttamönnum sem koma hingað til lands, en það hefur verið reglan í áraraðir. Yfirvöld þurfa ekki að bjóða flóttamönnum neinar bætur, bara að leyfa þeim að vera og vinna hér. Samhjálp getur brúað það sem uppá vantar.

Hin lausnin er róttækari. Hún er að leyfa nokkur þúsund flóttamönnum að koma hingað til lands – jafnvel sækja þá – og opna svo íþróttahús, gamla spítala og tóma skóla fyrir þeim. Hér væri krafan um samhjálp mikið ríkari. En við gætum tvímælalaust staðið undir henni.

Það sem er líklegra er þó að ekkert af þessu gerist. Nýskipuð ráðherranefnd mun velta vöngum í nokkra daga eða vikur, og leggja svo til að taka aðra handfylli flóttamanna til viðbótar við þessa fimmtíu sem þegar eru á leiðinni. Þetta væri auðvitað pólitískt sjálfsmorð útaf fyrir sig. En svo kæmi snilldin: stór peningasending verður tilkynnt til flóttamannabúða erlendis til að „skapa þessu fólki bærilegan aðbúnað þar“, eins og Björn Bjarnason lagði til um helgina.

Þetta væri í takt við evrópska mannúð, sem gengur útá að fátækt og stríðshrjáð fólk megi vera til, megi þjást, megi „þrauka“ og „sýna þrautseiglu“ – svo lengi sem þau gera það annarsstaðar.

Við megum ekki láta kaupa okkur frá góðu tækifæri til að sýna alvöru samúð. Hún felst ekki í að kasta matarpökkum útum gluggann, heldur að opna dyrnar. Bjóðum flóttafólk velkomið til Íslands!

Hjörð af svörtum sauðum

13. 8. 2015, 15:34

Venjulega tengir maður vegatálma, gerræðislegt áreiti, flokkun fólks eftir þjóðerni og stöðugt lögreglueftirlit við stríð eða alræði. Þessa dagana virðast 200 manna slökunarhátíðir útí sveit vera tilefni líka. Ágangur lögreglunnar á Extreme Chillfest 2015 var þvílíkur að fólk er enn skjálfandi á beinunum. Eftirköst hátíðarinnar; fundur með þolendum og átakanlegar frásagnir, minna frekar á afleiðingar gíslatöku en lögregluaðgerðar.

Því hefur verið haldið fram að engin ofbeldisbrot hafi komið upp á hátíðinni. Hér eru nokkrar lýsingar viðstaddra:

Erlendir ferðamenn voru beðnir um að yfirgefa strætóinn á meðan lögreglan hélt Íslendingunum eftir. Síðan fóru þeir að leita á öllum Íslendingunum. … [Stúlka segir að frænka hennar] hafi verið látin strippa fyrir framan lögregluna … „Það er verið að snúa fólk niður og setja það í handjárn á tjaldsvæðinu!“ … Síðan komu stelpur til okkar upp í miðasölu frá tjaldstæðinu en þær grétu og skulfu af hræðslu vegna þess hvernig lögreglan kom fram. … Farið var inní tjaldið mitt án heimildar og án þess að nokkur hafi verið þar … Við tókum á móti fjölda fólks í áfalli í anddyri hátíðarsvæðisins sem treysti sér ekki aftur á tjaldsvæðið sökum ágangs og valdníðslu lögreglumanna … ég er búin að vera hrædd og stressuð í 34 klukkutíma eða frá því að terrorisminn byrjaði…

Þetta var ekki ofbeldislaus hátíð. Þetta eru óumdeilanlega lýsingar á kynferðisbrotum, líkamsárásum og andlegu ofbeldi – af hálfu lögreglumanna. Continue reading

Fimmti í Aþenu: neðanjarðarkerfið

27. 7. 2015, 22:51

Aþena er full af fornminjum. Þegar Aþeningar grófu fyrir neðanjarðarlest lentu þeir aftur og aftur í því að borinn tættist utaní mörgþúsund ára gömlum húsarústum, kerjum og smápeningum. Munirnir voru grafnir upp settir í glerkassa, til sýnis á lestarstöðvunum.

Grikkir eiga svo mikið af fornminjum að þeir troða þeim allstaðar sem þeir geta.

Grikkir eiga svo mikið af fornminjum að þeir troða þeim allstaðar sem þeir geta.

Meðal smápeninganna voru drökmur, en þær eru einhver elsta silfurmynt heims. Áður en jörðin var troðin fótum Jesú og Sókratesar var mislaglegum myntsláttum falin framleiðsla þeirra, en drakman var notuð í ýmsum myndum allt til síðustu aldamóta, þegar henni var skipt út fyrir evru. Um svipað leyti komu þessar gömlu myntir, draugar fortíðarinnar, uppúr borunum fyrir hina nýju neðanjarðarlest. Continue reading

Þriðji í Aþenu: berfættur á borgarholti

27. 7. 2015, 1:49

Stuttu eftir að ég kláraði síðustu færslu kom karl á svalirnar, hlammaði sér á stól og kveikti sér í sígarettu. Klukkan var fjögur um nótt. “Grískar stelpur eru þær bestu í Evrópu,” sagði hann og horfði dreyminn útí bláinn. Ég var ekki viss hvar ég gæti tekið upp þennan þráð eða hvort ég vildi það, svo ég spurði hver hann væri og hvar hann hefði verið að ferðast. Það kom í ljós að hann var mexíkóskur gjaldeyrisbraskari sem hafði ferðast til “Madríd, Pamplóna, Madríd, Íbísa, Madríd, Parísar, svo hingað” og ætlaði til Rómar daginn eftir.

Á Monastiraki-torgi.

Á Monastiraki-torgi.

Ég spurði hann hvort þetta væri bara klúbbaferð. Neinei, hann væri alveg að horfa á fornminjar líka. Læra menninguna og sjá söguna. Túristarnir í Aþenu virðast ekki meðtaka sérstaklega, eða hafa áhuga á, efnahagslegu ástandi Grikkja. Konan sem sefur fyrir ofan mig í koju vissi hreinlega ekki af efnahagslegum vandamálum hérna. Engu að síður er fjórði hver Grikki atvinnulaus, helmingur ungra Grikkja. Þjóðin er nýbúin að afþakka í atkvæðagreiðslu samninga um niðurskurð sem voru undirritaðir þrátt fyrir það. Kreppa þeirra er alvarlegri en Kreppan mikla 1929. “Já, þeir eru í vondum málum,” sagði Mexíkóbúinn og tók púff af sígarettunni. Ekki hans vandamál. Continue reading