thorgerdur-katrin-a-thjodbraut

Sjálfsmorðsárás frjálslyndisins

8. 10. 2016, 13:58

Þegar ég var ungur og vitlaus(ari) fannst mér óþolandi að sjá konur með farða. Hvers vegna láta þær hafa sig í þetta? sauð í mér. Vissu þær ekki að þetta var ljótt, að mér fannst þetta aumkunarverð tilraun til að ganga í augun á körlum, að þetta væri bara kaldur sviti undirokunar klístraður við andlitið á þeim? Var ekki hægt að stoppa þetta einhvernveginn?

Seinna eignaðist ég svo vinkonu sem farðaði sig ekki, en kom mér á óvart á allt aðra vegu. “Mig langar að eignast börn,” sagði hún við mig. “En ég vil bara geta unnið heima og alið upp börnin án þess að vera litin hornauga.” Ég reyndi að koma henni í skilning um að það væri strangt til tekið ekki bannað, en henni þótti samt sennilegt að hún yrði í vörn ef hún ætlaði, sem ung kona á 21. öld, að vera heimavinnandi húsmóðir.

Það hristir upp í hausnum á manni að lifa á umbrotatímum. Breytt réttindi og væntingar til kynja láta mann hugsa, stundum oft á dag, um réttu viðbrögðin við aðstæðum sem áður fyrr voru jafn sjálfvirk og náttúrulögmálin. Það er spennandi að lifa í svona róti, en maður treður þá oft útfyrir hin nýju og lausmótuðu norm. Einhverjir sakna eftilvill gömlu góðu daganna, þegar allt var skilgreint og skorðað.

Nokkur ár hafa liðið síðan ég gekk rauður af bræði niður Laugaveginn og horfði á málverkin í andlitum íslenskra kvenna. Í millitíðinni hefur reiði mín kólnað og ég hef náð að temja mér það viðhorf sem mestu skiptir gagnvart vali annarra: að vera sama. Það skiptir engu hvort andlit stúlkna séu máluð af dauðum krumlum feðraveldisins eða af frjálsum vilja manneskjunnar sjálfrar. Ef maður vill “frelsa” konur, af botnlausri föðurhyggju gagnvart þeim, mætti eitra rætur þess hugarfars sem gerir líkama kvenna að verkfæri karla, eða eign samfélagsins. En konurnar sjálfar ætti maður að láta í friði.

Persónuleg frelsun er nefnilega persónuleg barátta. Við ættum öll að berjast gegn samfélagslegum höftum á þá baráttu, en hún sjálf þarf alltaf að koma innanfrá, úr hverju okkar fyrir sig. Þetta eru sjálfljós sannindi, og ég myndi ekki taka þetta fram ef þetta væri almennt viðurkennt. En á þessu hafa nýlega birst ljótar undantekningar, og það undir flaggi frelsunar þeirra sem ríkið vill skipta sér af. Hegðun múslima í Evrópu þykir nú til dags almannahagsmunir. Og eins og svo oft áður er það útlit og klæðaburður kvenna sem fær sérstaka athygli.

“Það hefur ekkert með frjálslyndi að gera að vera á móti því að banna búrkur,” sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nýverið. “Ég er enn sannfærð um þetta, eftir að hafa lesið ótal bækur um femínisma, íslam og annað og ekki síður vegna þeirra pósta sem ég fékk í kjölfar umræðunnar um þetta. Konur sem voru múhameðstrúar sendu mér tölvupósta og tóku eindregið undir það sem ég var að segja,” útskýrði hún.

Búrkur eru sannarlega kúgunartæki, einsog konurnar sem sendu Þorgerði tölvupóst bentu á: “Þær sögðu búrkur ekki samræmast íslam, að búrkurnar byggðu á eftiráskýringu karla í múhameðstrúarheiminum”. Þetta er skýrt, og ég deili ekki á það. Hlutgerving og stjórnun kvenna er ógeðsleg. Frelsun undan því er nauðsynleg. En hvernig á slík frelsun sér stað?

Hér hrasar frjálslyndi Þorgerðar um sjálft sig. Í stað þess að binda enda á kúgun kvenna af hálfu karla, eða samfélagsins, á að setja lög um fötin sem þau klæðast. Til að vernda konur fyrir að þær séu klæddar í búrkur á samfélagið að klæða þær úr þeim.

Ef til vill er Þorgerði ljóst að það er ekki nóg að vernda konur fyrir körlum sínum, því þær sem helst þyrftu hjálp myndu sjálfviljugar klæða sig í búrkuna. Ef lagaleg pressa myndi vaxa á þær að klæða sig “einsog í Róm”, þá myndu þær ef til vill bara vera heima í staðinn.

Í öllu falli er hugmyndafræðin að baki klæðalöggjöf vond. Föt eru tjáning manneskjunnar sem klæðist þeim, og vernd gegn ofbeldi og þvingun er besti ramminn sem við getum skaffað fólki til að þroska með sér sem frjálsasta tjáningu og klæðaburð.

Það er vinsæl hugmynd nú til dags að “vernda” frjálslyndið okkar með því að banna hugmyndir sem okkur finnst ógnandi. En slík vernd drekkir frjálslyndinu í eigin svita og tárum. Það þrífst aðeins með því að vernda okkur frá ofbeldi og frá afskiptum samfélagsins af okkar einkamálum, svo við höfum ráðrúm til að frelsa okkur sjálf.

Scarecrow_in_field-001

Upp með hendur eða ég… mótmæli?

5. 5. 2016, 11:14

Enginn finnur lyktina heima hjá sér fyrr en eftir langt ferðalag. Stundum er þó nóg að fá bara póstkort til útlanda til að minningarnar hellist yfir mann. Eftir sex mánaða fjarveru fékk ég þannig póstkort frá íslensku samfélagi. Einsog margir í þessum heimi hef ég fylgst með pólitískri niðurlægingu landsmanna og friðsömum Austurvallarmótmælum úr öruggri fjarlægð síðustu vikur. Almannaviljinn er tjáður aftur og aftur í þessum líkgöngum lýðræðisins, mótmælum sem ríkisstjórnin hefur oft tilkynnt að hún virði að vettugi. Úr þessari pattstöðu spratt ekki harðari mótmælastefna, heldur uppgjafartónn. Síðan rofaði til. Róttæklingar boðuðu til aðgerða fyrir utan heimili Bjarna Ben, og rökræðan sem fylgdi minnti mig á klisjurnar, stöðnunina og dugleysið sem einkennir íslenska mótmælamenningu.

Rökræðan var að sjálfsögðu um “eðlileg mörk mótmæla”, hin goðsagnakenndu landamæri handan hverra liggja ægifen rifrilda og ósættis, myrkviður reiðinnar, þar sem fólk er ekki krúttlegt og brosandi heldur með grímur yfir forugum kjaftinum, molotov-bombur í höndunum og óeirðir á heilanum – í stuttu máli, landamærin milli Íslands og útlanda.

Skipuleggjendur hvöttu ekki til molotov-notkunar eða óeirða, bara ögrandi staðsetningar. Hermenn frjálslyndis stukku til. Athugasemdir flugu, lækum var dritað yfir vígvöllinn, skipuleggjendur voru kæfðir í kristilegri góðvild, hið persónulega og pólitíska var klofið opinberlega með fallöxi. “Sama hvernig farið er með okkur,” hrópaði lýðurinn einum rómi, svo steinveggir þingsins skulfu, “sama hvernig óskir okkar eru fótum troðnar og vilji okkar hunsaður, aldrei skulum við trufla heimilisfrið stjórnmálamanns!”

Nú ætla ég ekki að sökkva sjálfur í lamandi kviksyndi þessarar fáránlegu rökræðu eða verja augnabliki meir í þessa sorglegu áminningu um holdsveika stjórnmálaorðræðu Íslands. Heimilisfriður Bjarna Ben skiptir einfaldlega ekki máli, altént ekki umfram heimilisfrið þeirra sem þurfa að þola hans löggjöf og skattlagningu. Það sem skiptir máli, það sem við þurfum að eyða púðri í, er samfélagið í heild og reglurnar sem það vinnur eftir. Yfirstétt landsins hefur búið sér til sinn eigin persónulega ríkissjóð við strendur Karíbahafsins, einkavætt arð og náttúruauð lýðs og lands og grafið hann fimmtán skref suður, þrettán austur frá einhverju pálmatré á Panama. Það er furðulegt, í ljósi þess hve gersamlega hefðbundnar mótmælaaðferðir hafa mislukkast, að Íslendingar byrji að rífast um nákvæmlega hversu mikla samúð Bjarni Ben græðir á starfsaðferðum eina róttæklingahópsins á landinu. Ég las þessar samræður agndofa. Er fólk svo óvant mótmælum að það fellir tár, fyrir hönd strengjabrúðu stjórnarformanna, yfir þessu smáræði?

Kannski er ekki við öðru að búast í landi þar sem beiting táragass þykir sögulegur viðburður og grímuklæddir mótmælendur sirkusdýr. Friðsældin og kyrrðin eru sómi Íslands, sverð þess og skjöldur, og ekkert má útaf bregða svo við týnum þeim ekki. Öllu skal svarað með friðsælum mótmælum á Austurvelli, Facebook-færslu eða skoðanagrein í blaðið. Þannig er pólitík. Við tölum meðan stjórnmálamenn gera.

Þetta ástand hefur valdið þeim fræðimönnum vandræðum sem álíta lýðræði felast í almennri þátttöku almennings. Það ástand kalla þeir “þátttökulýðræði”, öfugt við áhorfslýðræðið sem við höfum. Við höfum verið þvinguð til að framselja sjálfræði okkar í hendur nokkurra flokksleiðtoga sem kosninga á milli segja okkur kinnroðalaust að þeir eigi embættin sem þeir úthlutuðu sér og undirmönnum sínum. Almenningur má í fjögur ár éta það sem á Austurvelli frýs, þar til andi frelsisins sveipar samfélagið og vilji þess mótast í einum krossi sem fleygt er í legstein lýðræðisins, kjörkassann, þar sem virk stjórnmálaleg þátttaka borgarans – mikilfengleg sem hún er! – byrjar og endar.

Þetta dýrðlega kerfi stendur samfélagið nú vörð um af ofsa. Þegar Bjarni Ben útskýrir fyrir Íslendingum í þúsundasta skipti að vilji þeirra komi stjórnun landsins ekki við æpa þeir, þrútnir af reiði: “Kannski kjósum við þá bara Pírata!” En svo er hikað og tónninn mildast. “Samt ekki fyrr en þú leyfir okkur!” Síðan, þegar hann haggast ekki í embætti eftir margar vikur af friðsömum reiðiöskrum er fussað, hausinn hristur og farið heim.

Þegar stjórnmálaþátttaka almennings er á þennan veg er til auðveld leið að halda völdum: að vinna áfram í hljóði. Þessa list kunna fáir íslenskir stjórnmálamenn, enda eru þeir með eindæmum hörundsárir. Þess vegna þykir með ólíkindum þegar einhver nær góðum tökum á þögninni. Bjarni Ben kunni þetta, en honum hefur brugðist bogalistin síðustu vikur. Almennt virðast þó Sjálfstæðismenn betri í þessu en Framsóknarmenn, sem kann að skýra hvernig krísur sægræna bandalagsins eiga það til klínast á Framsókn. Það þarf ekki að minna nokkurn mann á hina hrollvekjandi fyrstu mánuði þessarar ríkisstjórnar, þegar nýkjörnir þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins ruku í stjórn einsog beljur á tún. Fá bönd, lagaleg, siðferðileg eða pólitísk, virtust geta haldið þeim, og fá þeirra slettu úr klaufum einsog núverandi forsætisráðherra. í staðinn fyrir að laga lekar pípur samfélagsins í hljóði og beina þeim í vasa vina sinna, einsog kollegar þeirra úr Sjálfstæðisflokknum gerðu svo vel, þá urðu þau að segja almenningi á meðan hvað þetta væri snjallt og almúginn vitlaus og vanþakklátur.

Þótt köld og yfirveguð valdníðsla á borð við lekamálið, Orkumálið og eilífa vinagreiða Bjarna Ben geti verið mikið hættulegri en klúðurslegur groddaskapur Framsóknarmanna, þá heldur sá fyrrnefndi betur velli, einmitt því fagmennska og þagmælska virkar betur á kjósendur en aulaskapur. Það var ofbeldisfullt og óreiðukennt að sjá Fiskistofu hrifsaða frá starfsmönnum af verðandi forsætisráðherra landsins. Hinsvegar virðist engu breyta hverslags beinskiptingu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins tengja í íslenska stjórnsýslu fyrir velgjörðamenn sína, því það hefur allt slétt og fellt útlit hins löglega.

Einmitt þessi dýrkun á formlegheitum, frekar en bláköldum raunveruleika, eyðileggur tækifæri almennings til að fá rödd sína heyrða. Ef öll óánægja er tjáð með friðsamlegum skólabókarmótmælum á Austurvelli verða þau eingöngu táknræn, meðan valdbeiting og valdníðsla stjórnmálamanna er raunveruleg.

Vald er til meðan fólk leyfir því að viðgangast, meðan við virðum rétt stjórnmálamanna til að eiga embættin sín og hunsa vilja okkar. Þeir hafa vald því við hlustum og hlýðum. Að sama skapi höfum við ekki vald, því ríkisstjórnin hlustar ekki og hlýðir ekki. Það er okkar að breyta því.

a1

Það er ýmist ofskynjað eða vanskynjað

23. 4. 2016, 19:44

Facebook-lögreglan í Reykjavík hefur undanfarið “verið að fá til [sín]” fólk undir áhrifum LSD sem hefur “enga sögu af óreglu” og stundar meira að segja “skóla og eða vinnu”. Þessa einstaklinga segir hún haldna “þeim misskilningi að efnið sé svo til hættulaust” — þetta venjulega en vímaða fólk sé heppið ef það nær að “lenda í fangaklefa yfir nótt”, enda sé það “illviðráðanlegt, haldið miklum ranghugmyndum um sig og eða umhverfi sitt, með gríðarlega hátt sársaukaþol og verulega hættulegt umhverfi sínu en þó fyrst og fremst sjálfu sér.”

Ég hef séð margt fólk á LSD og þekki hugarheim þess, enda hef ég reynt það og skyld efni sjálfur. Ég gerði það að vel athuguðu máli, í góðum aðstæðum, og prísa mig sælan að hafa ekki hitt lögregluna á meðan. Til að skilja hvers vegna ég hefði örugglega verið “illviðráðanlegur” ef það hefði gerst krefst skilnings á vímunni sem um ræðir; skilnings sem lögregluna virðist sárskorta. Fólk í ofskynjunarvímu er í mjög viðkvæmu hugarástandi, og ég myndi ekki óska mínum versta óvini að vera handtekinn og læstur inni þegar þannig stæði á honum.

Víma
Mér er fyllilega ljóst að skyldmenni mín, jafnvel fólk sem þekkir mig ekki neitt, er víst til að súpa hveljur við tilhugsunina að almennt óbrjálaður maður (einsog ég held að ég sé) gæti hugsað sér aðra eins vitleysu og að taka LSD. Ég veit. Einu sinni vissi ég ekkert um vímuefni heldur, nema það sem stóð á skefjalausum áróðursveggspjöldum í Menntaskólanum að Laugarvatni. Þau voru sirka á þá leið að ofskynjunarlyf grauti í manni heilann og séu brattur óklífanlegur hjalli niður í djúp geðrofs og vitfirru. Ég tók þessi skilaboð alvarlega í einhvern tíma, en það sannaðist vel nokkrum árum síðar hver megingallinn við svona framsetningu er: ef maður kynnist áhrifum efnanna sjálfur, og sér hve fjarri þau eru ímyndinni sem maður hefur, þá er hætt við að maður missi alla trú á áróðrinum. Líka þeim sannleikskornum sem gætu verið skynsamlegar viðvaranir.

Mér til lukku fann ég raunveruleikamiðað yfirlit yfir áhrif vímuefna áður en ég prófaði þau. Þótt vímustefna ríkisins gangi svo langt að nær allar rannsóknir á ofskynjunarlyfjum eru bannaðar, þá eru einhverjar til. Og þær gefa allt aðra mynd en áróður í skólum.

LSD er ekki vanabindandi — það er þvert á móti ávanalosandi. Ofskynjunarlyf eru líklegri til að draga úr þunglyndi og sjálfsmorðshugleiðingum en að ýta undir þau. Þau geta valdið geðtrufli síðar á lífsleiðinni, en samanborið við önnur vímuefni er skaði þeirra hverfandi.

Lögreglan segir nú við þá sem “hafa hugleitt” að taka LSD að það sé “stórhættulegt efni”. Þetta er satt, á sama hátt og er satt að áfengi getur valdið andstoppi, morðæði og dauða. Það væri villandi, gagnslaust fyrir þá sem vilja neyta áfengis skynsamlega og skilaboðin yrðu hundsuð af flestum sem hafa einhverja reynslu af efninu.

Þegar ekki er farið af samúð og skilningi í kynningu á vímuefnum, heldur af ofbeldisfullri refsigirnd eða óumbeðinni og miskunnarlausri hjálpsemi sem felst í að fangelsa mann meðan á vímunni stendur, þá er ekki annars að vænta en að þú skapir tvo hópa: englana sem aldrei snerta á vímuefnum (nema áfengi og tóbaki, sem eru undanskilin þessum áróðursherferðum) og djöflana sem hundsa ofbeldisfulla ráðgjöfina.

Svo er bara að prófa
Mér sýndist á minni yfirferð að mesta hættan við að taka LSD væri tvíþætt. Í fyrsta lagi væri vafasamt að prófa það hefði maður andlega kvilla. Allt í góðu þar. Í öðru lagi væri bráðmikilvægt að hafa öruggt, traustverðugt, vinveitt umhverfi.

Það er skiljanlegt að fólk prófi stundum ofskynjunarefni án þess að hafa gengið úr skugga um þessa tvo hluti, á sama hátt og er skiljanlegt hvernig unglingar byrja að drekka. Það er þeim mun mikilvægara (og miklu mikilvægara en í tilfelli áfengis) að nálgast ókunnugt fólk sem ofskynjar af vinsemd og skilningi.

Skynjun manns á LSD er mjög skýr og beinskeytt, ómenguð af hugtökum. Hún er að því og mörgu öðru leyti barnsleg. Ólíklegustu hlutir vekja áhuga manns, lögmál heimsins þversnúast og margbrotna í mynda- og hugsanaflóði, veröldin geislar af kæti eða fellur saman í tvívídd eða er öll núna. Smæstu hlutir geta orðið að nafla veraldar, minnsta áreiti að sögulegum viðburði, smæsta misfella í samræðum yfirþyrmandi. Maður verður mjög næmur fyrir stressi og það getur algerlega gert útaf við mann að eiga í krefjandi samskiptum. “Vond tripp” geta farið í gang útaf ógnvænlegum hugmyndum sem maður bítur í sig, eða útaf skuggalegum aðstæðum sem maður er settur í. Það er hægt að vinna sig úr spíralhugsun á vondu LSD-trippi heima í stofu, til dæmis með því að fara út í labbitúr eða hringja í vin, en þessir möguleikar eru ekki í boði í fangaklefa. Þar er maður dæmdur til að kveljast.

Sjálfsuppfyllandi viðvörun
Þegar lögreglan álítur fólk á ofskynjunarlyfjum vera hættulegt, þá leiðir nálgun þeirra sjálfkrafa af sér hættulegar aðstæður — fyrir geðheilbrigði vímaða fólksins. Í vímu viltu síst þurfa að útskýra fyrir tortryggnum og ókunnugum mönnum hvað þú ert að gera. Ef þeir eru í þokkabót einkennisklæddir, með leyfi til að beita valdi, og álíta þig glæpamann, þá er voðinn vís. Þegar hún segir að hún telji fólk í þessu ástandi “verulega hættulegt umhverfi sínu”, þá get ég ekki ímyndað mér hverslags samskipti hún leiðir það í, hvað þá hvílíka martröð þau skapa í huga þess sem er í vímu. Facebook-lögreglan bætir við að eftir slíkar hamfarir sé það að “lenda í fangaklefa yfir nótt”, fyrir tætta sálina sem eftir stendur, “langt í frá það versta sem gæti komið fyrir.” Kannski. En það er fjári nálægt.

Ásættanlegur fórnarkostnaður

30. 3. 2016, 14:10

Þann 18. mars tókst Evrópu að gera samkomulag við Tyrkland um að brottvísa þangað öllum flóttamönnum sem koma þaðan. Allir yrðu handteknir við komu til Grikklands, settir í fangabúðir, fengju einhverskonar þykjustutækifæri til hælisumsóknar og yrðu svo sendir burtu. Ferlið átti að byrja innan tveggja sólarhringa og brottvísanirnar eiga að hefjast fjórða apríl. Allt á þetta að standast alþjóðalög.

Þegar ég frétti af þessu brjálæðislega og óframkvæmanlega samkomulagi var ég djúpt í Tyrklandi, nálægt sýrlensku landamærunum, að athuga hvernig aðstæður þar eru fyrir flóttamennn. Almennt eru þær, svo ég orði það glæfralega vægt, slæmar. Þær minna á aðstæður evrópskra verkamanna á myrkari köflum iðnbyltingarinnar. Í stórborgunum slíta flóttamenn út lífum sínum við saumavélar. Í sveitunum þræla þeir á ökrum meðan birta leyfir og fá að búa í tjaldbúðum í staðinn. Atvinnuréttindi eru lúxus sem fæstir hafa, og því er svínað á þeim, útborgun launa dregin eða skert og fólki gert að senda tólf ára krakka sína í verksmiðjur og á akra.

Heimili flóttamanna utanvið Torbali í Vestur-Tyrklandi.

Heimili flóttamanna utanvið Torbali í Vestur-Tyrklandi.

Það er til marks um fáránlega bjartsýni evrópskra stjórnvalda, eða einfaldlega örvæntingarfullt skeytingarleysi þeirra, að ég náði ekki einusinni að koma mér frá Tyrklandi til grískrar eyju – Kíos – á þeim tíma sem sambandið hafði gefið sér til að hefja brottvísunaráætlunina. Þó fólst í þeirri áætlun að gerbylta hælisumsóknarkerfum og flóttamannamóttöku tveggja landa.

Ég settist upp í bíl á hádegi laugardagsins 19. mars, daginn eftir að samkomulagið var undirritað, og keyrði í fimmtán tíma samfleytt til að ná ferju til Grikklands. Þegar ég kom að landi í Kíos voru fyrstu flóttamennirnir sem yrðu undirseldir nýju áætluninni sitjandi á bryggjunni. Þeim var smalað í rútu og var svo ekið í fangelsi. Þeir voru rukkaðir um þrjár evrur fyrir farið.

Gríska landhelgisgæslan flytur flóttamenn að bryggju sunnudagsmorguninn 20. mars.

Gríska landhelgisgæslan flytur flóttamenn að bryggju sunnudagsmorguninn 20. mars.

Það kom fljótt á daginn að enginn vissi hvað væri að ske og hvernig ætti að bregðast við. Lögreglan hafði ekki skýr fyrirmæli, önnur en að fangelsa fólkið við komu. Sjálfboðaliðum og blaðamönnum var bara hleypt nálægt flóttamönnunum ef lögreglumönnum sýndist svo. Spánsk blaðakona sat fyrir utan hliðið að bryggjunni og lét sér leiðast. Súpa var gefin á bryggjunni og ekki var alveg ljóst hvað myndi gerast um kvöldið, hver myndi gefa fólkinu mat þá, og hvort maður mætti yfirleitt koma í fangelsið að hitta þá.

Flóttamenn bíða eftir að vera ekið í fangelsi.

Flóttamenn bíða eftir að vera ekið í fangelsi.

Eitt umræðuefni hefur elt alla sjálfboðaliða sem ég hef hitt í vetur: Að hve miklu leyti erum við að styðja kerfi sem við viljum brjóta niður með því að veita þessa aðstoð? Að hve miklu leyti ætti maður að vinna pólitískt, að hve miklu leyti sem ópólitískur hjálparstarfsmaður? Er yfirleitt hægt að vera ópólitískur þegar maður hjálpar flóttamönnum sem evrópskir stjórnmálamenn reyna gagngert að hrinda úr álfunni?

Þegar kemur að fangelsun flóttamanna fer mörgum að þykja þetta aðkallandi spurning. Ég var á eyjunni Leros þegar varðhaldsbúðir fyrir flóttamenn voru opnaðar þar í febrúarlok, og herforinginn sem rak búðirnar kallaði sjálfboðaliða á fund. Hann hafði opnað búðirnar án þess að láta þá vita og án þess að velta sérstaklega fyrir sér hvaðan maturinn ætti að koma. Enginn mátti yfirgefa þær. “Hvað getið þið boðið?” spurði hann sjálfboðaliðana. Og vel að merkja, bætti hann við, það þyrfti líka einhver að þrífa ruslið.

DSC_0284

Flóttamannafangelsið á Leros.

Mér til mikillar armæðu urðu sjálfboðaliðarnir einfaldlega við þessum fáránlegu kröfum. Þarna hefðu þeir umsvifalaust og án afdráttar átt að krefjast þess að búðirnar yrðu opnar ef ekki væri hægt að reka þær almennilega sem varðhaldsbúðir. Þrjár fínar og mannúðlegar flóttamannabúðir voru fyrir á eyjunni sem gátu vel sinnt öllum sem komu. En það tók sjálfboðaliðana nokkrar vikur að fá herinn til að fjármagna og þrífa sitt eigið fangelsi.

En nú er ástandið mun verra. Í febrúarlok vissu flóttamennirnir í varðhaldsbúðunum þó að þeim yrði að lokum sleppt og leyft að fara á meginlandið. Nú eru þeir í fangelsi, og þeim verður brottvísað.

Flóttamaður fangelsaður í Vial biður um ráð með Google translate.

Flóttamaður fangelsaður í Vial biður um ráð.

Á mánudagsmorguninn, degi eftir að samkomulagið við Tyrkland gekk í gildi, fór ég í Vial – flóttamannafangelsið á Kíos – með aktívistum úr fjölþjóðlegri hústöku á eyjunni. Við keyrðum að Vial, sem er staðsett nokkra kílómetra frá höfuðstað Kíos, löbbuðum að girðingunni sem liggur meðfram sveitaveginum og spjölluðum við fólkið fyrir innan. Fangarnir voru örvæntingarfullir, vonsviknir og reiðir.

Nokkur okkar gáfu þeim dót yfir og gegnum girðinguna. Dreifing matar gegnum girðingu er alltaf óréttlát og handahófskennd. Hreinlætisvörur og kex fóru til þeirra sem náðu að grípa það.

Hreinlætisvörur gefnar inní fangelsið.

Hreinlætisvörur gefnar inní fangelsið.

Súpueldhúsin á eyjunni hafa fengið að kynnast þessu vandamáli af hörku. Þau sóttu um leyfi hjá lögreglunni til að gefa flóttamönnunum mat og eru undirsett skipunum hennar. Fyrstu dagana urðu þau að gefa matinn gegnum vírana. Slagsmál upphófust á miðvikudaginn 23. mars vegna ónógs matar og óréttlátrar dreifingar. Auðvitað er ekki beint við súpueldhúsin að sakast að ná ekki að gefa mat almennilega í svona fáránlegum aðstæðum, en enn og aftur: Þau hefðu átt að krefjast þess að mega fara inn eða að búðirnar yrðu opnar.

Fangelsuðum flóttamönnum í Vial, Chios, gefinn matur gegnum girðinguna.

Matur gefinn gegnum girðingu. Myndband hér.

Slagsmálin á miðvikudaginn drógust í hálftíma, því allir – lögreglan meðtalin – höfðu flúið úr fangelsinu. Bara flóttamennir, menn konur og börn, voru læstir inni. Fimm slösuðust.

Mótmæli eru haldin daglega í búðunum. Við höfum safnað nokkrum símanúmerum hjá föngunum og sögðum þeim frá því í fyrradag að aðstoðarráðherra væri á leið til Vial að skoða aðstæður. Mótmælin voru svo hávær að þegar hæstvirtur gesturinn var tekinn í viðtal úti á götu heyrðist betur í mótmælendunum en honum. Þeir kölluðu eftir frelsi og kröfðust þess að vera ekki brottvísað til Tyrklands.

Við höfum heimsótt búðirnar hér um bil daglega, en næstum alltaf verið skipað af lögreglu að yfirgefa staðinn. Einn daginn voru tveir hópar fluttir á lögreglustöð og yfirheyrðir í fimm tíma. Annan dag voru skilríkjanúmer allra sem höfðu heimsótt fangelsið skráð.

Lund fólks breytist þegar það bíður í svona aðstæðum dögum saman. Hrá vonbrigðin og bræðin frá fyrstu tveimur dögunum hefur vikið fyrir yfirvegaðri og ígrundaðri reiði. Mótmæli eru haldin daglega.

Þegar öllu þessu fólki hefur verið brottvísað þætti mér forvitnilegt að heyra hvernig þeir lýsa ótrúlegri eigingirni og sjálfhverfu Evrópu. Orðspor heimsálfunnar okkar í þriðja heiminum er ekki glæsilegt. Stjórnmálamenn hafa nú gert sitt allrabesta til að sverta það rækilega. Þetta er gert viljandi: Það á að fæla aðra flóttamenn frá því að koma hingað. Til þess er fangelsun barna ásættanlegur fórnarkostnaður – til að brjóta ein réttindi sættir Evrópa sig við að brjóta önnur. Það hefur tekið vel yfir viku að koma hælisumsóknarferlinu í gang. Það átti að byrja í dag, en ekki bólar á því. Brottvísanir eiga að hefjast á mánudaginn. Það sannast nú sem aldrei fyrr að ef ekki er barist fyrir réttindum, þá eru þau ekki til.

Örugglega ekki þitt vandamál

29. 3. 2016, 17:03

Í dag talaði ég við sex ára stelpu í evrópsku fangelsi. Það er hryllilegt. En hafðu engar áhyggjur. Það er ekki þitt vandamál.

Hún er þar því Evrópusambandið ákvað fyrir nokkrum dögum að brottvísa öllum flóttamönnum sem koma til Evrópu. Þeir geta þá allir farið til Tyrklands, sem fær pólitíska greiða og marga milljarða fyrir. Þannig á að leysa flóttamannavandann. Þegar flóttamennirnir eru í Tyrklandi, þá eru þeir ekki okkar vandamál.

Stelpan heitir Zahra og hún er stödd í fangelsinu Vial á grísku eyjunni Kíos. Einsog krakkar eiga til, þá leikur hún sér. Nokkrir sjálfboðaliðar sem gefa fangelsinu starf sitt segja það til marks um að henni líði vel þar. Þeim finnst mikilvægt að sjá stundum bros í augum fanganna. Sjálfboðaliðarnir koma með blöðrur og súpu og þegar lögreglan leyfir þeim fara þeir inn í fangelsið að leika. Annars gefa þeir flóttafólkinu mat gegnum rimlana. Sjálfboðaliðarnir rabba um það á kvöldin, þegar þeir drekka bjór á veröndinni, hvað gæti orðið um flóttamennina. En það er ekki þeirra vandamál. Þeir eru þarna til að búa til bros.

Fangelsuðum flóttamönnum í Vial, Chios, gefinn matur gegnum girðinguna.

Fangelsuðum flóttamönnum í Vial, Chios, gefinn matur gegnum girðingu. Myndband hér.

Fólkið sem ekki vinnur í fangelsinu, fólkið sem neitar að gefa því vinnu sína og styðja rekstur þess, er rekið burt af lögreglumönnum ef það talar við fangana.

Zahra hló þegar ég reyndi að læra nafnið hennar og tveggja vinkvenna hennar meðan ég hafði auga með því hvort lögreglan væri að koma. Þarna stóð ég, fáránlegi hvíti maðurinn sem talaði ekki arabísku, frjáls fyrir utan rimlana, að reyna að brjóta múrinn sem átti að byggja milli pappírslausa fólksins sem má ekki vera hér og Evrópubúa. Ég hló með og afsakaði mig vandræðalega og labbaði svo burt. Þær veifuðu bless og tóku svo til við að sarga gegnum rimlana með plasthníf.

Flóttamenn verða að vera góðir. Þá rennir í grun að Evrópa sé hrædd við þá, að þeir þurfi að hegða sér sérstaklega vel. Þeir eru alltaf á reynslulausn. En stundum verða fangarnir sem ég tala við reiðir. “Ég hef rétt á því!” sagði einn, og missti næstum stjórn á skapinu sínu. Börnin hans eru í Þýskalandi, en hann er fastur í fangelsi á grískri eyju. “Ég hef rétt á að fara þangað!”

“Veistu hvað þeir segja hérna?” spurði einn fangi mig í morgun. “Þeir segja að Evrópa, almennt séð, vilji ekki hafa okkur. Er það satt?”

Það er erfitt að reikna út hver er að brjóta svona á flóttamönnunum. Hver er það sem fangelsaði þennan mann, sem fangelsaði pabbann, sem fangelsaði Zöhru, alla þá fimmtánhundruð flóttamenn sem eru núna innan þessara rimla? Og hver er það sem brottvísar þeim? Lögreglumennirnir? Angela Merkel? Er brottvísun líkamleg eða frumspekileg? Felst valdbeiting í að gefa skipanir? Felst hún í að draga öskrandi flóttamann í brottvísunarferju, eða í að skapa kerfið sem leiðir brottvísunina af sér? Kemur skipunin frá stjórnmálamönnum eða almenningi? Og hver viðheldur kerfinu? Hverjum er þetta að kenna? Öllum? Engum?

Þetta er sennilega ekki þér að kenna. Þú gætir sennilega ekki gert neitt í þessu. En þegar allt er talið, þegar ábyrgð okkar allra er metin, þegar athæfi okkar og samfélag er metið – og stjórnmálin með – er ég hræddur um að við séum orsökin fyrir þessu. En að sama skapi erum við líka fær um að breyta því, og því fylgir ábyrgð. Þetta er vandamálið okkar, og það er okkar að leysa það.

Ekki nógu dauðvona

29. 12. 2015, 18:11

Mér finnst gaman að ferðast. Í haust fór ég til dæmis til Tælands í nokkrar vikur og þaðan til Grikklands fyrir minna en hundrað þúsund krónur. Á leiðinni fékk ég heitan mat, snertiskjá með bíómyndum og tölvuleikjum og fallegt útsýni yfir asísku fjallagarðana. Ég gisti í fyrrverandi reykingaskýli á Sheremetyevo-flugvelli í Moskvu og labbaði beint gegnum öll breiðu og greiðu EEA Passengers hliðin.

Þar sem eitt sinn var reykingaskýli er nú tjaldstæði.

Þar sem eitt sinn var reykingaskýli er nú tjaldstæði.

Í haust bjó kúrdísk fjölskylda á vindsæng í þessu skýli og lifði á ölmusu í einn og hálfan mánuð. Þau höfðu verið í Sýrlandi og Írak áður en þau flúðu stríðið þar. Í staðinn fyrir að hætta á bátsferðina frá Tyrklandi til grísku eyjanna reyndu þau að fá hæli í Rússlandi. Bátsferðin kostar nefnilega meira en ég borgaði fyrir öll flugin mín – og hún er lífshættuleg. Continue reading

Frjálst flæði lögreglumanna að landamærum

Hnattvæðing er lygi

23. 9. 2015, 18:16

Síðustu áratugi hefur okkur verið sagt að þjóðir heimsins séu að gangast undir hnattvæðingu, sem tengi okkur öll saman og geri okkur frjálsari og ríkari. Hundruð þúsunda aðgerðasinna um allan heim hafa gagnrýnt þennan málflutning og sagt hann byggðan á lygi. Þeir hafa verið afskrifaðir í fjölmiðlum sem „andstæðingar hnattvæðingar“, frumstæðir bjánar sem ekkert vita um hagfræði og heiminn. Þessi útúrsnúningur er djarfur, því í raun eru mótmælendurnir mun alþjóðasinnaðri en stofnanirnar sem þeir gagnrýna.

Þetta er sagan af gagnrýnendum „hnattvæðingar“, og hugmyndafræðinni sem þeir aðhyllast. Hreyfing þeirra náði fyrst heimsathygli í Seattle árið 1999, og árangur hennar var umtalsverður. Þótt hreyfingin hafi grotnað niður og hlotið náðarhöggið í Kaupmannahöfn árið 2009 á boðskapur hennar betur við í dag en nokkru sinni. Hann er nefnilega boðskapur frjáls heims, þar sem almenningur ræður sér sjálfur og þar sem enginn bannar fólki að ferðast þangað sem það vill. Continue reading

Rasísk viðhorf leiða af sér rasíska stjórnsýslu.

Rasistavandinn

22. 9. 2015, 15:07

Í bókinni 1984 benti George Orwell á þá tilhneigingu ríkja að kalla augljósa hluti andstæðu sína. Utaná Sannleiksráðuneyti bókarinnar stóð með tröllvöxnu letri:

STRÍÐ ER FRIÐUR.
FRELSI ER ÁNAUÐ.
FÁFRÆÐI ER STYRKUR.

Líkt og í öllum dystópískum skáldsögum var ekki bara verið að lýsa mögulegri og hryllilegri framtíð, heldur ýktri útgáfu af því sem fólk bjó við þá þegar. Stuttu áður en bókin var skrifuð hafði nafni stríðsmálaráðuneytis Bandaríkjanna til dæmis verið breytt í „varnarmálaráðuneytið“. Einsog Orwell lýsti í ritgerðinni Stjórnmál og bókmenntir: „Varnarlaus þorp eru sprengd úr lofti, íbúarnir hraktir í sveitirnar, búféð skotið með vélbyssum, kofar brenndir með íkveikjuskotum: þetta er kallað friðun,“ á ensku pacification. Þetta var skrifað fyrir Víetnamsstríðið, sem einkenndist af svona árásum, sem sýnir annaðhvort fram á spádómsgáfu Orwell eða það hve almenn þessi meðferð saklauss fólks í stríðum er. Continue reading

10.800.-

Hælisleitendur fá 10.800 krónur á mánuði

7. 9. 2015, 14:40

Uppfærsla: Nýlega virðist dreifingu bónuskorta hafa verið hætt hjá sumum, sem fá nú Bónus-peninginn og reiðuféð bæði saman á opið debetkort, samtals 10.700 á viku. Það gera því samtals 42.800 krónur í reiðufé á mánuði.


Reglulega skjóta upp kollinum gamlar fréttir þar sem er fullyrt að hælisleitendur fái mörghundruðþúsund krónur í uppihald á mánuði. Ekkert þeirra sem skrifar þessar lygar getur hafa verið í reglulegum samskiptum við flóttamennina sem um ræðir, enda er fullkomlega augljóst þegar komið er í tómleg herbergi þeirra að þeir hafa nær ekkert fé.

Hið sanna er að flóttamenn fá 2.700 krónur á viku, alls 10.800 á mánuði. Því til viðbótar fá þeir vikulega bónuskort uppá átta þúsund krónur. Það er allt og sumt.

Ríkið borgar auðvitað miklu meira fyrir málsmeðferð þeirra en þetta. Það bannar þeim að vinna, þvingar þá til að þiggja félagsíbúðir, neyðir þá til að reka langt mál gegn Útlendingastofnun, innanríkisráðuneytinu og dómstólum til að sanna rétt sinn á að vera hér. Það borgar líka fyrir lögregluaðgerðir, sem eiga til dæmis að tryggja að flóttamennirnir séu ekki að fela peninga frá ríkinu. Í september 2008 braust lögreglan í mörg heimili flóttamanna og tók þaðan skilríki, peninga og ýmis skjöl sem átti að „gera Útlendingastofnun kleift að hraða úrlausn“ mála þeirra.

Augljóslega kostar þetta allt peninga. En það er ekki flóttamanninum að kenna að vera dreginn í gegnum þetta ferli. Ef honum væri leyft að vera og vinna myndi hann gera Íslendinga ríkari, ekki fátækari. Við myndum spara málskostnaðinn, félagsíbúðirnar og allan rekstrarkostnað Útlendingastofnunar. Flóttamenn myndu fá öryggi og vernd og við myndum spara hundruð milljóna króna á ári.

eygló

Hvernig yfirvöld gætu kælt velvild almennings

31. 8. 2015, 23:25

Síðustu daga hafa Íslendingar gefið vísbendingu um hvílíka samhjálp mætti reka hér ef stjórnvöld myndu leyfa. Mörg þúsund manns hafa lofað öllu frá sjálfboðavinnu til heilla húsa svo taka megi á móti fleiri en 50 flóttamönnum næstu tvö árin. Þegar velferðarráðherra bað fólk að hafa samband og bjóða aðstoð, þá bjóst hún varla við þessum fjölda og svona góðum boðum.

Klípan sem ráðherrann er í núna er þessi: hún vill áfram taka flóttamenn inn eftir dýru, hæggengu og flóknu ferli sem takmarkar fjöldann sem ríkið getur sótt hingað. Það ferli tryggir að flóttamaður hafi allt til alls þegar hann kemur til Íslands. Þá þarf hann líka ekki lengur alla þá aðstoð sem fólk býður. En þetta ferli er rándýrt, sem þýðir að ríkið getur ekki tekið við nema handfylli flóttamanna í einu.

Ríkisstjórnin hefur bundið eigin hendur með þessum fáránlegu skilyrðum fyrir komu flóttamanna. Skilyrðin eru óþörf, því Íslendingar hafa fullt að gefa og mikinn vilja til samhjálpar.

Það eru til tvær lausnir við þessari sjálfsköpuðu tregðu stjórnvalda. Ein er að þau hætti að brottvísa flóttamönnum sem koma hingað til lands, en það hefur verið reglan í áraraðir. Yfirvöld þurfa ekki að bjóða flóttamönnum neinar bætur, bara að leyfa þeim að vera og vinna hér. Samhjálp getur brúað það sem uppá vantar.

Hin lausnin er róttækari. Hún er að leyfa nokkur þúsund flóttamönnum að koma hingað til lands – jafnvel sækja þá – og opna svo íþróttahús, gamla spítala og tóma skóla fyrir þeim. Hér væri krafan um samhjálp mikið ríkari. En við gætum tvímælalaust staðið undir henni.

Það sem er líklegra er þó að ekkert af þessu gerist. Nýskipuð ráðherranefnd mun velta vöngum í nokkra daga eða vikur, og leggja svo til að taka aðra handfylli flóttamanna til viðbótar við þessa fimmtíu sem þegar eru á leiðinni. Þetta væri auðvitað pólitískt sjálfsmorð útaf fyrir sig. En svo kæmi snilldin: stór peningasending verður tilkynnt til flóttamannabúða erlendis til að „skapa þessu fólki bærilegan aðbúnað þar“, eins og Björn Bjarnason lagði til um helgina.

Þetta væri í takt við evrópska mannúð, sem gengur útá að fátækt og stríðshrjáð fólk megi vera til, megi þjást, megi „þrauka“ og „sýna þrautseiglu“ – svo lengi sem þau gera það annarsstaðar.

Við megum ekki láta kaupa okkur frá góðu tækifæri til að sýna alvöru samúð. Hún felst ekki í að kasta matarpökkum útum gluggann, heldur að opna dyrnar. Bjóðum flóttafólk velkomið til Íslands!