ævintýrið um Rauðhettu

23. 7. 2017, 15:11

Ó! sagði Rauðhetta
þegar vonda stjúpmóðirin
kyssti hana á munninn.

Og hún vaknaði
til vitundar um
allar væntingar
samfélagsins.

Hún sá að stjúpan
var ekki vond í eðli sínu
heldur særð og svikin
kona
af litlum efnum.

Hún sá að dvergarnir voru
ekki bara að grínast heldur
að áreita hana
kynferðislega

og að kóngsríkið
hvíldi alfarið á
þöglu samþykki
karla
og kerlinga
í kotum sínum.

Og hún kyssti
móður sína
(því líffræðilegur skyldleiki
er ekki eina krítería
móðurhlutverksins)
og braut glerskóna sína

og fór til kóngsins
með kústinn sinn
og svuntuna
og sagði

þrífðu sjálfur eftir þig
feita blóðsuga!

Og kóngurinn
starði á hana
stjarfur og hugsi
og sagði loks

þú mátt eiga
þig.

Rauðhetta hrópaði
húrra!
og fór út í skóg
og reyndi að hafa
í sig og á.

En allt landið
var í eigu kóngsins
og hvar sem hún reyndi
að tína ber
eða slíta upp rabarbara
kom úlfur kóngsins
og spurði

þarft þú ekki bráðum
að finna þér vinnu?

þú getur bara átt þig
með því að selja þig.

Svo hún gekk grátandi
til piparkökuhússins
og fór að baka sex daga í viku
á lágmarkslaunum.

En hún dó ekki
ráðalaus
og einn góðan veðurdag
þegar nornin var í símanum
hrinti Rauðhetta henni
í bökunarofninn
og hrópaði

ég lýsi hérmeð
piparkökuhúsið
sjálfseignarstofnun!

En úlfur kóngsins
heyrði óp nornarinnar
og bankaði á dyrnar.

Opnaðu einsog skot
eða ég feyki niður búllunni!

En Rauðhetta æpti

aldrei!

og kastaði rjómabollum
útum strompinn.

Svo úlfurinn feykti niður húsinu
og gleypti allt sem í því var.

Á meðan þær voru saman í úlfinum
Rauðhetta
og nornin
töluðu þær saman
og Rauðhetta sagði að
hún væri ekkert sár.

Þú ert líka kúguð
af blindu og
blóði drifnu
stigveldi samfélagsins
kæra norn.

Og þegar úlfurinn sofnaði
brutust þær út
í þann mund sem
tröllslegur karl með öxi
gerði sig líklegan til að
opna fyrir þeim
og Rauðhetta sagði

við þurfum ekki hjálp
við að opna hurðir
en þér er velkomið að
höggva höfuðið af úlfinum
og koma svo með okkur
til kóngsins!

Og nornin var heilluð
af kjark og hugsnilld Rauðhettu
og þegar vöðvabúntið hafði
breytt kónginum í
stílhreint gólfteppi
stofnuðu þau kommúnu í kastalanum
og lifðu við jarðrækt,
frjálsar ástir og
stöðugt áreiti næsta kóngsríkis
þar til þau drápust
gömul og hamingjusöm.

This entry was posted in photos on by . */?>

fiskveldið

20. 7. 2017, 13:59

það er veiðilegt að búa
í fiskveldinu Plíslandi

þar eru spunnin álbönd á þungarokk
og Plísland er sæstrengt við Vesturlönd
svo það fljóti ekki til
fátæku landanna

í kvöldréttunum er talað við viskugrunna
um nátæknisjúkrahús og tískulöggur
í leit að lúðum og saksóknara
á hákarlaveiðum og sjálfir þykjast þeir
sjá þorskhausa útum allt

þegar veiðindin verða of mikil
eru stofnuð fyrirtæki fyrir
kæti svo Plíslendingar geti verið tölvaðir

alla daga

ungir angar stangast á við yfirvöld í rangelsinu
á Litla-Draumi og hanga svo

á daginn út
á kvöldin inn

svo gægast þeir gegnum sæstrengi
á heiminn fyrir utan


í fiskveldinu
er nú aldeilis
veiðilegt að búa

This entry was posted in photos on by . */?>

rökkur

20. 7. 2017, 13:08

í snjóþöktum dal
bakvið frostrósa skrúð
ver ævinni karl
undir lágreistri súð

hann enga á vini
og tómt er hans fjós
hans einasta gleði
er kvöldsólarljós

það skín gegnum hrímið
sem lifnar þá við
og andartaks geislaregn
setur á svið

hann strýkur við stokkinn sinn
eldspýtum tveim
og fer milli kerta
að kveikja á þeim

úr myrkrinu læðast þá
myndir í þögn
og mynda í huga hans
þögula sögn

við sannleikans rökkur
er ljóðanna bil
þar semur hann ævi
sem er ekki til

This entry was posted in photos on by . */?>

garðurinn

sólin er logandi vetnissprengja
en þegar hún reis einn sumardag yfir garðinum mínum
var alger þögn.

eplatrén drúptu af ávöxtunum
og ég gekk milli þeirra í morgunþokunni
svo tærnar mínar urðu blautar af dögg.

ég leit yfir eplin
og þó flest væru græn
var kominn roði í sum
og sum voru alveg að detta
svo ég tíndi þau í körfu
og setti á vagn.

markaðurinn var skammt frá.
ég dólaði þangað hægt og rólega
og missti næstum af konunni
sem keypti svo af mér öll eplin.

þessi kona á hvorki garð né hús.
það eina sem hún á eru fötin sem hún gengur í
og karfan sem hún selur eplin úr.

hún gengur um borgarstrætin,
spyr fólk hvort það vilji epli
og heldur körfunni að þeim með vongóðu brosi.

fæstir vilja kaupa
og flestum finnst hún uppáþrengjandi
en þennan morgun kom maður í jakkafötum hlaupandi til hennar.

„epli, takk!“ másaði hann,
rétti henni peninga
og hljóp í burt með eplið.

maðurinn var á leið í kauphöllina
og missti næstum
af opnun markaðarins.

hann leit yfir tölurnar
og þó flestar væru grænar
voru sum fyrirtæki illa á sig komin
og önnur að falla í verði
svo hann taldi saman verðbréfin
og seldi þau.

hann hallaði sér aftur í sætinu
andvarpaði
og tók upp eplið.

meðan dagur varð að kvöldi
iðuðu hlutabréfin
einsog moskítóflugur
og aldrei dró ský fyrir sólu,
svo ég vökvaði eplatrén
á meðan verðbréfamiðlarinn
las markaðshorfurnar.

á leiðinni heim keypti hann sér tilbúinn kvöldmat
hjá verslunarkeðjunni sem hann hafði selt um morguninn.

þegar náttaði sat ég í kofanum mínum
og horfði á eplin mín útí garði roðna
einsog feimnir táningar.

sólin er logandi vetnissprengja
og þó hún viti ekki hvað hún gerir
er hún okkur allt
og þegar hún sest yfir garðinum mínum
er alger þögn.

á Breiðholti

ég sit á Breiðholti í strætó
og tel hve margir labba inn
og hve margir labba út

allir verða tölur
í möppunni minni

strákur sest á móti mér
með húfu, ipod og tösku
og horfir á mig opinmynntur.
ég fletti tignarlega fram og til baka í möppunni
veit ekkert hvað varð um þessa fjórtán farþega

horfi út og sé að Snæfellsjökull er rétt aðeins stærri en Hallgrímskirkja
og Reykjavík miklu minni en frá Hlemmi
en strákurinn er risastór
næstum jafn stór og mappan

hann horfir til skiptis á fólk labba um dyrnar og á blöðin mín
horfir á fólkið breytast í tölur
og lagar til töskuna í sætinu

“næsta stopp, er,”
og við bíðum í ofvæni

“Suðurhólar”

tveir inn, einn út.
strákurinn starir

í Vesturbergi fer hann loksins út
labbar beint af augum í átt að Snæfellsjökli
rauðleitt sólskin lýsir upp húfuna.
þrír út, einn inn.

viska aldanna

neyðin kennir naktri konu að forðast eldinn
sælla er að gefa en dauðrota
barnið vex meðan heitt er
ekki er allt gull geymdur eyrir
betri er einn fugl í hendi en illur ræðari
brennt barn í tómri tunnu

sagan af Ingólfi

á sjóndeildarhring upp úr hafinu rís
fjallstindur alþakinn gljáandi ís
á sjóbörðum knörrum er skálað í öl
og dansað á skipsstjórans útskornu fjöl.

ölvaðir víkingar sitja við skraf,
og kasta burt spýtunni lengst útá haf
“þar sem hún strandar, þar setjumst við að
þá þurfum við ekki að spá neitt í það.”

morguninn eftir var þögult um borð
en Ingólfur mælti þó hátíðleg orð:
“hér segðu einhverjir skítugan sand
en ég sé hér skattfrjálst og líberal land.”

nálægt þeim klettur í hafinu lá
“Hjörleifur!” kallaði Ingólfur þá
“ég stefni nú á þetta ágæta sker
sem síðar má nefna í hausinn á mér.”

Hjörleifur hafði þá loks fengið nóg
og sigldi því Ingólfslaus vestur á bóg
með Vestmönnum tíu sem hann hafði rænt
svo líf yrði honum á Íslandi vænt.

land þetta líkaði Ingólfi vel
en stærðin! nú varð honum ekki um sel
hvar voru spýturnar? það var nú það.
hann sendi því þrælana sína af stað.

Vífill og Karli í vesturátt þá
völsuðu svartleitum ströndunum á
í fjarðbotni einum þeim sviplega brá
því Hjörleifur dauður í fjörunni lá.

snöggvast þeir hlupu til Ingólfs á ný
og sögðu þar meistara sínum frá því
að Hjörleifur væri nú Valhallarþegn
en Ingólfur brjálaðist við þessa fregn.

þeir fóru til líksins og holuðu því
helvítis nýlendumoldina í
skipið var horfið og búslóðin með
svo Ingólfur skildi hvað hér hafði skeð.

í nánd voru eyjar og Ingólfur skaust
siglandi í þær og sá lítið naust
þeir sátu þar, þrælarnir, étandi mat
hann stakk í þá alla með sverðinu gat.

að vetrinum liðnum, þá sigldi hann enn
vestur á slóðir með konur og menn
þau áðu í misseri uppvið eitt fjall
en dag einn barst til þeirra uppveðrað kall.

“Ingólfur! Ingólfur! útskorinn staur
liggur á forboðnu nesi í aur
eigum við ekki að halda okkur hér?
þetta var forljótur staur, hvort sem er.”

Ingólfur tók þetta ekki í mál
hann langaði aftur í hásætisprjál.
strax þegar voraði rauk hann af stað
og settist í reykjandi víkinni að.

lærdómur sögunnar er ekki ljós
en tvennt skaltu muna er rærðu til sjós:
taktu ekki þrælkarla upp í þitt fley
og tjaldaðu ekki í Vestmannaey.