Luang Prabang

garðurinn

sólin er logandi vetnissprengja
en þegar hún reis einn sumardag yfir garðinum mínum
var alger þögn.

eplatrén drúptu af ávöxtunum
og ég gekk milli þeirra í morgunþokunni
svo tærnar mínar urðu blautar af dögg.

ég leit yfir eplin
og þó flest væru græn
var kominn roði í sum
og sum voru alveg að detta
svo ég tíndi þau í körfu
og setti á vagn.

markaðurinn var skammt frá.
ég dólaði þangað hægt og rólega
og missti næstum af konunni
sem keypti svo af mér öll eplin.

þessi kona á hvorki garð né hús.
það eina sem hún á eru fötin sem hún gengur í
og karfan sem hún selur eplin úr.

hún gengur um borgarstrætin,
spyr fólk hvort það vilji epli
og heldur körfunni að þeim með vongóðu brosi.

fæstir vilja kaupa
og flestum finnst hún uppáþrengjandi
en þennan morgun kom maður í jakkafötum hlaupandi til hennar.

„epli, takk!“ másaði hann,
rétti henni peninga
og hljóp í burt með eplið.

maðurinn var á leið í kauphöllina
og missti næstum
af opnun markaðarins.

hann leit yfir tölurnar
og þó flestar væru grænar
voru sum fyrirtæki illa á sig komin
og önnur að falla í verði
svo hann taldi saman verðbréfin
og seldi þau.

hann hallaði sér aftur í sætinu
andvarpaði
og tók upp eplið.

meðan dagur varð að kvöldi
iðuðu hlutabréfin
einsog moskítóflugur
og aldrei dró ský fyrir sólu,
svo ég vökvaði eplatrén
á meðan verðbréfamiðlarinn
las markaðshorfurnar.

á leiðinni heim keypti hann sér tilbúinn kvöldmat
hjá verslunarkeðjunni sem hann hafði selt um morguninn.

þegar náttaði sat ég í kofanum mínum
og horfði á eplin mín útí garði roðna
einsog feimnir táningar.

sólin er logandi vetnissprengja
og þó hún viti ekki hvað hún gerir
er hún okkur allt
og þegar hún sest yfir garðinum mínum
er alger þögn.

Snæfellsjökull

á Breiðholti

ég sit á Breiðholti í strætó
og tel hve margir labba inn
og hve margir labba út

allir verða tölur
í möppunni minni

strákur sest á móti mér
með húfu, ipod og tösku
og horfir á mig opinmynntur.
ég fletti tignarlega fram og til baka í möppunni
veit ekkert hvað varð um þessa fjórtán farþega

horfi út og sé að Snæfellsjökull er rétt aðeins stærri en Hallgrímskirkja
og Reykjavík miklu minni en frá Hlemmi
en strákurinn er risastór
næstum jafn stór og mappan

hann horfir til skiptis á fólk labba um dyrnar og á blöðin mín
horfir á fólkið breytast í tölur
og lagar til töskuna í sætinu

“næsta stopp, er,”
og við bíðum í ofvæni

“Suðurhólar”

tveir inn, einn út.
strákurinn starir

í Vesturbergi fer hann loksins út
labbar beint af augum í átt að Snæfellsjökli
rauðleitt sólskin lýsir upp húfuna.
þrír út, einn inn.

Veggjakrot gegnd endurbyggðri Akademíu Platóns.

viska aldanna

neyðin kennir naktri konu að forðast eldinn
sælla er að gefa en dauðrota
barnið vex meðan heitt er
ekki er allt gull geymdur eyrir
betri er einn fugl í hendi en illur ræðari
brennt barn í tómri tunnu

son. eiríksson.

sagan af Ingólfi

á sjóndeildarhring upp úr hafinu rís
fjallstindur alþakinn gljáandi ís
á sjóbörðum knörrum er skálað í öl
og dansað á skipsstjórans útskornu fjöl.

ölvaðir víkingar sitja við skraf,
og kasta burt spýtunni lengst útá haf
“þar sem hún strandar, þar setjumst við að
þá þurfum við ekki að spá neitt í það.”

morguninn eftir var þögult um borð
en Ingólfur mælti þó hátíðleg orð:
“hér segðu einhverjir skítugan sand
en ég sé hér skattfrjálst og líberal land.”

nálægt þeim klettur í hafinu lá
“Hjörleifur!” kallaði Ingólfur þá
“ég stefni nú á þetta ágæta sker
sem síðar má nefna í hausinn á mér.”

Hjörleifur hafði þá loks fengið nóg
og sigldi því Ingólfslaus vestur á bóg
með Vestmönnum tíu sem hann hafði rænt
svo líf yrði honum á Íslandi vænt.

land þetta líkaði Ingólfi vel
en stærðin! nú varð honum ekki um sel
hvar voru spýturnar? það var nú það.
hann sendi því þrælana sína af stað.

Vífill og Karli í vesturátt þá
völsuðu svartleitum ströndunum á
í fjarðbotni einum þeim sviplega brá
því Hjörleifur dauður í fjörunni lá.

snöggvast þeir hlupu til Ingólfs á ný
og sögðu þar meistara sínum frá því
að Hjörleifur væri nú Valhallarþegn
en Ingólfur brjálaðist við þessa fregn.

þeir fóru til líksins og holuðu því
helvítis nýlendumoldina í
skipið var horfið og búslóðin með
svo Ingólfur skildi hvað hér hafði skeð.

í nánd voru eyjar og Ingólfur skaust
siglandi í þær og sá lítið naust
þeir sátu þar, þrælarnir, étandi mat
hann stakk í þá alla með sverðinu gat.

að vetrinum liðnum, þá sigldi hann enn
vestur á slóðir með konur og menn
þau áðu í misseri uppvið eitt fjall
en dag einn barst til þeirra uppveðrað kall.

“Ingólfur! Ingólfur! útskorinn staur
liggur á forboðnu nesi í aur
eigum við ekki að halda okkur hér?
þetta var forljótur staur, hvort sem er.”

Ingólfur tók þetta ekki í mál
hann langaði aftur í hásætisprjál.
strax þegar voraði rauk hann af stað
og settist í reykjandi víkinni að.

lærdómur sögunnar er ekki ljós
en tvennt skaltu muna er rærðu til sjós:
taktu ekki þrælkarla upp í þitt fley
og tjaldaðu ekki í Vestmannaey.