Category Archives: blogg

Úttekt á heimskulegasta velferðarskema Íslands

15. 4. 2017, 18:08

Í síðustu viku gaf glansritið Frjáls verslun út páskatölublaðið sitt. Í anda krossfestingarinnar var forsíðuviðfangsefnið “tilhæfulausar hælisumsóknir” fólks frá Makedóníu og Albaníu. Drumbslegur Íslendingur í stofuklæðnaði með strandhatt á hausnum var ljósmyndaður á forsíðuna í hlutverki hælisleitanda. Hvers vegna var ekki einhver sunnan Alpafjalla fenginn í hlutverkið? Svarið varð ljóst þegar flett var gegnum greinina: Ekki var haft samband við nokkurn af hinum margrómuðu Makedónum eða Albönum við vinnslu fréttarinnar.

fvo02017.1463236

Viðmælendur Svövu Jónsdóttur, diplómuhafa í fjölmiðlun og alþjóðastjórnmálum, stjórnarmeðlims Sameinuðuþjóðafélagsins á Íslandi og áhugamanneskju um ferðalög, voru þess í stað sóttvarnarlæknir, yfirmaður göngudeildar sóttvarna, fjármálastjóri heilsugæslunnar, landlæknir, forstjóri Útlendingastofnunar, og sérfræðingur hjá velferðarráðuneytinu. Til vitnisburðar um ágætt ástand í Makedóníu var fenginn ræðismaður Makedóníu. Með öðrum orðum átti ekki bara að krossfesta hælisleitendurna, heldur sanna í leiðinni að þeir væru smitberar, sníkjudýr, boðflennur og glæpamenn.

Svava lýsir í grein sinni heimskulegasta velferðarskema veraldar. Það virkar nokkurnveginn svona: Fólk kemur til Íslands í leit að tækifærum, ævintýrum, heilbrigðisþjónustu, eða bara því þeim finnst, einsog Svövu sjálfri, gaman að ferðast. Á Íslandi er þeim svo tilkynnt að hér á landi fær enginn að vera nema að uppfylltum endalausum skilyrðum. Á meðan Útlendingastofnun vegur og metur ágæti pappíra fólksins eru það svipt réttindum sínum og atvinnufrelsi og gert að ómögum ríkisins. Við svo búið fer í gang hamfarakennt og örvæntingarfullt brjálæði innan Útlendingastofnunar til að finna þeim matarpening og húsnæði. Afleiðingar þessarar fáránlegu vanhæfni íslenskrar stjórnsýslu er nauðungarkyrrseta hælisleitenda, sem er notuð til að útmála þá sem letibykkjur og sníkjudýr.

Allt virðist þetta til þess eins fallið að breyta lífum nokkurhundruð útlendinga í ömurðarpoll sem bjúrókratar og gistiheimiliseigendur sjúga sér lífsviðurværið úr. En valdafólk lætur þennan kúgaða og jaðarsetta hóp ekki fara til spillis, heldur nýtir sér hann sem blóraböggul. Dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, fullyrðir í Frjálsri verslun að “við getum ekki þjónustað mörg hundruð hælisleitendur á framfæri íslenska ríkisins ár eftir ár. Við höfum ekki efni á því.” Nú er auðvitað enginn að biðja hana um það, heldur bara að leyfa þeim að vinna, en fyrir ríkisstjórn sem segir efnahag landsins í besta standi er þetta nú samt vandræðaleg staðhæfing. Það ætti að vera öryrkjum, fátækum, leigjendum og námsmönnum varúðarmerki að ráðherrar telji hag ríkisins standa og falla með uppihaldi nokkurhundruð útlendinga. Nema hér sé einfaldlega verið að nýta sér þetta tilbúna vandamál sem blóraböggul fyrir allar ríkisins syndir.

sigga-anders

Ástæðan fyrir fjölgun fólks úr Balkanlöndum í hælisferlinu íslenska ku vera einföld. Fyrir nokkrum árum fékk langveikur strákur þaðan ríkisborgararétt frá Alþingi. Þetta þótti hófsmönnum á réttlæti mikil skömm, og spáðu þeir fyrir um þá svörtu framtíð sem nú hefur raungerst. “Samfélagið rambar yfir hyldýpinu!” veina þeir. “Sexhundruð manns af Balkanskaga hafa komist á íslenska ríkisframfærslu!” Sú borðleggjandi lausn að leggja niður hæliskerfið í núverandi mynd og veita fólki einfaldlega aðgang að velferðarkerfinu ef það vinnur hér vill ekki hvarfla að þeim.

Forstjóri Útlendingastofnunar, Kristín Völundardóttir, kveinkar sér í greininni undan hversu vondir fjölmiðlar voru við hana þegar hún ætlaði að brottvísa langveika barninu. Þrátt fyrir að hún hefði útskýrt að lög væru lög hefði áfram birst um stofnunina hennar “ómálefnaleg umfjöllun”. Hvernig dirfðist fólk að láta einsog mannúð kæmi málinu við? Skoðanir og undirskriftalistar mættu ekki breyta afstöðu stofnunarinnar. Allir yrðu að fá jafn vonda meðferð.

Grein Svövu nær hátindi sínum þegar ræðismaður Makedóníu er kallaður til að bera vitni um ágæti lands síns. Hann upplýsir okkur um að þar séu “mannréttindi í hávegum höfð” og “engin meiriháttar vandamál” að finna. Síðast þegar ég var í Makedóníu með nokkrum vinum mínum þurftum við að fela matargjafir til flóttamanna þegar lögreglan stoppaði bílinn okkar, svo hann yrði ekki gerður upptækur. Þannig sögur kallar ræðismaðurinn “slæma markaðssetningu fyrir landið” og vill ekki að hlustað sé á þær.

andonov

En grein um útlendinga í glansblaði væri ekki fullkomnuð á þessum síðustu og verstu tímum ef tveir sóttvarnarlæknar fengju ekki að fjölyrða um sjúkdómshættuna sem stafar af þessum lúsugu kvikindum. Og fyrst maður er að þessu, hversvegna ekki landlæknir og fjármálastjóri heilsugæslunnar í leiðinni? Og þótt annar sóttvarnarlæknirinn segi Svövu að hælisleitendur séu “ekki ógn við lýðheilsu á Íslandi” og að sjúkdómar þeirra séu “ekki stórt vandamál”, þá eru fyrirsagnir viðtalanna hafðar

MEGUM EKKI SOFA Á VERÐINUM

og

ÁKVEÐIÐ ÁLAG Á HEILBRIGÐISKERFIÐ

og

BERKLAR, HIV, LIFRARBÓLGA OG SÁRASÓTT GREINAST AF OG TIL.

Niðurstaðan sem fæst af lestri greinarinnar er vandlega mótuð af fordómum höfundarins og viðmælendavali. Enginn af viðfangsefnum greinarinnar fær pláss til að tjá sig. Flóttamennirnir sjálfir eiga að vera ómálga smitberandi skepnur sem á að halda í iðjulausri sóttkví frá samfélaginu. Svava Jónsdóttir, diplómuhafi í blaðamennsku og áhugamanneskja um ferðalög, minnist ekki einu orði á Makedónann sem fékk þessa útreið frá okkur í fyrra og brenndi sig til dauða í kjölfarið. Hér er því tillaga að annarri forsíðu á páskatölublað Frjálsrar verslunar, sem hefur altént þann kost til að bera að vera af raunverulegum Makedóníumanni.

img_20161207_202624Það dytti engum í hug að prenta GEKK ÉG YFIR SJÓ OG LAND á þessa mynd. Sannleikurinn væri of sár. En það er einmitt málið. Svava Jónsdóttir reyndi ekki að segja sannleikann. Hún útskýrði komu Makedóna og Albana með sóttvarnarlæknum, forsvarsmanni landsins sem þeir flýja, og konunni sem brottvísar þeim. Þetta er ekki blaðamennska, heldur ómennska.

Vilji einhver lesa þessa hroðalegu og ömurlegu grein má finna Frjálsa verslun í bókasafni eða fá afrit af greininni hjá mér. Ég bið ykkur, ekki kaupa hana.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , on by . */?>

Je suis enn einn vinstriflokkurinn

13. 4. 2017, 15:05

Síðustu daga hef ég hjálpað til við að stofna Sósíalistaflokk Íslands. Í sumar mun hann berjast fyrir efldu einstaklingsframtaki, auknu frelsi og skemmtilegra lífi en áður hefur sést á Íslandi. Til að þetta geti gerst þarf að passa að fólk á landinu okkar svelti ekki, hafi stað að búa á, sé ekki skilið útundan, og að við höfum öll ráðrúm til að tjá okkur og tjónka við samfélagið. Þetta gerist ekki sisona, og allrasíst ef beðið er eftir Sjálfstæðisflokknum að gefa leyfi til þess. Þessvegna þarf mest einstaklingsframtak fyrst um sinn, til að efla ráð okkar og dáð. Vopnumst pennum og lyklaborðum, slettum skyri og skopi, föðmum stéttsvikara sem til okkar sækja og gubbum á valdið sem aftrar okkur!

Fagnaðarerindi sósíalismans hefur náð góðum undirtektum í liðnum vikum, og vinstrimenn úr hörðustu átt hafa sagt það eiga heima hjá sér — ekki í nýjum flokki. Það er tóm vitleysa. Í fyrsta lagi stefnir sósíalisminn á að almenningur stýri hagkerfinu, ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða Sniðugir Karlar í langþreyttum nefndum. Í öðru lagi leynast draugar í gömlum húsum, sérstaklega ef þau voru smíðuð fyrir kreppu og jafnvel á tímum Endiloka Sögunnar. Sagan er byrjuð aftur, og hana þarf að skrifa af nýrri hreyfingu í nýtt afl.

Það þarf ekki mikla hugsnilld til að sjá hvað vakir fyrir gamla vinstrinu. Formaður Samfylkingarinnar biður fólk að ganga í Samfylkinguna. Vinstri-græn biðja fólk að ganga í vinstri-græn. Slagorð gamalla flokka er jú: Ef þið kjósið okkur, þá fáum við fleiri atkvæði! En hvers virði er kosningasigur sem ekki ber vilja okkar til verks? Hvers virði er lýðræði sem deyr í kjörkassanum?

Undirstaða stjórnmálaafls er baklandið sem gefur því úrlausnarefni, eldmóð og styrk. Flokkur sem svífur einsog loftbelgur yfir málefnum alþýðunnar er einskis nýtur. Stjórnmálin þurfa að vera af henni kominn, í þágu hennar. Þetta gerist aðeins með skipulagðri hreyfingu sem fangar hugðarefnin okkar nauðug viljug og breytir þeim í skynsamleg stefnumál.

Austurvallarmótmæli eru góð og gild, en ef ekki tekst að þýða öskrin í málefni eru þau skammlíf og lítilsnýt. Þýðingin krefst samtakamáttar og vinnu, og sú vinna verður undirstaða Sósíalistaflokks Íslands. Flokkurinn mun spretta af hreyfingunni einsog jurt af jarðveg. Ef maður slítur flokkinn lausan visnar hann og deyr. Það er til einskis að tala um “splundrun vinstrimanna” í flokka og fylkingar, þegar alþýðan sem flokkarnir eiga að standa fyrir er ekki sameinuð. Efling þeirrar samstöðu er okkar fyrsta og fremsta verk.

Mig langar ekki á þing, því mig langar ekki að sálin mín deyji fyrir aldur fram. Gatan er mitt heimili, og þaðan vil ég efla kjark minn og annarra fátæklinga og vegleysingja. Grindverk ófrelsisins sem HB Grandar, Ólar ól, Sigurjónar Einarssynir og Bjarnar Ben af öllum sortum hafa smíðað mér þarf að rífa niður. Í hafið með þá og athafnafrelsi ríka mannsins! Upp, upp og áfram með einstaklingsfrelsi alþýðunnar!

This entry was posted in blogg and tagged , , on by . */?>

Leyfum kökunni að borða fólkið

11. 4. 2017, 13:20

Fyrsta atkvæðið sem ég greiddi í lífi mínu fór í vinstri-græn árið 2009. Eitthvað fór úrskeiðis á leið lýðræðisins frá kjörklefa til framkvæmdar. Þúsund góðar hugmyndir komu fram í vori hrunsins, og þúsund góðar hugmyndir drukknuðu í kviksyndi Alþingis. Vinstriflokkarnir guldu afhroð í kjölfarið. Innan skamms voru nokkrir karlar með peninga komnir með samfélagsstofnanirnar aftur, og yfirvöld sögðu mér að aldrei hefði verið betra umhorfs á Íslandi. Ég var að drukkna í háflóði húsaleigunnar, landið var að rústast undan ágangi ferðamanna, og vinir mínir og fjölskylda voru kúguð til að afgreiða þá á þrælakaupi. Ég fór til útlanda og sá að margir öryrkjar fóru út líka, svo þeir gætu lifað á brauðmolunum sem ríkið fleygði í þá.

Það rann svo upp fyrir mér að þetta sama hafði gerst víðar. Frjálslyndar Steingrímur og HOPE-menni allra sorta endurræstu sama gallaða kerfið eftir hrun og krosslögðu fingur svo ríka fólkið myndi gefa okkur bitlinga. Það væri niðurlægjandi ef það hefði virkað, en þegar það virkar ekki er það hreinlega glæpsamlegt. Forríkir fyrirtækjaeigendur eiga ekki að gefa okkur störf einsog það sé greiði. Þeir hafa sitt ríkidæmi á okkar náð og fara illa með það. Við höfum rétt á að taka það af þeim ef þeir rústa samfélagi, efnahag, lífum og náttúru með því.

Skiptimynt sem við getum trúað á

Gefum bönkunum milljarða og alþýðunni trúverðuga skiptimynt! Hope!

Þessi grundvallarsannindi týndust einhversstaðar og einhverntímann, og vinstrimenn innan landsteina og utan virðast ekki vita að þeir eigi að vera að leita að þeim. Í staðinn er álitið hlutverk Alþingis að hjálpa fyrirtækjum að baka samfélagskökuna, svo almenningur geti nartað í hana þegar vel árar. Jafnvel verkalýðsfélögin eru þessarar sömu trúar, að við þurfum bara öll að ræða saman og finna bestu leiðina til að baka góða köku. Þessi kaka verður samt alltaf bökuð af ríkum köllum, sem hafa forkaupsrétt á bestu sneiðunum (ef ekki þorra kökunnar) og mega borða hana hvar og hvenær sem þeim sýnist — jafnvel í pálmaparadísum Karíbahafs. En óháð því hvað verður um hagvöxt landsins eigum við að fórna öllu fyrir hann. Allt fyrir kökuna.

bjarni-kokugerdarmadur-776x450

Góðar hugmyndir einsog sameign á auðlindum urðu ekki að veruleika, þótt flestir hefðu grætt á þeim, því þeir sem máli skiptu — fólkið með peningana — hefðu tapað. Hinn fámenni hópur fjármagnseigenda vinnur vel saman, og fer með Alþingi einsog undirdeild Samtaka atvinnulífsins.

Við þessar aðstæður er auðvelt að skilja hversvegna Sjálfstæðisflokkurinn klofnar ekki — nema þegar auðvaldið klofnar. Samtakamáttur peninganna heldur þeim við efnið. Vinstriflokkar verða margir því það eru margar hugmyndir að umbótum, en það er ekki nóg að hafa nýja stefnuskrá, nýtt nafn, nýtt lógó eða nýjan flokk. Þeir hlutir eru skemmtilegir, og góðir í kaffispjall, en eru ekki það sem máli skiptir. Það þarf sameinaðan almenning — ekki sameinaðan við kosningar, heldur sameinaðan í lífi, starfi og hugsjón. Hagsmunafélögin okkar þurfa að vera okkar, og vinna fyrir okkur, ekki fyrir kökuna. Því við vitum öll hver fær megnið af henni.

Til þess þarf hreyfingu sem heldur á lofti þeim ágætu hugmyndum sem nú eru hunsaðar, hnefa sem kýlir gegnum glerglugga þingsins áætlunum sem ríkidæmið vill ekki sjá. Hreyfing sem miðlar hugmyndum okkar til framkvæmdar, hvort sem þingið vill eða ekki. Hreyfing sem snýst ekki um að smala í kosningar, heldur að valdefla fólk. Þá hreyfingu þarf að rækta.

Kristján ég-geri-fólk-atvinnulaust-til-að-græða-á-því Loftsson

Kristján ég-geri-fólk-atvinnulaust-til-að-græða-meira Loftsson

Við eigum samfélagið, og þurfum ekki að biðja fjármagnseigendur leyfis að breyta því. Það er góð hugmynd að fólk fái skilyrðislaust mat, íbúð, heilbrigðisþjónustu og menntun. Engin hringborðsumræða með ríkum mönnum og kökubökurum í Valhöll mun koma þessu í kring. Þetta eru kröfur almenns fólks með venjuleg eða vond kjör gagnvart fólki sem á meira en nóg af völdum og peningum. Ríkið getur smíðað hús. Verkalýðsfélög geta tekið iðnaðinn úr höndum atvinnurústandi glæpona og arðræningja. Stjórnvöld geta lagt niður gjaldtöku fyrir menntun og heilbrigði, og þau geta skattlagt peningana sem fyrirtæki græða á okkur, starfsfólkinu. En þau gera það ekki án þess að við snúum uppá hendur þeirra.

Á fundi í gær heyrði ég framkvæmdastjóra ASÍ segja að Samtök atvinnulífsins væru ekki bara andstæðingur, heldur líka bandamenn. Það er firra, þægileg en hættuleg firra. Auðvaldið er óvinur, við þurfum að taka af því völdin. Þeirri hótun er nauðsynlegt að halda uppi. Við viljum ekki bara sneiðar, heldur kökuna, keflið og bakaraofninn. Þetta er okkar samfélag. Tökum það.

This entry was posted in blogg and tagged , , , on by . */?>

Að náttúran sé þannig að við getum selt hana

5. 3. 2017, 7:26

Það er kaldhæðnislegt að umhverfisráðherra Íslands sé úr flokki sem heitir Björt framtíð. Bjartasta framtíðin í náttúru Íslands þessa dagana virðist vera þeirra sem ætla að bora, brenna, bræða ál eða selja til útlanda heilu og hálfu fjöllin af sandi og möl. Umhverfisóminni landsmanna er undirstrikað af nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem lögð var fyrir umhverfisráðherrann Björtu Ólafsdóttur nýlega. Kjarninn framdi eitthvert glórulausasta viðtal síðari tíma á henni í kjölfarið. Hvergi sést betur sú úrbeinaða pólitík frjálshyggjunnar sem Björt framtíð aðhyllist en í því gapandi ráðaleysi og þeirri hrollvekjandi fyrirtækja- og peningadýrkun sem þar kemur fram.

Einsog sæmir umhverfisráðherra stendur Björtu ekki á sama um náttúruna, og henni finnst ljótt að sjá þá mynd sem er dregin upp í skýrslunni. “Þetta er verra en ég bjóst við,” segir hún. Kolefnisosun á Íslandi gæti tvöfaldast frá 1990 til 2030, samkvæmt spám skýrslunnar — og er þá ekki meðtalin losun erlendis vegna framleiðslu alls dótsins sem við kaupum. “Það er náttúrlega bara kinnhestur,” segir hún. Við höfum greinilega “verið andvaralaus, og tekið því sem gefnu að Ísland væri best í heimi og grænt og vænt.” Við smíðum kannski eitt álver á fætur öðru, kaupum fleiri bíla á mann en flestar þjóðir, fljúgum til útlanda tvisvar á ári og erum einhver neysluþyngsta þjóð heims. En að við værum að brenna kolefni með því! Það hafði víst ekki hvarflað að ráðherra umhverfis og auðlinda.

Björt útskýrir að hnattræn hlýnun snerti Íslendinga “algjörlega beint”. Við viljum nefnilega “að náttúran sé þannig að við getum selt hana.” Það er aldeilis gullslegin tegund af náttúruvernd. Vistkerfi jarðar ber að vernda, tegundum ber að bjarga frá útrýmingu, svo við getum kreist úr þeim meiri peninga. “Það er beinlínis verðmætasköpun fólgin í því að huga að umhverfismálum og hafa þau í fyrsta sæti,” bætir hún við. Með öðrum orðum, jafnvel þegar umhverfismál eru í fyrsta sæti, þá eru þau þar fyrir peningana. Kannski þetta sé meiningin með frasanum grænt er vænt? Einsog skáldið orti,

Hlíðin mín fríða
gefur seðla græna
og blágresið blíða
söluvöru væna,
á þér ástaraugu
ungur réð eg festa,
buddan mín besta!

og auðvitað

Allt fram streymir endalaust,
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust,
ekki meiri túristar í bili.

En Björt er að sjálfsögðu ráðherrann sem á að svara fyrir óráðsíu iðnaðar á Íslandi, halda uppi písknum og bjarga málunum. Blaðamaður Kjarnans spyr hver eigi að ýta við einstaklingum og fyrirtækjum svo bót verði í máli. En Björt vill helst ekki “ýta”.

“Þetta kemur ekki bara top-down. Við getum ekki sagt: geriði svona og hinsegin,” útskýrir hún. En skyndilega virðist renna upp fyrir Björtu að hún er ráðherra umhverfismála, og að það er einmitt hennar hlutverk að segja fyrirtækjum til syndanna. “Jú, við getum kannski gert það,” bætir hún við í snarhasti. “En það mun ekki virka neitt mjög vel.”

Svona orðalag er auðvelt að þýða á alþýðlega tungu. Þarna er umhverfisráðherrann okkar að segja: Mig langar ekki að setja reglur á fyrirtæki, og ég vil helst ekki ræða þann möguleika frekar. Til allrar lukku er blaðamaðurinn viðmótsþýður og leyfir henni að vaða elginn áfram á eigin forsendum.

“Það sem ég sé fyrir mér, við verðum að fá atvinnulífið með, útafþví ég trúi því að iðnaðurinn vilji alveg gera betur.”

Mér er ekki alveg ljóst hvernig Björt Ólafsdóttir rambaði á þessa trú, og hún grundvallar hana ekki frekar, né biður blaðamaður Kjarnans um frekari útskýringar. Staðreyndin er sú að fyrirtæki hafa ekki samvisku og hætta ekki gróðavænlegum spellvirkjum ótilneydd. Jafnvel gallharðir frjálshyggjumenn á borð við Milton Friedman töldu þetta augljóst og álitu sjálfsagt að ríkið sæji um að vernda okkur fyrir mengun fyrirtækja. En þegar kemur að frjálshyggju er Björt heilagari en páfinn, og virðist hrifnari af því að ráðherrar biðji fallega en að þeir geri eitthvað sem gæti mögulega virkað. Merkilegt nokk, þá vill hún frekar gefa fyrirtækjum meiri peninga en að leiðbeina þeim um mengun. Eftir að hafa útskýrt fyrir blaðamanni þá frjálshyggjulexíu að skattaívilnanir til stóriðju “skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja” og séu “bara vondar”, leggur hún til einmitt þannig ívilnanir fyrir þá sem leita að “grænum lausnum.”

Björt nefnir “græna skatta” flóttalega í einni upptalningu, og að ríkið gæti lagt til “milljarð” í skógrækt (og samt grætt á því), en viðleitni hennar gagnvart fyrirtækjunum sem valda skaðanum er almennt að þau þurfi “aðstoð” frekar en eftirlit. Þau þurfi “að leggja sinn metnað í að gera þetta sjálf.” Með öðrum orðum: umhverfisráðherra Íslands vill að þeim sem græða peninga á að menga plánetuna verði treyst fyrir að bjarga henni.

Eftir að hafa rakið mengunarstefnuna sína kallar Björt eftir samstöðu. “Ríkisstjórn þarf að vera alveg einhuga,” segir hún, þótt maður velti fyrir sér um hvað.

“Svo þarf bara að vera samhugur um þetta stóra mál á Alþingi. Og skotgrafir þurfa að víkja. Við þurfum að fara uppúr þeim. Og ég hef enga trú á því að þetta sé þannig mál. Það er alltof stórt, og alltof mikið undir, að einhver álíti svo að það nýtist í einhverju pólitísku markmiði. Ég hef enga trú á því.” Almenningur eigi auðvelt með að “ganga í takt” þegar með þurfi. Okkar er jú ábyrgðin! Vinstri, hægri, vinstri, hægri, og horfðu nú á veginn fyrir framan þig — ekki á álverin með strompana og grjótnámið í Ingólfsfjalli. Hægri snú!

Það er auðvelt að vera öll sammála um að hnattræn hlýnun sé ömurleg, og að við þurfum að gera eitthvað í henni. Það er erfiðara að viðurkenna að kannski þarf einfaldlega að setja reglur á fyrirtæki og sekta þau ríflega fyrir að menga svo þau hætti því. Við höfum setið of lengi með spenntar greipar gagnvart vistkerfaeyðingu. Það þarf eitthvað annað en frjálshyggju til að stemma stigu við henni.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , on by . */?>

Skapandi eyðilegging Heiðars

11. 1. 2017, 0:26

Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og heimsfræðingur, hefur tekið upp pennann á ný. Hin nýja grein er eftirmáli þrekvirkisins “Dómsdagur og Marxismi”, og er tileinkuð svörum til þeirrar lágu sortar fólks sem hefur ekkert betra að gera en rakka niður sér vitrari spekinga.

Í fyrstu þremur efnisgreinum miðar Heiðar hátt, og tekst að rugla saman þremur mismunandi hugtökum úr taugasálfræði. Hann kallar “leitni mannsins til að fella alla upplifun að fyrirfram mótuðum skoðunum,” fyrirbæri sem hann þekkir vel, enska heitinu “cognitive dissonance”. Hann á reyndar við “confirmation bias”, og sýnidæmið sem hann tekur — um að maður sjái oftar hvítan Yaris ef maður ákveður að kaupa sér hvítan Yaris — er dæmi um hvorugan þessara hluta, heldur um tíðniblekkingu, betur þekkt sem “Baader-Meinhof fyrirbærið”.

Eftir þennan stutta og snjalla inngang, þar sem Heiðar prófar athygli okkar, áformar hann að svara gagnrýni á fyrri grein sína. Þar sem um tímamótafræðimann er að ræða er þó ekki annað í boði en að taka fyrst efnisgrein eða tvær í að sanna orsakir misjafnrar hagsældar þjóða, sem Heiðar rekur ekki til verndartolla eða skattastefnu eða iðnvæðingar eða uppbyggingu innviða, skólakerfis eða spítala. Nei, lykilatriðið er: “Trúir þjóðin á framtíðina?” Það er skiljanlegt að Heiðar afneiti Marx, með þessa líka höggþungu fræðasleggju í höndunum. Iðnvæðing hvað — verum bara hress! Það var með öðrum orðum ekki Marshallaðstoðin, fiskurinn eða stríðið, heldur blessaðir hermennirnir, tyggjóið og kanasjónvarpið sem keyrðu af stað efnahagsundur Íslands.

Í takt við þetta eru bara óhressir heimsendasinnar sem svöruðu þrekvirki Heiðars fyrir hönd afturgöngunnar Karls Marx, og Heiðar skúrar gólf sögunnar með þeim. “Á starfstíma sínum, yfir 40 ár, hefði Marx átt að geta sannað tilgátur sínar, en spágildi tilgátna hans reyndist ekkert.” Mikið rétt. Samruni stórfyrirtækja í auðhringi, stöðnun launa verkamanna, tilbúnar þarfir sem markaðurinn uppfyllir, hnattvæðing auðmagns og reglubundnar krísur heyra sögunni til. Bítt’íann, Marx!

Ekki nóg með það, heldur hélt skeggjaði karlfauskurinn að útborguð laun væru á kostnað gróða fyrirtækja. Einsog hagfræðingar af Heiðarsskólanum hafa síðar komist að er þetta ekki rétt, enda er hægt að láta þúsundkall breytast í tvo þúsundkalla með því að vera bara nógu hress.

Lipur hugur Heiðars hefur skipt um skoðun frá síðustu grein um hversvegna Thomas Piketty hefur rangt fyrir sér. Það er ekki vegna misskilnings fræðimannsins á ágæti kapítalismans, heldur því að Piketty sérvaldi gagnasöfn í kenninguna sína, gagnasöfn sem staðfestu hans fordómafullu og marxísku heimsmynd. Þar sem hugtakanotkun Heiðars eru engin takmörk sett kallar hann þennan undirlægjuhátt “data mining”, orð sem ómerkari fræðimenn nota venjulega um hefðbundna upplýsingaöflun úr stórum gagnagrunnum.

Og ekki einusinni raunveruleikinn hefur bönd á Heiðari. Fólk nú til dags getur ekki þakkað stéttabaráttu neitt, segir hann. Framfarirnar bara gerðust, fólk var bara svo hresst. Það fólk sem reyndi stéttabaráttu fór í Gúlagið og dó. Hér er erfitt að sjá hvort Heiðar vilji meina að Gúttóslagurinn hafi gerst í annarri vídd, eða hvort verkföll, óeirðir og launahækkanir af þeirra völdum séu bara ímyndun marxista.

“Það fólk sem trúir á skap­andi eyði­legg­ingu kvíðir ekki fram­tíð­inni,” segir Heiðar að lokum. Rústun gamalla vinnuhátta er nauðsynleg til að skapa nýja. Kapítalistar einsog Heiðar rífa niður gamlar verksmiðjur fullar af fólki og setja aðrar með róbótum í staðinn. Ef atvinnuleysingjarnir verða nógu hressir fá þeir jafnvel starf annarsstaðar — eða bætur, ef eitthvað er eftir af þeim í næstu fjárlögum — því einsog Heiðar sannaði í síðustu grein er ómögulegt að störfum sé útrýmt til lengdar, eða að tæknivæðing sé á kostnað nokkurs manns.

Þannig gerist veröldin bara fyrir utan glugga Heiðars, dag eftir liðlangan dag, meðan hann situr inni og rústar kenningum, tækniheitum, vísindamönnum og fræðasviðum með bros á vör, og smíðar af ódrepandi sköpunargleði nýjan og bjartari veruleika.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , on by . */?>

Dómsdagur og Heiðar Guðjónsson

5. 1. 2017, 4:11

Í gær birti Kjarninn heimpsekilegt þrekvirki í sex köflum eftir mann að nafni Heiðar Guðjónsson. Um er að ræða þúsund orða afsönnun á ritum fávitanna Piketty og Marx, og endanlegan rökstuðning þess efnis að kapítalismi er bestur í heimi. Greinin heitir Dómsdagur og Marxismi og mun tvímælalaust bera heiður höfundarins sjálfs alla leið útí eilífð. Verk af þessari stærðargráðu má ekki hundsa, og ætla ég hér að gaumgæfa sérhvern kafla. Áður en við hefjumst handa er vert að geta höfundarins sjálfs. Heiðar er verðandi olíujöfur í stafni Eykon Energy, fyrirtækisins sem vill bora upp auðævi jarðar og selja þau til okkur hinna. Hann er því vel staðsettur til að upplýsa okkur hvað kapítalisminn er mikið afbragð.

Fyrsta kafla nefnir heimspekingurinn okkar “Marx­ismi og falskar for­sendur”. Þetta er því Marx “byggði á frá­leitum for­sendum” í staðinn fyrir að lesa bara Adam Smith, sem hafði sannað kapítalisma 80 árum fyrr. Sú staðreynd að forsendur Marx voru í einu og öllu teknar úr ritum Adam Smith, og svo notaðar til að reikna dæmið út aðeins öðruvísi, er aukaatriði sem stórmenni hugmyndasögunnar eru hafnir yfir. Heiðar málar með stórum pensli, og fínni strokur geta horfið í stærri myndinni. Þegar hann segir að Marx hafi ekki stutt tilgáturnar sínar “með tölu­legum stað­reyndum eða með raun­veru­legum for­send­um” er hann jú bara að slumpa, því ef frá eru taldar um þrjúþúsund blaðsíður af sýnidæmum og heimildavísunum er það vissulega rétt.

Annar kafli hlýtur titilinn “Marx­ismi og fórn­ar­lambið”. Þar útskýrir Heiðar að uppúr 1900 urðu bæði launamenn og fyrirtæki ríkari. “Ástæðan var ein­fald­lega gagn­kvæmur ávinn­ingur við­skipta.” Er þarmeð afsönnuð sú útbreidda kenning að grimm stéttabarátta, að miklu leyti innblásin af kenningum Marx, hafi átt þar hlut að verki. Nú, útskýrir Heiðar, var Marxisminn í klípu, því enginn virtist tapa á ástandinu. (Vissulega var það ekki forsenda Marx, en við skulum ekki dvelja við hártoganir um “raunveruleikann”.) “Kenn­ingar komu fram um að þriðji heim­ur­inn, það eru nýlendur í Afr­íku, Asíu og Suður Amer­íku, hefðu verið fórn­ar­lamb­ið. Upp­gangur í vest­ur­heimi hefði verið á kostnað nýlenda.” Hér vísar Heiðar væntanlega til þeirrar staðreyndar að þrælasala, fjöldamorð og hernám hafi átt sér stað á þessu tímabili, sem kostuðu tugmilljónir líf og frelsi í þessum löndum. “En þegar málið var athugað betur sást að lífs­kjör í nýlend­unum bötn­uðu stöðugt. Hvar var þá fórn­ar­lambið?” Góð spurning.

Í þriðja kafla, “Marx­ismi og veru­leik­inn”, segir Heiðar okkur að marxistar hafi næst fórnarlambsvætt náttúruna, innblásnir af nasistum og hippum. Þetta sé óþarfi og vitleysa. Okkur hefur “aldrei vegnað bet­ur,” plánetan hefur “ekki verið grænni um árhund­raða skeið,” þökk sé öllu kolefninu sem hann og vinir hans brenna í lofthjúpinn. Allt þetta hefur “gert ótt­ann um að skógar séu á und­an­haldi að engu.” Heiðar er upptekinn maður, og hefur ekki tíma til að spyrja álits vistfræðinga, sem segja yfir tvöþúsund fermetra skógarlands hverfa á sekúndu á þessari jörð, enda eru þeir örugglega allir marxistar, og marxistar “hætta ekki að leita að fórn­ar­lambi auk­innar vel­meg­un­ar, þó að sagan sýni að þeir hafi kerf­is­bundið rangt fyrir sér.”

Í fjórða kafla er tekinn fyrir aulabárðurinn Piketty, og þessvegna heitir fjórði kafli “Marx­ism­inn og Piketty”. Piketty trúir að “fjár­magn muni vaxa af sjálfu sér og yfir­gnæfa hag­kerf­ið.” Eftir að hafa útskýrt kenningu fræðimannsins í fjórtán orðum afsannar Heiðar hana í einni setningu. “Ef fjár­magn yxi af sjálfu sér væru ættir land­náms­manna Íslands gríð­ar­lega ríkar og þræl­arnir hefðu aldrei kom­ist til bjarg­álna.” Þarf frekari vitna við? “Ef við lítum okkur nær þá væru „fjöl­skyld­urnar fjórt­án“, sem tíð­rætt var um árið 1990 lang efn­aðastar á Íslandi.” Ekki sannfærð enn? “Ef við horfum til árs­ins 2000 þá væru Jón Ólafs­son og Jón Ásgeir Jóhann­es­son gríð­ar­lega efn­aðir í dag.” Piketty horfir framhjá þessu öllu. Hann heldur að ríkir verði ríkari, en hvernig geta þá ríkir stundum orðið fátækari? Það er, einsog Heiðar segir, ekki heil brú í “gölluðum kenningum Piketty og annarra marxista,” enda er “öll hagfræði” búin að “afsanna” þær.

Nú hefur Heiðar kollvarpað spilaborgum Karl Marx og Thomas Piketty, og smærri menn hefðu látið staðar numið og gott heita. En ekki Heiðar Guðjónsson. Hann ætlar, í “Marx­ismi og rekstur fyr­ir­tækja”, að útskýra hvað hann sjálfur er mikilvægur. Hann vill sanna að kerfið sem borgaði jakkafötin hans og leyfir honum að bora eftir olíu í miðjum dauðaslitrum vistkerfa jarðar sé besta kerfi í veröldinni, og að fólkið sem ræður því sé hörkuduglegt. Marxistar og Piketty-liðar skilji ekki að það sé mikil vinna að vera fólk einsog hann — svo mikil vinna að hann hefur ekki tíma til að lesa Marx og Piketty. En það er alltaf tími innanum “eilífu baráttuna” sem lífið hans er til að brunda út einni skoðanagrein um rit sem hann hefur ekki lesið til að útskýra málefni sem hann veit ekkert um.

Í lokakaflanum, “Marx­ismi og fram­tíðin”, útskýrir hann hvernig nýjustu áhyggjur marxista af tæknivæðingu og útrýmingu starfa eru rangar líka, einsog allt annað sem uppúr þeim kemur. Vissulega á tæknivæðing sér stað, útskýrir Heiðar, og vissulega hefur fólk barist gegn henni áður til að vernda störfin sín. En það er ekkert að óttast, því við höfum það öll svo gott. “Aukin tækni­væð­ing breytir ekki þessum lífs­gæðum á verri veg, nema síður sé.” Treystu forstjóranum — þannig er það bara.

Heiðar hefur þannig afsannað efnahagsóöryggi hundruð milljóna manns um hinn vestræna heim, sem halda að þau hafi misst störfin sín og að lífsgæði þeirra hafi versnað. Þau hafa rangt fyrir sér, og ef þau fatta það ekki, þá eru þau sennilega bara marxistar, sem eru jú “blindir á sög­una en stað­fastir í trúnni.” Því ef það er einhver sem veit hvað það er að horfast í augu við staðreyndir, þá er það Heiðar Guðjónsson.

Heiðar Guðjónsson gerir allt sem hann sakar Karl Marx um — vísar ekki í heimildir, beitir fölskum forsendum, afneitar óþægilegum sannindum og stígur á tröppum rökleysunnar skref fyrir skref uppí fyrirheitna landið, þar sem uppáhalds skoðanirnar hans eru óvéfengdar, og þar sem hann getur skáldað skoðanagreinar yfir almúgann meðan olían hans brennur. Það er traustvekjandi að svona menn vinni dag og nótt að því að halda kapítalismanum á floti.

Viðbót: Að kröfu ljósmyndara Viðskiptablaðsins, sem náði hinni fullkomnu mynd af Heiðari Guðjónssyni, hef ég ritskoðað titilmynd pistilsins. Lifi frelsið!

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , on by . */?>

Útlendingastofnun lærir að lemja

11. 10. 2016, 23:34

Í vor lærðu nokkrir starfsmenn Útlendingastofnunar að “verjast höggum” og “taka niður manneskju” og almennt að vera reiðubúin í aðstæðum “sem kalla á valdbeitingu.” Þetta “skemmtilega og praktíska námskeið” var haldið í ISR – Öryggistök og neyðarvörn. Staðurinn býður upp á “sérhæfða þjálfun í valdbeitingu fyrir löggæsluaðila, öryggisverði, dyraverði og allar þær starfsstéttir sem starfa við aðstæður þar sem getur komið til líkamlegara átaka.”

Meðal annars í samskiptum við flóttamenn.

Albúminu sem geymdi myndirnar hefur nú verið eytt.

Albúminu sem geymdi myndirnar hefur nú verið eytt.

Auðvitað er fólkið þarna allt hinar bestu manneskjur. Þau eru í svipaðri stöðu og hermenn – sem eru hinar bestu manneskjur líka – að því leyti að þau eru föst í kerfi sem er grimmt. Þegar landamæri eru ekki opin, þá þarf að stoppa fólkið sem reynir að koma innum þau. Það þarf að geyma það, halda því aðskildu, og henda því svo burt ef við á. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Einhver þarf að vera kjötið og beinin milli stofnunarinnar og flóttamannsins. Annars myndi kerfið ekki virka.

13244138_779534535514950_6202477656722011193_o

Það er eitthvað hrollvekjandi við að sjá þessar myndir fyrir mig, því ég þekki flóttamenn á Íslandi – nokkra af þeim með geðræn vandamál. Þeir fríka stundum út. Ég á þónokkra vini sem hafa reynt að drepa sig á Íslandi því það átti að brottvísa þeim. Einn reyndi það nokkrum sinnum. Það þurfti eflaust að taka í hann, oft og duglega, til að bjarga honum og öðrum. En ég vissi að enginn læknir gat bjargað honum. Sá eini sem gat læknað hann var lögfræðingurinn sem fór með málið hans – lögfræðingur Útlendingastofnunar. Það þurfti bara eitt “já”.

Sennilega fór sá lögfræðingur aldrei á valdbeitingarnámskeið, því hann þurfti aldrei að hitta flóttamenn. Kerfið er vandlega upp byggt, svo fólk þurfi ekki að horfast í augu við raunveruleikann. Kærunefnd útlendingamála, sem tekur við áfrýjunum á úrskurðum Útlendingastofnunar, ræður sjálf hvort hún tali við flóttamennina sem hún réttar yfir. Það er snjallt. Maður er miklu hlutlausari ef maður horfir aldrei í augu flóttamannsins.

13244079_779534675514936_632259000352696252_o

Af námskeiði starfsmanna Útlendingastofnunar.

En einhver þarf að gera það, og það er sárt. Oftast eru það aktívistar. Þeir brenna sig út, einn af öðrum, með því að eignast vini meðal flóttamanna og horfa svo á þá grátandi, þunglynda, örmagna af andúðinni sem mætir þeim. Ég hef horft á marga hvíta veggi í köldum íbúðum þar sem horft er á sjónvarpið daginn út og inn með frosnu augnaráði. Það er farið á fundi hjá Rauða krossinum, það er farið í sund (ef maður er ekki krafinn um blóðprufur), það er farið í kirkju að biðja.

Sem betur fer þarf ég ekki að fara í svona heimsóknir lengur. Útlendingastofnun bannaði þær í vor. Kerfið virkar betur ef við horfum ekki í augun á þeim. Þeir þurfa ekki að vera manneskjur. Þeir geta verið svindlarar, lygarar, glæpamenn. Flóttamenn breytast í hælisleitendur, við megum hvort eð er ekki hitta þá, þeim er hvort eð er brottvísað. Hverju skiptir hvað þeir eru?

13558966_529806240539908_2415532007644333259_o-688x451

En einhver þarf að halda þeim í skefjum, ferja þá milli staða einsog póstböggla, brottvísa þeim einsog skepnum. Og það gerist ekki sjálfkrafa. Það gerist ekki átakalaust. Það þarf fært fólk, lært fólk, þekkingu og þjálfun. Það þarf “skemmtileg og praktísk námskeið” í að “verjast höggum” og “taka niður manneskju”. Einhver þarf að vinna skítverkin, og maður er ekki verri manneskja fyrir vikið. Einhver þarf að gera þetta. Annars myndi kerfið ekki virka.

This entry was posted in blogg and tagged on by . */?>

Upp með hendur eða ég… mótmæli?

5. 5. 2016, 11:14

Enginn finnur lyktina heima hjá sér fyrr en eftir langt ferðalag. Stundum er þó nóg að fá bara póstkort til útlanda til að minningarnar hellist yfir mann. Eftir sex mánaða fjarveru fékk ég þannig póstkort frá íslensku samfélagi. Einsog margir í þessum heimi hef ég fylgst með pólitískri niðurlægingu landsmanna og friðsömum Austurvallarmótmælum úr öruggri fjarlægð síðustu vikur. Almannaviljinn er tjáður aftur og aftur í þessum líkgöngum lýðræðisins, mótmælum sem ríkisstjórnin hefur oft tilkynnt að hún virði að vettugi. Úr þessari pattstöðu spratt ekki harðari mótmælastefna, heldur uppgjafartónn. Síðan rofaði til. Róttæklingar boðuðu til aðgerða fyrir utan heimili Bjarna Ben, og rökræðan sem fylgdi minnti mig á klisjurnar, stöðnunina og dugleysið sem einkennir íslenska mótmælamenningu.

Rökræðan var að sjálfsögðu um “eðlileg mörk mótmæla”, hin goðsagnakenndu landamæri handan hverra liggja ægifen rifrilda og ósættis, myrkviður reiðinnar, þar sem fólk er ekki krúttlegt og brosandi heldur með grímur yfir forugum kjaftinum, molotov-bombur í höndunum og óeirðir á heilanum – í stuttu máli, landamærin milli Íslands og útlanda.

Skipuleggjendur hvöttu ekki til molotov-notkunar eða óeirða, bara ögrandi staðsetningar. Hermenn frjálslyndis stukku til. Athugasemdir flugu, lækum var dritað yfir vígvöllinn, skipuleggjendur voru kæfðir í kristilegri góðvild, hið persónulega og pólitíska var klofið opinberlega með fallöxi. “Sama hvernig farið er með okkur,” hrópaði lýðurinn einum rómi, svo steinveggir þingsins skulfu, “sama hvernig óskir okkar eru fótum troðnar og vilji okkar hunsaður, aldrei skulum við trufla heimilisfrið stjórnmálamanns!”

Nú ætla ég ekki að sökkva sjálfur í lamandi kviksyndi þessarar fáránlegu rökræðu eða verja augnabliki meir í þessa sorglegu áminningu um holdsveika stjórnmálaorðræðu Íslands. Heimilisfriður Bjarna Ben skiptir einfaldlega ekki máli, altént ekki umfram heimilisfrið þeirra sem þurfa að þola hans löggjöf og skattlagningu. Það sem skiptir máli, það sem við þurfum að eyða púðri í, er samfélagið í heild og reglurnar sem það vinnur eftir. Yfirstétt landsins hefur búið sér til sinn eigin persónulega ríkissjóð við strendur Karíbahafsins, einkavætt arð og náttúruauð lýðs og lands og grafið hann fimmtán skref suður, þrettán austur frá einhverju pálmatré á Panama. Það er furðulegt, í ljósi þess hve gersamlega hefðbundnar mótmælaaðferðir hafa mislukkast, að Íslendingar byrji að rífast um nákvæmlega hversu mikla samúð Bjarni Ben græðir á starfsaðferðum eina róttæklingahópsins á landinu. Ég las þessar samræður agndofa. Er fólk svo óvant mótmælum að það fellir tár, fyrir hönd strengjabrúðu stjórnarformanna, yfir þessu smáræði?

Kannski er ekki við öðru að búast í landi þar sem beiting táragass þykir sögulegur viðburður og grímuklæddir mótmælendur sirkusdýr. Friðsældin og kyrrðin eru sómi Íslands, sverð þess og skjöldur, og ekkert má útaf bregða svo við týnum þeim ekki. Öllu skal svarað með friðsælum mótmælum á Austurvelli, Facebook-færslu eða skoðanagrein í blaðið. Þannig er pólitík. Við tölum meðan stjórnmálamenn gera.

Þetta ástand hefur valdið þeim fræðimönnum vandræðum sem álíta lýðræði felast í almennri þátttöku almennings. Það ástand kalla þeir “þátttökulýðræði”, öfugt við áhorfslýðræðið sem við höfum. Við höfum verið þvinguð til að framselja sjálfræði okkar í hendur nokkurra flokksleiðtoga sem kosninga á milli segja okkur kinnroðalaust að þeir eigi embættin sem þeir úthlutuðu sér og undirmönnum sínum. Almenningur má í fjögur ár éta það sem á Austurvelli frýs, þar til andi frelsisins sveipar samfélagið og vilji þess mótast í einum krossi sem fleygt er í legstein lýðræðisins, kjörkassann, þar sem virk stjórnmálaleg þátttaka borgarans – mikilfengleg sem hún er! – byrjar og endar.

Þetta dýrðlega kerfi stendur samfélagið nú vörð um af ofsa. Þegar Bjarni Ben útskýrir fyrir Íslendingum í þúsundasta skipti að vilji þeirra komi stjórnun landsins ekki við æpa þeir, þrútnir af reiði: “Kannski kjósum við þá bara Pírata!” En svo er hikað og tónninn mildast. “Samt ekki fyrr en þú leyfir okkur!” Síðan, þegar hann haggast ekki í embætti eftir margar vikur af friðsömum reiðiöskrum er fussað, hausinn hristur og farið heim.

Þegar stjórnmálaþátttaka almennings er á þennan veg er til auðveld leið að halda völdum: að vinna áfram í hljóði. Þessa list kunna fáir íslenskir stjórnmálamenn, enda eru þeir með eindæmum hörundsárir. Þess vegna þykir með ólíkindum þegar einhver nær góðum tökum á þögninni. Bjarni Ben kunni þetta, en honum hefur brugðist bogalistin síðustu vikur. Almennt virðast þó Sjálfstæðismenn betri í þessu en Framsóknarmenn, sem kann að skýra hvernig krísur sægræna bandalagsins eiga það til klínast á Framsókn. Það þarf ekki að minna nokkurn mann á hina hrollvekjandi fyrstu mánuði þessarar ríkisstjórnar, þegar nýkjörnir þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins ruku í stjórn einsog beljur á tún. Fá bönd, lagaleg, siðferðileg eða pólitísk, virtust geta haldið þeim, og fá þeirra slettu úr klaufum einsog núverandi forsætisráðherra. í staðinn fyrir að laga lekar pípur samfélagsins í hljóði og beina þeim í vasa vina sinna, einsog kollegar þeirra úr Sjálfstæðisflokknum gerðu svo vel, þá urðu þau að segja almenningi á meðan hvað þetta væri snjallt og almúginn vitlaus og vanþakklátur.

Þótt köld og yfirveguð valdníðsla á borð við lekamálið, Orkumálið og eilífa vinagreiða Bjarna Ben geti verið mikið hættulegri en klúðurslegur groddaskapur Framsóknarmanna, þá heldur sá fyrrnefndi betur velli, einmitt því fagmennska og þagmælska virkar betur á kjósendur en aulaskapur. Það var ofbeldisfullt og óreiðukennt að sjá Fiskistofu hrifsaða frá starfsmönnum af verðandi forsætisráðherra landsins. Hinsvegar virðist engu breyta hverslags beinskiptingu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins tengja í íslenska stjórnsýslu fyrir velgjörðamenn sína, því það hefur allt slétt og fellt útlit hins löglega.

Einmitt þessi dýrkun á formlegheitum, frekar en bláköldum raunveruleika, eyðileggur tækifæri almennings til að fá rödd sína heyrða. Ef öll óánægja er tjáð með friðsamlegum skólabókarmótmælum á Austurvelli verða þau eingöngu táknræn, meðan valdbeiting og valdníðsla stjórnmálamanna er raunveruleg.

Vald er til meðan fólk leyfir því að viðgangast, meðan við virðum rétt stjórnmálamanna til að eiga embættin sín og hunsa vilja okkar. Þeir hafa vald því við hlustum og hlýðum. Að sama skapi höfum við ekki vald, því ríkisstjórnin hlustar ekki og hlýðir ekki. Það er okkar að breyta því.

This entry was posted in blogg and tagged , , on by . */?>

Það er ýmist ofskynjað eða vanskynjað

23. 4. 2016, 19:44

Facebook-lögreglan í Reykjavík hefur undanfarið “verið að fá til [sín]” fólk undir áhrifum LSD sem hefur “enga sögu af óreglu” og stundar meira að segja “skóla og eða vinnu”. Þessa einstaklinga segir hún haldna “þeim misskilningi að efnið sé svo til hættulaust” — þetta venjulega en vímaða fólk sé heppið ef það nær að “lenda í fangaklefa yfir nótt”, enda sé það “illviðráðanlegt, haldið miklum ranghugmyndum um sig og eða umhverfi sitt, með gríðarlega hátt sársaukaþol og verulega hættulegt umhverfi sínu en þó fyrst og fremst sjálfu sér.”

Ég hef séð margt fólk á LSD og þekki hugarheim þess, enda hef ég reynt það og skyld efni sjálfur. Ég gerði það að vel athuguðu máli, í góðum aðstæðum, og prísa mig sælan að hafa ekki hitt lögregluna á meðan. Til að skilja hvers vegna ég hefði örugglega verið “illviðráðanlegur” ef það hefði gerst krefst skilnings á vímunni sem um ræðir; skilnings sem lögregluna virðist sárskorta. Fólk í ofskynjunarvímu er í mjög viðkvæmu hugarástandi, og ég myndi ekki óska mínum versta óvini að vera handtekinn og læstur inni þegar þannig stæði á honum.

Víma
Mér er fyllilega ljóst að skyldmenni mín, jafnvel fólk sem þekkir mig ekki neitt, er víst til að súpa hveljur við tilhugsunina að almennt óbrjálaður maður (einsog ég held að ég sé) gæti hugsað sér aðra eins vitleysu og að taka LSD. Ég veit. Einu sinni vissi ég ekkert um vímuefni heldur, nema það sem stóð á skefjalausum áróðursveggspjöldum í Menntaskólanum að Laugarvatni. Þau voru sirka á þá leið að ofskynjunarlyf grauti í manni heilann og séu brattur óklífanlegur hjalli niður í djúp geðrofs og vitfirru. Ég tók þessi skilaboð alvarlega í einhvern tíma, en það sannaðist vel nokkrum árum síðar hver megingallinn við svona framsetningu er: ef maður kynnist áhrifum efnanna sjálfur, og sér hve fjarri þau eru ímyndinni sem maður hefur, þá er hætt við að maður missi alla trú á áróðrinum. Líka þeim sannleikskornum sem gætu verið skynsamlegar viðvaranir.

Mér til lukku fann ég raunveruleikamiðað yfirlit yfir áhrif vímuefna áður en ég prófaði þau. Þótt vímustefna ríkisins gangi svo langt að nær allar rannsóknir á ofskynjunarlyfjum eru bannaðar, þá eru einhverjar til. Og þær gefa allt aðra mynd en áróður í skólum.

LSD er ekki vanabindandi — það er þvert á móti ávanalosandi. Ofskynjunarlyf eru líklegri til að draga úr þunglyndi og sjálfsmorðshugleiðingum en að ýta undir þau. Þau geta valdið geðtrufli síðar á lífsleiðinni, en samanborið við önnur vímuefni er skaði þeirra hverfandi.

Lögreglan segir nú við þá sem “hafa hugleitt” að taka LSD að það sé “stórhættulegt efni”. Þetta er satt, á sama hátt og er satt að áfengi getur valdið andstoppi, morðæði og dauða. Það væri villandi, gagnslaust fyrir þá sem vilja neyta áfengis skynsamlega og skilaboðin yrðu hundsuð af flestum sem hafa einhverja reynslu af efninu.

Þegar ekki er farið af samúð og skilningi í kynningu á vímuefnum, heldur af ofbeldisfullri refsigirnd eða óumbeðinni og miskunnarlausri hjálpsemi sem felst í að fangelsa mann meðan á vímunni stendur, þá er ekki annars að vænta en að þú skapir tvo hópa: englana sem aldrei snerta á vímuefnum (nema áfengi og tóbaki, sem eru undanskilin þessum áróðursherferðum) og djöflana sem hundsa ofbeldisfulla ráðgjöfina.

Svo er bara að prófa
Mér sýndist á minni yfirferð að mesta hættan við að taka LSD væri tvíþætt. Í fyrsta lagi væri vafasamt að prófa það hefði maður andlega kvilla. Allt í góðu þar. Í öðru lagi væri bráðmikilvægt að hafa öruggt, traustverðugt, vinveitt umhverfi.

Það er skiljanlegt að fólk prófi stundum ofskynjunarefni án þess að hafa gengið úr skugga um þessa tvo hluti, á sama hátt og er skiljanlegt hvernig unglingar byrja að drekka. Það er þeim mun mikilvægara (og miklu mikilvægara en í tilfelli áfengis) að nálgast ókunnugt fólk sem ofskynjar af vinsemd og skilningi.

Skynjun manns á LSD er mjög skýr og beinskeytt, ómenguð af hugtökum. Hún er að því og mörgu öðru leyti barnsleg. Ólíklegustu hlutir vekja áhuga manns, lögmál heimsins þversnúast og margbrotna í mynda- og hugsanaflóði, veröldin geislar af kæti eða fellur saman í tvívídd eða er öll núna. Smæstu hlutir geta orðið að nafla veraldar, minnsta áreiti að sögulegum viðburði, smæsta misfella í samræðum yfirþyrmandi. Maður verður mjög næmur fyrir stressi og það getur algerlega gert útaf við mann að eiga í krefjandi samskiptum. “Vond tripp” geta farið í gang útaf ógnvænlegum hugmyndum sem maður bítur í sig, eða útaf skuggalegum aðstæðum sem maður er settur í. Það er hægt að vinna sig úr spíralhugsun á vondu LSD-trippi heima í stofu, til dæmis með því að fara út í labbitúr eða hringja í vin, en þessir möguleikar eru ekki í boði í fangaklefa. Þar er maður dæmdur til að kveljast.

Sjálfsuppfyllandi viðvörun
Þegar lögreglan álítur fólk á ofskynjunarlyfjum vera hættulegt, þá leiðir nálgun þeirra sjálfkrafa af sér hættulegar aðstæður — fyrir geðheilbrigði vímaða fólksins. Í vímu viltu síst þurfa að útskýra fyrir tortryggnum og ókunnugum mönnum hvað þú ert að gera. Ef þeir eru í þokkabót einkennisklæddir, með leyfi til að beita valdi, og álíta þig glæpamann, þá er voðinn vís. Þegar hún segir að hún telji fólk í þessu ástandi “verulega hættulegt umhverfi sínu”, þá get ég ekki ímyndað mér hverslags samskipti hún leiðir það í, hvað þá hvílíka martröð þau skapa í huga þess sem er í vímu. Facebook-lögreglan bætir við að eftir slíkar hamfarir sé það að “lenda í fangaklefa yfir nótt”, fyrir tætta sálina sem eftir stendur, “langt í frá það versta sem gæti komið fyrir.” Kannski. En það er fjári nálægt.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , on by . */?>

Ásættanlegur fórnarkostnaður

30. 3. 2016, 14:10

Þann 18. mars tókst Evrópu að gera samkomulag við Tyrkland um að brottvísa þangað öllum flóttamönnum sem koma þaðan. Allir yrðu handteknir við komu til Grikklands, settir í fangabúðir, fengju einhverskonar þykjustutækifæri til hælisumsóknar og yrðu svo sendir burtu. Ferlið átti að byrja innan tveggja sólarhringa og brottvísanirnar eiga að hefjast fjórða apríl. Allt á þetta að standast alþjóðalög.

Þegar ég frétti af þessu brjálæðislega og óframkvæmanlega samkomulagi var ég djúpt í Tyrklandi, nálægt sýrlensku landamærunum, að athuga hvernig aðstæður þar eru fyrir flóttamennn. Almennt eru þær, svo ég orði það glæfralega vægt, slæmar. Þær minna á aðstæður evrópskra verkamanna á myrkari köflum iðnbyltingarinnar. Í stórborgunum slíta flóttamenn út lífum sínum við saumavélar. Í sveitunum þræla þeir á ökrum meðan birta leyfir og fá að búa í tjaldbúðum í staðinn. Atvinnuréttindi eru lúxus sem fæstir hafa, og því er svínað á þeim, útborgun launa dregin eða skert og fólki gert að senda tólf ára krakka sína í verksmiðjur og á akra.

Heimili flóttamanna utanvið Torbali í Vestur-Tyrklandi.

Heimili flóttamanna utanvið Torbali í Vestur-Tyrklandi.

Það er til marks um fáránlega bjartsýni evrópskra stjórnvalda, eða einfaldlega örvæntingarfullt skeytingarleysi þeirra, að ég náði ekki einusinni að koma mér frá Tyrklandi til grískrar eyju – Kíos – á þeim tíma sem sambandið hafði gefið sér til að hefja brottvísunaráætlunina. Þó fólst í þeirri áætlun að gerbylta hælisumsóknarkerfum og flóttamannamóttöku tveggja landa.

Ég settist upp í bíl á hádegi laugardagsins 19. mars, daginn eftir að samkomulagið var undirritað, og keyrði í fimmtán tíma samfleytt til að ná ferju til Grikklands. Þegar ég kom að landi í Kíos voru fyrstu flóttamennirnir sem yrðu undirseldir nýju áætluninni sitjandi á bryggjunni. Þeim var smalað í rútu og var svo ekið í fangelsi. Þeir voru rukkaðir um þrjár evrur fyrir farið.

Gríska landhelgisgæslan flytur flóttamenn að bryggju sunnudagsmorguninn 20. mars.

Gríska landhelgisgæslan flytur flóttamenn að bryggju sunnudagsmorguninn 20. mars.

Það kom fljótt á daginn að enginn vissi hvað væri að ske og hvernig ætti að bregðast við. Lögreglan hafði ekki skýr fyrirmæli, önnur en að fangelsa fólkið við komu. Sjálfboðaliðum og blaðamönnum var bara hleypt nálægt flóttamönnunum ef lögreglumönnum sýndist svo. Spánsk blaðakona sat fyrir utan hliðið að bryggjunni og lét sér leiðast. Súpa var gefin á bryggjunni og ekki var alveg ljóst hvað myndi gerast um kvöldið, hver myndi gefa fólkinu mat þá, og hvort maður mætti yfirleitt koma í fangelsið að hitta þá.

Flóttamenn bíða eftir að vera ekið í fangelsi.

Flóttamenn bíða eftir að vera ekið í fangelsi.

Eitt umræðuefni hefur elt alla sjálfboðaliða sem ég hef hitt í vetur: Að hve miklu leyti erum við að styðja kerfi sem við viljum brjóta niður með því að veita þessa aðstoð? Að hve miklu leyti ætti maður að vinna pólitískt, að hve miklu leyti sem ópólitískur hjálparstarfsmaður? Er yfirleitt hægt að vera ópólitískur þegar maður hjálpar flóttamönnum sem evrópskir stjórnmálamenn reyna gagngert að hrinda úr álfunni?

Þegar kemur að fangelsun flóttamanna fer mörgum að þykja þetta aðkallandi spurning. Ég var á eyjunni Leros þegar varðhaldsbúðir fyrir flóttamenn voru opnaðar þar í febrúarlok, og herforinginn sem rak búðirnar kallaði sjálfboðaliða á fund. Hann hafði opnað búðirnar án þess að láta þá vita og án þess að velta sérstaklega fyrir sér hvaðan maturinn ætti að koma. Enginn mátti yfirgefa þær. “Hvað getið þið boðið?” spurði hann sjálfboðaliðana. Og vel að merkja, bætti hann við, það þyrfti líka einhver að þrífa ruslið.

DSC_0284

Flóttamannafangelsið á Leros.

Mér til mikillar armæðu urðu sjálfboðaliðarnir einfaldlega við þessum fáránlegu kröfum. Þarna hefðu þeir umsvifalaust og án afdráttar átt að krefjast þess að búðirnar yrðu opnar ef ekki væri hægt að reka þær almennilega sem varðhaldsbúðir. Þrjár fínar og mannúðlegar flóttamannabúðir voru fyrir á eyjunni sem gátu vel sinnt öllum sem komu. En það tók sjálfboðaliðana nokkrar vikur að fá herinn til að fjármagna og þrífa sitt eigið fangelsi.

En nú er ástandið mun verra. Í febrúarlok vissu flóttamennirnir í varðhaldsbúðunum þó að þeim yrði að lokum sleppt og leyft að fara á meginlandið. Nú eru þeir í fangelsi, og þeim verður brottvísað.

Flóttamaður fangelsaður í Vial biður um ráð með Google translate.

Flóttamaður fangelsaður í Vial biður um ráð.

Á mánudagsmorguninn, degi eftir að samkomulagið við Tyrkland gekk í gildi, fór ég í Vial – flóttamannafangelsið á Kíos – með aktívistum úr fjölþjóðlegri hústöku á eyjunni. Við keyrðum að Vial, sem er staðsett nokkra kílómetra frá höfuðstað Kíos, löbbuðum að girðingunni sem liggur meðfram sveitaveginum og spjölluðum við fólkið fyrir innan. Fangarnir voru örvæntingarfullir, vonsviknir og reiðir.

Nokkur okkar gáfu þeim dót yfir og gegnum girðinguna. Dreifing matar gegnum girðingu er alltaf óréttlát og handahófskennd. Hreinlætisvörur og kex fóru til þeirra sem náðu að grípa það.

Hreinlætisvörur gefnar inní fangelsið.

Hreinlætisvörur gefnar inní fangelsið.

Súpueldhúsin á eyjunni hafa fengið að kynnast þessu vandamáli af hörku. Þau sóttu um leyfi hjá lögreglunni til að gefa flóttamönnunum mat og eru undirsett skipunum hennar. Fyrstu dagana urðu þau að gefa matinn gegnum vírana. Slagsmál upphófust á miðvikudaginn 23. mars vegna ónógs matar og óréttlátrar dreifingar. Auðvitað er ekki beint við súpueldhúsin að sakast að ná ekki að gefa mat almennilega í svona fáránlegum aðstæðum, en enn og aftur: Þau hefðu átt að krefjast þess að mega fara inn eða að búðirnar yrðu opnar.

Fangelsuðum flóttamönnum í Vial, Chios, gefinn matur gegnum girðinguna.

Matur gefinn gegnum girðingu. Myndband hér.

Slagsmálin á miðvikudaginn drógust í hálftíma, því allir – lögreglan meðtalin – höfðu flúið úr fangelsinu. Bara flóttamennir, menn konur og börn, voru læstir inni. Fimm slösuðust.

Mótmæli eru haldin daglega í búðunum. Við höfum safnað nokkrum símanúmerum hjá föngunum og sögðum þeim frá því í fyrradag að aðstoðarráðherra væri á leið til Vial að skoða aðstæður. Mótmælin voru svo hávær að þegar hæstvirtur gesturinn var tekinn í viðtal úti á götu heyrðist betur í mótmælendunum en honum. Þeir kölluðu eftir frelsi og kröfðust þess að vera ekki brottvísað til Tyrklands.

Við höfum heimsótt búðirnar hér um bil daglega, en næstum alltaf verið skipað af lögreglu að yfirgefa staðinn. Einn daginn voru tveir hópar fluttir á lögreglustöð og yfirheyrðir í fimm tíma. Annan dag voru skilríkjanúmer allra sem höfðu heimsótt fangelsið skráð.

Lund fólks breytist þegar það bíður í svona aðstæðum dögum saman. Hrá vonbrigðin og bræðin frá fyrstu tveimur dögunum hefur vikið fyrir yfirvegaðri og ígrundaðri reiði. Mótmæli eru haldin daglega.

Þegar öllu þessu fólki hefur verið brottvísað þætti mér forvitnilegt að heyra hvernig þeir lýsa ótrúlegri eigingirni og sjálfhverfu Evrópu. Orðspor heimsálfunnar okkar í þriðja heiminum er ekki glæsilegt. Stjórnmálamenn hafa nú gert sitt allrabesta til að sverta það rækilega. Þetta er gert viljandi: Það á að fæla aðra flóttamenn frá því að koma hingað. Til þess er fangelsun barna ásættanlegur fórnarkostnaður – til að brjóta ein réttindi sættir Evrópa sig við að brjóta önnur. Það hefur tekið vel yfir viku að koma hælisumsóknarferlinu í gang. Það átti að byrja í dag, en ekki bólar á því. Brottvísanir eiga að hefjast á mánudaginn. Það sannast nú sem aldrei fyrr að ef ekki er barist fyrir réttindum, þá eru þau ekki til.

This entry was posted in blogg on by . */?>