Ekki vera steinn í múrnum

Það fyrsta sem þú tekur eftir í Jerúsalem eru túristarnir. Pílagrímar nútímans, léttklæddir með myndavélar, að heimsækja höllina þar sem Heródes fyrirskipaði kynslóðarmorðið og Getsemanegarðinn þar sem Júdas kyssti Jesú, að labba með kyrjandi munkum krossberaslóðina. Kaupa boli sem stendur á „Guns n Moses“ og „America don’t worry, Israel is behind you“.

Í gömlu borginni, innan aldagamalla múra, eru fjögur hverfi – múslimar, gyðingar, kristnir og Armenar skiptast þar á að halda helgidagana sína á föstudegi, laugardegi og sunnudegi. Það má alltaf finna opna verslun í einu hverfinu þegar hitt er að heiðra sinn guð.

Horft austurfrá höll Heródesar yfir al-Aqsa á Ólífufjallið

Einn daginn er hliðum í borgina lokað. Palestínskur unglingur tók upp hníf nálægt ísraelskum hermönnum sem eru víða í borginni, vopnaðir hríðskotabyssum. Enginn slasaðist nema terroristinn segja fjölmiðlar, með því orðfæri sem veröldinni er orðið tamt að nota um óhlýðna Araba. Tveir hermenn á hestbaki stilla upp verði við Heródesarhliðið norðanmegin á múrunum. Aldagamlir múrar, þvaga af forvitnu fólki, verðir á hestbaki, vélbyssur.

Jerúsalem hefur stækkað langt útfyrir gömlu múrana og er svo gott sem samliggjandi borginni Betlehem, skammt fyrir sunnan. Þar er annar og nýrri múr, átta metrar á hæð, sem hlykkjast gegnum bæinn, til að halda Palestínumönnum frá Ísrael. Aðskilnaðarmúrinn er grár Ísraelsmegin, en málaður alls kyns listaverkum og skilaboðum Palestínumegin. „Ekki vera steinn í þessum múr.“ Annars staðar: „Hefndin fyrir þetta verður hlátur barna okkar.“

Aðskilnaðarmúrinn var reistur uppúr aldamótum þegar Palestínumenn gerðu uppreisn gegn hernámi Ísraels. Hann var ekki reistur á vopnahléslínunni milli landanna, heldur langt inni á palestínsku landi, „til að innlima eins mikið land og mögulegt er af Vesturbakkanum“, með orðum ísraelsku friðarsamtakanna Peace Now. Á meðan augu heimsins eru á linnulausum hörmungum og hernaðarofstæki í Gaza, lítilli landræmu sem Ísrael kærir sig lítið um, hefur landrán á Vesturbakkanum haldið áfram linnulaust. Athyglinni er haldið á Gaza svo ríkið geti haft frjálsar hendur við landtöku annars staðar, segir starfsmaður heildarsamtaka palestínsks verkafólks. Í nýafstöðum þingkosningum í Ísrael var eitt kosningaloforðið að innlima stór svæði af landi Palestínumanna á Vesturbakkanum, gera þau hluta af Ísrael.

Fremst er Jeríkó, árþúsundagömul vin í eyðimörkinni. Jórdandalurinn blasir við og fjallagarðar Jórdaníu aftast. Forsætisráðherra Ísrael lofaði í kosningum að kasta eign Ísrael yfir dalinn.

Ég spyr ungling sem selur listaverk í sýningarrými hjá múrnum hvort hún muni eftir því þegar hann var reistur. „Já, ég var krakki þegar hann kom. Hann var byggður í áföngum, svo við fengum tíma til að aðlagast.“ Múrinn er beint fyrir utan húsið, settur upp til að halda henni úti.

Eitt ísraelska hverfið á fætur öðru rís innan múrsins á Vesturbakkanum, vígvædd lúxushverfi með snyrtilegum íbúðarhúsum, smíðuð af fólki sem segir allt land Palestínu tilheyra Ísrael með trúarlegum rétti. Ísrael hefur tekið stjórn á vatnsbólum og gefur minnihluta fólksins sem býr í landránsbyggðunum meirihluta vatnsins gegnum vatnsveitu. Palestínumenn fá sitt vatn, sótt undan þeirra eigin landi, skammtað, og geyma í kútum á þökunum sínum. Þeir líða niðurskurð á fjármagni, niðurskurð á landi, niðurskurð á vatni og á frelsi.

Vikulegar mótmælagöngur víða í Palestínu gegn þessum byggðum eru hraktar aftur af hermönnum með táragasi og leyniskyttum. Ben Ehrenreich, blaðamaður sem dvaldi á Vesturbakkanum, segir leyniskytturnar miða á hné mótmælenda til að hámarka örkumlun. Stundum leika hermennirnir sér að því að skjóta vatnskútana á palestínskum þökum.

Landránsbyggð á hæð utanvið Betlehem. Palestínsku byggðirnar nær þekkjast á vatnskútunum á þökunum, en ísralesku byggðirnar hafa vatnsveitu.

Ísrael er lítið land og Palestína jafnvel smærri. Vesturbakkinn er á stærð við Austfirði. Aðskilnaðarmúrinn, sem lokar inni þrjár milljónir sálna, kræklast og hlykkist um hann sjö hundruð kílómetra leið. Aðskilnaður þjóðanna og uppihald hernámsins er ekki bara kostnaðarliður ísraelsku siðmenningarinnar. Palestínsku verkafólki er skammtað inn til Ísrael, og jafnvel í landtökubyggðirnar, þar sem arabískt vinnuafl telst ódýrt og útskiptanlegt. Atvinnuleyfi eru bundin atvinnurekanda og uppsagnarvarnir eru engar. Sala á atvinnuleyfum er arðbær mafía. Það er bissniss í aðskilnaði.

Þau sem eru svo heppin að fá atvinnuleyfi þurfa engu að síður að fara gegnum klukkutímalangar biðraðir og öryggispróf sérhvern morgun til að komast í vinnuna. Þau vakna um miðja nótt og leggja af stað, standa í biðröð klukkutímum saman, vinna langan dag, líða launaþjófnað og misrétti og koma svo heim seint um kvöld. Þau sem slasast eru send beint til baka. Vinnuvernd er engin. Ísraelsk stéttarfélög hjálpa ekki Palestínumönnum og palestínsk stéttarfélög hafa engin völd handan múrsins.

Sendinefnd Alþýðusambandsins, sem heimsótti svæðið um mánaðamótin október-nóvember, spurðist fyrir hvaða leiðir væru færar til að berjast fyrir auknu frelsi Palestínumanna. Allir viðmælendur sögðu að berjast þyrfti gegn hernáminu, og besta aðferðin sem vísað var til er alþjóðlega sniðgönguherferðin BDS.

Herferðin miðar að því að þrýsta friðsamlega á viðskiptaöfl í Ísrael og svipta ríki þeirra alþjóðlegri velvild og viðurkenningu, þar til ofríki og hernámi lýkur. Fyrirmyndin er sniðganga Suður-Afríku á tímum apartheid, þar sem yfirvöld gáfu sig loks og leyfðu sameiningu landsins undir lýðræðislegri stjórn allra – ekki bara ríka minnihlutans. Uppskipting Palestínu og Ísrael í tvö ríki var lengi talin vænlegasta lausnin fyrir botni Miðjarðarhafs, en stöðugur sundurskorningur palestínsks lands af hálfu Ísrael hefur gert eins ríkis lausn á borð við þá í Suður-Afríku sífellt ákjósanlegri.

al-Aqsa, musteri steinsins helga, í Jerúsalem.

Túristarnir sem ferðast um landið helga koma margir hverjir frá vesturlöndum, kristilegar ferðir um heimaslóðir testamentsins. Með þeim kemur aðdáun á framverði siðmenningar gegn barbarisma, hinu hreinlega og ríka yfirvaldi sem tekur land af heimafólkinu og ver sig með dýrustu og bestu vopnum sem bjóðast. Ísrael er smátt land, eins og smækkuð mynd af heiminum öllum, þar sem ríkur minnihluti ræður lögum og lofum um auðlindir, þar sem viðskiptaveldi nýta sér fátæklingana handan girðinga og múra til að halda verði vinnuaflsins niðri. Til að halda umræðunni frá stéttskiptingu er trúarhiti og kynþáttaótti gagnleg afvegaleiðing.

Við spurðum forsvarsmenn stéttarfélaga í Palestínu hvort það væri ekki skaði í því fyrir Palestínumenn að ísraelska hagkerfið yrði sniðgengið? Það veitir jú mörgum þeirra atvinnu. Svarið var einfalt. Öll okkar vandamál má rekja til hernámsins, sögðu þau. Ef við viljum fá sjálfræði aftur, og geta staðið á eigin fótum, þá þarf að stoppa hernámið, þótt það verði erfitt.

Og enn lifir í fólki von og þrautseigla – enda ekki annað í boði. „Það er ljós við enda ganganna,“ sagði einn Palestínumaður okkur. „En við vitum ekki hvað göngin eru löng.“

Þessi grein birtist í næsta tölublaði Eflingarblaðsins.

This entry was posted in blogg on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>