Valdbeiting af gáleysi

Í dag hefur “lögruglan” úr Salnum í Kópavogi tjáð sig um upphlaupið á laugardaginn, og eru þá allir helstu málsaðilar búnir að játa opinberlega á sig atburði þess dags: Maður tók sér lögregluvald án leyfis, með hvatningu bæjarstjóra Kópavogs, og beitti því gegn hælisleitanda.

Það er ekki á hverjum degi sem glæpsamlegur verknaður er jafn skilmerkilega útskýrður af fólkinu sem stóð á bakvið hann eins og hér. Ármann Kr. Ólafsson, sem reyndi að framfylgja fundarsköpum með lögregluvaldi, sagði eftirminnilega að “við ætlum ekki að hringja í lögregluna því þessir tveir herramenn hérna eru lögreglan.” Umræddir menn völsuðu upp að hælisleitendunum og ítrekuðu að hælisleitendurnir ættu að setjast og þegja. Svo sagði annar “lögreglumannanna” á ensku: “Ef ekki, þá tökum við ykkur út. Við tökum ykkur út. Við erum lögreglan. Þú getur talað við mig, ég er lögreglumaður.”

Ármann vissi að þetta væri ekki satt, enda sagði hann eftir fundinn að hann “hefði auðvitað átt að taka það fram að þeir væru fyrr­ver­andi lög­reglu­menn.”

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, sem hefur neitað að svara hælisleitendunum þegar þeir reyna að tala við hana á venjulegan máta, benti á hið augljósa — að það mætti auðvitað ekki þykjast vera lögga. “Auð­vitað getur enginn tekið að sér slíkt vald.”

Lögruglan sjálf var Þorvaldur Sigmarsson, stjórnarmaður í Sjálfstæðisfélaginu í Kópavogi. Hann hefur nú stigið framfyrir skjöldu og útskýrt hvað gerðist. “Mér urðu á mistök þegar ég sagði þetta,” segir hann. “Þetta kom öfugt út úr mér. Ég leiðrétti þetta við þessa menn á eftir. Ég ætlaði að segja ‘I was a policeman’. Ég er enginn sérfræðingur í ensku.”

Þetta er auðvitað ótrúlegt, í orðsins fyllstu merkingu. En hann bætir um betur. Í tráss við það sem gerðist í alvörunni, og sem tekið var upp á myndband sem tugþúsundir hafa horft á á internetinu, segir Þorvaldur til viðbótar að hann “ætlaði ekki að fara að slást við hann eða henda honum út eða neitt þannig.” Með öðrum orðum, valdbeitingin var af gáleysi — rétt einsog það þegar hann sagði óvart að hann væri lögga. Svona hegðun kallast á góðri íslensku lygar og undanbrögð.

Það sem bannar venjulegu fólki að taka lögin í eigin hendur er ekki bara heilbrigð skynsemi, heldur líka 116. grein almennra hegningarlaga. Hún hljóðar svo:

Hver, sem tekur sér eitthvert opinbert vald, sem hann ekki hefur, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári eða, ef miklar sakir eru, fangelsi allt að 2 árum.

Í ljósi þess að allir málsaðilar hafa í meginatriðum og sameiningu játað glæpinn situr bara eftir spurningin hvort um ræði “miklar sakir”. Þegar lögfræðingar reyna að svara henni er vert að athuga eitt. Eins og fjöldi fólks hefur bent á er ekki bara verið að beita lögreglu-fundarsköpum á hvern sem er, heldur á flóttamenn í hælisferli, sem hafa iðulega engan pening, eru upp á mjög illkvitna stofnun komnir, og þurfa að búa við það sérhverja nótt að geta fengið bank á hurðina frá sérsveitinni, sem brottvísar fjölda þeirra í hverri viku. Og í því samhengi eru eftirfarandi orð Þorvalds ekki-löggu forvitnileg:

Ármann hafði talað um að við værum lögreglumenn og því er beint til mín frá þessum aðila hvort ég væri lögreglumaður eða ekki og ég sagði honum það. Ég hefði ekki gert það við Íslending.

Sagði hælisleitandanum hvað? Lygi? Rugl? Og hefði ekki gert hvað við Íslending? Ruglað í honum á ensku? Logið að honum að hann sé lögga?

Það er nefnilega ekki sama hver segir ósatt um valdheimildir sínar eða við hvern. Hvað þá þegar bæjarstjóri Kópavogs, með dómsmálaráðherra sér við hlið, tekur þátt í lyginni.

This entry was posted in blogg on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>