Flóttamenn í Evrópu og nasistar á Íslandi

Þetta er sagan af flóttamönnum í Evrópu, því þegar íslenska ríkið tók þátt í helförinni, og hvernig nasistar og njósnarar sáu um Útlendingaeftirlitið í hálfa öld.

Sagan hefst í kreppunni miklu. Atvinnuleysi var þá mikið hér á landi, svo fjölmörg stéttarfélög mæltust til brottvísunar útlendinga héðan og höftum á aðflutning þeirra.1 Styggð gegn útlendingum birtist sérstaklega í garð gyðinga. Þeir voru úthrópaðir sem hætta gegn íslenska kynstofninum2 og ýjað að skattsvikum þeirra.3 Hatur og níðsla á gyðingum skaut líka rótum í hæstu embættum landsins. Þó gyðingar væru varla nokkurs staðar færri en hér var mörgum þeirra vísað úr landi. Nánast engum var hleypt inn, og flestum sem náðu inn var fljótlega vísað burt aftur. Meira að segja sárbænir úr þrælkunarbúðum hreyfðu ekki við ráðamönnum.4

Hermann Jónasson

Hermann Jónasson, ábyrgðarmaður stefnunnar

Útlendingaeftirlitið var stofnað á þessum tíma sem deild undir lögreglustjóranum í Reykjavík. Það átti að hafa „strangt eftirlit með högum og framferði þeirra útlendinga, sem hér dvöldu”.5 Einn fyrsti lögreglustjórinn eftir stofnun þess var Agnar Kofoed-Hansen. Hermann Jónasson, forsætisráðherra, hafði sumarið 1938 sent Agnar til Þriðja ríkisins til að nema aðferðir þýsku lögreglunnar af SS-foringjum.6 Agnar varð lögreglustjóri veturinn eftir, 24 ára gamall. Þar notaði hann útlendingaeftirlitið í tíu ár sem skálkaskjól fyrir leyniþjónustu.7 Eftir stríð gaf Bjarni Benediktsson þessari njósnadeild lögreglunnar sína eigin hæð á lögreglustöðinni. Auk þess skipaði Bjarni fyrrum flokksmann Þjóðernishreyfingarinnar, Sigurjón Sigurðsson, sem arftaka Agnars.8 Sigurjón hafði gert garðinn frægan með skrifum í stúdentablað nasista fyrir stríð,9 en gekk ásamt mörgum nasistum í Sjálfstæðisflokk Bjarna Benediktssonar þegar stríðinu lauk. Sigurjón gegndi starfi lögreglustjóra í fjörutíu ár. Þannig voru nasistalærlingur og nasisti yfirmenn útlendingaeftirlitsins í hálfa öld eftir stofnun þess.

Skólablað Sigurjóns

Veturinn 1938 barst dómsmálaráðuneytinu beiðni frá Austurríki. Sextugur maður var þar í þrælkunarbúðum, og hafði fengið leyfi til að yfirgefa þær ef hann fengi landvist annarsstaðar. Hann ætlaði til Bandaríkjanna, en þyrfti þá að stoppa hér á landi í tvo mánuði. En tveir mánuðir voru of mikið. Hermann Jónasson synjaði honum um landvistarleyfi, þrátt fyrir vitneskju um aðstæður mannsins.10 Þessi ákvörðun hans var að mestu leyti byggð á geðþótta, enda hafði hann fullt vald til að leyfa hverjum sem honum sýndist dvöl hér – sem hann og gerði ef um nasista var að ræða.11

Sama vetur bað Friðarvinafélagið, ásamt Katrínu Thoroddsen, um landvistarleyfi fyrir nokkur gyðingabörn. Öllum hafði verið lofað heimili hér á landi sem myndu annast þau. Hermann dró lappirnar í þrjá mánuði, og gaf svo skýringarlausa neitun. Katrín brást við með grein í Þjóðviljann undir titlinum „Mannúð bönnuð á Íslandi”.12 Flokksblaði Hermanns þótti þetta „einelti” gegn honum ólíðandi.13 Auðvitað hefðu gyðingar „verið miklu harðræði beittir”, en við þyrftum að passa að aðstoð við þá „verði ekki á kostnað þeirra einstaklinga hjá okkur, sem eru ekki síður þurfandi fyrir aðstoð.” Hefðu Íslendingar einhverja þörf til að hjálpa gætu þeir fengið næga útrás fyrir henni á öðrum Íslendingum. Morgunblaðið tók í sama streng með fyrirsögninni: „Á að gera Ísland að gróðrarstíu fyrir flakkandi erlendan landshornalýð?”14

Katrín Thoroddsen

Katrín Thoroddsen, ein af „góða fólkinu“

Frávísanir gyðinga frá Íslandi voru kerfisbundnar og miskunnarlausar. Hálft annað hundrað gyðinga, ásamt fjölskyldum þeirra, fengu ekki leyfi íslenskra stjórnvalda til að flýja hingað. Þessir hælisleitendur hafa líklega margir hverjir látið lífið í útrýmingarbúðum nasista. Ísland var þannig rétt fyrir stríð eitt gyðingahreinasta land Evrópu.15

Enn í dag flýr fólk stríð, meðal annars stríð sem Íslendingar lögðu stuðning sinn við. Flóttamenn frá Írak voru tæplega tvær milljónir árið 2008, og árin 2006-7 streymdu tvöþúsund þeirra á dag í Sýrland. Evrópa hafði þá tekið við færri en tvöþúsund íröskum flóttamönnum frá upphafi stríðsins.16 Síðan byrjaði stríð í Sýrlandi og hundruð þúsunda flýðu til Tyrklands. Neyð þeirra vakti ekki athygli Evrópubúa fyrr en þeir reyndu að koma hingað – þá gaf Evrópusambandið Tyrklandi peninga til að vígvæða landamærin sín við Sýrland og smíða múr.17 Turkey is going to build a wall, and the EU will pay for it, eins og einhverjir myndu orða það. Við, ríkasta fólk heims, virðumst vilja fá olíu, ódýr föt og raftæki frá suðurlöndum, en ekki flóttamenn. Í því skiptir engu þótt við heyjum þar stríð endrum eins til að viðhalda þessu ástandi.

Mennirnir sem lögðu nafn Íslands við innrásina í Írak. Hér er Halldór nýbúinn að skipa Davíð seðlabankastjóra.

Til að halda flóttamönnunum utan Evrópu eru landamæri álfunnar varin, og landamæragæslan nær langt inn í annarra manna lönd og heimsálfur. Einræðisherrum og morðsveitum í löndum á borð við Súdan og Líbýu er borgað til að stoppa fólk sem reynir að komast yfir landamæri – landamæri sem evrópsk heimsveldi teiknuðu fyrir ári og öld.18 Í Evrópu eru nefnilega til mannréttindi, en ekki fyrir sunnan, og þess vegna hentar betur að láta afgreiða flóttamennina áður en þeir komast í lög og reglu. Í hverju skrefi þessarar mjög svo verklegu hælisumsóknar eiga flóttamenn á hættu að vera barðir, fangelsaðir, seldir í þrælkun eða hórdóm eða að vera nauðgað. Réttindi þeirra eru brotin viðstöðulaust eins og kemur fram í skýrslu eftir skýrslu frá öllum heimsins mannréttindasamtökum.19

Lögreglumenn passa upp á flóttamenn á grískri eyju vorið 2016

Landamæravarnir innan Evrópu eru ekki á könnu afrískra morðsveita, heldur heyra þær undir stofnunina Frontex. Helstu verkefni stofnunarinnar eru gæsla á Miðjarðarhafi og við syðri landamæri Evrópu og greining fólksstrauma til að geta spáð hvar varnir okkar gegn útlendingum eru veikastar.

Ísland ljær Frontex stuðning með því að senda skip og flugvél Landhelgisgæslunnar suður í höf. Þegar haukfrán augu Íslendinganna hafa fundið smábáta, drekkhlaðna af flóttafólki, er flóttamönnunum skutlað í fangabúðir sem hafa margsinnis verið harðlega gagnrýndar af öllum viðkomandi mannréttindasamtökum. Þessa „björgun” flóttafólksins kallar Landhelgisgæslan „mannúðarstarf”. Fyrst og fremst er þó litið á mannúðarstarfið sem leið til að græða peninga: „Þessi verkefni eru okkur nauðsynleg og forsenda þess að viðhalda mannauð og tækjum Landhelgisgæslunnar og starfsemi okkar í heild sinni.”20

Úr Frontex-flugi Landhelgisgæslunnar

„Björgun“ fólksins í evrópskar fangabúðir er hinsvegar það sem telst til mannúðar árið 2018, árið þar sem evrópskum höfnum var lokað fyrir björgunarskipum. Stjórnmálastéttin, sem ekki vill horfast í augu við langvarandi efnahagskrísu síðasta áratugar, beinir augunum ekki að eigin mistökum, heldur að útlendingunum. Við þurfum að halda þeim úti, segja þau, svo rasistarnir komist ekki til valda. Við verjumst rasistum með því að taka upp þjóðhreinsunarstefnu, við höldum aftur af fasisma í Evrópu með því að efla hann í Tyrklandi og Afríku.

Þessi flóttamannafælni yfirvalda á sér sömu ástæður og áður. Langvarandi efnahagskreppa kyndir undir ótta við innflytjendur, en stjórnmálamenn þora ekki að skora peningaöflin á hólm. Það er auðveldara (og gróðavænlegra) að skamma innflytjendur en iðnaðinn, auðveldara að setja lög á búrkur en banka.

Fáir flóttamenn vilja koma til Íslands. Flestir sem koma hingað hafa reynt að fá vernd í síharðnandi hælisferlum annarra evrópskra landa, og fengið höfnun. Í stað þess að vera síðasta vígi mannúðar hefur Ísland tekið upp harða endursendingarstefnu. Flóttamennirnir eru sendir í Evrópulöndin sem höfnuðu þeim, með vísun í Dyflinnarreglugerðina, og þaðan heim til sín. Dæmi um þessa meðferð er Gazabúinn Ramez, sem slapp úr einangrunarvistinni þar eftir margra ára þrautir og raunir. Honum var neitað um vist í Noregi og flýði til Íslands, sem sparkaði honum beint til baka einsog óskilaböggli. Innan nokkurra vikna hafði Noregur sent hann til Gaza aftur – rétt í tæka tíð fyrir hann að verða fyrir loftárásum Ísraela sumarið 2014.21 Ramez reyndi í þrjú ár að sleppa aftur og náði til Grikklands í fyrra. Þar er hann fastur núna, enda hafa ríkari Evrópulönd látið reisa girðingar utanum Grikkland svo enginn komist þaðan norður á bóginn.

Ramez í Aþenu í febrúar

Innanríkisráðuneytið brást við aðfinnslum um Dyflinnar-endursendingar árið 2009 með lygum, rökleysu og vitfirrtri bjartsýni í skýrslu „um aðstæður hælisleitenda í Grikklandi”.22 Þar var því haldið fram að endursendingarnar væru nauðsynlegar fyrir „virkni þess kerfis sem samstarfið er byggt á.” Þetta getur bara talist satt ef „virknin” felst í að halda flóttamönnum við jaðar Evrópu og hindra aðgang þeirra að hæli. Eftir sykurhúðaða lýsingu á meferð hælisleitenda í grískum búðum og ákafa vísun í loforð yfirvalda þar um betrumbætur er talið upp hvernig nágrannaþjóðir okkar senda enn hælisleitendur til Grikklands, og ákveðið að gera það sama hér.

Hin fyllilega fyrirsjáanlega niðurstaða, að aðstæður í Grikklandi yrðu áfram óboðlegar lögum og siðferði, var þar með hundsuð. Í janúar 2011 dæmdi svo mannréttindadómstóll Evrópu að endursendingar flóttamanna þangað væru mannréttindabrot, bæði af hálfu landsins sem sendir hælisleitandann sem og Grikklands, vegna aðstæðna þar. Úps.

Komist flóttamaður til Íslands tekur við skriffinnskumartröð, áreiti lögreglu og handahófskenndar brottvísanir, oft ólöglegar. Þó mál flóttamanna séu enn í ferli eiga þeir samt á hættu að vera vísað úr landi, eins og varð frægt í dæmi Paul Ramses. Hann hafði kært brottvísun sína, og áfrýjunin var enn í meðferð, þegar lögreglan rændi honum af heimili fjölskyldu sinnar um hánótt og keyrði hann út á flugvöll. Tveir menn hlupu á flugbrautina til að stoppa flugið og vöktu mikla athygli á málinu. Þökk sé ítrekuðum mótmælum var hann loks sóttur til Íslands aftur. Hann vann áfrýjunina, en þótt augljós brot á málsmeðferð hefðu átt sér stað voru aðeins flugvallarhlaupararnir ákærðir og dæmdir.

Íbúð flóttamanna í Kópavogi eftir heimsókn lögreglunnar. „Sérsveitarmenn brutu upp dyr á herbergjum heimilisins og handtóku heimilismenn, alls fimmtán manns. Mennirnir fengu ekki að klæða sig áður en lögregla færði þá í varðhald á lögreglustöðinni Hverfisgötu, né heldur að taka með sér föt til skiptanna. Sumir þeirra voru því á nærbuxum einum fata þegar þeim var sleppt úr varðhaldi sex klukkustundum síðar.”

Lítið hefur breyst á áttatíu árum. Afstaða íslenska ríkisins gegn útlendingum á sér djúpar rætur, sem ná langt útfyrir hin klisjukenndu „lönd sem við berum okkur saman við”. Ríkari Evrópulöndin vinna saman að því að halda fátæklingunum fyrir sunnan. Litlu skiptir hvort þeir séu að flýja okkar eigin stríðsrekstur og loftslagshamfarir, eða hvort þeir komi frá löndum sem fyrir nokkrum áratugum voru evrópskar nýlendur. Við viljum þá ekki.

Þessi stefna ber árangur, sem sést ekki bara á tölfræðinni. Í fjölmörgum viðtölum við flóttamenn má lesa hvernig þeir sjá eftir að hafa komið hingað. Fyrrum þrælar, sem ekki vissu hvað „vegabréf” og „landamæri” eru, hafa nú fengið að kynnast því svo um munar. Við höfum kennt tugþúsundum Asíu- og Afríkubúa rækilega hvað evrópsk velferð og jafnaðarstefna þýðir. Hún þýðir jöfnuð og velferð fyrir ríkasta fólk í heimi. Þessi meðferð er þakklæti okkar fyrir þær auðlindir og framleiðsluvörur sem við neytum daglega úr fátækari heimsálfum. Þeirra vandamál eru ekki okkar. Okkar vandamál eru þau.

Heimildir

[1] „Ísland fyrir Íslendinga”. Morgunblaðið, 65. tölublað (18. 3. 1932), blaðsíða 2.

[2] „Verndun kynstofnsins.” Vísir, 351. tölublað (11. 12. 1938), blaðsíða 2.

[3] „Íslensku Gyðingarnir.” Morgunblaðið, 254. tölublað (25. 10. 1934), blaðsíða 2.

[4] „Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940”, MA ritgerð Snorra Guðjóns Bergssonar, bls. 137-8. (ÞS. DR. db. 14/316.)

[5] Stjórnartíðindi 1936 A, 146-149. Tilvitnun úr „Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940”, bls. 99.

[6] „Hermann Jónasson sendi Agnar Kofoed-Hansen til Þýzkalands til að læra aðferðir af nazistalögreglu Himmlers”. Þjóðviljinn, 283. tölublað (14. 12. 1945), blaðsíða 1 og 8.

[7] „Strangleynileg öryggsþjónustudeild stofnuð um miðja öldina”. Morgunblaðið, 22. september 2006.

[8] „Hlerað í síma lögregluþjóna”. Þjóðviljinn, 88. tölublað (14. 4. 1960), blaðsíða 10.

[9] Sjá til dæmis „Baráttan við myrkravöldin.” Mjölnir, 1.-2. tölublað (1. 2. 1936), blaðsíða 7.

[10] „Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940”, bls. 137-8.

[11] Sama heimild, bls. 110.

[12] „Mannúð bönnuð á Íslandi”. Þjóðviljinn, 96. tölublað (28. 4. 1939), blaðsíða 3.

[13] „Fáránleg saga að „mannúð sé bönnuð á Íslandi””. Tíminn, 50. tölublað (2. 5. 1939), blaðsíða 1 og 4.

[14] „Á að gera Ísland að gróðrarstíu fyrir flakkandi erlendan landshornalýð?” Morgunblaðið, 64. tölublað (17. 3. 1938), blaðsíða 5.

[15] „Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940”, bls. 138.

[16] „Stuck in a revolving door“. Human Rights Watch, 26. nóvember 2008, bls. 27.

[17] „Der Todesstreifen“. Der Spiegel, 30. nóvember 2016.

[18] „Sudan Blocks Migrants’ Path, Aiding Europe“. New York Times, 23. apríl 2018, bls. 1.

[19] Sjá til dæmis skýrslur Human Rights Watch, Rauða krossins, Lækna án landamæra, flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Pro Asyl, Amnesty International ofl. ofl.

[20] „Frontex – Landamærastofnun EU óskar eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar | Landhelgisgæsla Íslands“. Frétt á vef Landhelgisgæslunnar.

[21] Sögu Ramez má finna hér.

[22] „Skýrsla um aðstæður hælisleitenda í Grikklandi“. Innanríkisráðuneytið, júní 2009.