Hvers vegna kjósa þau Erdogan?

Síðastliðinn sunnudag kaus hreinn meirihluti Tyrkja yfir sig harðræðissinnaðan forseta sem hefur varpað sprengjum á eigið land og önnur, fangelsað blaðamenn og prófessora og annan forsetaframbjóðanda, látið loka tvöhundruð fjölmiðlum og látið breyta reglum um kosningar á meðan á atkvæðagreiðslu stóð. Maðurinn er að sjálfsögðu Recep Tayip Erdogan. Eftir kosningarnar staðhæfði hann frammi fyrir allri veröldinni að á sunnudaginn hefði átt sér stað „lýðræðisveisla“. Úr fjarska virðist þetta allt efni í ótrúverðuga skopstælingu af House of Cards, og maður situr eftir með spurninguna: Hvernig dettur fólki í hug að kjósa þennan mann einu sinni enn? Og hvernig kemst hann upp með svona útúrsnúning?

Stríð gegn stríði, klíka gegn klíku
Fyrsta vísbending að svari leynist í þingkosningum Tyrklands árið 2002, þegar flokkur Erdogans, AKP, komst fyrst til valda. Það var í sjálfu sér ótrúlegur árangur, enda nýbúið að stofna flokkinn úr leifum annarra flokka sem höfðu verið bannaðir. Ástæðan fyrir banni þeirra var hörð afstaða tyrkneska ríkisins gegn flokkum sem höfðu trúarlega eða kommúníska undirtóna, eða sem studdu við kúrdíska réttindabaráttu. Þetta var farið að valda frjálslyndum Tyrkjum áhyggjum um aldamótin, enda augljóst að margir voru rændir málsvara sínum á þingi með svona bannstefnu. Erdogan setti á fót AKP til að milda hana.

Fyrstu árin gekk Erdogan allt í haginn. Þótt AKP hafi aðeins fengið 34% atkvæða, þá fékk hann fyrir galdra flokkakerfisins tvo þriðju þingsæta, enda þurftu flokkar að fá minnst 10% atkvæða til að komast á þing. (Erdogan lofaði seinna að fella þennan þröskuld niður.) Næsta skref AKP var að vinna hörðum höndum að inngangi í Evrópusambandið. Því fylgdi alls kyns umbótalöggjöf sem þrengdi stakk gömlu klíkunnar sem hafði ráðið landinu. Sú klíka birtist í tveimur myndum: flokknum CHP, og hernum sem drottnaði yfir landinu.

Flokkurinn CHP var stofnaður samhliða lýðveldinu í Tyrklandi. Hann er málsvari hugmyndafræðinnar sem tyrkneska ríkið hefur fylgt í áratugaraðir, sem hljóðar svo: Tyrkland er fyrir Tyrki, og ef þú heldur að þú sért Kúrdi eða múslimi, þá er eins gott að þú geymir þá skoðun heima hjá þér. Með þessa teóríu í rassvasanum tóku ríkisstjórnir CHP til við að hreinsa trúarleg tákn úr opinberu lífi og strauja pólitískar misfellur úr kúrdísku héruðunum í suðaustri.

Hin klíkan er tyrkneski herinn. Hann álítur sig verndara þessarar sömu pólitísku hugsjónar, og hefur mörgum sinnum „leiðrétt“ tyrkneskar ríkisstjórnir þegar þær víkja af leið – árin 1960, 1971, 1980, 1997 og loks tvær tilraunir árin 2007 og 2016, sem Erdogan varðist. Að einhverju leyti er herinn sannarlega gæslumaður gamalla hefða, en aðallega ver herinn þær því þær tryggja honum völd.

Almenningur streymdi á göturnar og hnekkti valdaránstilrauninni 15. júlí 2016

Erdogan hefur verið meðvitaður um hættuna á valdaráni frá því hann var kjörinn árið 2002, og stærsta fjöðurin í hatti hans er að hafa varist þeim. Ekki nóg með það, hann virðist nú loks hafa sett herinn undir hæl lýðkjörinna yfirvalda.

Syrtir í álinn
Frjálslyndir Tyrkir kunnu Erdogan margar þakkir fyrir þessar umbætur. Með einkavæðingu, bættum lánskjörum og aukinni fjárfestingu í heilbrigðis- og menntakerfi jókst bæði hagvöxtur og hagur hinna verr settu. Stríðinu gegn Kúrdum, sem var um aldamótin ekki háð lengur með sprengjum heldur með harðræðislöggjöf og sérstökum dómstólum, var slúttað. Kúrdíska tungumálið hafði verið bannað opinberlega en var nú leyft aftur. Árið 2013 leyfði Erdogan sér jafnvel að segja eina kúrdíska setningu opinberlega – það hefði verið óhugsandi áður. Sama ár leyfði hann konum í opinberu starfi að ganga með blæjur aftur.

Ef vel var að gáð voru þó blikur á lofti. Erdogan ætlaði ekki bara að leyfa iðkun trúarinnar, heldur efla dáð hennar með stuðningi ríkisins. Ríkiseigur virtust hver á fætur annarri enda í höndum trúrra og tryggra AKP-manna. Fréttir bárust af því að uppbygging landsins væri baktryggð með ríkisfé, en framkvæmd af vinum og ættingjum Erdogan. Hagvöxturinn kom ekki úr iðnaði og framleiðslu, heldur úr endalausum byggingaframkvæmdum. Og svo var það þetta með þingið. Tíu prósenta þröskuldurinn hélt enn úti flokkum minnihlutahópa og umbótasinnuðum hreyfingum, meðan AKP, líkt og aðrir tyrkneskir flokkar, var ekki par lýðræðislegur innbyrðis. Erdogan réð lögum og lofum og skipaði fólk í sæti á listum eftir eigin höfði.

Steypa, steypa og aftur steypa. Kjördagur í Istanbúl

Pirringur vegna spillingar, endalausra byggingaframkvæmda og trúarlegra takta ríkisstjórnarinnar sauð yfir í Istanbúl sumarið 2013. Þar átti að smíða stórfellda verslunarmiðstöð í miðjum almenningsgarði í stíl Ottómanaveldisins (einsog ef fjölskylda Bjarna Ben myndi reyna að smíða hótel á Austurvelli í dag). Fjöldamótmæli komu í veg fyrir það, en hrottaleg viðbrögð lögreglunnar kveiktu samskonar mótmæli um allt landið og drápu á endanum ellefu manns. Erdogan hafði vit á því að kenna öðrum um og hætta við.

Þrátt fyrir þessa gráu bletti á glæstum ferli Erdogans var hann enn mjög vinsæll. Fjölmiðlar landsins höfðu enda margir hverjir lent í höndum sömu náunga og ríkisfyrirtækin, svo umfjöllun var honum almennt hliðholl. Nú upphófst líka stríð í Sýrlandi, og Tyrkir þökkuðu sínum sæla að hafa sterkan lýðkjörinn, friðelskandi, umbótasinnaðan leiðtoga. En nú fóru umbætur Erdogan að koma í bakið á honum. Við tók einhver ótrúlegasta kúvending sem nokkur stjórnmálamaður hefur reynt í lýðræðisríki.

Umbætur með súrt eftirbragð
Árið 2014 hafði Erdogan setið þrjú kjörtímabil á þingi sem forsætisráðherra og mátti ekki sitja þar oftar. Hann ákvað að verða forseti landsins í staðinn. Til að verða við því lét flokkur hans, AKP, setja ný lög sem gerðu forsetaembættið lýðkjörið. Hann ætlaði að vera forseti í umboði fólksins, ekki þingsins. Svo hófst hann handa við að breyta stjórnarskránni svo forsetinn yrði æðsta og valdamesta embætti landsins. Það var bara eitt vandamál: Kúrdum hafði vaxið ásmegin við allt frjálsræðið og þeir tefldu fram eigin manni í forsetaframboð – Selahattin Demirtas. Demirtas fékk 9% kjör, langt frá því að skáka Erdogan, en skuggalega nærri 10% þröskuldinum inn á þing.

Árið eftir, í júní 2015, voru þingkosningar og Demirtas leiddi saman femínista, minnihlutahópa, Kúrda og fleiri í flokkinn HDP og náði 13% kjöri. AKP tapaði 9 prósentum. Aldrei áður höfðu Kúrdar náð inn á tyrkneska þingið af eigin dáð. Erdogan hafði misst stjórn á friðnum og umbótunum. Hann sagði Kúrdum stríð á hendur. Sprengjum var varpað á kúrdískar borgir. Hann sagði að þeim væri beint að stjórnmálasamtökum Kúrda, en hann vissi svosem alveg að hann átti ekki mörgum atkvæðum að tapa þarna. Næstu kosningar myndi hann vinna algerlega með því að fá á sitt band tyrkneska þjóðernissinna og kúrdahatara, og með því gera Kúrdum erfiðara um vik að kjósa.

Þessi ákvörðun hljómar gersamlega klikkuð, en að henni var dálítill aðdragandi. Umbótastefnan var hætt að skila ábata og pólitíkusar í Evrópu töluðu opinskátt um að Tyrkland gæti auðvitað aldrei komist í Evrópusambandið, þar væru svo margir múslimar og fátækt brúnt fólk. Dannaðri rasistar töluðu um hvað landið væri menningarlega ólíkt vestrinu. Allt bar það að sama brunni, og tvær grímur runnu á Tyrki sem höfðu barist fyrir inngöngu í vestrið. Þeir höfðu gert sitt besta, nú átti að skella dyrunum í andlitið á þeim.

Merkel tyllir sér í gullsæti

Erdogan fékk hefnd fyrir þessa móðgun á besta tíma. Hann kallaði til nýrra kosninga sumarið 2015, einmitt þegar flóttamenn tóku að streyma til Evrópu. Allt í einu þurftu ríkustu lönd heims hjálp frá honum. Angela Merkel kom í heimsókn til Ankara að grátbiðja hann að stoppa flóttamennina. Erdogan lét Merkel, sem hatar prjál og glingur, setjast í gullið hásæti frammi fyrir fjölmiðlum. Nokkra þessara fjölmiðla hafði hann nýverið fært með valdi í eigu vina sinna. Þetta var tæplega glæstasti dagur vestrænnar siðmenningar, en Erdogan var himinlifandi. Hann hafði beðið drottinn um hjálp í kosningunum, og drottinn hafði sent honum þennan fáránlega erkiengil að norðan. Nú var hann ekki bara bjargvættur Tyrkja frá valdaránum hersins, stríðinu í Sýrlandi og fátækt – hann var orðinn stórmenni gagnvart Evrópu í kaupbæti.

Valdarán eða tvö
Tyrkneski herinn hefur áttað sig á því hægt og bítandi að hann getur ekki stýrt stjórnmálum landsins að vild lengur. Sennilega hefur valdaránstilraunin 2016 verið drifin af örvæntingu og máttleysi gagnvart þessari þróun, altént misheppnaðist hún hrapallega. Skriðdrekar óku út á götur Istanbúl og Ankara, herþotur flugu um, hermenn tóku yfir útvarpshúsið. En Erdogan hvatti almenning til að fara út á götur og taka þær í sínar hendur. Kallinu var svarað. Valdaráninu var hnekkt, en á þriðja hundrað manns voru drepnir.

Seinna kallaði Erdogan atburðinn „gjöf frá Guði“; gullið tækifæri til að slátra óvinum sínum. Hann setti strax á neyðarlög og margfaldaði hreinsanir í stjórnsýslu, háskólasamfélagi og fjölmiðlun. Tugþúsund voru sett í fangelsi. Neyðarlögin hafa verið endurnýjuð stöðugt síðan, sjö sinnum alls, og eru enn í gildi.

Þannig var andrúmsloftið þegar kallað var til þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra um eflingu forsetaembættisins. Erdogan stýrði landinu enn gegnum tengsl sín og sambönd, en embætti forsetans var mest uppá punt. Hann vildi gera það að eins manns ofurveldi. Þegar útlit var fyrir að hann myndi tapa atkvæðagreiðslunni lét hann breyta reglunum á meðan kosningar stóðu svo óvottaðir kjörseðlar yrðu leyfðir líka. Enginn veit hversu margir þannig kjörseðlar voru taldir og kjörstjórnin gaf engar upplýsingar um það, en Erdogan kom breytingunum í gegn með 51% atkvæða.

Leiðarlok
Nú, að loknum kosningum, ganga breytingar á forsetaembættinu loks í gildi. Hreinn meirihluti kaus Erdogan í embættið. Hér í friðsælum og menntuðum ríkjum Evrópu horfum við niður til þessarar þróunar með hryllings. Við búum fjarri stríði og fátækt og höfum ekki liðið valdarán hersins eða trúarlega kúgun. Á aðra milljón flóttamanna kom til allrar Evrópu undanfarin ár. Í Tyrklandi einu eru þrjár og hálf milljón á skrá, og eflaust fleiri óskráðir. Fyrir kosningar bentu margir vestrænir fjölmiðlar á vinsælasta keppinaut Erdogan, Muharrem Ince, og sögðu: Hvers vegna kjósa þau ekki hann frekar? Hann er svona líka fínn sósíaldemókrati. En það var fjarri lagi. Ince kemur úr gamla klíkuflokknum CHP, hann vill láta reka flóttamenn úr landinu, og er bara frjálslyndur í þeim skilningi að það er frjálslynt að skipta stundum um forseta. Það hefði kannski verið illskárri kostur að hafa hann núna, til að stoppa Erdogan og byrja uppá nýtt, en margir sem ég ræddi við gátu ekki hugsað sér að kjósa hann – hann væri of forpokaður og viðurstyggilegur afturhaldssinni.

Erdogan er maðurinn sem bjargaði Tyrkjum – frá fátækt, stríði, kúgun, valdaráni, klíkum og niðurlægingu Vesturlanda. Réttindi Kúrda eru betur varin nú en þau voru áður en hann komst til valda. Nú nýtir hann sér hreinsun stjórnsýslunnar til að gera sig að einvaldi landsins. Eins og hann sagði eitt sinn, fyrir langa löngu: Lýðræði er lest. Þú tekur hana þar til þú kemst á áfangastað, þá ferðu út. Líkingin var góð, og hefði mátt hringja nokkrum viðvörunarbjöllum þegar Erdogan komst til valda. En hún stemmir ekki alveg. Með sérhverjum kosningum í Tyrklandi er minna eftir af lýðræðinu, og þegar kosningarnar hætta að gefa Erdogan það sem hann vill, þá er hann nú kominn með nægileg völd til að það skipti ekki máli lengur. Lýðræði innifelur ýmsar varnir gegn alræði, eins og frjálsa fjölmiðlun og stjórnarandstöðu og stofnanir lausar við íhlutun ríkisins. Erdogan hefur notað kosningar og atkvæðagreiðslur eins og múrbrjót gegn þessum vörnum.

Ince flytur ræðu í Izmir rétt fyrir kosningar

Fólk hefur þó enn mikinn áhuga á stjórnmálum í Tyrklandi. Kosningaþátttaka á sunnudaginn var nær ótrúleg 87%, hundruð þúsunda fylgdust með ræðum frambjóðenda. Þegar Erdogan lýsti yfir sigri fylltust götur Tyrklands af fagnandi fólki. Flautandi bílar brunuðu um, ungar konur með blæjur héngu út um bílgluggana og veifuðu fánum. Stjórnarandstaðan játaði að Erdogan hefði unnið, en sagði að öll umgjörð kosninganna hefði verið ósanngjörn. Fjölmiðlar hefðu allir haldið með honum og ekki sýnt frá þeirra atburðum, neyðarlög voru notuð gegn þeim, margir þeirra voru í fangelsi. Lýðræði snýst enda um meira en kjörkassann.

This entry was posted in blogg on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>