ævintýrið um Rauðhettu

Ó! sagði Rauðhetta
þegar vonda stjúpmóðirin
kyssti hana á munninn.

Og hún vaknaði
til vitundar um
allar væntingar
samfélagsins.

Hún sá að stjúpan
var ekki vond í eðli sínu
heldur særð og svikin
kona
af litlum efnum.

Hún sá að dvergarnir voru
ekki bara að grínast heldur
að áreita hana
kynferðislega

og að kóngsríkið
hvíldi alfarið á
þöglu samþykki
karla
og kerlinga
í kotum sínum.

Og hún kyssti
móður sína
(því líffræðilegur skyldleiki
er ekki eina krítería
móðurhlutverksins)
og braut glerskóna sína

og fór til kóngsins
með kústinn sinn
og svuntuna
og sagði

þrífðu sjálfur eftir þig
feita blóðsuga!

Og kóngurinn
starði á hana
stjarfur og hugsi
og sagði loks

þú mátt eiga
þig.

Rauðhetta hrópaði
húrra!
og fór út í skóg
og reyndi að hafa
í sig og á.

En allt landið
var í eigu kóngsins
og hvar sem hún reyndi
að tína ber
eða slíta upp rabarbara
kom úlfur kóngsins
og spurði

þarft þú ekki bráðum
að finna þér vinnu?

þú getur bara átt þig
með því að selja þig.

Svo hún gekk grátandi
til piparkökuhússins
og fór að baka sex daga í viku
á lágmarkslaunum.

En hún dó ekki
ráðalaus
og einn góðan veðurdag
þegar nornin var í símanum
hrinti Rauðhetta henni
í bökunarofninn
og hrópaði

ég lýsi hérmeð
piparkökuhúsið
sjálfseignarstofnun!

En úlfur kóngsins
heyrði óp nornarinnar
og bankaði á dyrnar.

Opnaðu einsog skot
eða ég feyki niður búllunni!

En Rauðhetta æpti

aldrei!

og kastaði rjómabollum
útum strompinn.

Svo úlfurinn feykti niður húsinu
og gleypti allt sem í því var.

Á meðan þær voru saman í úlfinum
Rauðhetta
og nornin
töluðu þær saman
og Rauðhetta sagði að
hún væri ekkert sár.

Þú ert líka kúguð
af blindu og
blóði drifnu
stigveldi samfélagsins
kæra norn.

Og þegar úlfurinn sofnaði
brutust þær út
í þann mund sem
tröllslegur karl með öxi
gerði sig líklegan til að
opna fyrir þeim
og Rauðhetta sagði

við þurfum ekki hjálp
við að opna hurðir
en þér er velkomið að
höggva höfuðið af úlfinum
og koma svo með okkur
til kóngsins!

Og nornin var heilluð
af kjark og hugsnilld Rauðhettu
og þegar vöðvabúntið hafði
breytt kónginum í
stílhreint gólfteppi
stofnuðu þau kommúnu í kastalanum
og lifðu við jarðrækt,
frjálsar ástir og
stöðugt áreiti næsta kóngsríkis
þar til þau drápust
gömul og hamingjusöm.