Vínbúð í Vatnsmýrina, röflið burt!

Miðnætti ársins er gengið í garð og bjalla þingforseta hefur hringt inn áfengisguðspjallið. “Því svo elskaði Guð heiminn,” er þrumað úr pontu, “að hann leyfði okkur að versla einmitt það sem okkur langaði í búðinni. Líka bjór.” Og heyr, þá er hrópað úr sal: “Landlæknir segir að þá verði börnin alkóhólistar, og hann elskar heiminn að minnsta kosti jafn mikið.” Þannig hefst aðventan og öll gömlu góðu lögin eru spiluð fram og aftur í þartil frumvarpið er sett í kassa og uppá háaloft fyrir næsta ár.

Þessi taktfasta og kunnuglega hátíð, með öllum gamalkunnu röksemdunum um náttúrulegt kaupfrelsi og samfélagslega ábyrgð, hefur nú gengið yfir okkur einsog flensan. Við erum öll örlítið hás, skjálfandi á beinunum og kannski haldin einhverri ógleði, en það sem drepur ekki köttinn gerir hann sterkari — þótt það sé súrnuð smjörklípa.

Þessi umræða hefði getað farið öðruvísi. Þingmenn hefðu getað gert uppreisn og krafist aukins dagskrárvalds fyrir almenning, svo forgangsraða mætti umræðu í þingsal. Í staðinn erum við dæmd til að horfa á leikrit um frelsið eina ferðina enn, njörvuð við sætin. Þaðan megum við öskra úr okkur barkana um hvað okkur finnst röksemdirnar vitlausar. Frjáls til að tjá okkur, vitandi að orðin okkar hafa ekkert vægi í niðurstöðunni.

Fyrir mitt leiti fer ég fram á að áfengisdrykkja á höfuðborgarsvæðinu verði bönnuð nema í heimahúsum og í nýjum skemmtigarði í Vatnsmýrinni. Þannig gætum við slátrað einni smjörklípunni með hinni. Samskonar skemmtigörðum mætti koma á fót á jaðri annarra þéttbýliskjarna. Nóg komið af fólki sem gubbar á og lemur hvert annað innanum siðmenntað samfélag. Í leiðinni verði neysla friðelskandi lyfja einsog sveppa og maríjúana lögleidd og gefið pláss í núverandi krám. Þær verði gerðar að trippvænlegum hvíldarstofum fyrir hugvíkkandi slökun. Kókaínneysla verði afmörkuð við ákveðna sali í Hörpunni.

Þannig losnar um fjármagnið sem nú fer til fíknó. Það gæti í staðinn borgað laun síðhærðra vímuráðgjafa sem myndu hjálpa fólki að lifa í sátt og samlyndi við sjálft sig, heiminn og hvert annað. Þessir ráðgjafar gætu verið einkennisklæddir — í litríkum peysum og með víðar buxur, helst gangandi um á tánum ef veður leyfir, annars sandölum. Finnist manneskja í rangri sort af vímu skal vímuráðgjafi og brosandi lögregluþjónn hjálpa til að ferja viðkomandi á betri stað, andlega og efnislega.

Þessi prinsipp mætti svo útvíkka til muna. Til dæmis var áður fyrr af praktískum ástæðum álitið að lög giltu ekki á hálendi og í dimmustu skógum. Með þetta til hliðsjónar gætum við gefið tilteknar lendur frjálsar til ákveðinna athafna. Hljómskálagarðinn mætti opna fyrir haftalausri tjáningu, Öskjuhlíðina fyrir ósæmilegri hegðun, Gróttu fyrir bardagaíþróttum.

Ég lofa líka að í hvert skipti sem bjórsöluumræða fer í gang aftur mun ég víkka þessar kröfur og byrja að láta sem þær hafi verið samþykktar. Við vorum ekki sett á þessa jörð til að mæla frelsi okkar með vöruúrvali í Bónus. Við mannfólkið lifum í þrúgandi merkingarleysi sem verður sífellt áþreifanlegra með hverjum þingfundi um bjórsölu. Málsbót tilvistar okkar er sköpun og manngæska, ástin á hvert öðru og löngunin, köllunin, til að geta gert og mega gera nýja hluti, okkar hluti.

Kaldhæðnin í frelsisumræðunni er sú kosmíska reglufesta sem virðist hafa dæmt bjórfrumvarpið til eilífrar endurtekningar, hvað sem okkur finnst um það. Hatrið á þessari umræðu er hatur manneskjunnar sem finnur eigið ófrelsi, hatur manneskjunnar sem finnur sig fjötraða meðan mas og ákvarðanir dynja á henni einsog veðrið. Okkur langaði til að stunda heyskap málefnanna í vor, en í staðinn rignir bjór — aftur.

Öll heimspeki veraldarinnar gubbar yfir áfengisdeiluna. Hið sanna frelsi felst í að hafa skapandi og vitsamlega stjórn á samfélaginu okkar og sjálfum okkur. Árviss umræða með og á móti Bónusbjór afsannar þetta frelsi, frekar en að skapa það.