Að náttúran sé þannig að við getum selt hana

Það er kaldhæðnislegt að umhverfisráðherra Íslands sé úr flokki sem heitir Björt framtíð. Bjartasta framtíðin í náttúru Íslands þessa dagana virðist vera þeirra sem ætla að bora, brenna, bræða ál eða selja til útlanda heilu og hálfu fjöllin af sandi og möl. Umhverfisóminni landsmanna er undirstrikað af nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem lögð var fyrir umhverfisráðherrann Björtu Ólafsdóttur nýlega. Kjarninn framdi eitthvert glórulausasta viðtal síðari tíma á henni í kjölfarið. Hvergi sést betur sú úrbeinaða pólitík frjálshyggjunnar sem Björt framtíð aðhyllist en í því gapandi ráðaleysi og þeirri hrollvekjandi fyrirtækja- og peningadýrkun sem þar kemur fram.

Einsog sæmir umhverfisráðherra stendur Björtu ekki á sama um náttúruna, og henni finnst ljótt að sjá þá mynd sem er dregin upp í skýrslunni. “Þetta er verra en ég bjóst við,” segir hún. Kolefnisosun á Íslandi gæti tvöfaldast frá 1990 til 2030, samkvæmt spám skýrslunnar — og er þá ekki meðtalin losun erlendis vegna framleiðslu alls dótsins sem við kaupum. “Það er náttúrlega bara kinnhestur,” segir hún. Við höfum greinilega “verið andvaralaus, og tekið því sem gefnu að Ísland væri best í heimi og grænt og vænt.” Við smíðum kannski eitt álver á fætur öðru, kaupum fleiri bíla á mann en flestar þjóðir, fljúgum til útlanda tvisvar á ári og erum einhver neysluþyngsta þjóð heims. En að við værum að brenna kolefni með því! Það hafði víst ekki hvarflað að ráðherra umhverfis og auðlinda.

Björt útskýrir að hnattræn hlýnun snerti Íslendinga “algjörlega beint”. Við viljum nefnilega “að náttúran sé þannig að við getum selt hana.” Það er aldeilis gullslegin tegund af náttúruvernd. Vistkerfi jarðar ber að vernda, tegundum ber að bjarga frá útrýmingu, svo við getum kreist úr þeim meiri peninga. “Það er beinlínis verðmætasköpun fólgin í því að huga að umhverfismálum og hafa þau í fyrsta sæti,” bætir hún við. Með öðrum orðum, jafnvel þegar umhverfismál eru í fyrsta sæti, þá eru þau þar fyrir peningana. Kannski þetta sé meiningin með frasanum grænt er vænt? Einsog skáldið orti,

Hlíðin mín fríða
gefur seðla græna
og blágresið blíða
söluvöru væna,
á þér ástaraugu
ungur réð eg festa,
buddan mín besta!

og auðvitað

Allt fram streymir endalaust,
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust,
ekki meiri túristar í bili.

En Björt er að sjálfsögðu ráðherrann sem á að svara fyrir óráðsíu iðnaðar á Íslandi, halda uppi písknum og bjarga málunum. Blaðamaður Kjarnans spyr hver eigi að ýta við einstaklingum og fyrirtækjum svo bót verði í máli. En Björt vill helst ekki “ýta”.

“Þetta kemur ekki bara top-down. Við getum ekki sagt: geriði svona og hinsegin,” útskýrir hún. En skyndilega virðist renna upp fyrir Björtu að hún er ráðherra umhverfismála, og að það er einmitt hennar hlutverk að segja fyrirtækjum til syndanna. “Jú, við getum kannski gert það,” bætir hún við í snarhasti. “En það mun ekki virka neitt mjög vel.”

Svona orðalag er auðvelt að þýða á alþýðlega tungu. Þarna er umhverfisráðherrann okkar að segja: Mig langar ekki að setja reglur á fyrirtæki, og ég vil helst ekki ræða þann möguleika frekar. Til allrar lukku er blaðamaðurinn viðmótsþýður og leyfir henni að vaða elginn áfram á eigin forsendum.

“Það sem ég sé fyrir mér, við verðum að fá atvinnulífið með, útafþví ég trúi því að iðnaðurinn vilji alveg gera betur.”

Mér er ekki alveg ljóst hvernig Björt Ólafsdóttir rambaði á þessa trú, og hún grundvallar hana ekki frekar, né biður blaðamaður Kjarnans um frekari útskýringar. Staðreyndin er sú að fyrirtæki hafa ekki samvisku og hætta ekki gróðavænlegum spellvirkjum ótilneydd. Jafnvel gallharðir frjálshyggjumenn á borð við Milton Friedman töldu þetta augljóst og álitu sjálfsagt að ríkið sæji um að vernda okkur fyrir mengun fyrirtækja. En þegar kemur að frjálshyggju er Björt heilagari en páfinn, og virðist hrifnari af því að ráðherrar biðji fallega en að þeir geri eitthvað sem gæti mögulega virkað. Merkilegt nokk, þá vill hún frekar gefa fyrirtækjum meiri peninga en að leiðbeina þeim um mengun. Eftir að hafa útskýrt fyrir blaðamanni þá frjálshyggjulexíu að skattaívilnanir til stóriðju “skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja” og séu “bara vondar”, leggur hún til einmitt þannig ívilnanir fyrir þá sem leita að “grænum lausnum.”

Björt nefnir “græna skatta” flóttalega í einni upptalningu, og að ríkið gæti lagt til “milljarð” í skógrækt (og samt grætt á því), en viðleitni hennar gagnvart fyrirtækjunum sem valda skaðanum er almennt að þau þurfi “aðstoð” frekar en eftirlit. Þau þurfi “að leggja sinn metnað í að gera þetta sjálf.” Með öðrum orðum: umhverfisráðherra Íslands vill að þeim sem græða peninga á að menga plánetuna verði treyst fyrir að bjarga henni.

Eftir að hafa rakið mengunarstefnuna sína kallar Björt eftir samstöðu. “Ríkisstjórn þarf að vera alveg einhuga,” segir hún, þótt maður velti fyrir sér um hvað.

“Svo þarf bara að vera samhugur um þetta stóra mál á Alþingi. Og skotgrafir þurfa að víkja. Við þurfum að fara uppúr þeim. Og ég hef enga trú á því að þetta sé þannig mál. Það er alltof stórt, og alltof mikið undir, að einhver álíti svo að það nýtist í einhverju pólitísku markmiði. Ég hef enga trú á því.” Almenningur eigi auðvelt með að “ganga í takt” þegar með þurfi. Okkar er jú ábyrgðin! Vinstri, hægri, vinstri, hægri, og horfðu nú á veginn fyrir framan þig — ekki á álverin með strompana og grjótnámið í Ingólfsfjalli. Hægri snú!

Það er auðvelt að vera öll sammála um að hnattræn hlýnun sé ömurleg, og að við þurfum að gera eitthvað í henni. Það er erfiðara að viðurkenna að kannski þarf einfaldlega að setja reglur á fyrirtæki og sekta þau ríflega fyrir að menga svo þau hætti því. Við höfum setið of lengi með spenntar greipar gagnvart vistkerfaeyðingu. Það þarf eitthvað annað en frjálshyggju til að stemma stigu við henni.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>