Útlendingastofnun lærir að lemja

Í vor lærðu nokkrir starfsmenn Útlendingastofnunar að “verjast höggum” og “taka niður manneskju” og almennt að vera reiðubúin í aðstæðum “sem kalla á valdbeitingu.” Þetta “skemmtilega og praktíska námskeið” var haldið í ISR – Öryggistök og neyðarvörn. Staðurinn býður upp á “sérhæfða þjálfun í valdbeitingu fyrir löggæsluaðila, öryggisverði, dyraverði og allar þær starfsstéttir sem starfa við aðstæður þar sem getur komið til líkamlegara átaka.”

Meðal annars í samskiptum við flóttamenn.

Albúminu sem geymdi myndirnar hefur nú verið eytt.

Albúminu sem geymdi myndirnar hefur nú verið eytt.

Auðvitað er fólkið þarna allt hinar bestu manneskjur. Þau eru í svipaðri stöðu og hermenn – sem eru hinar bestu manneskjur líka – að því leyti að þau eru föst í kerfi sem er grimmt. Þegar landamæri eru ekki opin, þá þarf að stoppa fólkið sem reynir að koma innum þau. Það þarf að geyma það, halda því aðskildu, og henda því svo burt ef við á. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Einhver þarf að vera kjötið og beinin milli stofnunarinnar og flóttamannsins. Annars myndi kerfið ekki virka.

13244138_779534535514950_6202477656722011193_o

Það er eitthvað hrollvekjandi við að sjá þessar myndir fyrir mig, því ég þekki flóttamenn á Íslandi – nokkra af þeim með geðræn vandamál. Þeir fríka stundum út. Ég á þónokkra vini sem hafa reynt að drepa sig á Íslandi því það átti að brottvísa þeim. Einn reyndi það nokkrum sinnum. Það þurfti eflaust að taka í hann, oft og duglega, til að bjarga honum og öðrum. En ég vissi að enginn læknir gat bjargað honum. Sá eini sem gat læknað hann var lögfræðingurinn sem fór með málið hans – lögfræðingur Útlendingastofnunar. Það þurfti bara eitt “já”.

Sennilega fór sá lögfræðingur aldrei á valdbeitingarnámskeið, því hann þurfti aldrei að hitta flóttamenn. Kerfið er vandlega upp byggt, svo fólk þurfi ekki að horfast í augu við raunveruleikann. Kærunefnd útlendingamála, sem tekur við áfrýjunum á úrskurðum Útlendingastofnunar, ræður sjálf hvort hún tali við flóttamennina sem hún réttar yfir. Það er snjallt. Maður er miklu hlutlausari ef maður horfir aldrei í augu flóttamannsins.

13244079_779534675514936_632259000352696252_o

Af námskeiði starfsmanna Útlendingastofnunar.

En einhver þarf að gera það, og það er sárt. Oftast eru það aktívistar. Þeir brenna sig út, einn af öðrum, með því að eignast vini meðal flóttamanna og horfa svo á þá grátandi, þunglynda, örmagna af andúðinni sem mætir þeim. Ég hef horft á marga hvíta veggi í köldum íbúðum þar sem horft er á sjónvarpið daginn út og inn með frosnu augnaráði. Það er farið á fundi hjá Rauða krossinum, það er farið í sund (ef maður er ekki krafinn um blóðprufur), það er farið í kirkju að biðja.

Sem betur fer þarf ég ekki að fara í svona heimsóknir lengur. Útlendingastofnun bannaði þær í vor. Kerfið virkar betur ef við horfum ekki í augun á þeim. Þeir þurfa ekki að vera manneskjur. Þeir geta verið svindlarar, lygarar, glæpamenn. Flóttamenn breytast í hælisleitendur, við megum hvort eð er ekki hitta þá, þeim er hvort eð er brottvísað. Hverju skiptir hvað þeir eru?

13558966_529806240539908_2415532007644333259_o-688x451

En einhver þarf að halda þeim í skefjum, ferja þá milli staða einsog póstböggla, brottvísa þeim einsog skepnum. Og það gerist ekki sjálfkrafa. Það gerist ekki átakalaust. Það þarf fært fólk, lært fólk, þekkingu og þjálfun. Það þarf “skemmtileg og praktísk námskeið” í að “verjast höggum” og “taka niður manneskju”. Einhver þarf að vinna skítverkin, og maður er ekki verri manneskja fyrir vikið. Einhver þarf að gera þetta. Annars myndi kerfið ekki virka.

This entry was posted in blogg and tagged on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>