Sjálfsmorðsárás frjálslyndisins

Þegar ég var ungur og vitlaus(ari) fannst mér óþolandi að sjá konur með farða. Hvers vegna láta þær hafa sig í þetta? sauð í mér. Vissu þær ekki að þetta var ljótt, að mér fannst þetta aumkunarverð tilraun til að ganga í augun á körlum, að þetta væri bara kaldur sviti undirokunar klístraður við andlitið á þeim? Var ekki hægt að stoppa þetta einhvernveginn?

Seinna eignaðist ég svo vinkonu sem farðaði sig ekki, en kom mér á óvart á allt aðra vegu. “Mig langar að eignast börn,” sagði hún við mig. “En ég vil bara geta unnið heima og alið upp börnin án þess að vera litin hornauga.” Ég reyndi að koma henni í skilning um að það væri strangt til tekið ekki bannað, en henni þótti samt sennilegt að hún yrði í vörn ef hún ætlaði, sem ung kona á 21. öld, að vera heimavinnandi húsmóðir.

Það hristir upp í hausnum á manni að lifa á umbrotatímum. Breytt réttindi og væntingar til kynja láta mann hugsa, stundum oft á dag, um réttu viðbrögðin við aðstæðum sem áður fyrr voru jafn sjálfvirk og náttúrulögmálin. Það er spennandi að lifa í svona róti, en maður treður þá oft útfyrir hin nýju og lausmótuðu norm. Einhverjir sakna eftilvill gömlu góðu daganna, þegar allt var skilgreint og skorðað.

Nokkur ár hafa liðið síðan ég gekk rauður af bræði niður Laugaveginn og horfði á málverkin í andlitum íslenskra kvenna. Í millitíðinni hefur reiði mín kólnað og ég hef náð að temja mér það viðhorf sem mestu skiptir gagnvart vali annarra: að vera sama. Það skiptir engu hvort andlit stúlkna séu máluð af dauðum krumlum feðraveldisins eða af frjálsum vilja manneskjunnar sjálfrar. Ef maður vill “frelsa” konur, af botnlausri föðurhyggju gagnvart þeim, mætti eitra rætur þess hugarfars sem gerir líkama kvenna að verkfæri karla, eða eign samfélagsins. En konurnar sjálfar ætti maður að láta í friði.

Persónuleg frelsun er nefnilega persónuleg barátta. Við ættum öll að berjast gegn samfélagslegum höftum á þá baráttu, en hún sjálf þarf alltaf að koma innanfrá, úr hverju okkar fyrir sig. Þetta eru sjálfljós sannindi, og ég myndi ekki taka þetta fram ef þetta væri almennt viðurkennt. En á þessu hafa nýlega birst ljótar undantekningar, og það undir flaggi frelsunar þeirra sem ríkið vill skipta sér af. Hegðun múslima í Evrópu þykir nú til dags almannahagsmunir. Og eins og svo oft áður er það útlit og klæðaburður kvenna sem fær sérstaka athygli.

“Það hefur ekkert með frjálslyndi að gera að vera á móti því að banna búrkur,” sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nýverið. “Ég er enn sannfærð um þetta, eftir að hafa lesið ótal bækur um femínisma, íslam og annað og ekki síður vegna þeirra pósta sem ég fékk í kjölfar umræðunnar um þetta. Konur sem voru múhameðstrúar sendu mér tölvupósta og tóku eindregið undir það sem ég var að segja,” útskýrði hún.

Búrkur eru sannarlega kúgunartæki, einsog konurnar sem sendu Þorgerði tölvupóst bentu á: “Þær sögðu búrkur ekki samræmast íslam, að búrkurnar byggðu á eftiráskýringu karla í múhameðstrúarheiminum”. Þetta er skýrt, og ég deili ekki á það. Hlutgerving og stjórnun kvenna er ógeðsleg. Frelsun undan því er nauðsynleg. En hvernig á slík frelsun sér stað?

Hér hrasar frjálslyndi Þorgerðar um sjálft sig. Í stað þess að binda enda á kúgun kvenna af hálfu karla, eða samfélagsins, á að setja lög um fötin sem þau klæðast. Til að vernda konur fyrir að þær séu klæddar í búrkur á samfélagið að klæða þær úr þeim.

Ef til vill er Þorgerði ljóst að það er ekki nóg að vernda konur fyrir körlum sínum, því þær sem helst þyrftu hjálp myndu sjálfviljugar klæða sig í búrkuna. Ef lagaleg pressa myndi vaxa á þær að klæða sig “einsog í Róm”, þá myndu þær ef til vill bara vera heima í staðinn.

Í öllu falli er hugmyndafræðin að baki klæðalöggjöf vond. Föt eru tjáning manneskjunnar sem klæðist þeim, og vernd gegn ofbeldi og þvingun er besti ramminn sem við getum skaffað fólki til að þroska með sér sem frjálsasta tjáningu og klæðaburð.

Það er vinsæl hugmynd nú til dags að “vernda” frjálslyndið okkar með því að banna hugmyndir sem okkur finnst ógnandi. En slík vernd drekkir frjálslyndinu í eigin svita og tárum. Það þrífst aðeins með því að vernda okkur frá ofbeldi og frá afskiptum samfélagsins af okkar einkamálum, svo við höfum ráðrúm til að frelsa okkur sjálf.