Upp með hendur eða ég… mótmæli?

Enginn finnur lyktina heima hjá sér fyrr en eftir langt ferðalag. Stundum er þó nóg að fá bara póstkort til útlanda til að minningarnar hellist yfir mann. Eftir sex mánaða fjarveru fékk ég þannig póstkort frá íslensku samfélagi. Einsog margir í þessum heimi hef ég fylgst með pólitískri niðurlægingu landsmanna og friðsömum Austurvallarmótmælum úr öruggri fjarlægð síðustu vikur. Almannaviljinn er tjáður aftur og aftur í þessum líkgöngum lýðræðisins, mótmælum sem ríkisstjórnin hefur oft tilkynnt að hún virði að vettugi. Úr þessari pattstöðu spratt ekki harðari mótmælastefna, heldur uppgjafartónn. Síðan rofaði til. Róttæklingar boðuðu til aðgerða fyrir utan heimili Bjarna Ben, og rökræðan sem fylgdi minnti mig á klisjurnar, stöðnunina og dugleysið sem einkennir íslenska mótmælamenningu.

Rökræðan var að sjálfsögðu um “eðlileg mörk mótmæla”, hin goðsagnakenndu landamæri handan hverra liggja ægifen rifrilda og ósættis, myrkviður reiðinnar, þar sem fólk er ekki krúttlegt og brosandi heldur með grímur yfir forugum kjaftinum, molotov-bombur í höndunum og óeirðir á heilanum – í stuttu máli, landamærin milli Íslands og útlanda.

Skipuleggjendur hvöttu ekki til molotov-notkunar eða óeirða, bara ögrandi staðsetningar. Hermenn frjálslyndis stukku til. Athugasemdir flugu, lækum var dritað yfir vígvöllinn, skipuleggjendur voru kæfðir í kristilegri góðvild, hið persónulega og pólitíska var klofið opinberlega með fallöxi. “Sama hvernig farið er með okkur,” hrópaði lýðurinn einum rómi, svo steinveggir þingsins skulfu, “sama hvernig óskir okkar eru fótum troðnar og vilji okkar hunsaður, aldrei skulum við trufla heimilisfrið stjórnmálamanns!”

Nú ætla ég ekki að sökkva sjálfur í lamandi kviksyndi þessarar fáránlegu rökræðu eða verja augnabliki meir í þessa sorglegu áminningu um holdsveika stjórnmálaorðræðu Íslands. Heimilisfriður Bjarna Ben skiptir einfaldlega ekki máli, altént ekki umfram heimilisfrið þeirra sem þurfa að þola hans löggjöf og skattlagningu. Það sem skiptir máli, það sem við þurfum að eyða púðri í, er samfélagið í heild og reglurnar sem það vinnur eftir. Yfirstétt landsins hefur búið sér til sinn eigin persónulega ríkissjóð við strendur Karíbahafsins, einkavætt arð og náttúruauð lýðs og lands og grafið hann fimmtán skref suður, þrettán austur frá einhverju pálmatré á Panama. Það er furðulegt, í ljósi þess hve gersamlega hefðbundnar mótmælaaðferðir hafa mislukkast, að Íslendingar byrji að rífast um nákvæmlega hversu mikla samúð Bjarni Ben græðir á starfsaðferðum eina róttæklingahópsins á landinu. Ég las þessar samræður agndofa. Er fólk svo óvant mótmælum að það fellir tár, fyrir hönd strengjabrúðu stjórnarformanna, yfir þessu smáræði?

Kannski er ekki við öðru að búast í landi þar sem beiting táragass þykir sögulegur viðburður og grímuklæddir mótmælendur sirkusdýr. Friðsældin og kyrrðin eru sómi Íslands, sverð þess og skjöldur, og ekkert má útaf bregða svo við týnum þeim ekki. Öllu skal svarað með friðsælum mótmælum á Austurvelli, Facebook-færslu eða skoðanagrein í blaðið. Þannig er pólitík. Við tölum meðan stjórnmálamenn gera.

Þetta ástand hefur valdið þeim fræðimönnum vandræðum sem álíta lýðræði felast í almennri þátttöku almennings. Það ástand kalla þeir “þátttökulýðræði”, öfugt við áhorfslýðræðið sem við höfum. Við höfum verið þvinguð til að framselja sjálfræði okkar í hendur nokkurra flokksleiðtoga sem kosninga á milli segja okkur kinnroðalaust að þeir eigi embættin sem þeir úthlutuðu sér og undirmönnum sínum. Almenningur má í fjögur ár éta það sem á Austurvelli frýs, þar til andi frelsisins sveipar samfélagið og vilji þess mótast í einum krossi sem fleygt er í legstein lýðræðisins, kjörkassann, þar sem virk stjórnmálaleg þátttaka borgarans – mikilfengleg sem hún er! – byrjar og endar.

Þetta dýrðlega kerfi stendur samfélagið nú vörð um af ofsa. Þegar Bjarni Ben útskýrir fyrir Íslendingum í þúsundasta skipti að vilji þeirra komi stjórnun landsins ekki við æpa þeir, þrútnir af reiði: “Kannski kjósum við þá bara Pírata!” En svo er hikað og tónninn mildast. “Samt ekki fyrr en þú leyfir okkur!” Síðan, þegar hann haggast ekki í embætti eftir margar vikur af friðsömum reiðiöskrum er fussað, hausinn hristur og farið heim.

Þegar stjórnmálaþátttaka almennings er á þennan veg er til auðveld leið að halda völdum: að vinna áfram í hljóði. Þessa list kunna fáir íslenskir stjórnmálamenn, enda eru þeir með eindæmum hörundsárir. Þess vegna þykir með ólíkindum þegar einhver nær góðum tökum á þögninni. Bjarni Ben kunni þetta, en honum hefur brugðist bogalistin síðustu vikur. Almennt virðast þó Sjálfstæðismenn betri í þessu en Framsóknarmenn, sem kann að skýra hvernig krísur sægræna bandalagsins eiga það til klínast á Framsókn. Það þarf ekki að minna nokkurn mann á hina hrollvekjandi fyrstu mánuði þessarar ríkisstjórnar, þegar nýkjörnir þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins ruku í stjórn einsog beljur á tún. Fá bönd, lagaleg, siðferðileg eða pólitísk, virtust geta haldið þeim, og fá þeirra slettu úr klaufum einsog núverandi forsætisráðherra. í staðinn fyrir að laga lekar pípur samfélagsins í hljóði og beina þeim í vasa vina sinna, einsog kollegar þeirra úr Sjálfstæðisflokknum gerðu svo vel, þá urðu þau að segja almenningi á meðan hvað þetta væri snjallt og almúginn vitlaus og vanþakklátur.

Þótt köld og yfirveguð valdníðsla á borð við lekamálið, Orkumálið og eilífa vinagreiða Bjarna Ben geti verið mikið hættulegri en klúðurslegur groddaskapur Framsóknarmanna, þá heldur sá fyrrnefndi betur velli, einmitt því fagmennska og þagmælska virkar betur á kjósendur en aulaskapur. Það var ofbeldisfullt og óreiðukennt að sjá Fiskistofu hrifsaða frá starfsmönnum af verðandi forsætisráðherra landsins. Hinsvegar virðist engu breyta hverslags beinskiptingu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins tengja í íslenska stjórnsýslu fyrir velgjörðamenn sína, því það hefur allt slétt og fellt útlit hins löglega.

Einmitt þessi dýrkun á formlegheitum, frekar en bláköldum raunveruleika, eyðileggur tækifæri almennings til að fá rödd sína heyrða. Ef öll óánægja er tjáð með friðsamlegum skólabókarmótmælum á Austurvelli verða þau eingöngu táknræn, meðan valdbeiting og valdníðsla stjórnmálamanna er raunveruleg.

Vald er til meðan fólk leyfir því að viðgangast, meðan við virðum rétt stjórnmálamanna til að eiga embættin sín og hunsa vilja okkar. Þeir hafa vald því við hlustum og hlýðum. Að sama skapi höfum við ekki vald, því ríkisstjórnin hlustar ekki og hlýðir ekki. Það er okkar að breyta því.

This entry was posted in blogg and tagged , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>