Ásættanlegur fórnarkostnaður

Þann 18. mars tókst Evrópu að gera samkomulag við Tyrkland um að brottvísa þangað öllum flóttamönnum sem koma þaðan. Allir yrðu handteknir við komu til Grikklands, settir í fangabúðir, fengju einhverskonar þykjustutækifæri til hælisumsóknar og yrðu svo sendir burtu. Ferlið átti að byrja innan tveggja sólarhringa og brottvísanirnar eiga að hefjast fjórða apríl. Allt á þetta að standast alþjóðalög.

Þegar ég frétti af þessu brjálæðislega og óframkvæmanlega samkomulagi var ég djúpt í Tyrklandi, nálægt sýrlensku landamærunum, að athuga hvernig aðstæður þar eru fyrir flóttamennn. Almennt eru þær, svo ég orði það glæfralega vægt, slæmar. Þær minna á aðstæður evrópskra verkamanna á myrkari köflum iðnbyltingarinnar. Í stórborgunum slíta flóttamenn út lífum sínum við saumavélar. Í sveitunum þræla þeir á ökrum meðan birta leyfir og fá að búa í tjaldbúðum í staðinn. Atvinnuréttindi eru lúxus sem fæstir hafa, og því er svínað á þeim, útborgun launa dregin eða skert og fólki gert að senda tólf ára krakka sína í verksmiðjur og á akra.

Heimili flóttamanna utanvið Torbali í Vestur-Tyrklandi.

Heimili flóttamanna utanvið Torbali í Vestur-Tyrklandi.

Það er til marks um fáránlega bjartsýni evrópskra stjórnvalda, eða einfaldlega örvæntingarfullt skeytingarleysi þeirra, að ég náði ekki einusinni að koma mér frá Tyrklandi til grískrar eyju – Kíos – á þeim tíma sem sambandið hafði gefið sér til að hefja brottvísunaráætlunina. Þó fólst í þeirri áætlun að gerbylta hælisumsóknarkerfum og flóttamannamóttöku tveggja landa.

Ég settist upp í bíl á hádegi laugardagsins 19. mars, daginn eftir að samkomulagið var undirritað, og keyrði í fimmtán tíma samfleytt til að ná ferju til Grikklands. Þegar ég kom að landi í Kíos voru fyrstu flóttamennirnir sem yrðu undirseldir nýju áætluninni sitjandi á bryggjunni. Þeim var smalað í rútu og var svo ekið í fangelsi. Þeir voru rukkaðir um þrjár evrur fyrir farið.

Gríska landhelgisgæslan flytur flóttamenn að bryggju sunnudagsmorguninn 20. mars.

Gríska landhelgisgæslan flytur flóttamenn að bryggju sunnudagsmorguninn 20. mars.

Það kom fljótt á daginn að enginn vissi hvað væri að ske og hvernig ætti að bregðast við. Lögreglan hafði ekki skýr fyrirmæli, önnur en að fangelsa fólkið við komu. Sjálfboðaliðum og blaðamönnum var bara hleypt nálægt flóttamönnunum ef lögreglumönnum sýndist svo. Spánsk blaðakona sat fyrir utan hliðið að bryggjunni og lét sér leiðast. Súpa var gefin á bryggjunni og ekki var alveg ljóst hvað myndi gerast um kvöldið, hver myndi gefa fólkinu mat þá, og hvort maður mætti yfirleitt koma í fangelsið að hitta þá.

Flóttamenn bíða eftir að vera ekið í fangelsi.

Flóttamenn bíða eftir að vera ekið í fangelsi.

Eitt umræðuefni hefur elt alla sjálfboðaliða sem ég hef hitt í vetur: Að hve miklu leyti erum við að styðja kerfi sem við viljum brjóta niður með því að veita þessa aðstoð? Að hve miklu leyti ætti maður að vinna pólitískt, að hve miklu leyti sem ópólitískur hjálparstarfsmaður? Er yfirleitt hægt að vera ópólitískur þegar maður hjálpar flóttamönnum sem evrópskir stjórnmálamenn reyna gagngert að hrinda úr álfunni?

Þegar kemur að fangelsun flóttamanna fer mörgum að þykja þetta aðkallandi spurning. Ég var á eyjunni Leros þegar varðhaldsbúðir fyrir flóttamenn voru opnaðar þar í febrúarlok, og herforinginn sem rak búðirnar kallaði sjálfboðaliða á fund. Hann hafði opnað búðirnar án þess að láta þá vita og án þess að velta sérstaklega fyrir sér hvaðan maturinn ætti að koma. Enginn mátti yfirgefa þær. “Hvað getið þið boðið?” spurði hann sjálfboðaliðana. Og vel að merkja, bætti hann við, það þyrfti líka einhver að þrífa ruslið.

DSC_0284

Flóttamannafangelsið á Leros.

Mér til mikillar armæðu urðu sjálfboðaliðarnir einfaldlega við þessum fáránlegu kröfum. Þarna hefðu þeir umsvifalaust og án afdráttar átt að krefjast þess að búðirnar yrðu opnar ef ekki væri hægt að reka þær almennilega sem varðhaldsbúðir. Þrjár fínar og mannúðlegar flóttamannabúðir voru fyrir á eyjunni sem gátu vel sinnt öllum sem komu. En það tók sjálfboðaliðana nokkrar vikur að fá herinn til að fjármagna og þrífa sitt eigið fangelsi.

En nú er ástandið mun verra. Í febrúarlok vissu flóttamennirnir í varðhaldsbúðunum þó að þeim yrði að lokum sleppt og leyft að fara á meginlandið. Nú eru þeir í fangelsi, og þeim verður brottvísað.

Flóttamaður fangelsaður í Vial biður um ráð með Google translate.

Flóttamaður fangelsaður í Vial biður um ráð.

Á mánudagsmorguninn, degi eftir að samkomulagið við Tyrkland gekk í gildi, fór ég í Vial – flóttamannafangelsið á Kíos – með aktívistum úr fjölþjóðlegri hústöku á eyjunni. Við keyrðum að Vial, sem er staðsett nokkra kílómetra frá höfuðstað Kíos, löbbuðum að girðingunni sem liggur meðfram sveitaveginum og spjölluðum við fólkið fyrir innan. Fangarnir voru örvæntingarfullir, vonsviknir og reiðir.

Nokkur okkar gáfu þeim dót yfir og gegnum girðinguna. Dreifing matar gegnum girðingu er alltaf óréttlát og handahófskennd. Hreinlætisvörur og kex fóru til þeirra sem náðu að grípa það.

Hreinlætisvörur gefnar inní fangelsið.

Hreinlætisvörur gefnar inní fangelsið.

Súpueldhúsin á eyjunni hafa fengið að kynnast þessu vandamáli af hörku. Þau sóttu um leyfi hjá lögreglunni til að gefa flóttamönnunum mat og eru undirsett skipunum hennar. Fyrstu dagana urðu þau að gefa matinn gegnum vírana. Slagsmál upphófust á miðvikudaginn 23. mars vegna ónógs matar og óréttlátrar dreifingar. Auðvitað er ekki beint við súpueldhúsin að sakast að ná ekki að gefa mat almennilega í svona fáránlegum aðstæðum, en enn og aftur: Þau hefðu átt að krefjast þess að mega fara inn eða að búðirnar yrðu opnar.

Fangelsuðum flóttamönnum í Vial, Chios, gefinn matur gegnum girðinguna.

Matur gefinn gegnum girðingu. Myndband hér.

Slagsmálin á miðvikudaginn drógust í hálftíma, því allir – lögreglan meðtalin – höfðu flúið úr fangelsinu. Bara flóttamennir, menn konur og börn, voru læstir inni. Fimm slösuðust.

Mótmæli eru haldin daglega í búðunum. Við höfum safnað nokkrum símanúmerum hjá föngunum og sögðum þeim frá því í fyrradag að aðstoðarráðherra væri á leið til Vial að skoða aðstæður. Mótmælin voru svo hávær að þegar hæstvirtur gesturinn var tekinn í viðtal úti á götu heyrðist betur í mótmælendunum en honum. Þeir kölluðu eftir frelsi og kröfðust þess að vera ekki brottvísað til Tyrklands.

Við höfum heimsótt búðirnar hér um bil daglega, en næstum alltaf verið skipað af lögreglu að yfirgefa staðinn. Einn daginn voru tveir hópar fluttir á lögreglustöð og yfirheyrðir í fimm tíma. Annan dag voru skilríkjanúmer allra sem höfðu heimsótt fangelsið skráð.

Lund fólks breytist þegar það bíður í svona aðstæðum dögum saman. Hrá vonbrigðin og bræðin frá fyrstu tveimur dögunum hefur vikið fyrir yfirvegaðri og ígrundaðri reiði. Mótmæli eru haldin daglega.

Þegar öllu þessu fólki hefur verið brottvísað þætti mér forvitnilegt að heyra hvernig þeir lýsa ótrúlegri eigingirni og sjálfhverfu Evrópu. Orðspor heimsálfunnar okkar í þriðja heiminum er ekki glæsilegt. Stjórnmálamenn hafa nú gert sitt allrabesta til að sverta það rækilega. Þetta er gert viljandi: Það á að fæla aðra flóttamenn frá því að koma hingað. Til þess er fangelsun barna ásættanlegur fórnarkostnaður – til að brjóta ein réttindi sættir Evrópa sig við að brjóta önnur. Það hefur tekið vel yfir viku að koma hælisumsóknarferlinu í gang. Það átti að byrja í dag, en ekki bólar á því. Brottvísanir eiga að hefjast á mánudaginn. Það sannast nú sem aldrei fyrr að ef ekki er barist fyrir réttindum, þá eru þau ekki til.

This entry was posted in blogg on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>