Örugglega ekki þitt vandamál

Í dag talaði ég við sex ára stelpu í evrópsku fangelsi. Það er hryllilegt. En hafðu engar áhyggjur. Það er ekki þitt vandamál.

Hún er þar því Evrópusambandið ákvað fyrir nokkrum dögum að brottvísa öllum flóttamönnum sem koma til Evrópu. Þeir geta þá allir farið til Tyrklands, sem fær pólitíska greiða og marga milljarða fyrir. Þannig á að leysa flóttamannavandann. Þegar flóttamennirnir eru í Tyrklandi, þá eru þeir ekki okkar vandamál.

Stelpan heitir Zahra og hún er stödd í fangelsinu Vial á grísku eyjunni Kíos. Einsog krakkar eiga til, þá leikur hún sér. Nokkrir sjálfboðaliðar sem gefa fangelsinu starf sitt segja það til marks um að henni líði vel þar. Þeim finnst mikilvægt að sjá stundum bros í augum fanganna. Sjálfboðaliðarnir koma með blöðrur og súpu og þegar lögreglan leyfir þeim fara þeir inn í fangelsið að leika. Annars gefa þeir flóttafólkinu mat gegnum rimlana. Sjálfboðaliðarnir rabba um það á kvöldin, þegar þeir drekka bjór á veröndinni, hvað gæti orðið um flóttamennina. En það er ekki þeirra vandamál. Þeir eru þarna til að búa til bros.

Fangelsuðum flóttamönnum í Vial, Chios, gefinn matur gegnum girðinguna.

Fangelsuðum flóttamönnum í Vial, Chios, gefinn matur gegnum girðingu. Myndband hér.

Fólkið sem ekki vinnur í fangelsinu, fólkið sem neitar að gefa því vinnu sína og styðja rekstur þess, er rekið burt af lögreglumönnum ef það talar við fangana.

Zahra hló þegar ég reyndi að læra nafnið hennar og tveggja vinkvenna hennar meðan ég hafði auga með því hvort lögreglan væri að koma. Þarna stóð ég, fáránlegi hvíti maðurinn sem talaði ekki arabísku, frjáls fyrir utan rimlana, að reyna að brjóta múrinn sem átti að byggja milli pappírslausa fólksins sem má ekki vera hér og Evrópubúa. Ég hló með og afsakaði mig vandræðalega og labbaði svo burt. Þær veifuðu bless og tóku svo til við að sarga gegnum rimlana með plasthníf.

Flóttamenn verða að vera góðir. Þá rennir í grun að Evrópa sé hrædd við þá, að þeir þurfi að hegða sér sérstaklega vel. Þeir eru alltaf á reynslulausn. En stundum verða fangarnir sem ég tala við reiðir. “Ég hef rétt á því!” sagði einn, og missti næstum stjórn á skapinu sínu. Börnin hans eru í Þýskalandi, en hann er fastur í fangelsi á grískri eyju. “Ég hef rétt á að fara þangað!”

“Veistu hvað þeir segja hérna?” spurði einn fangi mig í morgun. “Þeir segja að Evrópa, almennt séð, vilji ekki hafa okkur. Er það satt?”

Það er erfitt að reikna út hver er að brjóta svona á flóttamönnunum. Hver er það sem fangelsaði þennan mann, sem fangelsaði pabbann, sem fangelsaði Zöhru, alla þá fimmtánhundruð flóttamenn sem eru núna innan þessara rimla? Og hver er það sem brottvísar þeim? Lögreglumennirnir? Angela Merkel? Er brottvísun líkamleg eða frumspekileg? Felst valdbeiting í að gefa skipanir? Felst hún í að draga öskrandi flóttamann í brottvísunarferju, eða í að skapa kerfið sem leiðir brottvísunina af sér? Kemur skipunin frá stjórnmálamönnum eða almenningi? Og hver viðheldur kerfinu? Hverjum er þetta að kenna? Öllum? Engum?

Þetta er sennilega ekki þér að kenna. Þú gætir sennilega ekki gert neitt í þessu. En þegar allt er talið, þegar ábyrgð okkar allra er metin, þegar athæfi okkar og samfélag er metið – og stjórnmálin með – er ég hræddur um að við séum orsökin fyrir þessu. En að sama skapi erum við líka fær um að breyta því, og því fylgir ábyrgð. Þetta er vandamálið okkar, og það er okkar að leysa það.

This entry was posted in blogg on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>