Ekki nógu dauðvona

Mér finnst gaman að ferðast. Í haust fór ég til dæmis til Tælands í nokkrar vikur og þaðan til Grikklands fyrir minna en hundrað þúsund krónur. Á leiðinni fékk ég heitan mat, snertiskjá með bíómyndum og tölvuleikjum og fallegt útsýni yfir asísku fjallagarðana. Ég gisti í fyrrverandi reykingaskýli á Sheremetyevo-flugvelli í Moskvu og labbaði beint gegnum öll breiðu og greiðu EEA Passengers hliðin.

Þar sem eitt sinn var reykingaskýli er nú tjaldstæði.

Þar sem eitt sinn var reykingaskýli er nú tjaldstæði.

Í haust bjó kúrdísk fjölskylda á vindsæng í þessu skýli og lifði á ölmusu í einn og hálfan mánuð. Þau höfðu verið í Sýrlandi og Írak áður en þau flúðu stríðið þar. Í staðinn fyrir að hætta á bátsferðina frá Tyrklandi til grísku eyjanna reyndu þau að fá hæli í Rússlandi. Bátsferðin kostar nefnilega meira en ég borgaði fyrir öll flugin mín – og hún er lífshættuleg.

Tyrkland, séð frá Kíos.

Tyrkland, séð frá grísku eyjunni Kíos.

Samt eru á mörgum stöðum bara nokkur hundruð metrar milli Tyrklands og Grikklands. Það þýðir að ferðin kostar einn dollara fyrir hvern metra. (Á því verði hefði ferðalagið mitt kostað tvo og hálfan milljarð króna, með engu fótaplássi.) Bátsferðin er svona dýr því strandgæsla og lögregluyfirvöld Tyrklands og Grikklands (og Evrópusambandið) berjast gegn henni. Hún er svona hættuleg því hjáleiðin kringum eftirlitið er að senda sem flesta í sem fæstum, smæstum og ódýrustum fleyum: gúmmítuðrum sem hvolfir við léttasta högg, sem springa við minnsta árekstur. Landamæraeftirlit Evrópu skapar þetta vandamál, en viðbrögðin hafa hingað til verið að herða það.

Bíddubíddu, má ég sjá skilríkin
Það sem tekur við þegar svona gúmmítuðra strandar á grísku grjóti – ef hún sekkur ekki fyrst – er skráning allra í henni. Fólk sem hefur velkst um í einni kös í marga klukkutíma fær alvöru faðmlag frá vestrænu samfélagi við komu: “fylltu út þetta eyðublað”. Fingraför eru tekin af þeim, með valdi ef þurfa þykir, og þeim er hólfað í búðir eftir þjóðerni. Svo virðist sem eini boðskapur jólaguðspjallsins sem Evrópulönd taka alvarlega sé að “skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.”

Evrópusambandið vill refsa löndum sem þvinga ekki flóttamenn til að gefa fingraför. Hvað sem flóttamönnunum, sem margir flýja alræðisstjórnir, kann að finnast um slíkar aðfarir yfirvalda.

Margir flóttamenn þekkja svona vinnubrögð þaðan sem þeir flýja.

Það er viðeigandi að þetta séu fyrstu kynni fólks af Evrópu, því svona mun þetta halda áfram. Það er nefnilega einkenni vestræns samfélags að allt verði að vera skráð og skilgreint. Og það eru ekki bara pappíralausir flóttamenn sem líða fyrir það. Súpueldhús sem ég vann í á grísku eyjunni Samos, sem sér mörghundruð flóttamönnum fyrir ókeypis kvöldmat, er ofsótt af lögreglu á þeim forsendum að þar vanti pappíra fyrir einu og öllu.

Hryðjuverkamennirnir sem drekka bjór og elda súpu án leyfis.

Lögreglan heimsótti eldhúsið í byrjun desember og vildi sjá leyfi fyrir rekstrinum, sjálfboðaliðaskráningu, allar upplýsingar tengdar fjármögnun, skráningarskírteini húsbílanna sem við gistum í, hún spurði hvar við svæfum, hvernig við færðum matinn milli staða og lögregluforinginn hótaði okkur fíkniefnarassíu. (“Ég veit að ég myndi finna eitthvað,” sagði hann og setti upp tannlaust bros.) Svo var leitað í húsi gestgjafa okkar þótt við hefðum ekkert notað það. Hvasseygðar pennapatandi eftirlitskonur með skrifblokkir röltu um allan tímann og báðu um pappíra, leyfi, nöfn og bankanúmer. Þetta var dálítið vandræðalegt en aðallega ógnvekjandi.

Samos er falleg eyja þegar lögreglumenn menga ekki útsýnið.

Samos er falleg eyja þegar lögreglumenn menga ekki útsýnið.

Þar kom síðar í ljós að lög og regla höfðu ekki komið í heimsókn til að vernda neinn heldur, einsog Bubbi söng forðum, “til að fela hitt og þetta.” Veitingastaður á eyjunni vildi úthýsa okkur til að geta grætt sjálfur á sölu matar til flóttamanna. En þótt veitingastaðir séu gráðugir í komu flóttamanna gildir það ekki um alla. Hvað sem almenningi finnst, þá eru ríki andsnúin komu stórra hópa fólks af mörgum ástæðum, alveg sama hvort fólkið sé að leita að vinnu eða að flýja stríð.

Meginreglan er: vertu kyrr
Þess vegna er það fyrsta sem ríkt land gerir, þegar fátækt fólk reynir að komast þar inn, að reisa girðingar. Þetta hefur gerst víða og oft en hvergi af jafn ringlaðri og örvæntingarfullri heift einsog í Evrópu í haust. Búlgaría-Tyrkland, Makedónía-Grikkland, Grikkland-Tyrkland, Ungverjaland-Serbía, jafnvel milli Schengen-landanna Austurríkis og Slóveníu. Um leið og flóttamenn byrjuðu að streyma inn í stórum stíl komu hermenn með rúllur af gaddavír, með táragas og hvellsprengjur. Sums staðar skutu þeir fólk hreinlega til dauða.

Makedónski herinn setur upp manneskjuvarnir. Mynd frá Getty.

En auðvitað er einn galli á girðingum: það er ekki hægt að setja þær í sjóinn. Þess vegna hefur fólksflótti til Spánar, Ítalíu og Grikklands verið svo mikill síðustu ár – því sjóleiðin þangað er stutt. Við þessu eru nokkur svör. Eitt er að drekkja fólkinu sem kemur hingað með því að stinga göt á bátana, sem og að draga bátana burt aftur. Þetta hafa bæði ítalska og gríska strandgæslan gert. Svo er líka hægt að sleppa því að bjarga drukknandi fólki. Margir ráðherrar Evrópuríkja, til dæmis breska hefðarkonan Joyce Anelay, hafa hvatt til þeirrar nálgunar, því björgunaraðgerðir hvetji bara fleiri til að koma útá haf. Samkvæmt þessari brjáluðu lógík er besta björgunin að leyfa fólki að drukkna.

Einangrunarbúðir eru svo 2015
Þegar fólkið kemst samt til Evrópu tekur næsta varnarlína við: fangelsi. Þann 17. desember var Adam, marokkóskur flóttamaður, að skera lauk í eldhúsinu okkar þegar lögreglan leit við og sagði honum að koma niðrá stöð. Þegar ein okkar, Heiða Karen, kíkti inná stöðina nokkrum tímum síðar, sá hún fangageymslu fulla af Norður-Afríkubúum. Lögregluforinginn, þessi sem áður hafði framkvæmt rassíu á okkur, sagði að þetta væri þeim fyrir bestu. “Þeir eru að fara í lokaðar búðir í Aþenu því þeir bera ábyrgð á hryðjuverkaárásunum í París,” staðhæfði hann í opið geðið á henni. “Það er gott fyrir þá. Þá hafa þeir húsaskjól.”

Tveir marokkóskir flóttamenn sem vissu ekki hvað beið þeirra.

Tveir Marokkóbúar að hjálpa í eldhúsinu. Þeir fóru burt áður en fjöldahandtökurnar hófust.

Marokkóbúar eru hataðasti hópur flóttamanna í Grikklandi. Þeir eru lokaðir í fangelsum, þeir mega ekki fara úr landi, þeim er bannað að dvelja á gistiheimilum og þeir eru lamdir í spað af lögreglu ef þeir reyna að fara til norðurs. (Þeim er hinsvegar alltaf boðið að fara ókeypis heim.) Þeir, líkt og allir sem eru ekki frá Írak, Sýrlandi eða Afganistan, eru fastir án aðstoðar í Grikklandi þar til þeir bugast og fara heim, eru handteknir, fremja sjálfsmorð, eru settir í einangrunarbúðir, eða borga þúsundir evra til að fá smygl úr landi. Líkindin við upphaf helfararinnar eru á allra vörum.

Norðurafrískir flóttamenn, sem var smalað saman og þeir handteknir á Samos, sitjandi og umkringdir lögreglunni á leið í ferjuna til Aþenu.

Norðurafríkubúar eru nú handteknir um allt Grikkland. Hér sitja 20-30 þeirra á bryggjunni í Samos, umkringdir lögreglu, og bíða þess að vera sendir til Aþenu. Aftar má sjá anarkista úr Open Eyes eldhúsinu fylgjast með.

Við hittum suma hjálparkokkana aftur í Aþenu rétt fyrir jól. Meðal þeirra voru tveir tvítugir strákar sem við buðum í mat á aðfangadagskvöld. Þeir höfðu verið fastir í Aþenu vikum saman. “Við fengum SMS í dag að landamærin hefðu verið opnuð fyrir alla í einn klukkutíma,” sagði annar þeirra. “Við misstum af því…” Hann horfði á okkur skilningslausum augum og fól svo andlitið í höndum sér grátandi. Þetta reyndist seinna hafa verið ósatt. Í gær reyndu þeir að labba gegnum landamærin sjálfir. Í morgun fengum við skilaboð frá þeim: “Vorum stoppaðir. Allt tekið af okkur. Öllu er lokið.”

Evrópa virðist hafa tekið ákvörðun um að bara Sýrlendingar, Afganir og Írakar séu nægilega dauðvona til að mega ferðast. Og sú ákvörðun byggist greinilega á hentisemi, enda eru stríð, hungursneyð og ofsóknir í fjölda annarra landa. Norður-Afríkubúar, sem er varla hægt að segja að búi í vellystingum, eru nú skilgreindir sem svo óréttmætir ferðalangar að þeir eigi skilið að fara í fangelsi.

Þegar fólki er mismunað svona groddalega eftir þjóðerni er ekki skrítið að samskipti flóttamanna verða stirð. Slagsmál þeirra á milli hafa verið yfirvöldum kærkomin átylla til að fordæma flóttamenn sem ofbeldisseggi, til að læsa þá inni án dóms og laga. Fangelsin sem um ræðir eru kölluð “gæsluvarðhaldsfangelsi” en líkjast frekar einangrunarbúðum. Þau spretta nú upp á öllum grísku eyjunum. Hugmyndin virðist vera að loka fólk inni strax við komu, svo auðveldara sé að henda þeim aftur heim. Þá trufla þau líka engan á meðan þau bíða.

Mótmæli við einangrunarbúðirnar í Kórintu.

Mótmæli við einangrunarbúðirnar í Kórintu 27. desember.

Geymd í drullu og reyk
Jafnvel þeir flóttamenn sem fá að ganga um búa í ógeðslegum aðstæðum. Í Lesbos eru þeir geymdir í Moria, yfirfullum búðum þar sem fjöldi fólks þarf að sofa úti. Fólk sem fyrir nokkrum vikum bjó í húsi með fjölskyldu sinni þarf núna að passa uppá hana í köldu tjaldi á drullugu berangri og halda á sér hita með því að brenna rusl.

Flóttamannageymslan í Moria, Lesbos, með súrrealískum sirkustjöldum, tættum trjám og rjúkandi ruslahrúgum.

Flóttamannageymslan í Moria, Lesbos, með afkáralegum sirkustjöldum, rifnum trjám, brennandi ruslahrúgum.

Það hversu hamfarakenndar aðstæður Evrópuríki hafa sett flóttamenn í breiðir yfir eina annars augljósa staðreynd: þetta er venjulegt fólk að ferðast, alveg einsog við gerum. Þegar þau stíga úr gúmmítuðrunum (ef tuðrurnar sökkva ekki) koma þau, snyrtilega klædd með bakpoka og börn uppá arminn, einsog túristar úr lest. Þau koma úr vondum aðstæðum, þau koma eftir hryllilega vondri leið, en þau eru ekki óvenjuleg, merkileg, sérlega góð eða sérlega vond. Þau eru bara fólk að reyna að komast milli landa. Hvað ætli þau haldi um okkur?

Venjulegur karl með venjulegan son á óvenjulegu ferðalagi.

Venjulegur karl með venjulegan son á óvenjulegu ferðalagi.

Evrópuríki vilja halda útlendingum úti af ýmsum ástæðum. Þau eru þjóðríki, og aðrir siðir trufla þeirra þægilega einsleitu menningarlegu samsteypu. Þau eru rík, og koma fátæklinga ruglar þá sjálfsmynd þegnanna að heimurinn sé réttlátur – eða að óréttlætinu sé að minnsta kosti haldið annarsstaðar. Evrópa er ennfremur með rasískar hefðir og stofnanir sem bregðast illa við opnun landamæra.

Ríkin munu ekki laga þetta ástand sjálf, enda bjuggu þau það til. Þess vegna er núna komið að þeim sem segja Evrópu vera heimsálfu lýðræðis. Flóttamannavandinn er ekki til, heldur erum við með alvarlegan rasista- og ríkisvanda. Ríkið er að rústa lífum útlendinga með landamærum. Rasistar veita því dygga aðstoð og starfa jafnvel sem embættismenn og ráðherrar. Fólk sem vill gera hlutina öðruvísi og betur þarf að bretta upp ermarnar.

Smyglbátur kemur að landi í Lesbos snemma morguns.

Smyglbátur kemur að landi í Lesbos snemma morguns.

Almenningur þarf að standast hræðsluáróður og sjá komu flóttamanna sem það sem hún er: milljón manna dropi í fimmhundruð milljón manna haf Evrópu. Það skiptir í augnablikinu ekki máli hvort þetta fólk auðgi efnahaginn okkar, hvort það aðlagist og hvort það læri evrópsk tungumál. Ekki á meðan er verið að drepa það með landamærum. Nú er ekki tíminn fyrir vangaveltur um aðlögun og efnahagsmál. Það þarf að gera eitthvað strax, nefnilega að opna landamærin undireins og skilyrðislaust. Við getum velt fyrir okkur erfiðleikunum sem fylgja því ár og öld, en það eru ekki okkar börn sem drukkna á meðan.

Kannski tekst okkur ekki að laga rasista- og ríkisvandann. Þá þurfum við að játa á okkur alvarlegan skort á lýðræði og mannúð. En það er þess virði að reyna fyrst.

This entry was posted in blogg on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>