Engar undanþágur, takk

Það er frekar niðurdrepandi að hjálpa flóttamönnum að fá hæli á Íslandi. Eina úrræðið sem maður hefur er fjölmiðlaathygli, og sú aðferð hefur einn veikleika. Með því að fara í herferð til að hjálpa einum manni eða einni fjölskyldu að fá hæli, þá hefur innanríkisráðherra iðulega getað skáldað upp afsökun til að gefa “undanþágu” í málinu. Þannig friðþægingar gefa þá hugmynd að afgangur málanna, sem ekki fer í fjölmiðla, fái réttláta málsmeðferð. Það er ekki tilfellið.

Ef farið yrði í fjölmiðla fyrir alla flóttamenn sem eru að fá rangláta meðferð, fyrir alla sem ættu að mega vera hér en er brottvísað, fyrir alla sem geta ekki sofið, reyna að svipta sig lífi, verða holir að innan vegna framkomu íslenskra stjórnvalda gagnvart þeim, þá myndu fréttatímarnir ekki hafa tíma fyrir annað – og sjálfboðaliðarnir myndu brenna út undir eins. Þess vegna þarf að velja og hafna. Maður reynir að hitta á réttan mann á réttum tíma: Einhvern sem er einmitt á dýpsta stað, í áfalli, nýbúinn að fá lokadóminn frá stjórnvöldum. Einhvern sem byrjar að svelta sig því valið stendur hvort eð er milli dauða og hælis. Maður reynir að velja viðkunnalegasta manninn á versta tímapunktinum til að tjá sig við fjölmiðla. Einhvern sem ekki þarf að óttast árásir á fjölskylduna heimafyrir ef hann tjáir sig opinberlega.

Þetta er ógeðsleg og niðurlægjandi starfsaðferð. Hún er bein afleiðing af því að láta réttindi fólks og málsmeðferð ráðast af vinsældum. Svona vinna fyllir alla þá, sem standa í henni, bræði og sjálfsefa. Hún er óréttlát og vond. En hún er það eina sem hefur virkað, því almenningur gerir ekkert í málunum milli fréttatíma.

Ár eftir ár hafa verið haldnir fyrirlestrar, skrifaðar greinar og fluttar ræður á fámennum samstöðufundum um hvernig vandamálið risti dýpra en í stök gölluð mál, hvernig það felist í gervallri afstöðu yfirvalda gagnvart öllum útlendingum. En þetta eru ræður sem eru lesnar af litlum klúbbi fólks, flóttamannanördum, fólki sem ekki þarf að sannfæra um neitt í þessum efnum hvort eð er.

Almenningur sér þessi mál hinsvegar bera hjá einsog stöku rotinn drumb í læk. Og þegar svona mál kemur upp segir innanríkisráðherra: Æ, hér urðu mistök, þetta verður lagað. Og allir hinir, sem ekki komust í fjölmiðla, sitja eftir.

Man einhver eftir afganska stráknum sem svelti sig? Þessum sem fékk sérstaka meðferð eftir tvö ár af höfnunum yfirvalda og skyndilega fjölmiðlaumfjöllun? Hann hætti að borða og drekka því öllum vinum hans hafði verið brottvísað. Ef þeir hefðu skilið íslenska kerfið, þá hefðu þeir rakað sig og greitt á sér hárið, klætt sig í lopapeysu og fundið fréttamann til að taka viðtal af því þegar þeir brotnuðu niður meðan þeir lýstu sögunni sinni. En flóttamenn eru oft hræddir, feimnir, illa tengdir. Og fyrst og fremst, þá halda þeir að Ísland virði mannréttindi. Sú trú endist, í minni reynslu, í sirka þrjá mánuði.

Fólk sem ekki hefur unnið sérlega mikið með flóttamönnum segir að það hljóti að vera gott fólk útum allt: í Útlendingastofnun, í innanríkisráðuneytinu, í lögreglunni, í öllum stofnunum sem sameinast um að gera líf hælisleitenda á Íslandi að lifandi helvíti. Það má vel vera. En það breytir engu um grimmdina sem þetta fólk framleiðir. Og ég verð að segja að mér er hjartanlega sama um þennan góða vilja þeirra sem eyðileggja líf annarra. Eyðileggingin er alveg jafn sár fyrir því, ef ekki sárari.

Þess vegna þykir mér ekkert áfall að forstjóri Útlendingastofnunar segi að mál sýrlensku og albönsku fjölskyldanna verði ekki endurskoðuð, þótt mörgþúsund manns krefjist þess. Svona virkar kerfið, gott fólk, og í þetta skipti fáum við að sjá það. Fínt.

Auðvitað vil ég ekki að fjölskyldurnar fari. Ég vil ekki að neinn fari, því ég tel okkur ekki hafa réttinn til að fleygja fólki úr landi. Sú trú hefur bara styrkst eftir því sem ég hef oftar séð áhrifin sem þannig meðferð hefur á fólk. En ég vil ekki taka þátt í þeim skrípaleik sem nú mun fara í gang, þegar pólitíkusar láta einsog mál þessara fjölskyldna séu svo voðalega sérstök að þau verðskuldi undanþágu. Það á ekki að brjóta reglurnar fyrir þessar fjölskyldur. Það verður að breyta reglunum.

Ný útlendingalög eiga ekki eftir að laga þetta. Grundvallarkrafa, algert lágmark ef tryggja ætti líf og geðheilsu flóttamanna, væri að hætta brottvísunum þar til afstaða yfirvalda í málum þeirra hefur verið yfirfarin. Það yrði að hætta að nota Dyflinnarreglugerðina. Þetta, segja ráðamenn, mun ekki gerast. Hana nú.

Þetta er þulan sem hefur verið kveðin hér á landi, að mestu án áheyrenda, í að minnsta kosti sjö ár. Fólk er ennþá að uppgötva grunnstaðreyndir málanna viku eftir viku. Ég er að reyna að sjá merki þess að núna séu þáttaskil, þótt ég sé ekki vongóður, því það væri hryllilegur dómur yfir landinu ef þetta heldur áfram í mörg ár í viðbót.

Myndina tók Kristinn Magnússon.

This entry was posted in blogg on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>