Hnattvæðing er lygi

Síðustu áratugi hefur okkur verið sagt að þjóðir heimsins séu að gangast undir hnattvæðingu, sem tengi okkur öll saman og geri okkur frjálsari og ríkari. Hundruð þúsunda aðgerðasinna um allan heim hafa gagnrýnt þennan málflutning og sagt hann byggðan á lygi. Þeir hafa verið afskrifaðir í fjölmiðlum sem „andstæðingar hnattvæðingar“, frumstæðir bjánar sem ekkert vita um hagfræði og heiminn. Þessi útúrsnúningur er djarfur, því í raun eru mótmælendurnir mun alþjóðasinnaðri en stofnanirnar sem þeir gagnrýna.

Þetta er sagan af gagnrýnendum „hnattvæðingar“, og hugmyndafræðinni sem þeir aðhyllast. Hreyfing þeirra náði fyrst heimsathygli í Seattle árið 1999, og árangur hennar var umtalsverður. Þótt hreyfingin hafi grotnað niður og hlotið náðarhöggið í Kaupmannahöfn árið 2009 á boðskapur hennar betur við í dag en nokkru sinni. Hann er nefnilega boðskapur frjáls heims, þar sem almenningur ræður sér sjálfur og þar sem enginn bannar fólki að ferðast þangað sem það vill.

Hnattvæðingin fær fjóra daga af frægð
Þann 30. nóvember 1999 hittust fulltrúar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, í Seattle. Fundir stofnunarinnar höfðu yfirleitt verið hljóðlát batterí, látlaus skipulagning þess sem fulltrúarnir kölluðu „hnattvæðingu“. En þessi fundur varð ekki hljóðlátur. Tugþúsundir aktívista mættu í borgina og ullu þvílíkum hamförum að fundurinn hefur síðan verið nefndur „Stríðið um Seattle“. Þegar hæst lét náðu mótmælendurnir stjórn á hluta borgarinnar. Þetta var yfirvöldum, lögreglu og fulltrúum WTO til mikillar hrellingar.

Mótmælaganga daginn fyrir fundinn.

Mótmælaganga daginn fyrir fundinn.

Mótmælin hófust nokkuð rólega, með göngu um borgina daginn áður en fundurinn var haldinn. Snemma morguns þann 30. nóvember breyttist hinsvegar tónninn. Lögreglan hafði ætlað að loka af hluta borgarinnar og tryggja ótrufluð fundarhöld stofnunarinnar, sem mótmælendur sögðu ólýðræðislega klíku valdamanna. Svo aðgerðasinnar tóku til við að ná sjálfir stjórn á borginni. Gatnamótum var lokað af og rúður í útibúum stórfyrirtækja voru brotnar.

Fólk með samfastar hendur lokar gatnamótum í Seattle.

Fólk með samfastar hendur lokar gatnamótum í Seattle.

Þegar aðgerðasinnarnir höfðu lokað götunum hófust veisluhöld á þeim. Lögreglunni var ekki skemmt. Skipanir bárust um að hreinsa þyrfti göturnar, hvað sem tugþúsundir mótmælenda höfðu að segja eða gera, svo lögreglumenn réðust á sitjandi fólk með kylfum og piparúða.

Aðgerðir lögreglu, sem fékk stuðning bandaríska þjóðvarðliðsins síðla dags, voru svo harkalegar að fyrrum kyrrlátir mótmælendur hófu að grýta lögreglu af reiði og ótta. Fundarmenn WTO vissu ekkert hvaðan á þá stóð veðrið. „Þetta fólk skilur bara ekki ávinninginn af frjálsri verslun fyrir þróunarlönd,“ sagði Arnold Schewd, fulltrúi frá Þýskalandi.

Sigur mótmælenda
Þrátt fyrir ótrúlega hörku lögreglunnar gegn friðsömum mótmælendum tókst með margvíslegum fíflalátum, baráttuaðferðum og hreinum mætti fjöldans að fresta opnun fundarhaldanna, og stytta þau síðan svo um munaði. Stórfjölmiðlar fóru á límingunum, fluttu lygasögur um ofbeldi af hálfu mótmælenda og mikið var gert úr skilningsleysi þeirra á hnattvæðingu.

Fíflaskapur í Seattle.

Fíflaskapur í Seattle.

Þegar allt kom til alls skildu mótmælendurnir hinsvegar hnattvæðingu ágætlega. Spurningarnar sem þeir settu fram voru fullkomlega skiljanlegar og eðlilegar: hvers vegna er mælt fyrir frjálsu flæði fjármagns í þriðja heiminn og úr honum, en ekki frjálsu flæði fólks? Hvers eiga þeir frumskógar og þær náttúruauðlindir að gjalda, sem vestræn stórfyrirtæki rústa í suðurlöndum? Og hvað með heimafólkið sem nýtir þær og nýtur þeirra á sjálfbæran hátt? Hvers vegna þarf jafn ólýðræðislegar stofnanir og Alþjóðaviðskiptastofnunina, sem ber enga pólitíska ábyrgð, til að sjá um jafn einfaldan hlut og opnun landamæra, hvort sem það er fyrir peningum eða fólki?

Banner-drop í mótmælunum.

Banner-drop í mótmælunum.

Með tímanum, hægt og bítandi, náðu nokkrar þessara spurninga eyrum almennings. Stofnanir á borð við AGS og Alþjóðabankann byrjuðu að fá opinbera gagnrýni sem þær hafa aldrei náð að hreinsa almennilega af sér. Þær hafa skapað sér ímynd kúgandi klíkuhópa. Í hvert sinn sem barátta fólks við þær, og lögregluverði þeirra, næst á filmu, festist sú ímynd í sessi.

Summit-hopping
Ótrúlegur árangur Seattle-baráttunnar vakti upp eldmóð meðal aðgerðasinna um allan heim. Skipulagning aðgerðanna hafði verið anarkísk og byggð á róttæku lýðræðislegu samstarfi aktívista um öll Bandaríkin, í samvinnu við félagshreyfingar og réttindabaráttumenn um allan heim. En tilraunir til að stoppa fleiri fundarhöld á sama hátt reyndust erfiðari en á horfðist. Yfirvöld höfðu lært af reynslunni, og miðluðu lexíunum til lögreglustofnana annarra landa.

Fyrsta og fremsta lexían var: ekki láta fólk komast upp með neitt. Hert landamæraeftirlit fyrir leiðtogafundi, til dæmis fyrir G8-fundinn í Genóa 2001, hefur nú orðið að rútínu. Ferðafrelsi er þannig reglulega lagt niður í Evrópu svo leiðtogar hennar geti rætt saman um „hnattvæðingu“. Þrátt fyrir það komust mótmælendur á fundinn í Genóa með ótrúlegan mannafla – um tvöhundruðþúsund manns. En við tók alger hörmung.

Borgarhlutinn sem fundurinn var haldinn á var sem fyrr lokaður af. Flugumferð yfir borgina var bönnuð. Einn mótmælandi var skotinn til dauða. Eftir að mótmælunum lauk réðst lögreglan svo inn í skóla þar sem mótmælendur gistu. Lögreglumennirnir eyðilögðu ljósmyndir og myndbönd af mótmælunum, börðu og hræktu á fólk og fleygðu því í veggi. Svo voru fórnarlömbin færð í kjallara Bolzano-fangelsisins, þar sem þau voru pyntuð út nóttina. Blaðamaðurinn Nick Davies skrifaði hrollvekjandi lýsingu á aðgerðunum í The Guardian og kvikmyndin Diaz – Don’t Clean Up This Blood var síðar gerð um þær.

Ein fárra mynda sem náðist úr húsinu eftir árás lögreglunnar.

Ein fárra mynda sem náðist úr húsinu eftir árás lögreglunnar.

Þessi viðbrögð lögreglunnar voru reiðarslag fyrir aktívistana, sem sátu margir eftir með alvarlegar geðraskanir. Mótmæli á leiðtogafundum héldu þó áfram af veikum mætti til 2009, þegar yfirvöld í Danmörku fundu hina endanlegu lausn á þeim. Stór mótmælaganga var þar klippt í bita og vel yfir þúsund manns voru handteknir án ákæru. Fólkið var látið sitja á götunni tímunum saman, þar sem það mátti gera sér að góðu að pissa í buxurnar ef það þurfti, þar til það var sett í sérhönnuð búr, svipuð risavöxnum minkabúrum. Fjöldamótmæli voru einfaldlega svo gott sem bönnuð.

Fjöldahandtökurnar á COP15 - hundruð manna sitja handjárnuð í fangi hvers annars án aðgangs að mat eða salerni. Hægt er að smella á myndina til að sjá stærri útgáfu.

Fjöldahandtökurnar á COP15 – hundruð manna sitja handjárnuð í fangi hvers annars án aðgangs að mat eða salerni. Hægt er að smella á myndina til að sjá stærri útgáfu.

Hvað er frelsi?
Það er nokkuð augljóst hvor hefur hér betri skilning á frelsi og hnattvæðingu: anarkistar, ekki yfirvöld. Yfirvöld loka landamærum, banna mótmæli, ráðast á fólk og drepa það jafnvel. Anarkistar fara milli landa, rífa niður girðingar og vinna lýðræðislega að sjálfstjórn.

Andstaða ríkja gegn raunverulegri hnattvæðingu er orðin æpandi síðustu vikur. Það fólk sem þarf mest allra á ferðafrelsi að halda rekur sig á lögreglu og her sterkustu ríkja heims. Flóttamönnum er gert að stoppa eða vera skotnir með gúmmíkúlum og táragasi.

Þessi flóttamaður er sem betur fer ekki lengur í stríði, heldur kominn til Evrópu.

Ef eitthvað sýnir fram á þá lygi sem hnattvæðing er, þá er það þetta: að bandarískar og evrópskar sprengjur fá að ferðast um allan heim einsog vindurinn – en ef fólk reynir að hlaupa undan þeim, þá eru landamæragirðingar settar upp. Við eigum að sætta okkur við það eða vera handtekin.