Rasistavandinn

Í bókinni 1984 benti George Orwell á þá tilhneigingu ríkja að kalla augljósa hluti andstæðu sína. Utaná Sannleiksráðuneyti bókarinnar stóð með tröllvöxnu letri:

STRÍÐ ER FRIÐUR.
FRELSI ER ÁNAUÐ.
FÁFRÆÐI ER STYRKUR.

Líkt og í öllum dystópískum skáldsögum var ekki bara verið að lýsa mögulegri og hryllilegri framtíð, heldur ýktri útgáfu af því sem fólk bjó við þá þegar. Stuttu áður en bókin var skrifuð hafði nafni stríðsmálaráðuneytis Bandaríkjanna til dæmis verið breytt í „varnarmálaráðuneytið“. Einsog Orwell lýsti í ritgerðinni Stjórnmál og bókmenntir: „Varnarlaus þorp eru sprengd úr lofti, íbúarnir hraktir í sveitirnar, búféð skotið með vélbyssum, kofar brenndir með íkveikjuskotum: þetta er kallað friðun,“ á ensku pacification. Þetta var skrifað fyrir Víetnamsstríðið, sem einkenndist af svona árásum, sem sýnir annaðhvort fram á spádómsgáfu Orwell eða það hve almenn þessi meðferð saklauss fólks í stríðum er.

Napalmsprengja í Víetnam.

Bandarískir flugmenn stilla til friðar bóndabæ í Víetnam með napalmi.

Svona orðnotkun yfirvalda eru sannkölluð öfugmæli. Að fara inn í land og byrja að sprengja allt og alla, og uppskera andúð heimamanna, eru ekki „átök“ eða „friðun“, heldur innrás. Og síðustu árin hefur nýtt orð bæst í þennan banka: „flóttamannavandinn“. Vandamálið virðist vera að fólk reyni að komast til Evrópu þegar Evrópa vill hafa landamærin lokuð; að fólk drukkni í Miðjarðarhafi þegar það ætti bara að vera kyrrt heima; að fólk labbi milli evrópskra landa án leyfis; að ofbeldi aukist við komu þeirra. Það að ofbeldið sé af hálfu evrópskra rasista og landamæragæslan sé eitthvað sem Evrópa vill halda uppi, hvað sem það kostar í lífum flóttamanna, er ekki „vandamálið“. Vandamálið er að flóttamenn sætti sig ekki við þessa forgangsröðun Evrópu, eða viti hreinlega ekki af henni.

Koma flóttamanna til Evrópu þetta árið, sem slær öll met, er ekki nema um einn tuttugasti af heildarfjölgun Evrópubúa á sama tímabili. Hún kostar ekki peninga nema maður reyni að standa í vegi fyrir henni, enda geta flóttamenn upp til hópa séð um sig sjálfir. Hún er ekki ofbeldisfull nema maður ráðist á flóttamenn sem reyna í sakleysi sínu að labba milli Evrópulanda, einsog Evrópubúar hafa mátt árum saman. Tilraunir yfirvalda að banna þeim það eru hið raunverulega vandamál. Þær tilraunir eiga sér langa, ljóta, rasíska sögu.

Flóttamannavandinn er ekki til. Rasistavandinn er hinsvegar raunverulegur, rótgróinn og banvænn.