sagan af Ingólfi

á sjóndeildarhring upp úr hafinu rís
fjallstindur alþakinn gljáandi ís
á sjóbörðum knörrum er skálað í öl
og dansað á skipsstjórans útskornu fjöl.

ölvaðir víkingar sitja við skraf,
og kasta burt spýtunni lengst útá haf
“þar sem hún strandar, þar setjumst við að
þá þurfum við ekki að spá neitt í það.”

morguninn eftir var þögult um borð
en Ingólfur mælti þó hátíðleg orð:
“hér segðu einhverjir skítugan sand
en ég sé hér skattfrjálst og líberal land.”

nálægt þeim klettur í hafinu lá
“Hjörleifur!” kallaði Ingólfur þá
“ég stefni nú á þetta ágæta sker
sem síðar má nefna í hausinn á mér.”

Hjörleifur hafði þá loks fengið nóg
og sigldi því Ingólfslaus vestur á bóg
með Vestmönnum tíu sem hann hafði rænt
svo líf yrði honum á Íslandi vænt.

land þetta líkaði Ingólfi vel
en stærðin! nú varð honum ekki um sel
hvar voru spýturnar? það var nú það.
hann sendi því þrælana sína af stað.

Vífill og Karli í vesturátt þá
völsuðu svartleitum ströndunum á
í fjarðbotni einum þeim sviplega brá
því Hjörleifur dauður í fjörunni lá.

snöggvast þeir hlupu til Ingólfs á ný
og sögðu þar meistara sínum frá því
að Hjörleifur væri nú Valhallarþegn
en Ingólfur brjálaðist við þessa fregn.

þeir fóru til líksins og holuðu því
helvítis nýlendumoldina í
skipið var horfið og búslóðin með
svo Ingólfur skildi hvað hér hafði skeð.

í nánd voru eyjar og Ingólfur skaust
siglandi í þær og sá lítið naust
þeir sátu þar, þrælarnir, étandi mat
hann stakk í þá alla með sverðinu gat.

að vetrinum liðnum, þá sigldi hann enn
vestur á slóðir með konur og menn
þau áðu í misseri uppvið eitt fjall
en dag einn barst til þeirra uppveðrað kall.

“Ingólfur! Ingólfur! útskorinn staur
liggur á forboðnu nesi í aur
eigum við ekki að halda okkur hér?
þetta var forljótur staur, hvort sem er.”

Ingólfur tók þetta ekki í mál
hann langaði aftur í hásætisprjál.
strax þegar voraði rauk hann af stað
og settist í reykjandi víkinni að.

lærdómur sögunnar er ekki ljós
en tvennt skaltu muna er rærðu til sjós:
taktu ekki þrælkarla upp í þitt fley
og tjaldaðu ekki í Vestmannaey.

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>