Hjörð af svörtum sauðum

Venjulega tengir maður vegatálma, gerræðislegt áreiti, flokkun fólks eftir þjóðerni og stöðugt lögreglueftirlit við stríð eða alræði. Þessa dagana virðast 200 manna slökunarhátíðir útí sveit vera tilefni líka. Ágangur lögreglunnar á Extreme Chillfest 2015 var þvílíkur að fólk er enn skjálfandi á beinunum. Eftirköst hátíðarinnar; fundur með þolendum og átakanlegar frásagnir, minna frekar á afleiðingar gíslatöku en lögregluaðgerðar.

Því hefur verið haldið fram að engin ofbeldisbrot hafi komið upp á hátíðinni. Hér eru nokkrar lýsingar viðstaddra:

Erlendir ferðamenn voru beðnir um að yfirgefa strætóinn á meðan lögreglan hélt Íslendingunum eftir. Síðan fóru þeir að leita á öllum Íslendingunum. … [Stúlka segir að frænka hennar] hafi verið látin strippa fyrir framan lögregluna … „Það er verið að snúa fólk niður og setja það í handjárn á tjaldsvæðinu!“ … Síðan komu stelpur til okkar upp í miðasölu frá tjaldstæðinu en þær grétu og skulfu af hræðslu vegna þess hvernig lögreglan kom fram. … Farið var inní tjaldið mitt án heimildar og án þess að nokkur hafi verið þar … Við tókum á móti fjölda fólks í áfalli í anddyri hátíðarsvæðisins sem treysti sér ekki aftur á tjaldsvæðið sökum ágangs og valdníðslu lögreglumanna … ég er búin að vera hrædd og stressuð í 34 klukkutíma eða frá því að terrorisminn byrjaði…

Þetta var ekki ofbeldislaus hátíð. Þetta eru óumdeilanlega lýsingar á kynferðisbrotum, líkamsárásum og andlegu ofbeldi – af hálfu lögreglumanna. Af einhverjum ástæðum eru brotin ekki nefnd sínum réttu nöfnum þegar yfirvöld stunda þau. Fingur lögreglumanna eru af sömu sort og fingur annarra manneskja, en þegar þeim er troðið í leggöng konu sem segir „nei“ er það ekki nauðgun heldur líkamsleit. Ekki er refsað fyrir þannig nauðganir, heldur borgar ríkið þolandanum úr skattsjóðum fyrir þau, einsog peningar bæti nokkurn skapaðan hlut – og það er þá sjaldan sem bætur fást yfirhöfuð, en fjöldinn allur af þolendum lögreglunnar þorir ekki að fá lögreglumenn kærða, eða getur það ekki.

Mótmæli gegn ofbeldi lögreglunnar á Ísafirði í fyrra. Margir þorðu ekki að mæta af ótta við að það bitnaði á málsmeðferð þeirra hjá embættinu.

Mótmæli gegn ofbeldi lögreglunnar á Ísafirði í fyrra. Sumir þorðu ekki að mæta af ótta við að það bitnaði á málsmeðferð þeirra hjá embættinu.

Ef nokkur annar en lögreglan væri sekur um svona óskammfeilinn og ábyrgðarlausan hrottaskap myndi strax vakna grunur um að hér væri um glæpagengi eða mafíu að ræða. En lögreglan á ekki að vera glæpagengi, hún á að vera hlutlaus framfylgjandi og vörður laga og reglna. Það er sú ímynd sem okkur er kennd í skólum og fjölmiðlum. Í raun réttri skapar lögreglan reglur samfélagsins jafn mikið og hún framfylgir þeim. Hún velur hverjir verða fyrir eftirliti, hverjir verða handteknir, hvaða hegðun á að sæta átölum og hvað er látið eiga sig. Hvenær var bankamaður síðast handtekinn fyrir kókaínneyslu í partíi? Hversu oft eru ungmenni áreitt fyrir grasneyslu? Þetta er ekki hlutlaus armur laganna, heldur göturéttlæti, skáldað á staðnum af lögreglunni.

Lögreglumaður framkvæmir réttlæti á mótmælanda. Öllum er velkomið að giska hver refsing lögreglumannsins var.

Lögreglumaður í þann mund að framkvæma réttlæti á mótmælanda. Öllum er velkomið að giska hvort lögreglumanninum var refsað, eða hvort hann sé enn starfandi.

Þetta er ástæða þess að lögreglan nauðgar aldrei þó hún stingi fingrum í kynfæri óviljugra, fremur aldrei ofbeldisbrot þó hún lemji fólk: sá sem býr til lögin getur ekki verið glæpamaður. Lögreglan er yfir lögin hafin. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. Þeim sem langar að lækna þetta vandamál með löggjöf væri hollt að líta til annarra landa. Alls staðar fær lögreglan tiltölulega frjálsar hendur, svo lengi sem hún verndar ríkið í leiðinni. Og hvernig gæti það verið öðruvísi? Hver ætti að passa lögregluna, ef ekki hún sjálf? Þetta er svo auðséð og almennt vandamál að hugtakið sem lýsir því, „hver gætir gæslumannanna?“, má finna í 2400 ára gamalli heimspeki.

Algengt viðkvæði er að þetta séu tómar ýkjur og í raun sé ekkert vandamál: lögreglan sé ágætis stofnun, en bara með einstaka „svörtum sauð“. Þessi mýta er ótrúlega veruleikaþolin. Jafnvel núna, þegar heilt lögregluembætti leggur í rúst friðsæla slökunarhátíð, er strax byrjað að tala um þessar villuráfandi sálir. Hversu margar ætli þær séu? Sumarið 2007, þegar Saving Iceland-liðar héldu partí í heimahúsi á Seltjarnarnesi, komu tuttugu lögreglumenn á níu bílum (þar á meðal nokkrum fangabílum) að biðja þau að hafa hljóð. Fremstir í fylkingu voru skyldmenni aktívista á staðnum sem fóru að ræða við þá um fjölskyldumál. Þetta var einfaldlega áreiti og ógnun. Og aldeilis margir svartir sauðir.

Hve marga lögreglumenn tekur það að biðja um hljóð?

Hvað þarf margar löggur til að biðja um hljóð?

Strax þegar Extreme Chillfest lauk tilkynnti lögreglan á Vesturlandi að sótt hefði verið að henni vegna ósættis við aðgerðir hennar þar. Fyrsta fréttin af hátíðinni fjallaði um „aðsúg að lögreglu“. Fyrr má nú vera. Eftir að frásagnir þolenda komu fram hefur lögreglan lítið látið í sér heyra – nema til að upplýsa að engar kvartanir hafi borist henni. Ætli hvítu sauðirnir taki brátt í taumana og afsaki sig? Eða eru þeir of hræddir við svörtu hjörðina?

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>