garðurinn

sólin er logandi vetnissprengja
en þegar hún reis einn sumardag yfir garðinum mínum
var alger þögn.

eplatrén drúptu af ávöxtunum
og ég gekk milli þeirra í morgunþokunni
svo tærnar mínar urðu blautar af dögg.

ég leit yfir eplin
og þó flest væru græn
var kominn roði í sum
og sum voru alveg að detta
svo ég tíndi þau í körfu
og setti á vagn.

markaðurinn var skammt frá.
ég dólaði þangað hægt og rólega
og missti næstum af konunni
sem keypti svo af mér öll eplin.

þessi kona á hvorki garð né hús.
það eina sem hún á eru fötin sem hún gengur í
og karfan sem hún selur eplin úr.

hún gengur um borgarstrætin,
spyr fólk hvort það vilji epli
og heldur körfunni að þeim með vongóðu brosi.

fæstir vilja kaupa
og flestum finnst hún uppáþrengjandi
en þennan morgun kom maður í jakkafötum hlaupandi til hennar.

„epli, takk!“ másaði hann,
rétti henni peninga
og hljóp í burt með eplið.

maðurinn var á leið í kauphöllina
og missti næstum
af opnun markaðarins.

hann leit yfir tölurnar
og þó flestar væru grænar
voru sum fyrirtæki illa á sig komin
og önnur að falla í verði
svo hann taldi saman verðbréfin
og seldi þau.

hann hallaði sér aftur í sætinu
andvarpaði
og tók upp eplið.

meðan dagur varð að kvöldi
iðuðu hlutabréfin
einsog moskítóflugur
og aldrei dró ský fyrir sólu,
svo ég vökvaði eplatrén
á meðan verðbréfamiðlarinn
las markaðshorfurnar.

á leiðinni heim keypti hann sér tilbúinn kvöldmat
hjá verslunarkeðjunni sem hann hafði selt um morguninn.

þegar náttaði sat ég í kofanum mínum
og horfði á eplin mín útí garði roðna
einsog feimnir táningar.

sólin er logandi vetnissprengja
og þó hún viti ekki hvað hún gerir
er hún okkur allt
og þegar hún sest yfir garðinum mínum
er alger þögn.

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>