Þriðji í Aþenu: berfættur á borgarholti

Stuttu eftir að ég kláraði síðustu færslu kom karl á svalirnar, hlammaði sér á stól og kveikti sér í sígarettu. Klukkan var fjögur um nótt. “Grískar stelpur eru þær bestu í Evrópu,” sagði hann og horfði dreyminn útí bláinn. Ég var ekki viss hvar ég gæti tekið upp þennan þráð eða hvort ég vildi það, svo ég spurði hver hann væri og hvar hann hefði verið að ferðast. Það kom í ljós að hann var mexíkóskur gjaldeyrisbraskari sem hafði ferðast til “Madríd, Pamplóna, Madríd, Íbísa, Madríd, Parísar, svo hingað” og ætlaði til Rómar daginn eftir.

Á Monastiraki-torgi.

Á Monastiraki-torgi.

Ég spurði hann hvort þetta væri bara klúbbaferð. Neinei, hann væri alveg að horfa á fornminjar líka. Læra menninguna og sjá söguna. Túristarnir í Aþenu virðast ekki meðtaka sérstaklega, eða hafa áhuga á, efnahagslegu ástandi Grikkja. Konan sem sefur fyrir ofan mig í koju vissi hreinlega ekki af efnahagslegum vandamálum hérna. Engu að síður er fjórði hver Grikki atvinnulaus, helmingur ungra Grikkja. Þjóðin er nýbúin að afþakka í atkvæðagreiðslu samninga um niðurskurð sem voru undirritaðir þrátt fyrir það. Kreppa þeirra er alvarlegri en Kreppan mikla 1929. “Já, þeir eru í vondum málum,” sagði Mexíkóbúinn og tók púff af sígarettunni. Ekki hans vandamál.

Aþena norðuraf Akrópólis.

Aþena norðuraf Akrópólis.

Eftir langan labbitúr morguninn eftir um óaðgengilega afkima borgarinnar fann ég óárennilegan veitingastað, aðeins setinn Grikkjum, þar sem starfsfólkið hafði stopula enskukunnáttu og engan matseðil. Maturinn var ódýrari, í stærri skömmtum og betri á bragðið og staðurinn í kyrrlátara umhverfi en allir miðbæjarstaðirnir. Á leiðinni þaðan fór ég í Ares-garð, þar sem mér var tjáð að flóttamenn geymdu sig. Og það gera þeir sannarlega. Þar eru tjöld í röðum meðfram göngustígum, styttum og trjám. Sjálfsprottnar flóttamannabúðir, innan landamæra Evrópu. Það er kaldhæðni örlaganna að Ares var stríðsguð Grikkja.

Vatnsbrunnur í Ares-garðinum.

Vatnsbrunnur í Ares-garðinum.

Um kvöldið notaði ég dauðan klukkutíma til að fara uppá Akrópólis að heimsækja Meyjarhofið og skoða Aþenu ofanfrá. Akrópólis hefur merkinguna “borgar-hæðin” eða borgarholt, og er samsett úr akró- fyrir eitthvað sem stendur uppúr, og pólis fyrir borg. Mér þótti ekki sérlega spennandi að sjá Meyjarhofið, sem á að heita flottasti partur hæðarinnar, en það var líka með teina.

Það hefur verið svona meira eða minna síðan 1983.

Það hefur verið svona meira eða minna síðan 1983.

Á leiðinni til baka, eftir gönguna uppá og um hæðina fór ég úr sandölunum til að gefa fótunum mínum tilbreytingu. Snertingin við grjótið var lostafull. Þrepin – og raunar hæðin öll, einsog Aresarhæðin við hliðina – hafa verið slípuð niður af árþúsunda sandalapússun. Viðkoman fyrir tærnar var dúnmjúk. Ég dúaði mér á hverju þrepi og naut varmans af sólbökuðu grjótinu.

Mmmm.

Eftir nokkur skref kom einn fornminjavörðurinn hlaupandi á eftir mér. “Viltu vinsamlegast fara í skóna aftur?” spurði hún afsakandi rödd. Það tók hana greinilega sárt að stoppa slökunina mína. “Ekki mínar reglur. Akrópólis-reglur. Það má ekki vanhelga staðinn. Ég skil alveg hvað þú ert að gera, að finna orku staðarins og njóta þín þar. Ég myndi gera það líka. En það má ekki.”

Í anddyri Akrópólis.

Í anddyri Akrópólis.

Fáar fréttir hafa borist af örlögum Grikklands síðustu daga, en í dag féll smá bomba í íhaldsblaðinu Kathimerini: Varoufakis er þar sagður hafa skipulagt að hakka sig í tölvukerfi eigin ráðuneytis (sem var að hluta undir vökulu auga Troikunnar) til að skapa bankakerfi óháð evrunni, auk þess sem hann er sagður hafa reifað þá kenningu að Schäuble sé að nota Grexit sem hótun gagnvart Frökkum, svo þeir samþykki að veita ESB meiri fjárlagavöld. Varoufakis neitar.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>