Fimmti í Aþenu: neðanjarðarkerfið

Aþena er full af fornminjum. Þegar Aþeningar grófu fyrir neðanjarðarlest lentu þeir aftur og aftur í því að borinn tættist utaní mörgþúsund ára gömlum húsarústum, kerjum og smápeningum. Munirnir voru grafnir upp settir í glerkassa, til sýnis á lestarstöðvunum.

Grikkir eiga svo mikið af fornminjum að þeir troða þeim allstaðar sem þeir geta.

Grikkir eiga svo mikið af fornminjum að þeir troða þeim allstaðar sem þeir geta.

Meðal smápeninganna voru drökmur, en þær eru einhver elsta silfurmynt heims. Áður en jörðin var troðin fótum Jesú og Sókratesar var mislaglegum myntsláttum falin framleiðsla þeirra, en drakman var notuð í ýmsum myndum allt til síðustu aldamóta, þegar henni var skipt út fyrir evru. Um svipað leyti komu þessar gömlu myntir, draugar fortíðarinnar, uppúr borunum fyrir hina nýju neðanjarðarlest.

Tetradrakma, notuð á gullöld Grikkja.

Tetradrakma, notuð á gullöld Grikkja.

Undanfarið hefur drakman aftur vakið áhuga, og ekki bara sem fornminjar. Grikkir velta því fyrir sér hvort þeim væri ef til vill betur borgið ef þeir bíta á jaxlinn, segja sig úr evrusamstarfinu, rústa og brenna þannig eigið hagkerfi í þeirri von að drakman fljúgi með þá uppúr öskunum. Flestir sem ég tala við hér reikna með einhvers konar uppgjöri innan nokkurra ára, nokkrir með byltingu, og af þeim sem kæra sig um slíkar vangaveltur er um helmingur á því að drakman væri betri fyrir Grikki en evra.

Nei! Ekki meiri niðurskurð!

Nei! Ekki meiri niðurskurð!

Þegar Syriza tók að sér ríkisstjórn Grikklands í vetur var ljóst að hún þyrfti sennilega að hóta úrgöngu úr evrunni. Svo virðist sem fjármálaráðherra Grikkja, Yanis Varoufakis, hafi sannarlega lagt á ráðin um hliðrænt hagkerfi, ríkisnetbanka sem væri hægt að nota ef Evrópa myndi rústa evruháðu bankakerfi Grikklands. Kerfi Varoufakis hefði verið einhverskonar neðanjarðarhagkerfi gagnvart Evrópu, sem hefði áfram skipt við Grikkland með evrum. Slíku neðanjarðarkerfi hefði mátt umbreyta í opinbert drökmukerfi fyrirvaralaust. En þegar þar að kom að Evrópa rústaði grísku bönkunum virðist sem forsætisráðherra Grikklands hafi ákveðið að evran væri alfa og ómega efnahagsins, að innan þess stafrófs skyldi starfað, drökmur kæmu ekki til greina. Varoufakis hrökklaðist úr ríkisstjórninni.

Yanis Varoufakis.

Yanis Varoufakis.

Í kvöld fór ég á skipulagningarfund fyrir aðstoð við flóttamennina sem eru í Ares-garði. Fólk kom í stríðum straumum að gefa mat, klósettpappír, vatnsflöskur og aðrar nauðsynjar. Ein kona sagði mér að hún hefði farið með skó í garðinn fyrir börnin. Þau hafi hreinlega ráðist á hana, til að geta fengið sér par. Það er skiljanlegt, enda er ekki þægilegt að ganga berfættur á grjótstígum garðsins í 35°C og sólskini. Matnum var skammtað í poka og klæðum, pappír og vatni staflað. Þrisvar á dag er farið með mat í garðinn, auk þess sem föt og nytjavörur eru gefnar.

Í Ares-garði.

Í Ares-garði. Börnin eru ekki í skóm.

Flestir í garðinum ætla að freista þess innan tíðar að komast norðar í Evrópu. Hér er ekki líft, þó ekki sé nema fyrir tjöldin sem fólkið býr í – ég man ekki hvenær ég tjaldaði síðast í yfir þrjátíu stiga hita, sennilega aldrei, en það er eflaust óbærilegt. En innan fárra daga, er mér sagt, koma smyglarar og hjálpa fólkinu úr þessu víti. Neðanjarðarkerfið kemur til bjargar á ný.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>