Fyrsti í Aþenu

Um klukkustund eftir flugtak í Frankfurt, tíu kílómetrum yfir austurrísku ölpunum, í hálftómri smáþotu á leið til Grikklands, fór öll vélin að hristast. Óðmæltur flugstjóri sagði okkur að sitja kyrr með beltin spennt þar til við lentum í Aþenu. Eldingar blossuðu í steðjaskýjum vestanvið flugvélina. Flugfreyja gekk um og gaf matarpakka. Viðeigandi byrjun á ferðalagi til Grikklands.

Mesogeion-gata í Chalandri-hverfinu.

Mesogeion-gata í Chalandri-hverfinu.

Veðurspárnar lofa 34-38°C þá viku sem ég verð í Aþenu. Alþingi Íslendinga slítur störfum einmitt þegar veður til mótmæla verður bærilegt, en vandamálið hér er væntanlega öfugt. Yfir hádegið er varla líft hér fyrir hita. Einn heimamanna, sem ég talaði við áður en ég kom, sagðist hafa flúið borgina vegna kófsins. Um miðjan dag skilst mér að allir Grikkir hafi vit á að vera innandyra. Allt sé þó krökkt af túristum. Heimamenn geta skoðað sig um hvenær sem þeim hentar – og gera það víst frekar á kvöldin.

Gabríella málar.

Gabríella málar.

Gestgjafarnir mínir í kvöld eru brasilískur lögfræðingur, Gabríella, og grískur verkfræðingur, Níkos. Þau eru bæði langt komin í námi, Gabríella aðstoðar flóttamenn og Níkos vinnur við rannsóknir í háskólanum. Níkos segir Evrópu þessa dagana vera að refsa Grikkjum fyrir að hafa reynt að stunda efnahagslíf öðruvísi en þeir eiga að gera. Hans álit er að með áframhaldandi aðgerðum verði Grikkland rænt síðustu verðmætunum sem það hefur og svo látið sigla sinn sjó – nema Evrópa sjái tilefni til að nota landið sem skjöld gagnvart flóttamönnum.

Á morgun tekur við fyrsti dagurinn í Aþenu. Þrátt fyrir veðurspárnar var bara þægilega hlýtt þegar ég kom úr flugstöðinni. En klukkan var líka eitt að nóttu.