Annar í Aþenu: agórillur

Gríska dramað sem er verið að spila í fjölmiðlum er milli lýðræðis og pólitíkur – rödd fólks gegn vilja ráðamanna. Það var því viðeigandi að byrja daginn í forngrísku agórunni – stóru félagsrými þar sem fólk stundaði lýðræði, verslun og spjall. Jafnvel meira viðeigandi: í dag er hún rústir einar, fyrir utan eitt hornið, þar sem risastór stóa var endurreist af Bandaríkjamönnum. Stóur voru röð af súlum með vegg á bakvið og þaki á milli, smá skuggsæld fyrir agórufarana. (Hún sést hægra megin á myndinni að ofan, en hof málmsmiðsins Hefaístosar er til vinstri.)

Agóran er eitthvað vesældarleg núna og lítið notuð fyrir rökræðu.

Hof Hefaístosar. Agóran er eitthvað vesældarleg núna og lítið notuð fyrir rökræðu.

Það var í agórunni sem Sókrates spurði alla í sífellu hvað þeim fannst og var að lokum drepinn fyrir ómakið. Það var í agórunni sem Aþeningar ákváðu hvað fyrir þá skyldi koma. Þeir sem ekki komu þangað að gera lýðræði voru álitnir “idíótar”. Þar voru ekki reistar styttur af kóngafólki – þetta var lýðræðisbletturinn.* Í dag er táknrænt að þýskir túristar séu meðal þeirra sem helst valsa þar um.

Við Stóu Attalosar, endurreist á sjötta áratugnum af bandarískum verkfræðingum fyrir peninga John Rockefeller.

Við Stóu Attalosar, endurreist á sjötta áratugnum af bandarískum verkfræðingum fyrir peninga John Rockefeller.

Agóran í Aþenu er að mörgu leiti svipuð Forumi Rómar til forna. Orðið forum er nú til dags notað um spjallborð á netinu þar sem frjáls skoðanaskipti eiga sér stað. Það er áhugavert og réttmætt að orðið agóra sé ekki notað: agórur eru svæði þar sem fólk má ekki bara spjalla, heldur líka taka ákvarðanir um eigin örlög. Austurvöllur er forum. Til að fá lýðræði þarf að skapa agóru.

Einsog agóran leit út á tímum Rómarveldis.

Einsog agóran leit út á tímum Rómarveldis, með eigin rústir í bakgrunni.

Það var ekki fyrr en um klukkan fjögur að mér datt loksins í hug að borða mat: fetaoststykki ofaná tómötum og gúrkubitum í olíubaði, með brauðstykki til að drekka upp olíuna. Svo lá leiðin uppí Exarkíu. Það er róttæka hverfið í Aþenu, sem sést bæði á veggjakrotinu og veggspjöldunum, en þar var allt með kyrrum kjörum. Þrír strákar reyktu gras og drukku bjór í anddyri húss nærri hinu sögufræga Café Floral. Ég gat ekki tekið mynd af þeim, því þarna eru myndavélar litnar hornauga. Þeir voru einsog úrtak grísku þjóðarinnar: tveir fylgjandi áframhaldandi evrunotkun, en einn drachma-sinni. Það var greinilegt að strákurinn með eyrnalokkinn hafði mest hugsað um málin, því alltaf þegar ég spurði þá um eitthvað sagði sá við hliðina á honum: “Tja. Hann veit það örugglega.”

Veggjakrot gegnt endurbyggðri Akademíu Platóns.

Veggjakrot gegnt endurbyggðri Akademíu Platóns.

Ég spurði þá hvort það væri rétt að lögreglan kæmi sjaldan í Exarkíu? “Hún kemur aldrei,” sagði sá með eyrnalokkinn. Annar bætti við: “Þegar þeir komu fyrir rúmum sex árum skutu þeir fimmtán ára strák.” Þessi strákur hét Alexander Grigoropoulou, og morð hans leysti út ógnarlega uppreisn gegn lögreglunni. “Á hverju ári eru óeirðir á deginum sem hann var skotinn.” Skortinn á óeirðum þessa dagana ráku þeir ekki til ráða- og vonleysis gríska almennings. “Nei, við erum bara idjótar.”

Alexander Grigoropoulou.

Alexander Grigoropoulou.

Í Exarkíu, sem virðist nokkurs konar sjálfstjórnarsvæði, er líka Pólýtekník Aþenu: háskólinn þar sem uppreisn gegn herstjórn Grikklands hófst 1973. Uppreisnin er eitt af glæstustu dæmum um mátt, hugrekki og sjálfstæðan aðgerðamátt stúdenta sem ég þekki. Þarna rekur maður sig aftur á ákveðinn þátt í lundarfari Grikkja, eitthvað sem Nikos hafði sagt mér í gær, en ég ekki tekið alvarlega: “Það er bara pólitík í miðborginni. Fólk í úthverfunum hugsar ekki.” Strákarnir í Exarkíu sögðu þetta líka. Í miðborginni eru agórillurnar: svarta blokkin, mótmælendurnir og stúdentarnir. Í mörgum leiðarvísum, sögubókum Grikklands og orðum Grikkja má heyra að andóf og aðgerðir séu álitin hluti af lýðræðinu – jafnvel beinasta tjáning þess. Þú ferð ekki bara á forum að spjalla. Lýðræði er að gera eitthvað í málunum.

Djass í Hjartagarði. Strákurinn var sá eini sem dansaði, lengstaf.

Djass í Hjartagarði. Strákurinn var sá eini sem dansaði, lengstaf.

Á leiðinni heim í hostel tældi djasstónlist mig af götunni inn í einskonar Hjartagarð. Ég bað manninn við hliðina á mér um hjálp við að opna bjór, og hann gerði það með tönnunum. Hann er pakistanskur innflytjandi sem hefur búið í Aþenu í sjö ár – í fjögur þeirra hefur hann hjálpað öðrum óskráðum ferðamönnum að falsa skilríki til að geta farið um Evrópu. Vinir hans höfðu búið í Grikklandi jafnvel lengur en hann. Þrátt fyrir að vera jafn miklar manneskjur einsog allir hinir í garðinum þurfa þeir að láta sig hafa það að vera handteknir öðru hvoru fyrir að vera skilríkjalausir. “En það er frábært. Óvissan er spennandi, hún er lífið.” Grikkland virðist henta þeim ágætlega.

* Með þeim fyrirvara að konur og þrælar og allskonar aðrar manneskjur máttu ekki vera með.