Góði dátinn Tsipras og þýski stjúpfaðirinn

Á reddit eiga sér stað áhugaverðar umræður um manneskjur sem eru annað hvort snillingar eða fávitar. Margir eru tilnefndir, til dæmis góði dátinn Svejk og Karl Pilkington, en stórfenglegasta týpan er að mínu mati Timothy Dexter. Hann lifði seint á átjándu öld og framkvæmdi eina hörmulega viðskiptaáætlun á eftir annarri, einsog að selja rúmvermi og lopavettlinga til Indlands, kol til helsta kolanámubæjar Bretlands auk þess að kaupa dollara þegar allt útlit var fyrir að Bandaríkin færu á hausinn. Öll viðskiptin gengu frábærlega – rúmvermarnir voru notaðir sem sleifar í melassaframleiðslu, vettlingarnir voru fluttir út til Síberíu, kolanámumenn fóru í verkfall einmitt þegar farmur Dexters kom að landi og Bandaríkin unnu frelsisstríðið, svo dollararnir ruku upp í verði.

Dexter skrifaði svo bók án greinarmerkja um breska aðalinn sem hann dreifði frítt, en vinsældir hennar urðu slíkar að hún var seld og endurprentuð í átta upplögum.

Í annarri prentun setti Dexter öll greinarmerkin í eftirmála, svo fólk gæti "sáldrað þeim að vild" í bókinni.

Í annarri prentun setti Dexter öll greinarmerkin í eftirmála, svo fólk gæti “piprað og saltað að vild”.

Það er erfitt að dæma um visku svona manna. Er hún engin, eða yfirmannleg? Er maðurinn fífl eða snillingur? Einmitt sú spurning hefur ásótt mig um forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, frá því hann var kosinn útá það loforð að slútta niðurskurðaraðgerðum Evrópu í gríska ríkinu.

V fyrir Varoufakis
Það leit aldrei út fyrir að Evrópa myndi sætta sig við það. Helsta vopn Tsipras var að hóta úrgöngu úr evrunni ef Evrópa gæfi ekki eftir. Þetta hefði mögulega virkað stuttu eftir kosningar í Grikklandi, þegar fjárhagur landsins var enn bærilegur. Þáverandi fjármálaráðherra Tsipras, Yanis “Die Hard” Varoufakis, var byrjaður að vinna að slíkri hótun í litlu teymi í ráðuneyti sínu. En gríska ríkisstjórnin lét til leiðast að ræða málin mánuðum saman við hin evrulöndin. Varoufakis færði ítarleg rök fyrir því að aðhald og skuldaniðurgreiðsla í þessum aðstæðum myndi ekki virka. Hann sagðist allt eins hafa getað “sungið sænska þjóðsönginn.” Evrópa, undir forystu Þýskalands, var ekki að tala hagfræði, heldur pólitík.

Þessi misskilningur hélt áfram lengi vel og ástand Grikklands síversnaði. Þegar Tsipras hótaði loks hörðu var það of seint. Hann þorði ekki að gangsetja áætlun Varoufakis um slit við evruhagkerfið. Hótunin varð aldrei raunhæf. Öllum var sama um hörku Tsipras því hún var orðin tóm.

Alexis Tsipras.

Svejk.

Gríska ríkisstjórnin átti þá ekkert eftir nema að gefast upp: Varoufakis var rekinn og vinna hófst við að samþykkja allt sem Evrópa vildi að Grikkir samþykktu. Þær kröfur eru ekki til þess gerðar að bæta efnahag Grikkja eða gera hann færan um að endurgreiða skuldir sínar, heldur virðist þetta hreinlega eiga að vera flenging. Helsti efnahagslegi ábatinn sem mun spretta af þeim, eftir því sem ég sé best, er fyrir þau lukkulegu fyrirtæki sem munu eignast hafnirnar og flugvellina sem gríska ríkið á nú að einkavæða, og fyrir þá sem Grikkir fá leyfi til að styrkja fyrir peningana sem koma úr einkavæðingunni. Þetta eru smápeningar hjá þeim hamförum sem dynja nú yfir efnahag Grikkja dag eftir dag vegna þessara áætlana.

Papa Schäuble
Ástæðan fyrir því að Grikkland fær flengingu er að þeir hafa ekki hlýtt fyrirmælum stjúpföður síns, þýska fjármálaráðherrans Wolfgang Schäuble, eins áhrifamesta samingsaðila Evrópu. Hann segir þá ekki hafa “tekið öll lyfin” sem Evrópa sagði þeim að taka og þess vegna sé þeim ekki lengur treystandi. Nú verður lyfjunum troðið í kokið á þeim. Vilji grísku þjóðarinnar skiptir hér engu máli – árið 2011 tókst Evrópu að afstýra þjóðaratkvæðagreiðslu um samningana, en núna, þegar slík hefur verið haldin, hefur niðurstaðan einfaldlega verið hundsuð. Þetta er ekki lýðræði. Þannig fær maður bara ef maður á nóg af peningum. Hér ráða Þjóðverjar og banda- eða bankamenn þeirra.

Öfugt við Timothy Dexter, sem potaði sig áfram í áhættusömum viðskiptum og græddi endalaust, er Tsipras dæmi um hið andstæða. Hvað sem hann reynir endar hann í verri aðstöðu en hann byrjaði. Og líkt og í bókinni hans Dexter er engan lokapunkt að sjá.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>