Ríkið veðrast í burtu

Árið 1877 lýsti Friedrich Engels, besti vinur og hugmyndabrunnur Karl Marx, hvernig endilok ríkisins myndu bera að garði. Hann áleit ríkið verkfæri kúgandi stéttar hvers tíma, fyrst þrælahölda, svo lénsherra, nú kapítalista. Í byltingunni myndu hins vegar valdstólpar samfélagsins, framleiðslutækin, vera færð í hendur ríkisins, og engin valdastétt vera eftir:

…þannig deyr ríkið af sjálfsdáðum; stjórnun manna verður skipt út fyrir skipulagningu hluta. Ríkið er ekki afnumið – það veðrast burt.

Glæstar vonir

Engels.

Vindar allra átta
Þessa dagana má sjá aðra en skylda veðrun eiga sér stað – veðrun pólitískra áhrifa gagnvart markaðslögmálum. Þau litlu áhrif sem atkvæði hafa á gang mála í ríkjum verða fyrir þrálátu aðkasti markaðarins, þeirrar geðvondu skepnu. Pólitíkusar mæla áhrif orða sinna á hagtölur, engu síður en skoðanakannanir, og stjórnun mannanna víkur fyrir aðhlynningu markaðarins. Stundum svíkja valdamenn hreinlega kjósendur til að þóknast kauphöllum. Til dæmis lofaði Bill Clinton í kosningabaráttu sinni 1992 að beita sér fyrir lækkun skatta á miðstéttina.* Loforð Clinton var til einskis, því skuldabréfamarkaðir voru því ósammála.

Ein þriggja aðaláhersla Clinton-framboðsins '92.

Ein þriggja aðaláhersla Clinton-framboðsins ’92.

Ráðgjafar hans, sér í lagi Robert Rubin frá fjárfestingabankanum Goldman Sachs, skipuðu forsetanum að draga til baka skattalækkunina, annars myndi lánakostnaður ríkisins aukast og allar fjárhagsáætlanir fjúka í vindinn. Forsetinn hlýddi. Aðstoðarmaður Clinton lærði af þessu lexíu:

Áður hélt ég að ef endurfæðing væri til, þá myndi ég vilja verða forseti eða páfi eða hafnaboltastjarna. Núna vil ég endurfæðast sem skuldabréfamarkaðurinn. Hann getur hrætt hvern sem er.

Kapítalismi eða kaos
Þessi áhrif markaðanna á stjórnmál eru ekki þau einu. Kosningarnar sjálfar ráðast að miklu leyti af auðlegð framboðanna, af því hvert þeirra fær mesta styrki. Þetta nefnist fjárfestingarkenningin um baráttu flokkanna, og er vel þekkt um allan heim. Styrkir til stakra fulltrúa ráða líka miklu um hvernig þeir kjósa um löggjöf, svo miklu að réttara væri að tala um mútur en styrki. Allt bendir þetta til þess að auðvald og löggjafarvald séu samstíga, sem er áhyggjuefni í ljósi sívaxandi ójöfnuðar. Færri og færri aðilar halda um þau völd sem ættu, fræðilega séð, að tilheyra kjósendunum öllum. Ríkið er að veðrast burtu. Stjórnun manna er skipt út fyrir skipulagningu markaðarins.

Það heitir "ríkið" af ástæðu.

Það heitir “ríkið” af ástæðu.

Þeir sem verja þessi áhrif auðmagns á stjórnmál vilja meina að markaðir hafi meira vit á skattamálum og annarri hagstefnu en almenningur. Það er þó bersýnilega rangt. Áhrif ríkra aðila á stjórnmál eru svo ekki í þágu allra, heldur í þágu hinna ríku. Þá er því jafnvel haldið fram að lögmálin sem markaðir bærast eftir séu algild, sem er jafnvel fjarstæðukenndara. Samfélög hafa verið rekin með allt öðru sniði, oft með sameign og án ríkisvalds, og eru engu ómögulegri en okkar. Það virðist hins vegar vera meginatriði í pólitík samtímans að engar aðrar lausnir séu viðurkenndar. Ójöfnuður sé vissulega slæmur – en öðruvísi gangi hlutirnir ekki. Það er kapítalismi eða kaos. Þetta skýrir fordæmalaust ráðaleysi í kjölfar kreppunnar. Í kreppunni miklu uppúr 1929 hótuðu verkamenn byltingu. Það hafði tekist í Rússlandi, hví ætti það ekki að virka víðar? Þetta óttuðust stjórnvöld, og því gáfu þau eftir, settu á fót velferðarkerfi og skattlögðu ríkidæmi. Nú er hins vegar almenn trú að ekkert annað sé í boði en frjálslynd markaðsríki – kapítalismi með mannlegt andlit. Þegar hann hætti að virka haustið 2008 var ekkert annað í boði en að koma honum á fætur aftur og vona að hann stæði.

Sphinxinn í Berlín
Hvergi hefur þetta gengið verr en í Grikklandi. Evrópulönd, undir stjórn Þýskalands, krefjast þess af Grikkjum að þeir borgi allt sem þeir hafa fengið að láni, sama hvort þeir geti það eða ekki. Afleiðingin er að verðmætum er dælt úr landinu til lánardrottna, en aðstæður til sköpunar frekari verðmæta eru eyðilagðar í leiðinni. Ríkiseigur eru seldar úr landi, opinberir starfsmenn reknir og réttindi verkamanna skert. Landinu má líkja við soltna belju sem ekki mjólkar, en sem má ekki fá fóður fyrr en mjólkurfatan er full.

Grikkir kusu sér í vetur ríkisstjórn sem hafnaði frekari niðurskurði. Þessa afstöðu undirstrikuðu þeir nýverið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú hefur þeim verið skipað að skera meira niður en nokkru sinni, sem þeir virðast tilneyddir til að samþykkja. Í samningnum felst, nokkurn veginn, að horaðar lappirnar verði höggnar af beljunni og seldar svo hún geti keypt sér meira hey. Samningsaðilar virðast á einu máli um að þessar aðgerðir muni ekki virka. En svona eru reglurnar. Þú borgar það sem þú tekur að láni.

Fjármálaráðherra Þýskalands tjáir sig.

Fjármálaráðherra Þýskalands tjáir sig.

Hér er ekki lengur verið að hlýða hótunum markaðarins, sem virðist nokkuð sama um örlög Grikkja, heldur er hreinlega verið að færa markaðslögmálunum fórnir. Reglur eru reglur, lán skulu greidd og óhlýðni skal refsað. Og fyrst og fremst má aldrei gefa von um að aðrar lausnir séu í sjónmáli.

Bromo
Í Indónesíu, undir eldfjallinu Bromo, býr ættbálkurinn Tengge. Ár hvert fleygja þau blómum, mat og húsdýrum í öskju eldfjallsins sem fórnir til guða þess. Athöfnin, Yadnya Kasada, er stórhættuleg og kostnaðarsöm en á að tryggja manni farsæld. Fyrir þeim er enginn fótur í náttúrulögmálum, heldur hefur athöfnin sefandi og samfélagslegt gildi fyrir þá sem stunda hana.

Yadnya Kasada - fórnarhátíð Tengge-fólksins.

Yadnya Kasada.

Þessa dagana er það Evrópa sem færir markaðnum fórnir. Tilgangurinn er að sefa eigin óöryggi og villutrú, en afraksturinn er enginn. Þeir sem fleygt er á bálið eru Grikkir, og sjálfræði gríska ríkisins er fjarlægt þegar það stillir sér í veginn. Gríska ríkið er ekki að veðrast burtu. Evrópa er að sprengja það í tætlur.

 

* Þetta kann að hljóma furðulega, í ljósi þess að forsetar fara ekki með fjárlagavald. En forsetar í Bandaríkjunum láta stjórnarskrár ekki stoppa sig.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>