Stöðnun eða volæði

Í París mótmæla leigubílastjórar netþjónustunni Uber, félagsmiðli sem leyfir manni að kaupa skutl. Þessi miðill mun augljóslega útrýma leigubílum, enda ódýrari og hagkvæmari. Þessu andmæla leigubílastjórar víða um heim, enda vilja þeir ekki verða atvinnulausir.

Þetta stríð vinnustétta gegn nútímavæðingu er ekki nýtt, og bendir á visst vandamál í kapítalisma sem reynir að vera mannúðlegur. Af sögunni má sjá að valið í kapítalisma stendur milli mannúðar og framþróunar: Annað hvort gerirðu óþarfar stéttir atvinnulausar eða bíður með nútímavæðinguna. En sagan sýnir líka að aðrar leiðir gera þetta val óþarft.

Lúddítar
Í iðnbyltingunni, einhverju mesta offorsi tækniframfara í sögu mannkyns, var fátækt fólk gegndarlaust og vægðarlaust svipt vinnunni. Um leið og iðnjöfur kom höndum yfir græjur sem voru ódýrari en starfsfólk var vinnuaflið rekið. Engar bætur, engir starfslokasamningar, enginn uppsagnarfrestur. Ekkert til að stoppa framfarirnar.

Sumir verkamenn vildu ekki láta sig hafa þetta, og urðu þá til hópar sem voru ýmist kallaðir „rammabrjótar‟, með vísun í græjurnar sem þeir eyðilögðu, eða „Lúddítar‟. „Kóngur Lúdd‟ var goðsagnakennd hetja sem bjó í sama skóg og Hrói Höttur, og hann fór sem stormur um landið til að rústa vinnutækjum. Ríkið og vinnuveitendur brugðust illa við. Hreyfingunni var komið fyrir kattarnef með hervaldi og dauðarefsing var lögð við rammabroti árið 1812.

Menn brjóta vélrænan vefstól. Frá 1721 til 1812 var refsingin fyrir að skemma tæki iðnjöfra flutningur til fanganýlendu. Eftir 1812 var það dauðarefsing.

Menn brjóta sjálfvirkan vefstól. Frá 1721 til 1812 var refsingin fyrir að skemma tæki iðnjöfra flutningur til fanganýlendu. Eftir 1812 var það dauðarefsing.

Spánska stríðið
Kóngur Lúdd var bresk fígúra, en samskonar hreyfingar sjást oft þegar kapítalismi tæknivæðist. Ein þannig spratt til dæmis upp í landbúnaði Spánar um aldamótin 1900. En á Spáni gerðist eitt sem ekki gerðist á Bretlandi: þar varð félagsleg bylting með sterkum anarkískum áhrifum í miðri tæknivæðingunni.

Anarkísk hugmyndafræði hafði breiðst út áratugum saman með verkalýðsfélögum og áróðurspésum. Almenning klæjaði í fingurna eftir breytingum. Loks náðu sósíaldemókratar stjórn á spánska ríkinu með kosningum sumarið 1936. Fasistar í hernum hófu undireins gagnárás, með stuðningi kirkjunnar og aðalsins, til að stoppa þessa nýju ríkisstjórn.

Anarkísku verkalýðsfélögin biðu ekki boðanna og hófu byltingu gegn landeigendum, kirkjunni og ríkinu. Meðal afraksturs þeirrar byltingar var að koma verksmiðjum og sveitabýlum í sameign fólksins sem vann þar. Yfirmenn, sem höfðu verið kúgarar og morðingjar verkamannanna til áratuga, voru ýmist hraktir burt eða skotnir.

Kvenfrelsi, sjálfræði, stéttleysi. Verkakona við fána anarkó-syndíkalísku félaganna.

Kvenfrelsi, sjálfræði, stéttleysi. Verkakona við fána anarkó-syndíkalísku félaganna.

Og viti menn: Þegar verkamennirnir réðu sjálfir eigin vinnustöðum tóku þeir tæknivæðingunni opnum örmum. Fólk vann minna, afkastaði meira, fór að gera eitthvað annað, en var ekki svipt mat eða húsi fyrir þann glæp að hafa unnið í útrunninni starfsgrein. Félagsfræðingurinn Franz Borkenau fór til Spánar og sá árangur byltingarinnar eigin augum.

Ofbeldisfull og árangurslaus viðbrögð verkamannanna höfðu verið einmitt þau sömu og gegn iðnvæðingu Bretlands á þriðja áratug nítjándu aldar: að rústa vélunum. Núna voru á býlinu glampandi nýjar þreskivélar við hlið hinna gömlu og ónýtu. … Leiðtogi sameignarinnar útskýrði að vinnufólkið, sem hafði verið svo grimmilega andsnúið vélvæðingunni þegar hún gerði það atvinnulaust, tók henni nú opnum örmum…
The Spanish Cockpit, bls. 150

Stöðnun eða volæði
Líkt og í tilfelli leigubílastjóranna í París voru verkamenn áður fyrr ofurseldir fáránlegum valkostum: að berjast gegn framförum eða leyfa yfirmönnum að svipta sig lifibrauðinu. Þetta er afleiðing samfélagsgerðar sem er ekki fullkomin, svo vægt sé til orða tekið.

Tilraun Spánverjanna virkaði með eindæmum vel. Að mati Borkenau jukust afköst búa við samyrkju, auk þeirra augljósu kosta að vera ekki ofurseldur yfirmönnum og kúgandi yfirvaldi. Það sem batt endi á hana var afskiptaleysi frjálslyndu ríkjanna í kring. Nasistar og fasistar stóðu með Franco og vopnuðu hann. „Árið 1936,‟ skrifaði George Orwell, „var öllum ljóst að ef Bretland hefði hjálpað spánska ríkinu, þá hefði Franco fallið‟. Þetta var ekki gert. Mat hans var að breska ríkið, líkt og svo mörg önnur, hafði einfaldlega verið fylgjandi fasisma.

Það er því ljóst að skotmark hinna örvæntingarfullu leigubílastjóra þarf ekki að vera Uber. Það ætti að vera samfélagsgerðin, efnahagskerfið, það ríki sem nú skýtur þá með táragasi svo þeir haldi bara áfram að mæta í vinnuna þar til þeir verða reknir.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>