Bandaríkin heyja stríð vegna olíu

Fyrir stuttu skrifaði ég samantekt fyrir Stundina um uppruna ISIS. Þar fullyrti ég að í Miðausturlöndum þoli Bandaríkin ótrúlegar óvinsældir vegna gegndarlausra íhlutana sem áttu að tryggja stjórn þeirra og flæði olíu þaðan til iðnríkja.

Í athugasemd við greinina er þetta dregið í efa. Þar er réttilega bent á að Bandaríkin kaupa ekki mikið af olíu sinni frá Miðausturlöndum og að óvinsældirnar eru eldri en Íraksstríðið. Þetta er satt og rétt en segir þó ekki alla söguna, og gefur mér tækifæri til að reifa efni sem ekki passaði í upphaflegu greinina.

Fyrst ber að nefna álit mætra manna á innrásinni sjálfri nú þegar áróðursstríðinu er lokið. Ræðuhöfundur úr Bush-stjórninni sagði af Cheney og Ahmed Chalabi, síðar olíumálaráðherra Írak, að þeir hefðu „varið löngum stundum saman, að velta fyrir sér möguleikanum á Írak sem liti til vesturs: viðbótaruppsprettu olíu, annar valkostur fyrir Bandaríkin sem voru háð Sádi-Arabíu, sem var álitin óstöðug.‟ Bandaríski herforinginn John Abizaid, fyrrum yfirmaður CENTCOM, sagði í pallborði að „auðvitað snerist [Íraksstríðið] um olíu‟. Öldungardeildarþingmaðurinn Chuck Hagel, síðar varnarmálaráðherra Obama, lýsti því yfir að hvað sem fólk segði þá væru Bandaríkin „auðvitað‟ að berjast fyrir olíu. „Við fórum ekki [til Írak] fyrir fíkjurnar.‟ Alan Greenspan segist „leiður‟ yfir að það sé álitið pólitískt „óþægilegt‟ að viðurkenna „það sem allir vita: að Íraksstríðið snerist að miklu leyti um olíu.‟

Jafnvel áður en stríðið hófst hafði verið hvatt til þess í ýmsum áhrifaríkum stofnunum. Hugveitan Project for a New American Century, sem Dick Cheney, Donald Rumsfeld, Paul Wolfowitz og fleiri störfuðu fyrir áður en þeir gengu í ríkisstjórn George W. Bush, hafði þegar árið 1997 krafist innrásar í Írak. Meginatriðið var ekki hroðaverkastjórn Saddam Hussein, heldur „nauðsyn þess að hafa sterka viðveru amerísks hervalds í Persaflóa‟.

Fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, sem svo vildi til að græddi helling á stríðinu sem hann sjálfur hvatti til og stýrði.

Fyrrum varaforseti Bandaríkjanna.

Dick Cheney pantaði síðan árið 2001, eftir að hafa komist í embætti varaforseta, skýrslu um orkuöryggi frá hugveitunni Council on Foreign Relations. Þar kom fram að Írak drægi úr stöðugleika bandamanna Bandaríkjanna í Miðausturlöndum, en líka úr stöðugleika olíuflæðis á alþjóðamarkaði. Saddam Hussein, sögðu skýrsluhöfundar, vildi ýta undir ímynd sína sem leiðtogi Arabaheims með því að sýna mátt sinn í olíumálum heimsins. (Þetta er í samhengi greinarinnar augljóslega arfleið Nasserisma.) Bandaríkin ættu í ljósi þess að endurskoða hernaðarlega afstöðu sína til Írak.

Bretar voru á svipuðum meiði, en samkvæmt leyniskýrslum bresku ríkisstjórnarinnar var olía frá Írak bráðnauðsynleg orkuöryggi þeirra. Lykilatriði endurreisnarplans Breta fyrir Írak væri vel heppnuð einkavæðing olíulindanna.

Í bókinni Fuel on the Fire, sem er byggð á áður leynilegum gögnum úr breska utanríkismálaráðuneytinu, var helsta ástæða stríðsins að „stækka orkubirgðir heimsins, í gegnum erlendar fjárfestingar, í nokkrum af stærstu olíusvæðum heimsins – sérstaklega Írak.‟ Þar kemur líka fram að þótt flæði til Bretlands hafi ekki verið sérstaklega tiltekið sem markmið, þá var álitið að það yrði tryggt með auknu alþjóðlegu framboði. Þetta er augljóst þegar litið er til þess að ríkari lönd heimsins munu alltaf geta keypt bróðurpart olíunnar sem framleidd er, svo meginatriðið er bara að halda heildarflæðinu gangandi.

Olíuverð í heiminum fer nefnilega ekki eftir því hvað Bandaríkjamenn fá mikið af olíu frá Miðausturlöndum, heldur hve mikil heildarframleiðsla olíu er. Hún þarf að vera stöðug, líkt og annað hráefnaflæði, og trygging þess stöðugleika hefur verið lykilatriði í herpólitík Bandaríkjanna á síðari hluta tuttugustu aldar, ásamt auðvitað heimsvaldabrölti þeirra gagnvart Sovétríkjunum. Flæði olíu „til iðnríkja,‟ ríkja með mikla orkufreka framleiðslu, er því vissulega hvati utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Þessi forgangsröðun hervelda er undirstrikuð í nýlegri rannsókn háskólmanna frá Portsmouth, Warwick og Essex, sem leiddi í ljós að erlend í hlutun í borgarastríðum er hundraðfalt líklegri þegar löndin sem þau gerast í búa yfir mikilli olíu.

Það er með öðrum orðum ekki um það deilandi að innrásin í Írak, eins og margar aðrar íhlutanir Bandaríkjamanna í öðrum löndum, var vegna olíu. Til að gefa nokkur dæmi um samskonar íhlutanir:

  • Herforinginn Husni al-Zaim tók völd í Sýrlandi í mars 1949 eftir marga fundi með bandarískum leyniþjónustumönnum. Þegar hann var kominn til valda leyfði hann smíði olíuleiðslu gegnum landið, sem fyrri ríkisstjórn hafði bannað.
  • Mohammed Mossadegh, forsætisráðherra Íran, reyndi að þjóðnýta olíulindir landsins árið 1951. Til að vernda Bresk-Íranska olíufélagið (nú BP) bað breska ríkisstjórnin Bandaríkin um aðstoð við að losna við Mossadegh. Sú aðstoð var veitt með Ajax-aðgerðinni, sem veitti Shah landsins, Reza Pahlavi, alræðisvöld sem hann hélt föstum tökum í meira en aldarfjórðung.
  • Í greininni er tiltekið að yfirlýst markmið aðgerða Bandaríkjanna í Afganistan var að halda olíuflæði öruggu, jafnvel þótt Afganistan væri ekki olíuframleiðsluland. Innrás Sovétríkjanna þar væri engu að síður „alvarleg ógnun við frjálst flæði olíu frá Miðausturlöndum,‟ samkvæmt ræðu þáverandi forseta Bandaríkjanna.

Svo má bæta við Persaflóastríðinu og leynilegum íhlutunum sem ekki hafa borið jafn mikinn árangur, til dæmis í Íran og Venezúela og Sýrlandi undanfarin ár. Hvað óvinsældir Bandaríkjanna varðar, þá spretta þær augljóslega líka af öðrum íhlutunum og stríðum þeirra ásamt stuðningi við Ísrael.

Iðjusemi Bandaríkjanna í hernaðarmálum er þó mun meiri en hér er gefið í skyn.

Það er með öðrum orðum ekki nokkur vafi að Bandaríkin hlutuðust til í Írak (og mörgum öðrum löndum) með það í huga að tryggja flæði olíu og annarra hráefna. Það flæði er eðli málsins samkvæmt til iðnríkja, enda væru þau án þess ekki slík.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>