Við viljum ekki peninga, við viljum völd

Sjaldan hefur verið jafn gott tækifæri til að krefjast launahækkana og nú. Yfirmenn ríkis og fyrirtækja kveinka sér í viðtali en stökkva svo á skrifstofuna að forða milljörðum frá gráðugum almúganum með skattaafsláttum og arðgreiðslum. Þetta er öllum kunnugt og móðursjúk viðbrögð jakkafataklæddra manna við vesældarlegum kröfum láglaunafólks verða þeim mun fyndnari og gegnsærri fyrir vikið.

Eitt jakkamennið vakti þó furðu í morgunútvarpi Bylgjunnar í vikunni. Þessi forkólfur Samtaka Atvinnulífsins kyrjaði baráttusöngva verkalýðsins þegar hann sagði að „yfirburðastaða verkalýðshreyfingarinnar gagnvart atvinnurekendum í dag er alger‟ og að „verkalýðshreyfingin getur knúið hvaða vitleysu í gegn í krafti verkfalla sem hún kýs að gera‟ sem hann hefði engin svör við. Þótt atvinnurekendur mættu lýsa yfir verkbanni gætu þeir ekki gert það, því „fyrirtækið veit að það setur sjálft sig á hausinn með því að beita slíku vopni til lengdar.‟

Þessi nýji erkikommúnisti er mikill fengur fyrir verkalýðinn. Hann rekur á eftir stéttarfélögunum, sem eru að hugsa allt of smátt. Það er ekkert vit í launahækkunarbiðlun ár eftir ár. Hvers vegna ættu verkamenn að leggjast svo lágt að semja við þessa fíflalegu stétt? Hvers vegna ekki að fremja fjandsamlega yfirtöku á rekstri fyrirtækja og krefjast þess að verkamenn setji eigin taxta hér eftir?

Sú linkind sem almenningur hefur sýnt yfirvöldum og forstjórum síðustu ár, eftir gegndarlausar móðganir efri stéttarinnar gagnvart sér, er algerlega úr takti við valdið sem almenningur hefur þegar hann tekur sig saman. Verkalýðsfélögin, mjóróma og rykfallin þó þau kunni stundum að vera, geta verið hnefinn að baki þeirri kröfu að nóg sé komið.

Launahækkanir eru plástur á svöðusár sjálfsvirðingar almennings. Þau tryggja bærileg þægindi í tólf mánuði. Við þurfum ekki plástra, heldur lækningu. Við ættum ekki að láta kaupa okkur smástund í senn í endalausri undirlægni. Við ættum að krefjast þess að vera leiðtogar eigin lífs og vinnustaða. Ekki semja bara um krónutölur – heldur um völd!