Látum þá lemja konur annarstaðar

Þjóðernishyggja birtist í mörgum myndum. Iðulega fylgir henni þó einhver hugmynd um hreinleika, svosem um hreina tungu, hreint blóð, hreina náttúru eða jafnvel hreinan nautgripastofn. Þessa dagana, í baráttunni við íslamska eitrið, ber á annarri tegund hreinleika: hreinleika menningarinnar. Vestræn menning, sem allir vita að er besta menning í heimi, byggir á kristinni trú, rómversku réttarkerfi og grískri heimspeki. Íslam passar ekki þar inní, því “íslam er ófriðlegri en önnur trú og því þarf að hafa gætur á múslimum,” einsog þjóðþrifamaðurinn Jónas Kristjánsson kemst að orði.

Vissulega þarf vestræn þjóðernishyggja að stíga varlega til jarðar, í ljósi eigin sögu, og því bendir Jónas á að ekki megi merkja múslima “með ígildi gyðingastjörnu.” Það væri rasismi og rasismi er vondur. En “ýmsir múslimar” trúa á “sharia-lögmál kóransins”, sem brýtur á “vestrænu frelsi”. Þess vegna á að láta múslima taka inngöngupróf í íslenskt samfélag, sem tryggir “að þeir skilji, að veraldlegt þjóðfélag hefur sumpart önnur gildi en kóransins.” Hvort íslenskir múslimar (eða kristnir) þurfi að afsala sér ríkisborgararéttinum ef þeir fatta þetta ekki fylgir ekki sögunni, enda passa slíkar flækjur ekki í hundrað-orða sannleikskorn Jónasar. Væntanlega miðast þetta bara að múslimum, því þeir eru “sér á parti” í stríðsgirnd. Ef múslimarnir sem koma hingað eru ekki með okkur í liði eiga þeir að fara, því þeim hlýtur að “líða betur í ríkjum íslams.”

Ótti heiðingjans

Ótti heiðingjans

Þessi hreinsun Jónasar á íslenskri menningu nær ekki bara til “terrorista”. Hann lætur hanga í lausu lofti hvað eigi að gera við “karlrembur, sem vilja ráðskast með konur sínar, systur og dætur”, enda er það handan hundrað-orða radíussins, en af vísunum í “bókstafstrúarmenn” af sharia-gerð er ljóst að brottvísun sé ákjósanleg. Það er einföld og hreinleg lausn sem á miklu betur við en “ígildi gyðingaofsókna” eða njósnir.

Hvernig Jónas reiknar út að ofbeldismönnum og kynferðisglæpum sé betur komið fyrir langt í burtu, þar sem ekkert verður gert í þeim, er ráðgáta. Í sápukúlulandinu jonas.is er ekki pláss fyrir nokkurs konar rökfærslur, bara Twitter-skoðanir. Hvað þær varðar er Jónas þó ekki einn á báti. Sú hugmynd að vondir hlutir eigi einfaldlega heima langt í burtu er á hverju strái á vesturlöndum. Hér á að vera ríkidæmi og friður, hér byggðum við okkur gott samfélag (ekki spyrja hvaðan hráefnin komu), hér skal fólk aðlagast eða fara. Viljirðu lemja konuna þína skaltu gera það annarsstaðar. Hér passar það ekki.

Þetta algerlega skeytingarleysi gagnvart fórnarlömbum sharia, þessi rangeygða sýn á allt sem gerist utan vesturlanda, sú óskiljanlega ályktun að múslimar (ekki vesturlandabúar) séu haldnir stríðsfíkn, eru ágætar ástæður til að hundsa þessa Twitter-speki sem vellur uppúr menningarriddaranum Jónas Kíkóta. Svo maður umorði spekinginn sjálfan: trú Jónasar er friðlaus. Það þarf að hafa sérstakan vara á henni.