Feðraveldið hreinsar Evrópu

Á morgun hefst stór tiltektaraðgerð í Evrópu. Í tvær vikur munu mörgþúsund lögreglumenn um alla álfuna ráfa um og leita að óevrópsku fólki, spyrja það um “þjóðerni, kyn, aldur” og “hvar og hvernig þau komust í Evrópu” og skrá “aðrar gagnlegar upplýsingar” um hvernig þau sluppu inn. “Ekkert mat er til um kostnað aðgerðarinnar, þar sem hvert land fyrir sig … ber kostnað af eigin þátttöku”, segir skipuleggjandinn – forseti ráðs Evrópusambandsins.

Aðgerðin ber fornrómverska heitið Mos Maiorum, það er Venjur Forveranna eða hreinlega Feðraveldið. Þessi drungalega nafngift er ekki útskýrð sérstaklega, enda er hvergi talað um aðgerðina opinberlega. Hún þykir kannski ekki merkileg, enda er þetta ekki fyrsta samevrópska aðgerðin gegn “ólöglegu fólki”. Raunar eru þær hálfsárslegur viðburður og hafa áður hlotið nöfn á borð við Hermes, Afródíta og Perkunas, sem allt eru vísanir í forna evrópska guði. Fólkið sem er handtekið í þessum guðlegu aðgerðum kemur flest frá stríðshrjáðum, spilltum og fátækum löndum – í Afródítu voru til dæmis flestir fanganna frá Afganistan og Sýrlandi.

Hvaðan fólkið kom sem var tekið á teppið í Afródítu.

Hvaðan fólkið kom sem var tekið á teppið í Afródítu.

Ein ástæða þess að svona aðgerðir þykja óþægilegar í umræðu er aðferðin sem lögreglan notar til að finna glæpamennina. “Það er jú næsta ómögulegt að framkvæma svona aðgerð án þess að beita ‘racial profiling’, sem er ólöglegt hér í Þýskalandi”, hefur þýska blaðið Tagesspiegel eftir þarlendum þingmanni. Talsmaður Pro Asyl tekur í sama streng.

Að handtöku lokinni kemur svo að brottvísun fólksins úr álfunni. Samkvæmt forseta ráðs Evrópusambandsins tekst að senda burt 40% þeirra fimm hundruð þúsund ólöglegu innflytjenda sem eru handtekin árlega. Þetta er að sögn liður í “skilvirkri og mannúðlegri endursendingarstefnu” Evrópu. Einn flokkur endursendinga eru hinar svokölluðu “sjálfviljugu heimferðir”. Forsetinn telur þar til þegar “ólöglegir innflytjendur sem standa frammi fyrir þvingaðri brottvísun velja ‘sjálfviljuga’ heimferð í staðinn.” Það er efni til umhugsunar hvernig endursendingar á fólki einsog óskilabögglum geta nokkurntímann talist “mannúðlegar” eða hvernig það að flýja hótanir getur talist “sjálfviljug brottför”, en forsetinn veltir því ekki fyrir sér, heldur snýr sér að praktískum vandamálum.

Eitt þeirra eru þessi 60% sem tekst hvorki að reka burt nauðug né viljug. Ástæðan er iðulega að heimalandið vill ekki taka við óskilabögglinum. Lausnin er “endursendingarsamkomulög” við lönd einsog Gana, Pakistan, Bangladess og Nígeríu, en sextán slík hafa verið undirrituð. Greinagerð frá Hollandi lýsti því yfir að almennt “samstarf við upprunalönd” ætti að vera “háð að hluta samstarfi um endursendingar.” Í miðju arabíska vorinu undirritaði ítalska ríkið leynilega samninga við Egyptaland, Túnis og Líbýu um að endursenda flóttamenn á bátum þaðan beinustu leið til baka – brot á alþjóðalögum.

Öfgafullt dæmi um þessa aðferð er að finna í Ástralíu, þar sem yfirvöld hafa gefist upp á að eiga við flóttamannavandann. Þau hafa í staðinn gert samkomulag við Kambódíu um að áframsenda flóttamennina þangað. Kambódísk yfirvöld fá svo peningagjafir fyrir reddinguna.

Þessi umhyggjulausa meðferð bágstadds fólks sem dirfist að ferðast er ein ótrúlegasta og ógeðslegasta iðja Vesturlanda. Engum dettur í hug að réttlæta hana, fólkið er bara sagt vera “ólöglegt”, að “lög séu lög”, og þessvegna verði þetta bara að vera svona. “Það myndi ekki virka að hafa opin landamæri” og þessvegna má gera hvað sem er við útlendingana, til dæmis að borga fátækustu löndum heims fyrir að geyma þá fyrir okkur.

Þegar allt kemur til alls er bara ein mannúðleg stefna til í innflytjendamálum: að leyfa fólki að fara á milli staða óáreitt. Okkur finnst það kannski óþægilegt, en þægindi okkar trompa ekki ferðafrelsi þeirra. Svo gamalli klisju sé snúið við: Það bara virkar ekki að hafa landamærin lokuð á okkar forsendum. Nálgumst innflytjendur af mannúð og reynum að leysa hagsmunaárekstra öðruvísi en að senda hinn aðilann í aðra heimsálfu. Við erum þroskaðri en það.

Myndin er fengin af taz.de.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>