Lampedusa-slysið endurtekur sig

Fyrir ári síðan skullu hörmungar á ströndum Ítalíu. Bátur fullur af fólki sökk og yfir 360 manns drukknuðu. Fólkið var flest frá þremur af fátækustu löndum heims, Erítreu, Sómalíu og Gana, þar sem landsframleiðsla á mann er sextíufalt lægri en hér. Á Twitter mátti sjá forsætisráðherra Ítalíu kalla slysið skelfilegt, páfann biðja til guðs og ráðherra innflytjendamála lýsa því yfir að ef til vill ætti ekki að kæra þá sem lifðu slysið af. Þeir áttu yfir höfði sér milljón króna sekt fyrir að vera ólöglegir innflytjendur. Það eru tuttuguföld árslaun Sómala. Sökinni fyrir þetta ömurlega slys var skellt á skipstjóra kænunnar.

Þau 360 lík sem raðað var upp á sólarströnd eyjunnar Lampedusa og eftirlifendurnir, sem settir voru í fangabúðir, eru hluti af því sem Vesturlandabúar kalla “flóttamannavandann”. Vandinn hefur lengi verið stjórnmálamönnum kunnur, enda koma tugir þúsunda með bátum frá Afríku til Evrópu á hverju ári. Almenningur hefur þó mest til sofið hann af sér, enda hefur flóttamönnum verið haldið utan álfunnar af miklum dugnaði og þeir settir í fangabúðir ef þeir komast á land.

Með aukinni örvæntingu flóttafólksins eykst eljan við að fæla þá frá Evrópu. Á tímum líbýska borgarastríðsins sendi ítalska landhelgisgæslan flóttamannabáta til dæmis gegndarlaust aftur suður. Grískir landamæraverðir stinga göt á þessa báta, reka þá til baka með byssum, draga þá úr grískri landhelgi og setja þá flóttamenn sem ná að landi í fangabúðir. Í þessum búðum eru mannréttindi þeirra brotin á alla vegu, sem lesa má í tugum skýrsla eftir fjöldamörg mannréttindasamtök og hjálparstofnanir.

Líkkistur í Lampedusa. Forsætisráðherra Ítalíu sagði hina látnu "héðan í frá ítalska ríkisborgara". Þeir sem lifðu fóru hinsvegar í fangabúðir.

Líkkistur í Lampedusa. Forsætisráðherra Ítalíu sagði hina látnu “héðan í frá ítalska ríkisborgara”.

Það er erfitt að finna málaflokk í Evrópu þar sem mannréttindi eru brotin jafn stanslaus og af jafn miklum ofsa og hjá flóttamönnum. Það væri þá helst stríðsrekstur, en línan milli málaflokkanna er óskýr, enda eru margir flóttamannanna að flýja evrópskar og bandarískar sprengjur.

Ein leið er fær til að stoppa alveg dauðsföllin í Miðjarðarhafi: leyfa fólkinu bara að koma með löglegum leiðum. Að eyða hundruðum milljarða króna í að halda Evrópu hreinni er svo ótrúleg stefna að hún virkar einsog kjánaleg rasistafantasía, sérstaklega þegar litið er til fátæktar fólksins sem þessi rándýra herferð beinist gegn. Bara á Íslandi er 600 milljónum króna varið árlega í hælisleitendur: uppihald því þeir mega ekki vinna hérna, lögfræðikostnað því þeir mega ekki vera hérna.

Síðustu vikur hafa fleiri fréttir af drukknunum hundruða flóttamanna borist til Íslands. Engar þessara frétta velta alvarlega upp hvers vegna fólkið leggur í þessar stórhættulegu ferðir. Svarið má finna í fréttum á borð við þessari í New York Times: Grikkland vill smíða landamæragirðingu til að fæla burt flóttamenn. Ef fólki er bannað að koma landleiðina og bannað að sigla með venjulegum skipum eru bara ólöglegar duggur eftir.

Grísk landamæragirðing.

Grísk landamæragirðing.

Samkvæmt nýútkominni skýrslu alþjóðastofnunar um fólksflutninga hafa yfir fjögurþúsund manns drukknað í Miðjarðarhafi það sem af er árinu. “Í mörgum tilfellum sökkva þó bátar og allir um borð án þess að nokkur verði þess var. Að áliti sumra sérfræðinga gæti fjöldi þeirra verið tvöfalt hærri en þeirra sem finnast.”

Lampedusa-slysið endurtekur sig viku eftir viku. Fólk reynir engu að síður á þessar hættuferðir, því engar aðrar leiðir eru í boði. Evrópuríki vilja ekki bjóða aðrar leiðir, því Evrópu skal verja fyrir fátækum innflytjendum. En við þurfum að spyrja okkur hvort þessi stefna okkar sé þess virði. Velferð og kósíheit eru ekki eðlileg ef þeim er viðhaldið á kostnað mannslífa.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>