Maðurinn og eldfjallið

Síðustu daga hefur athygli verið vakin á miklum eiturútblæstri Holuhrauns. Brennisteinsdíoxíð leggst á byggðir landsins og öndunarfæri landanna. Af því tilefni hafa spekingar, af meiri vilja en færni, fullyrt að hérmeð sé engin þörf á loftslagsvernd lengur. Náttúran sé búin að slátra þessu. Dæmigerð ummæli birtust á Andríki:

Það tæki bílaflota Íslendinga því yfir milljón ár að spúa frá sér jafn miklum brennisteini og Holuhraun hefur gert á nokkrum vikum.

Það tæki allan bílaflota Vesturlanda sömuleiðis nokkrar aldir að jafna þennan brennisteinsútblástur Holuhrauns.

Eru ekki örugglega allir tilbúnir fyrir „bíllausa daginn“ í dag?

Vísuninni í tilgang bíllausa dagsins er haldið óljósri, sem bendir til þess að pistlahöfundurinn viti betur. Bílaumferð er ekki sérstaklega mótmælt vegna brennisteinsmengunar, heldur vegna kolefnisútblásturs, sem er allt annar hlutur. Sumir hafa engu að síður látið glepjast af þessari umræðu og talið þetta sama hlutinn, eða haldið að brennisteinsdíoxíð sé gróðurhúsalofttegund, sem hún er ekki. Hún hefur raunar kælandi áhrif á loftslagið, sem hafa komið í ljós í kjölfar stórra eldgosa.

Bloggarar tala engu að síður um að losunarkvótar séu merkingarlausir þegar náttúran sýnir þeim svona stórfellt skeytingarleysi. Þetta er í besta falli misvísandi. Vissulega hafa kvótar verið lagðir til á brennisteinsdíoxíð – mengunarkvótar, ekki kolefniskvótar – til að minnka eitrun fyrir manneskjum. Áhrifin af innöndun brennisteinsdíoxíðs eru jú hættuleg, einsog fram hefur komið í fjölmiðlum.

Það er hins vegar talsverður munur á að fá eitrið í loftið allt í einu eða smátt og smátt. Ráðleggingar yfirvalda vegna eldgossins hafa verið að halda sig innandyra meðan mesta eitrið blæs yfir. Helmingunartími þess í andrúmslofti telst í klukkutímum, svo það er ekkert stórmál. Það verður hinsvegar stórmál þegar eitrið blæs yfir á hverjum degi, svo sem frá jarðvarmavirkjunum. Svo oft vill maður ekki þurfa að hanga inni.

Mynd og gögn frá Hagstofu Íslands.

Mynd og gögn frá Hagstofu Íslands.

Það sem hinir áttavilltu umhverfispostular ættu að líta til væri sumsé koltvíoxíðsmengun, ef bera ætti útblástur eldgosa saman við útblástur bíla. Helmingunartími koltvíoxíðs í andrúmslofti telst í áratugum, ekki klukkutímum. Það veldur hlýnun jarðar og súrnun sjávar. Útblástur þess af mannavöldum er hundraðfaldur á við eldfjöll.

Fengið úr riti jarðfræðingafélags Bandaríkjanna.

Koltvíoxíðsútblástur manna sem margfeldi af útblæstri eldfjalla. Fengið úr riti jarðfræðingafélags Bandaríkjanna.

Vissulega er öll mengun slæm og óæskileg. En hún er ekki öll eins, og það er ekki sama hvort hún kemur öll í einu eða stöðugt. Eiturmengun er slæm ef hún gusast yfir okkur dag frá degi. Og útblástur gróðurhúsalofttegunda er slæmur, hvaðan sem hann kemur – sem hann gerir aðallega frá mönnum.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>