Fyrirgef oss vorar skuldir

Í janúar 2010 skall hamfaraskjálfti á höfuðborg Haítí. Vegna ömurlegs húsakostar létust vel yfir hundraðþúsund manns. Ein og hálf milljón missti heimili sín. Enduruppbyggingin hefur verið hæg og sársaukafull – 2012 var hálf milljón manns enn á vergangi. Landið er með þeim fátækustu í heimi og rætur þeirrar fátæktar má rekja langt aftur í aldir. Þær teygja anga sína til ríkustu landa heims, allt fram til dagsins í dag. Þetta er saga þeirrar fátæktar, og hvert hið náttúrulega ríkidæmi eyjarinnar hefur horfið.

Árið 1492 fann Kristófer Kólumbus eyju sem innfæddir kölluðu Ayti. Hún var hans fyrsta landnám í Ameríku. Eyjuna nefndi hann La Isla Española, Spánareyju. Þegar Kólumbus sá frumbyggjana þar skráði hann í dagbókina sína að honum sýndust þeir “bráðsnjallir, og þeir yrðu eflaust fínasta þjónustufólk”. Tónninn var sleginn fyrir næstu aldir.

Kólumbus finnur Ameríku, í túlkun John Vanderlyn.

Kólumbus finnur Ameríku, í túlkun John Vanderlyn. Tilvonandi þjónar bukta sig útí skógi.

Kynni Kólumbusar og Taino-fólksins, frumbyggjanna, hófust illa og héldust slæm. Þegar hann kom voru nokkur hundruð þúsund indjánar á eyjunni, sem hann lét hneppa í þrældóm. Tuttugu árum síðar hafði þeim fækkað tífalt.1 Þessi ótrúlega fólksfækkun var að mestu vegna pestar sem Evrópubúarnir báru með sér og hrottalegra aðstæðna í þrælavinnunni, en því til viðbótar rændi Kólumbus innfædda landinu til að verðlauna undirsáta sína. Loks var skattur lagður á innfædda, sem borgaður skyldi í gulli eða bómull.2 Afríkumenn voru síðan fluttir inn sem þrælar þegar indjánarnir dóu út.3 Og nýlenduherrarnir þurftu sannarlega þræla – samkvæmt Kólumbusi nennti enginn Evrópubúi á eyjunni að fara nema rétt útfyrir dyr án þess að vera borinn af þjónustufólki sínu.4

Síðla á sautjándu öld tóku Frakkar við stjórn vesturhluta eyjunnar, sem nú heitir Haítí, en Spánverjar héldu austurhlutanum, sem nú heitir Dóminíska lýðveldið. Haítí varð fljótt verðmætasta nýlenda Frakka. Þeir framleiddu þar sykur í gríð og erg og fjölguðu svörtum þrælum svo um munaði. Öld eftir herraskiptin voru þrælarnir orðnir hálf milljón talsins. Samfélagið var grimmilega stéttaskipt með svörtum þrælum, hálf-frjálsum plantekrueigandi múlöttum og alfrjálsum Frökkum. Meðan á frönsku byltingunni stóð tókust stéttirnar og nýlenduherrarnir á og náði að lokum her svartra þræla stjórn á eyjunni allri. Þeir höfnuðu að sjálfsögðu umsvifalaust frönskum yfirráðum.

Blóðþyrstir svertingjar storka lögum og lofum í nafni frelsis, jafnréttis og bræðralags.

Blóðþyrstir svertingjar storka lögum og lofum í nafni frelsis, jafnréttis og bræðralags.

Þessi þrælabylting var vesturlöndum ekki að skapi. Haítí var umsvifalaust útskúfað úr samfélagi þjóðanna og Evrópuríki bönnuðu opinbera umræðu um þrælahald í nær tvo áratugi. Eftir að Bretland og Bandaríkin höfðu bannað þrælahald viðurkenndu þau loks sjálfstæði Haítí, en það tók nokkra áratugi. Á meðan var Haítí einangrað.

Engin þjóð lifir á réttlætinu einu saman. Efnahagslegar þvinganir ásamt hótunum um innrás neyddu Haítí loks til samkomulags við Frakkland árið 1825. Samkvæmt því myndu Frakkar og Bandaríkjamenn ekki hertaka Haítí. Í staðinn fengu Frakkar skaðabætur frá sínum fyrrverandi þrælum fyrir eignamissinn. Skaðabæturnar námu um þúsund milljörðum króna, og greiddi Haítí þær allt til 1947, mestmegnis með okurlánum frá frönskum banka. Í raun varð Haítí hjálenda Frakklands í eina og hálfa öld eftir byltinguna, enda var “allt hagkerfið endursniðið að skattgreiðslum til Frakklands.”

Ótti og refsigirnd Evrópu og Bandaríkjanna var skiljanlegur. Hvaðan átti kaffið að koma, hver átti að tína bómullina, hver átti að pressa sykurinn, ef þrælar myndu hætta vinnunni? Kerfið myndi bara ekki virka. Þar fyrir utan var þessi tími dögun iðnbyltingarinnar og hráefnin frá nýlendunum bráðnauðsynleg til að halda henni á dampi. Augljóslega missti Haítí af iðnbyltingunni, rétt einsog löndin sem Evrópa stjórnaði enn víða um heim, enda erfitt að iðnvæðast meðan maður er upptekinn að rækta sykur fyrir breska kaffibolla. Arfleið þessarar skiptingar heimsins í nýlenduherra og nýlendur má sjá á þessu korti, sem sýnir hvaða lönd teljast í dag hafa “þróuð hagkerfi”:

Takið eftir að Japan var nýlenduveldi.

Bláu löndin eru þróuð hagkerfi. Þorri gráu landanna voru nýlendur Evrópu. Japan var ein fárra undantekninga, og voru raunar sjálfir nýlenduveldi fram að lokum seinni heimsstyrjaldar. Ekki þarf að fjölyrða um Bandaríkin og Ástralíu, þar sem frumbyggjum var útrýmt og ríki stofnuð að evrópskum stíl. Blálituðu Karíbahafseyjurnar og Gvæana teljast til Frakklands. Gvæana er t.a.m. í ESB og notar evru.

Augljóslega borgar það sig, í sögulegu samhengi, að vera útrásargjarn nýlenduherra (og ekki að vera nýlenda). Og nýlendutímabilinu er í vissum skilningi ekki lokið. Þrátt fyrir að Afríkulönd hafi eitt á eftir öðru fengið sjálfstæði eftir seinni heimsstyrjöld voru þau, eins og Haítí, knúin til að slá vesturlönd um æ fleiri lán. Myndin sem blasti við síðustu aldamót ætti að vera Íslendingum kunnug: Afríkulönd höfðu endurgreitt meira en þau höfðu tekið að láni, en skulduðu enn hundruð milljarða.

Myndin er fengin af vef BBC.

Myndin er fengin af vef BBC.

Árið 1999 lagði Afríkunefnd um skaðabætur og heimflutninga fram þá kröfu að fyrrum herraþjóðir Afríku greiddu bætur fyrir gullið, gimsteinana og fólkið sem tekið var ófrjálsri hendi úr heimsálfunni síðustu aldir. Krafan var mikil: milljón milljónir dollara. Viðbrögðin við henni, einsog öllum svona kröfum, hafa verið hundsun, útúrsnúningar og afneitun. Hins vegar hafa verið reyndar allskonar áætlanir til að halda Afríkulöndunum á floti, svo þau geti áfram borgað af skuldunum sínum. Þær áætlanir fólust í einkavæðingu og afnámi hafta og verðstjórnunar, undir stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Áætlanirnar virkuðu ekki og löndin eru enn að ná sér eftir þessa illa lukkuðu afskiptasemi. Á meðan héldu bankar og ríki áfram að lána einræðisherrum og spilltum ríkisstjórnum peninga, og rukka svo almenning áratugina eftir.

Þessi ábyrgðarlausu lán til einræðisherra, sem nota peninginn í allt annað en heilsugæslu og skóla, eru í alþjóðalögum sögð ógild og óafturkræf. Áratugum saman hafa þróunarlönd reynt að benda á þetta, en skuldunautarnir hafa skiljanlega lítinn áhuga á að hlusta. Ekki fyrr en eftir jarðskjálftann í Haítí var gengist við því að fella niður skuldir landsins, sem þá voru rúmlega milljarður dollara. Skaðinn af jarðskjálftanum nam tæpum átta milljörðum dollara. Innan tveggja ára voru skuldirnar aftur komnar yfir milljarð dollara.

Sú afstaða vesturlanda að rukka lönd einsog Haítí um peninga, lönd þar sem nánast öll þjóðin er undir fátækramörkum, er alveg ótrúleg. Þetta skeytingarleysi verður skuggalegra þegar litið er til íhlutunar Bandaríkjamanna á eyjunni, sem hafa notað lán og hjálparfé til að ákveða hverjir ráða landinu. Þótt íhlutun þeirra sé enn í gangi nær hún meira en öld aftur í tímann. Árið 1915 sendu þeir hreinlega her til Haítí til að gæta fjárfestinga sinna, tryggja öryggi Panama-skurðsins og hreint og beint stjórna kosningunum þar.

Í síðustu viku birtist þetta grátlega sjónarspil á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þar voru samþykktar viðmiðunarreglur til að einfalda skuldsettum löndum að semja um nýja afborgunarskilmála. Hundrað tuttugu og fjögur lönd kusu með tillögunni, meðal annars Haítí. Ellefu lönd kusu gegn henni, þar á meðal sjö af G-8 löndunum. Frakkland sat hjá. Bandaríkin sögðu þetta samkomulag “auka óstöðugleika” á lánamörkuðum, að svona endurskipulagningar ættu frekar að vera í höndum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Í hópi hinna 124 landa sem kusu með tillögunni er ákveðinn hópur sem kallast G-77. Hann er talsvert minna þekktur en G-8, þótt tífalt fleiri lönd og tæpir sex milljarðar manna teljist til hans. Það fólk er að jafnaði tífalt fátækara en G-8-búarnir. Hér er kort af þessum tveimur hópum:

G-77 löndin hafa nánast öll verið nýlendur Evrópu og/eða Bandaríkjanna. Einu undantekningarnar sem ég kem auga á eru Norður-Kórea, sem var nýlenda Japans, og Tæland.

Það er ekki erfitt að sjá mynstrið. Ríkustu lönd heims taka höndum saman og handrukka þau fátækustu, sem með veikum mætti reyna að benda á óréttlætið. Eini vettvangurinn sem þeim býðst er allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, og sá vettvangur er aðeins í boði því hann hefur ekkert vald.

Vesturlönd lifa á afurðum iðnbyltingarinnar sem nýlendurnar fengu ekki hlutdeild í. Til að reka smiðshöggið á þessa heimspólitík hefur landamærum hinna ríkustu landa svo verið lokað fyrir fátæklingunum, svo þeir geti örugglega ekki tekið þátt í góðærinu. Lykla-Pétur röltir meðfram landamærunum með riffil í hönd og herþyrlu svífandi yfir sér, tilbúinn að halda himnaríki hvítu, ríku og kristnu.

Nokkrum mánuðum eftir jarðskjálftann 2010 birtist tilkynning á síðunni diplomatiegov.fr. Þar var sagt berum orðum að Frakkland hygðist endurgreiða “frelsisskuldina” sem var svo grimmilega rukkuð af Haítí. Þetta vakti mikla athygli, ekki síst á Haítí. Sama dag kom í ljós að um grínsíðu var að ræða. Franska ríkið ætlaði sannarlega ekki borga, en hugðist kæra hrekkjalómana. Og peningar sem heimsins þjóðir höfðu lofað til uppbyggingar Haítí eftir jarðskjálftana vildu heldur ekki berast. Tveimur árum eftir skjálftann hafði bara helmingurinn skilað sér – þar af bara 10% til haítískra stofnana. Vesturlönd treysta eigin stofnunum best fyrir svona björgunaraðgerðum. Skilaboðin eru skýr: haldiði áfram að borga. Við reddum þessu.

Heimildir
1Eric Williams, From Columbus to Castro: The history of the Caribbean 1492-1696, bls. 33.
2Sama heimild, bls. 32.
3Sama heimild, fjórði kafli.
4Sama heimild, 39.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>