Flóttamannavandinn

Þetta er skriffærsla á fyrirlestri sem var haldinn kvöldið 19. júlí 2014 í Friðarhúsinu.

Það er erfitt að kynna sér flóttamannamál til hlítar. Maður getur endalaust fundið nýjar víddir í þessu hyldýpi. Á meðan ég leitaði að efni í þennan fyrirlestur fann ég til dæmis enn eina af þessum óteljandi aðgerðum Evrópuríkja til að vísa fólki burt. Hún heitir ERPUM, sem stendur fyrir European Return Platform for Unaccompanied Minors. Á íslensku útleggst það sem “endursendingarskipulag fyrir krakka án aðstandenda”, og er sérstaklega ætlað fyrir börn frá Afganistan og Írak. Maður nýr augun, fær sér annan kaffibolla og les þetta aftur, en þetta er nákvæmlega það sem manni sýnist. Aðgerðaáætlun til að senda munaðarlaus börn í stríðslönd.

Það þarf lítið ímyndunarafl til að sjá hvaða áhrif þetta hefur á sál og líkama krakkanna, og maður hefði ekki haldið að til þess þyrfti háskólagráður. Þó hefur Oxford háskóli séð sig knúinn til að rannsaka þetta verkefni sérstaklega og komist að þeirri augljósu niðurstöðu að þessi áhrif eru hamfarakennd.

Maður veltir fyrir sér hvernig Evrópa sökk svona lágt. Stærsta hluta svarsins er að finna í byltingu sem varð fyrir tvöhundruð árum. En aðdragandinn er miklu fyrr, í landafundum Evrópumanna.

Skip Kristófers Kólumbusar. Það fyrsta sem hann sagði, þegar hann sá innfædda í Nýja heiminum, var: "Þetta gætu orðið góðir þrælar."

Skip Kristófers Kólumbusar. Það fyrsta sem hann sagði, þegar hann sá innfædda í Nýja heiminum, var: “Þetta gætu orðið góðir þrælar.”

Fyrir fimmhundruð árum tóku Evrópumenn að sér stjórn heimsins. Þeir plægðu annarra manna lönd, fluttu til fólk og grófu námur og skópu risastórt hagkerfi plantekra, þræla og vöruflutninga. Þegar þessu tímabili lauk, fyrir um fimmtíu árum, hafði Evrópa orðið margfalt ríkari. Löndin sem urðu fyrir barðinu á þeim urðu hins vegar nokkru fátækari.

Þróun auðs Evrópubúa og annarra síðustu þúsund ár. Fengið úr A Farewell to Alms.

Þróun auðs Evrópubúa og annarra síðustu þúsund ár. Fengið úr A Farewell to Alms.

Ójöfn dreifing iðnbyltingarinnar sést vel á því hvaða lönd AGS kallar nú “þróuð hagkerfi”. Það eru Evrópulöndin, auk landanna sem Evrópubúar fluttu til í stórum stíl (og þar sem þeir murkuðu út innfædda). Helstu undantekningarnar eru Japan og Suður-Kórea, sem merkilegt nokk voru ekki hertekin af Evrópumönnum. Það er áhugavert að skoða kort af þessum löndum og sjá hvar skörpustu skil ríkidæmis og fátæktar í heiminum liggja. Einmitt á þeim skilum eru líka helstu flóttamanna- og innflutningsvarnir heims, með gaddavírum, gervihnattaeftirliti og fráhrindingum.

Þróuð hagkerfi og helstu flóttamannavarnir heims.

Þróuð hagkerfi og helstu flóttamannavarnir heims.

Í einhverjum skilningi má segja að fólk úr “gráa heiminum” sé að elta auðævin úr löndunum sínum. Það er jú enn svo í dag að “blálendingar” drekka kaffi þaðan, borða ávexti þaðan og kaupa tölvur framleiddar þar sem eru smíðaðar úr góðmálmum þaðan. Nú er það ekki gert undir flaggi heimsvaldastefnu, heldur frjálsrar verslunar. (“Frjáls verslun” er í þessu tilfelli öfugmæli. Hún stendur fyrir leyfi okkar til að flytja þaðan hráódýrar afurðir unnar af nokkurs konar þrælum. Þessum þrælum er hinsvegar ekki leyft að koma með. Við viljum bara góðgætið, ekki fátæklinga.)

Bláu ríkjunum er því mikið í mun að benda á að fólk hafi ekkert leyfi til að flýja fátækt. Ráðherra innflytjendamála í Ástralíu sagði til dæmis nýverið:

It’s not about whether they’re poor, it’s about whether they can be safe. … The [refugee] convention was not designed as an economic advancement program.

Tilefni ummælanna var samningur Ástralíu við Kambódíu um að senda þangað flóttamenn sem lentu á ströndum Ástralíu. Þessi torskiljanlega lausn á vandamálinu, að senda varnarlausasta fólk heims í eitt spilltasta og fátækasta land veraldar, lyktar af þráhyggjukenndum ótta við flóttamenn og fátæklinga. Þessi lykt ætti að vera Íslendingum kunnug. Þessi ótti gegnsýrir vestræna menningu, og hann má rekja til annarrar byltingar sem varð samhliða iðnbyltingunni.

Um aldamótin 1800 fóru menntamenn í Evrópu að skapa nýtt hugtak: þjóðina. Fólk hafði áður skilgreint sig útfrá trú, borginni sem það bjó í, furstanum sem það heyrði undir og öðru álíka nærtæku. Nú átti að kenna því að það væri hluti af stærri heild, heild sem enginn hafði vitað af áður. Fólki sem talaði mismunandi mállýskur, aðhylltist ólík trúarbrögð og tilheyrði ólíkri menningu var nú sagt að þau væru öll saman í liði, væru öll ein þjóð. Uppruna þessarar herferðar mátti rekja til innrásar Frakka í furstadæmin sem nú áttu að verða Þýskaland, og átti “þjóðin” að hrista innrásarherinn af sér. Þarna var mögnuð upp tilfinning sem hefur reynst stjórnvöldum mjög vel allar götur síðan: almenningur, sem venjulega hefur litið á efri stéttirnar sem óvin sinn, er þarna knúinn til að vera með þeim í liði gegn einhverjum þriðja aðila. Að berja saman “þjóðina” er sumsé leið til að láta stéttabaráttu hverfa án þess að minnka stéttaskiptingu.

þjóðir

Skáldsagan um þjóðina.

Helstu málsvarar þessarar stefnu voru menn einsog Johann Gottlieb Fichte, sem las eldræður yfir Berlínarbúum árin 1807-8 og hvatti þá til að “verða þýskir”. Bræðurnir Grimm örkuðu vítt og breitt og reyndu að finna kennileiti þýskra sagna og þýsks tungumáls, og glæsileg stofnun var sett á fót til að leita að sögulegum grundvelli þýskrar þjóðar. Allt í allt var þetta meira skáldskapur en sagnfræði, það var verið að berja saman hóp ólíks fólks í pólitískum tilgangi.

Áherslan á aðgreiningu frá óvini var ekki eina vopn þessarar hreyfingar. Málsvarar hins nýja Þýskalands vildu líka hreinsa það, ekki bara af franska innrásarliðinu, heldur líka af gyðingum. Fichte kallaði þá “ríki innan ríkisins” og var heiftarlega andsnúinn því að þeir fengju borgaraleg réttindi. Það þarf varla að taka fram að þessar hugmyndir, þessi öflugasta og óheftasta mynd þjóðernishyggju, sem vill ekki bara skapa heldur líka hreinsa þjóðina, náði fullum blóma í Þriðja ríkinu einni öld síðar.

Þjóðernishyggja á Íslandi hefur aldrei þótt svo skelfileg. Hún birtist helst á þjóðhátíðardaginn, þegar framámenn þjóðarinnar stappa stálinu í “góða Íslendinga”, minna okkur á að öll séum við í sama liði. Til að ráðamenn haldi vinnunni sinni þurfa “þegnarnir” að trúa því áfram að ráðamennirnir séu birtingarmynd “þjóðarviljans”, ekki bara forsvarar hefðarstéttar sem vinnur helst í eigin þágu.

Spegill, spegill, herm þú mér / hvernig þjóðarsálin er.

Spegill, spegill, herm þú mér / hvernig þjóðarsálin er.

Framá síðustu aldamót virtist þjóðernishyggjan á Íslandi heldur krúttleg, því manni fannst hún ekki bitna á neinum. Á allrasíðustu árum hefur þó komið í ljós að þetta er ekki satt. Einhver óhreinindi hafa fokið á landsteinana, og iðulega hefur þeim verið dustað burt aftur jafnharðan. Með ódýrari flugsamgöngum og fleiri stríðum hefur flóttamönnum nú fjölgað og biðtími þeirra eftir svörum frá ríkinu lengst. Nú þurfa menn sem sækja hér um hæli að bíða í marga mánuði eftir fyrsta svari, sem nær alltaf er neitun, og svo í eitt og hálft ár enn eftir svari við áfrýjun.

Helsta átyllan fyrir neitun hælisumsókna hérna er að flóttamaðurinn hafi sótt um annarsstaðar fyrst og ætti þessvegna ekki að þurfa að sækja hér um líka. Almenningur á Íslandi virðist hafa tekið þessa afsökun trúanlega, sennilega vegna blinds trausts á góðvild evrópskra ríkja. Jafnvel þegar munaðarlausum krakka frá Afganistan er hótað með brottvísun er spurt: “Hvað gerði hann af sér?” Svarið er að hann gerði ekkert af sér, ríkið vill bara ekki hafa hann – hvorki íslenska ríkið né neitt annað evrópskt ríki. Til þess eru stofnanir einsog ERPUM, til að senda saklausa munaðarleysingja burt frá Evrópu aftur.

Hér rekum við okkur á stærsta vandamál allrar baráttu fyrir réttindum flóttamanna á Íslandi. Allir þessir sögulegu þræðir vefast hér saman: óttinn við fátæklinga, rasisminn, þjóðernishyggjan, hreinleikaáráttan. Engar svona hindranir eru settar í veg fyrir Íslendinga. Við erum ekki látin taka próf í tíunda bekk sem sker úr um hvort við fáum að tilheyra samfélaginu eða ekki. En þegar um fátækan brúnan mann er að ræða, mann sem hefur lifað ofsóknir og stríð, er settur upp tortryggnisvipur og skrifblokkin dregin upp.

Í gamni dró ég upp þennan hitamæli til að sýna stöðuna í samfélagslegri umræðu. Íslenska ríkið er, og hefur lengi verið, með þá stefnu að hleypa helst engum inní landið – allra síst fátækum. Það liggur í neðsta flokki, ásamt rasistum. Ríkið gerir það sem rasistar segja að eigi að gera, en það gerir það með afsökunum sem líberal Íslendingar taka trúanlegar: við séum skuldbundin til að senda flóttamenn burt samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni og svo framvegis. Þessi afsökun er rugl og ríkið hefur sjálft sýnt framá að það getur hvenær sem því sýnist gefið manneskju dvalarleyfi eða hreinlega stöðu flóttamanns. (Sjálfur þekki ég nokkur svona mál. Í öllum tilfellum segir ríkið að það sé undantekningartilfelli, svo engum dyljist að það muni áfram neita fólki kerfisbundið um aðstoð.) Alþingi gefur meira að segja á hverju ári út ríkisborgararétt til handvalins hóps fólks einsog ekkert væri sjálfsagðara. Allur fyrirsláttur um að ríkið geti ekki gert hvað sem því sýnist í þessum efnum er auðhrekjanleg lygi.

Þessir líberal Íslendingar, menntað og velviljað fólk upp til hópa, tekur afsakanir ríkisins sumsé trúanlegar. Þau eru flest í hópnum “ef við þorum”. Þau halda því fram að við megum ekki hleypa öllu hjálparþurfi fólki hingað, því það eru alltof margir. Mér leyfist að segja að þetta er einfaldlega eigingirni, níska og rasismi. Það er ekki álitið neitt vandamál að Íslendingar fæðist, að Þjóðverjar flytji hingað, að vesturlandabúar verði veikir og fái niðurgreidda læknismeðferð hérna. Við þurfum bara að horfast í augu við hvað þessi afstaða er og kalla hana réttu nafni.

Loks ber að nefna líklega stefnu mála á næstu mánuðum og árum. Engum finnst hælismál í góðum farvegi núna. Meðferð hælisumsókna er dýr, óþægileg og langdregin. Víða í Evrópu hefur verið fundin lausn við þessu, sem kallast ýmist 48-tíma reglan eða flýtimeðferð. Hún gengur útá að flóttamenn eru handteknir við komu og innan tveggja sólarhringa er ákveðið hvort þeir skuli sendir í burt aftur. Þeir fá þá örfáa daga til að áfrýja og eru svo iðulega sendir úr landi. Það sem ræður hvort flóttamaðurinn er endursendur er hvort landið sem hann kemur frá er á lista ríkisins yfir “örugg lönd”. Til að gefa forsmekk að því hvað eru kölluð örugg lönd má nefna að Noregur setti Írak á þann lista árið 2008. Sviss setti Kosovo og Georgíu á listann sinn 2012. Eins og áðan var nefnt sendir Ástralía líka flóttamenn til Kambódíu, þó ekki á grundvelli flýtimeðferðar.

Þessi flýtimeðferð er lausn fyrir ríkið, ekki bara því hún sparar tíma og peninga. Hún gerir líka algerlega útaf við alla umræðu um flóttamannamál. Ef flóttamenn eru reknir burt á örfáum dögum komast þeir augljóslega ekki í fjölmiðla, geta ekki myndað nein tengsl, í stuttu máli: geta ekki gert neitt af því sem hefur hingað til bjargað þeim frá meðferð ríkisins. Það hefur sýnt sig trekk í trekk að opinber þrýstingur á ríkið virkar til að bjarga flóttamönnum úr klóm þess. Nú á að taka fyrir það. Röksemdin sem notuð er fyrir innleiðingu reglunnar er sú að biðtíminn fari illa með hælisleitendur. Hún lítur framhjá því að þeir geta alltaf farið, en gera það samt ekki. Þeir halda í vonina mánuðum og árum saman, því þeir eru í alvörunni í vondum málum. Það er ótrúlegt hversu erfitt getur verið að koma sumum hópum fólks í skilning um þetta – fólks sem hefur yfirleitt ekkert talað við flóttamenn og heldur að þeir séu upp til hópa glæpamenn.

Að öllu þessu sögðu má sjá útlínur þess sem þarf að gera í málum flóttamanna. Fyrst og fremst þarf að gera öllum ljóst að flýtimeðferðin gerir engum greiða nema ríkinu. Verði hún innleidd er barátta fyrir réttindum flóttamanna hér á landi sennilega dauðadæmd. Í öðru lagi þarf að kynna Íslendinga fyrir flóttamönnum. Þeir eru hérna útum allt. Það er ekki erfitt að komast í tengsl við þá ef maður vill. Dálítið starf á vegum DV og áhugafólks hér og þar hefur miðað að þessu, en það þarf að gerast mikið markvissar. Loks þarf að velta fyrir sér grunngildum samfélagsins, því það er vel mögulegt að við þurfum að breyta þeim til að hægt sé að koma almennilega fram við verst stadda fólk þessa heims.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>