bílalalaland

Bönnum einkabílinn

Í nítjándu aldar borgum voru leigubílar, vörubílar og einkabílar allt hestvagnar. Hestar settu svip sinn á bæjarmyndina, bæði því þeir dóu ungir og lágu sem hráviður í vegkantinum, en líka því þeir skitu unnvörpum á göturnar. Fyrstu árin eftir að bílar voru fundnir upp voru þeir bannaðir á götum borga, en óttinn við smit og mengun af hrossataðinu, hátt verð heys og hinar stöðugu teppur hestavagnanna knúðu yfirvöld til að leyfa bílana.

Fangar þrífa götur af hrossataði

Fangar þrífa hrossatað af götu fyrir rúmri öld

Þetta voru helstu vandamálin sem bíllinn leysti fyrst um sinn. Með tímanum hefur hann þó orðið svo alltumlykjandi í lífi vesturlandabúans að hann þykir svo til ómissandi. Talað er um hann einsog sjálfsagða framlengingu réttarins á að ráða eigin líkama. Engu að síður ætla ég hér að mæla gegn honum í nánast öllum myndum, vegna þess að notkun hans brýtur alvarlega á réttindum annarra. Samfélag fyllt einkabílum krefst mikils landrýmis og orku, spillir loftgæðum með útblæstri og biksliti, eyðileggur beint og óbeint náttúru jarðar og drepur og örkumlar fólk. Sérhver þessara ástæða er nægjanleg til að íhuga alvarlega réttinn á einkabíl. Allar saman gera þær út um hann.

Augljósasta og mest rædda ástæðan til að keyra ekki bíla er umhverfisskaði. Hnattræn hlýnun er fyrst og fremst á ábyrgð þeirra sem brenna eldsneyti, en bitnar því miður ekki endilega á þeim sjálfum, og því er undir réttlætiskennd olíubrennandi fólks komið að hætta brennslunni. (Stjórnmálamenn hafa fyrir löngu sýnt að þeir munu ekki taka til hendinni sjálfir.) Þeir sem helst verða fyrir hnattrænni hlýnun eru fátæklingar þessa heims, sem ekki hafa efni á að kaupa sig í gegnum hinar æ hraðari breytingar á loftslagi, veðurfari og gróðursæld sem hlýnunin veldur.

Magn koltvíoxíðs hefur, síðan þessi mynd var gerð 2013, farið yfir 400ppm.

Magn koltvíoxíðs í lofthjúpnum hefur, síðan þessi mynd var gerð, farið yfir 400ppm.

Þáttur bíla í þessari þróun er ríkur – rúmur fimmtungur koltvíoxíðsútblásturs á Íslandi kemur úr bílum. (Tæpur helmingur kemur úr álverum.) Það hefur lengi legið ljóst fyrir að, til að hindra verstu afleiðingar hnattrænar hlýnunar (súrnun sjávar, fjöldaútdauði, ofsaveður, vistkerfahrun) þarf að stoppa útblástur gróðurhúsalofttegunda. Ekki brenna minna. Ekki keyra Prius. Hætta að brenna olíu. Maður slekkur ekki eld með því að hella minni olíu á hann.

Þessi bráði, mikilvægi og augljósi kostur við að hætta akstri einkabíla er þó ekki sá eini. Plássið sem bílarnir taka er annar. Í fimmtán ár hefur verið hægt að koma allri íslensku þjóðinni fyrir í framsætum fólksbílaflotans. Við eigum núna sirka einn bíl á hvern Íslending með bílpróf. Að keyra einn í bíl virðist vera þjóðaríþrótt.

Til að rýmka fyrir morgun- og kvöldteppunni hafa yfirvöld séð sig knúin til að víkka sumar götur borgarinnar í tugmetra bikbreiður, sem sumstaðar eru tveggja hæða (og þá hundrað metra breiðar). Þessi tveggja hæða ferlíki taka allt frá einum uppí tólf hektara lands og kosta undantekningalaust hundruði milljóna. Allt þetta pláss þarf að fara undir malbik því hver og ein manneskja í teppunni hefur tekið frá fimm til tíu fermetra svæði fyrir sig og tólfhundruð kílóa gæludýrið sitt.

Allan tímann, meðan keyrt er yfir göturnar, eru þær svo tættar upp og eitri spúið í loftið. Þessu eitri er dreift bílstjóranum að kostnaðarlausu, enda hefur ekki hvarflað að neinum að refsa fólki fyrir þá dreifingu neitt frekar en gróðurhúsaáhrifin. Mengunin fer samt oft yfir lögbundin mörk. Hún er eflaust ein af ástæðum þess að fólk keyrir börnin sín frekar í skólann en að láta þau labba, enda eru börn langveikust fyrir svifryksmengun. Af þessu sprettur furðuleg sjálfhelda. Fólk vill endilega að bílum fækki, svo öruggara verði að senda börn gangandi í skólann, en um leið sér það sig knúið til að keyra sjálft þar til bílunum fækkar. Áhættan felst svo ekki bara í svifryki, heldur líka í skriðorku bílanna, sem getur hæglega drepið manneskju, jafnvel í innanbæjarakstri. Það er alveg eðlilegt að þora ekki að senda barnið sitt í skólann, þótt hann sé bara í næsta húsi, ef sex akreinar af geðstirðum illa sofnum þjóðfélagsþegnum skilja á milli.

Þar sem tuttugu akreinar koma saman, þar er siðmenning.

Þar sem tuttugu akreinar koma saman, þar er siðmenning.

Reykjavík varði í fyrra milljarði króna í viðhald á götum. Vegagerðin fær átta milljarða til framkvæmda þetta árið. Til samanburðar er nettókostnaður höfuðborgarsvæðisins við rekstur Strætó BS þrír milljarðar. Kostnaðurinn við notkun fólksbíls (burtséð frá tryggingum, skoðunum, verðrýrnun og þess háttar) er metinn um hálf milljón á ári. Hins vegar kostar rekstur Strætó BS hvern borgarbúa litlar fjórtánþúsund krónur árlega.

Hér er því hin augljósa lausn:

  • Gerum alla fjölreina vegi borgarinnar tvíbreiða.
  • Seljum alla fólksbíla úr landi.
  • Rífum eitt álver og rafvæðum almenningssamgöngur með orkunni sem losnar.
  • Nýtum flýtibíla til flutninga og þess háttar.
  • Fjölgum ferðum og leiðum strætó til muna.

Þetta er ekki sett fram í þeirri trú að nokkur stjórnmálaöfl muni taka svona stefnu á sína arma. Það er ekki í þeirra eðli að vinna samkvæmt skynsemi eða réttlæti, heldur samkvæmt hagsmunum fjársterkra aðila, og þeir standa flestir í vegi fyrir svona áætlunum. Ég legg þetta fram til að sýna hvers lags ginnungagap er milli þess sem með réttu myndi kallast “umhverfisvæn” stefna í bílamálum, og þess sem siglir undir því falska flaggi nú til dags. Þetta er líka ábending um að “rétturinn til einkabíls” er ekki til, engu frekar en réttur minn til ódýrara, öruggara, náttúruvænna og skynsamlegra samfélags.

Hestarnir í gamla daga voru plága á götum borganna. Þeir voru leystir af hólmi af bensínbílum. Það er kominn tími á næstu kynslóðaskipti.