Ísland sendir fólk nauðugt til Gaza

Íbúar Gaza eru sennilega kúguðustu manneskjur heims. Eftir stríð við Ísraela 1967 voru þeir hraktir þangað og hafa sætt ítrekuðum árásum síðan. Ein þeirra varði í þrjár vikur eftir jólin 2008 og kostaði fjórtánhundruð Palestínumenn lífið. Þegar Palestínumenn héldu fyrstu frjálsu kosningar Arabaheimsins 2006 handtóku Ísraelar hundruð frambjóðenda, aðallega Hamas-liða, og þegar í ljós kom að Hamas hefði samt unnið var Palestínumönnum refsað. Það ár voru 660 Palestínumenn drepnir og áttahundruð næsta árið í gegndarlausum loftárásum. Eftir árásahrinuna “Steypt blý” 2008-9 voru allar vatnslagnir Gaza í rúst, en Ísraelar bönnuðu flutninga á varahlutum inná svæðið. Gaza er fangelsi.

Árið 2009 slapp þó einn maður úr þessu fangelsi: Ramez Rassas. Fyrir utan að vera íbúi í einni grimmustu herkví heims hafði hann skjöl sem staðfestu að hann sætti ofsóknum þar inni. Hann flýði til Evrópu og sá fram á betra líf. Ramez bað um vernd sem flóttamaður í Noregi. Hér hefði sagan átt að enda, en þetta var bara blábyrjunin. Í þrígang var honum neitað. Hann fór því til Íslands, en var sagt að Norðmenn hlytu að vita hvað þeir væru að gera. Ramez svaraði til að þeir hygðust senda hann aftur til Gaza. Honum var sagt að það gæti ekki verið. Auðvitað yrði vel farið með hann!

Tuttugasta og áttunda febrúar síðastliðinn var hann sendur til Noregs. Mánuði síðar var hann aftur í Gaza.

Undanfarna daga hafa níutíu Palestínumenn dáið og sexhundruð slasast í enn einum loftárásunum þar. Forsætisráðherrar Kanada, kanslari Þýskalands, talsmaður Hvíta hússins og sendiherra Evrópusambandsins fordæmdu hiklaust… árásir Palestínumanna á Ísrael. Aðstoðarforstjóri norsku útlendingastofnunarinnar segir að þau “[hafni] enn hælisumsóknum fólks frá Gaza og Vesturbakkanum, og við höfum ekki hætt sendingum fólks þangað.” Hundruð bíða þess að verða send nauðug úr norrænu velferðarríki í hreint og beint stríð.

Stundum veltir maður fyrir sér hvað lítið land einsog Ísland geti nú gert í svona skelfilegu stríði sem er umvafið svona ótrúlegu tillitsleysi vestrænna þjóðarleiðtoga. (Leiðtogar “vanþróaðra” landa hafa nánast allir staðið við bak Palestínumanna.) Hér er eitt sem við getum gert. Ekki senda fólk beint þangað aftur ef það biður um vernd hér.

Hér má undirrita áskorun til ríkisins að sækja Ramez aftur.

Myndin er fengin frá The Guardian.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>