Fæðing og uppeldi íslensku lögreglunnar

Eftir hrunið 2008 hóf lögreglan á Íslandi skrítna baráttu. Hún hafði þá mánuðum saman varið eitt óvinsælasta þinghald sögunnar gegn mótmælendum og álitið það lýðræðislega skyldu sína. Nú vildi hún aftur verða vinur almennings. Hann þyrfti bara að skilja að lögreglan væri hér til að hjálpa, að hún væri bara að vinna óvinsælt en nauðsynlegt starf. Til þess hófst netherferð þar sem lögregluþjónar eru birtir sem vinir almúgans sem leika við leikskólabörn, klappa gæludýrum og sprella í vinnunni. En sé litið á störf lögreglunnar birtist allt önnur mynd, mynd af sterkasta baráttuaflinu gegn lýðræði á Íslandi.

Þetta er sagan af fæðingu og þroska íslensku lögreglunnar og mannanna sem ólu hana upp. Allir sögðu þeir sig vinna í þágu almennings og lýðræðis, en oft voru þeir sjálfir besta afsönnun þess. Sagan hefst á fyrsta íslenska góðærinu, á þrælahaldi og valdníðslu, og henni lýkur með niðurlægðri þjóð sem hefur verið kennt að haga sér.

Stórfyrirtæki í Reykjavík
Á átjándu öld varð uppsveifla í Reykjavík. Skúli Magnússon hóf rekstur risastórrar verksmiðjusamstæðu, Innréttinganna, til að vefa ull og vinna tau. Íbúatalan rauk upp og úr handfylli húsa spratt snoturt hafnarþorp.¹ En innanum mergðina varð vart við drykkju, sárasótt og fátækt. Um miðja öld brast á harðæri og fólki á vergangi fjölgaði, fólki sem oft stal sér til matar. Þetta fólk var handsamað og sent til útlanda í þrældóm, en meðan þau biðu eftir næsta skipi þurftu sýslumenn að halda þeim uppi. Þetta var sýslumönnunum ókært og þeir báðu kónginn að fá að hengja fangana – það myndi horfa til “sparnaðar og hagnaðarauka” – en kóngurinn neitaði.²

Til að verjast þessum þjófnaði og til að hindra eld í verksmiðjuhúsnæðinu stóðu forsvarsmenn Innréttinganna fyrir kaupum á tveimur öryggisvörðum.³ Þeir skyldu rölta um götur bæjarins á næturnar með gaddakylfur og yfirheyra alla sem þeir sáu, jafnvel sekta þá sem óvarlega fóru með ljóskerin sín.⁴ Þessi þungavopnaða öryggisgæsla stærsta fyrirtækis landsins var okkar fyrsta lögregla. Þeir sem hún átti sérstaklega að hafa auga með voru afbrotamenn,⁵ sem hinir ráðagóðu sýslumenn voru nú farnir að láta þræla hjá bændum og róa fyrir stiftamtmanninn.⁶

Vaktari með verkfærið sitt. Myndin var teiknuð 1848 af Albertus van Beest og er geymd í Þjóðminjasafninu.

Vaktari með verkfærið sitt. Myndin var teiknuð byltingarárið 1848.

Var löggæsla borgarinnar þessi ár flestum til ama nema verslunarmönnum, sem héldu henni stundum úti á eigin kostnað eftir að Innréttingarnar fóru á hausinn.⁷ Eftir því sem á leið tókst þó hægt og bítandi að pranga henni uppá hið opinbera, sem tók að innheimta skatta af ótrúlega óviljugum almenningi til að standa undir henni.⁸

Lögreglumenn í Reykjavík voru fyrstu öldina flestir drykkjumenn, slæpingjar og skálkar. Einn þeirra bjó í “hneykslanlegri sambúð” með maddömmu nokkurri Bagger, seldi áfengi í tráss við lög og hélt píuböll þar sem hann spilaði undir á flautu.⁹ Var hann að lokum rekinn. Annar átti það til að berja á föngunum sem hann hafði að atvinnu að gæta og endaði á að drepa einn þeirra með barsmíðum. Fangelsisstjórnin bað honum vægðar, enda þótti þetta ekki sérlega merkilegt, og hélt hann því starfinu.¹⁰

Lækjartorg 1874. Borgin var og hefur alltaf verið alræmd fyrir lauslæti og sukk, en allir á myndinni virðast vera að haga sér, enda hátíðisdagur.

Lækjartorg 1874. Borgin var og hefur alltaf verið alræmd fyrir lauslæti og sukk. Allir á myndinni virðast þó vera að haga sér, enda hátíðisdagur.

Helstu störf lögreglunnar voru í þá tíð að vernda betri borgara og verslanir fyrir þjófum og eldi og að keyra ofdrukkna menn uppí svartholið í “drykkjumannakerrunni”.¹¹ Þetta tók að breytast um aldamótin 1900, þegar íbúum bæjarins fjölgaði stórum. Sjávarútvegur tók kipp og stétt útgerðarmanna varð til. Hatrömm stéttabarátta upphófst með tíðum verkföllum, þar sem lögreglan varði atvinnuveitendur gegn kröfum verkamanna.¹² Kallaði hún oft til varalið, enda fámenn sjálf. Þegar lögreglumennirnir sjálfir kröfðust kjarabóta voru þeir iðulega reknir.¹³

Fjórir Gúttóslagir
Kreppan mikla tók sig svo upp á Íslandi um 1930. Atvinnulausum fjölgaði, en þeir fengu engar bætur, og upphófust nokkrum sinnum slagir milli áhorfenda og lögreglu í fundarhúsi bæjarstjórnar um hvort bærinn ætti að bjóða atvinnulausum bótavinnu. Einn bæjarfulltrúanna sem stóð í vegi fyrir því var Jakob Möller.

Jakob Möller var ekki bara bæjarfulltrúi og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, heldur líka eins manns Fjármálaeftirlit síns tíma. Hann var rekinn úr því embætti fyrir að gera “verra en ekki neitt” árið 1934. Það var á allra vitund að “Jakob var óhæfur í starfið og embættið stofnað sem bitlingur fyrir hann”, enda hafði hann “ekki einu sinni reynt að hafa eftirlit með bönkunum” og “í stærstu stofnunina, sem hann átti að endurskoða, Landsbankann, [hafði] hann ekki komið í 3 ár, samkvæmt frásögn sjálfs bankaráðsins.” Fyrir þetta hafði hann þegið frá ríkinu sautján þúsund krónur á ári, sem var meira en ráðherrakaup.

Nokkrum árum seinna var Jakob orðinn fjármálaráðherra Hermanns Jónassonar.

Fimm árum seinna var Jakob orðinn fjármálaráðherra.

Meðan á fyrsta Gúttóslagnum stóð æpti Jakob yfir múginn að svona nokkuð myndi ekki hafa nein áhrif á afstöðu sína til bótamála.¹⁴ En slagirnir höfðu sannarlega áhrif á lögreglustjórann, sem fór að draga sér varalið úr bænum til að vernda fundina, líkt og hann hafði gert í baráttunni gegn verkföllum. Fór söfnun varaliðsins þannig fram að yfirlögregluþjónn gekk um bæinn með félagatal Sjálfstæðisflokksins og bað Sjálfstæðismenn og Heimdellinga að berjast með sér gegn verkfallsliðum og atvinnuleysingjum.¹⁵ Hjálparsveinarnir fengu þá kylfur, armbönd og búninga, allt eftir því hvað var til í skápum löggunnar.

Slagirnir á bæjarstjórnarfundunum héldu áfram og náðist sumarið 1932 loks að knýja fram atvinnubótavinnu. Atvinnulausum fjölgaði þó stöðugt og í nóvember hugðist bæjarstjórnin lækka kaupið í vinnunni til að standa undir henni. Það þurfti auðvitað að vera Jakob Möller sem varði lækkun bótanna fyrir fullu húsi atvinnuleysingja og aktívista. Órói varð að slagsmálum og lögreglustjórinn, Hermann Jónasson, kallaði til alla lögregluþjóna bæjarins. Sjálfur fór hann hins vegar uppá skrifstofu að gegna öðrum störfum.¹⁶

Þau störf voru að dæma stjórnmálalegan andstæðing sinn úr embætti.

Pabbi þarf að vinna.

Nær allt lögreglulið bæjarins lá óvígt eftir slaginn. Ríkisstjórninni brá í brún. Hún borgaði sem snarast það sem borgina vantaði uppí atvinnubótavinnuna.¹⁷ Síðan var tekið til hendinni. Byssur, hjálmar og táragas voru keypt fyrir lögregluna, öll vopn fjarlægð úr búðum bæjarins, forsprakkar mótmælanna dæmdir til sekta og fangelsis og fjárframlög til lögreglunnar aukin sem nam 13 manna kaupi.¹⁸ Bæjarstjórnarfundirnir voru eftir þetta haldnir á efstu hæð Eimskipafélagshússins, svo betur mætti verja þá.¹⁹ Andvirði nokkurhundruð milljóna nútímakróna var eytt í stórt varalögreglulið til tveggja ára. Loks var ríkislögregla sett á fót. Sjálfstæðismenn sögðu fólk þurfa að skilja að það þýddi ekkert að mótmæla ríkisvaldinu.²⁰ Þegar Hermann Jónasson var orðinn forsætis- og dómsmálaráðherra réð hann nýjan lögreglustjóra sérstaklega til að aga íslenska lögreglumenn og hefja njósnir gegn óvinum ríkisins.

Ríkið ætlaði ekki að láta undan kröfum mótmælenda aftur.

Ísland í NATO
Í marslok 1949 hleraði gamall nasisti heimasíma aktívista og sósíalista um allan bæ í leit að ráðabruggi.²¹ Nasistinn var Sigurður Sigurjónsson, sem Bjarni Benediktsson hafði skipað lögreglustjóra tveimur árum fyrr. Bjarni vildi að Ísland gengi í NATO og Sigurjón var að gá hvort og hvernig vinstrimenn ætluðu að mótmæla því.

Ekki stíga á grasið.

Þann 30. mars var komið að því. Mótmælafundur var haldinn við Miðbæjarbarnaskólann og kröfðust fundarmenn þjóðaratkvæðagreiðslu um inngönguna. Síðan var þrammað á Austurvöll og krafan var borin upp. Þingið hafnaði kröfunni og mótmælendur tóku að grýta þinghúsið. Lögreglumenn og varalið streymdu út, slagsmál upphófust, táragasi var skotið yfir Austurvöll og mótmælendur flæmdir burt frá þinghúsinu. Ísland gekk í NATO fimm dögum síðar.

Dagurinn þegar vitstola hvítliðaskríll réðst á tryllta kommúnista, þegar Ísland gekk í "varnarbandalag lýðræðisþjóða" með því að skjóta táragasi að fólki sem vildi greiða atkvæði um það.

Vitstola hvítliðaskríll ræðst á tryllta kommúnista. Forsíður flokksblaða daginn eftir.

Þrátt fyrir þessa velheppnuðu vörn gegn lýðræðinu óttuðust yfirvöld frekari uppreisnir og stofnuðu sérstaka öryggisdeild lögreglunnar til að njósna um óvini sína í röðum almennings.²² Safnaði Sigurjón miklum gögnum um þá, en brenndi megnið af þeim í götóttri olíutunnu vorið 1976 þegar hann taldi sig eiga betra embætti í vændum.

Ómerkilega fólkið
Þegar nær dregur okkar tímum virðast samskipti lögreglu og almennings breytast. Þar sem áður voru grimm og blóðug átök eru nú kyrrlátar mótmælagöngur. Þetta er álitið til marks um þroskaða lýðræðishefð Íslendinga. Hvergi kemur þetta skýrar fram en í verkföllum. Verkföll voru áður blóðugar baráttur, verkfallsverðir þurftu í alvörunni að beita valdi til að halda þeim við. Slík verkföll voru mýmörg í kreppunni miklu, og jafnvel árið 1955 lokaði sex vikna verkfall tólf stéttarfélaga á allar samgöngur til og frá landinu. Grjótgarðar voru hlaðnir á vegina sem liggja úr borginni. Verkfallsverðir voru miklu fleiri en lögreglumenn borgarinnar.²³ Svona gerist ekki lengur. Í nýliðnu verkfalli framhaldsskólakennara var, til dæmis, einn verkfallsbrjótur. Hann gafst upp um leið og hann var beðinn að hætta. “Ég hlýddi því bara,” sagði hann.

Bæði verkföll og mótmæli nú til dags virðast næstum formsatriði. Mótmæli snúast um að “koma skoðun sinni á framfæri”, ekki að koma henni í framkvæmd, og ríkið getur bannað verkföll að vild. Þegar lögbann er sett á verkfall felst harðasta andspyrnan í að þykjast vera veikur. Lögreglan þarf ekkert að koma nærri þeim lengur. Jafnvel í mótmælum er sagt að lögreglan sé bara að passa að “allir fari að leikreglum.” Helsti postuli þessarar hugmyndafræði er Geir Jón Þórisson. Hann var lengi yfirlögregluþjónn í Reykjavík, en er nú varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Það er engu líkara en við séum öll orðin börn. Við eigum ekki bara að hlýða “leikreglum” lögreglunnar, heldur eigum við líka að fá hjá henni leyfi fyrir mótmælum og hætta þeim þegar hún segir. Þegar við gerum það ekki megum við búast við skömmum. Lögreglan er okkar einkennisklædda fóstra.

Þegar samband lögreglu og mótmælenda verður einsog milli leikskólabarna og kennara gerast skrítnir hlutir ef mótmælendur hætta að hlýða. Vorið 2008, þegar vörubílstjórar reyndu (líkt og 1955) að loka einni götu úr bænum, tók lögregluna bara nokkra klukkutíma að fá nóg. Gjörningurinn og viðbrögðin vöktu svo mikla undrun að bein sjónvarpsútsending var frá staðnum allan daginn.

Þegar umhverfisverndarsinnar reyndu að stöðva með berum höndum smíði Kárahnjúkavirkjunar brást lögreglan jafnvel stífar við. Mótmælendurnir voru eltir af lögreglu, óeirðalögreglu og sérsveit um allar trissur, handteknir gegndarlaust, lögreglan laug að þeim og um þá og öllum útlendingum í hópnum var hótað með brottvísun, þar af einni konunni fyrir að “ógna grundvallargildum samfélagsins”.²⁴

Hér má sjá myndband af verði laganna að refsa konu úr Saving Iceland fyrir að skvetta skyri með því að lemja höfði hennar ítrekað í götuna, á meðan félagi hans slær með kylfu alla sem reyna að hjálpa henni.

Þegar þörf krefur hafa yfirvöld ekki vílað fyrir sér að láta lögregluna banna mótmæli algerlega. Í eitt af þremur skiptum þar sem ríkið bauð hingað til lands kínverskum stórglæpamönnum þurfti að passa að þeir sæju ekki til mótmælenda. Vissulega voru gestirnir með fjöldamorð, nauðganir og pyntingar á samviskunni, en þeim myndi sárna gagnrýni. Því voru mótmælendur umkringdir og áreittir og stundum hreinlega handteknir af lögreglunni.

Lögreglan myndar mannlegan múr svo ekki sjáist í örfáa mótmælendur. Bíll og rúta voru líka höfð til taks sem skermir.

Lögreglan myndar mannlegan múr svo ekki sjáist í örfáa mótmælendur.

Skilningsleysi lögreglunnar þegar fólk hætti bara að hlýða þeim 2008 var greinilegt. Einn lögreglumaður sagði um vörubílamótmælin að lögreglan hefði örugglega bara verið grýtt uppá “sportið” og fólk “hafi ekki fattað hvað var í gangi” þegar lögreglan vildi rýma svæðið. En við hverju er að búast, þegar litið er á alla mótmælendur einsog börn. Stuttu eftir búsáhaldabyltinguna lýsti einn lögreglumaður þessu viðhorfi til mótmælenda berum orðum. “Ég sá þetta fyrir mér eins og uppeldi á óþekkum krakka. Honum var alltaf hleypt einu skrefi lengra eins og litlir prakkarar gera.”²⁶

Svona er þá komið fyrir almenningi. Þegar hann biður um að fá að ráða sér sjálfur er hann hundsaður. Þegar hann reynir að gera það samt er hann laminn. Mótmæli og verkföll eru liðin meðan þau trufla ekki ríkið, annars eru þau yfirbuguð með vopnavaldi. Þegar vopnin hrökkva ekki til er gefið eftir í stutta stund, meðan ný eru keypt.

Sá flokkur sem lengst hefur ráðið Íslandi lýsti þessu best í árdaga sínum: ríkisvaldið verður alltaf að hafa undirtökin í átökum, og þau eru tryggð með lögreglunni. Þessi sami flokkur stendur núna, einsog árið 1949, í vegi fyrir að almenningur fái að kjósa um hitamál kjörtímabilsins. Ástæðan er sú að almenningur myndi kjósa rangt.

Lýðræði felst ekki í að ríkið geri stundum hluti sem almenningur vill. Það felst í að ákvarðanir og vald spretti frá fólkinu. Þegar almenningur tekur við skipunum frá þinginu og er þvingaður til að hlýða þeim af lögreglu er einfaldlega ekki um neitt slíkt að ræða. Langar fræðilegar útskýringar á hvernig þessi kúgun sé öll birtingarmynd einhvers æðri þjóðarvilja er nánast súrrealískur fyrirsláttur. Lýðræði á Íslandi er ekki til. Lögreglan passar að það spretti ekki upp.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>